Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

"Stjórnmálin hafa brugðist. Traust er af skornum skammti."

"Íslenska þjóðin stendur frammi fyrir miklum erfiðleikum í efnahagsmálum.  Fall krónunnar, hrun bankanna og gríðarleg skuldsetning vegur að undirstöðum þjóðarbúsins. Staða atvinnulífsins og þorra heimila í landinu er ógnvænleg.

Stjórnmálin hafa brugðist. Traust er af skornum skammti.

Við þessar aðstæður er brýnt að brugðist verði við með ábyrgum, en jafnframt afgerandi hætti. Þörf er á metnaðarfullri aðgerðaáætlun þar sem tekið er á bráðavanda heimilanna og atvinnulífsins, jafnframt því sem slík aðgerðaáætlun verður að varða leið til lengri tíma.

Núverandi ríkisstjórn hefur enn sem komið er brugðist í þeim efnum. Hún er ráðalaus og ósamstíga. Alþingi er vanmáttugt. Ægivald framkvæmdavaldsins yfir löggjafanum hefur opinberast sem aldrei fyrr. Breytinga er þörf.

Því hefur Framsóknarflokkurinn ályktað að samhliða næstu alþingiskosningum verði stjórnarskrá Íslands breytt þannig að kosið verði til stjórnlagaþings í kjölfar þeirra.

Á undanförnum árum virtist hér ríkja mikið umbreytinga- og framfaraskeið þar sem kraftar óbeislaðs athafnafrelsis nutu sín til hins ýtrasta.
Á þeim tíma brást Framsóknarflokkurinn í því hlutverki að tryggja að laga- og reglugerðaumhverfi, ásamt uppbyggingu nauðsynlegs aðhalds og eftirlits, m.a. með sterkum og faglegum eftirlitsstofnunum, samræmdist vexti viðskiptalífsins. Frelsi fylgir ábyrgð, en ábyrgðinni var ábótavant. Úr því verður að bæta.

Ábyrgð núverandi ríkisstjórnar á því ástandi sem hér ríkir í dag er afgerandi. Allt frá upphafi daufheyrðist hún við þeim viðvörunum sem bárust. Eftir því sem hættan jókst, varð afneitun vandans meiri. Öll rök hníga að því að á fyrstu dögum bankahrunsins hafi ákvarðanir og aðgerðir ríkisstjórnarinnar einkennst af röðum mistaka. Mistök sem eru að reynast þjóðinni dýrkeyptari en nokkur gat séð fyrir. Að sama skapi brást Seðlabanki Íslands í sínum aðgerðum og ráðgjöf um viðbrögð við þeirri lausafjárkreppu á alþjóðamörkuðum sem hófst sumarið 2007, og þá sérstaklega síðastliðið haust þegar endurfjármögnunarvandi íslensku bankanna varð ljós. Seðlabanki Íslands verður að njóta óumdeilanlegs trausts og því verður að breyta lagaramma, formgerð og stýringu bankans, sérstaklega peninga- og vaxtastefnu hans..."

Textinn hér að ofan er upphaf stjórnmálaályktunar flokksþings Framsóknarflokksins.

Þessi greining á ástandinu er rétt. Bendi á að þarna viðurkennir Framsóknarflokkurinn sinn hlut ábyrgðarinnar vegna efnahagsástandsins og bankahrunsins.

Framsóknarmenn öxluðu ábyrgð og kusu sér algerlega nýja forystu - eins og ég hafði reyndar krafist strax í byrjun nóvember í blogginu Nýja forystu í Framsóknarflokkinn!

Nú er Framsókn nýrra tíma mætt til leiks og hefur boðið VG og vinstri grænum að verja bráðabirgðastjórn þeirra vantrausti,  á meðan alþingiskosningar verða undirbúnar.


Þetta er háð því að kosningar fari fram eigi seinna en 25. apríl næstkomandi og að strax verði ráðist í aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili í landinu og bæta rekstrarskilyrði íslensks atvinnulífs.

Í því felist meðal annars að mörkuð verði stefna í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar.

Jafnframt verði komið á stjórnlagaþingi sem semji nýja stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.

Þjóðin þarfnast Framsóknarflokksins í Framsókn nýrra tíma!


mbl.is ASÍ vill nýja ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingarfélag Reykjavíkur "ábyrgðarlaust"?

Ætli Samfylkingarfélag Reykjavíkur sé "ábyrgðarlaust?

Í kvöld sagði  Geir H. Haarde að það væri ábyrgðarleysi að leysa upp ríkisstjórnina í ljósi þeirra aðstæðna, sem eru í efnahagslífi landsins.

Ég held reyndar að það hafi sýnt sig að það er Geir Haarde, Sjálfstæðisflokkurinn, Ingibjörg Sólrún og Samfylkingin sem hafi verið ábyrgðarlaus.

Framsóknarflokkurinn hefur gert upp við fortíðina og fyrrum forysta flokksins tekið ábyrgð á þætti Framsóknar í aðdraganda bankahrunsins.  Grasrótin í Framsókn kaus sér nýja og öfluga forystu og er reiðubúinn í framtíðina.

Grasrótin í Samfylkingunni virðist vera að átta sig á að hún ber sök á núverandi ástandi og þarf að taka ábyrgð. Forysta Samfylkingarinnar þarf að víkja og grasrótin að taka við eins og í Framsókn.

Sjálfstæðisflokkurinn verður einnig að taka á sig sína ábyrgð - sem er sínu mest!

Ríkisstjórnin ónýt - kosningar og bráðabirgðastjórn lausnin

Geir verður að víkja ásamt öðrum í forystunni.

Kosningar í vor - ný ríkisstjórn - og stjórnlagaþing til að móta framtíðarstjórnskipan þjóðarinnar - takk fyrir.


mbl.is Samþykktu ályktun um stjórnarslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin ónýt - kosningar og bráðabirgðastjórn lausnin

Ríkisstjórnin er ónýt. Kosningar og bráðabirgðastjórn lausnin.

Það eru ekki nema tveir dagar síðan ég skrifaði í bloggi mínu Samfylking og Sjálfstæðisflokkur í sjálfheldu:

"Forysta Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks standa nú afhjúpuð í sviðsljósi eigin efnahags- og stjórnunarmistaka á meðan nýr formaður og forysta Framsóknarflokksins er farinn að leiða endurreisn Íslands nýrra tíma í hugum almennings.

Sjálfhelda Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks felst í því að forysta flokkanna er ónýt, en geta þeirra til endurnýjunnar er nánast engin.

Varaformanni Samfylkingarinnar er ekki treyst þannig að formaðurinn getur ekki stigið til hliðar fyrr en á flokksþingi, flokksþingi þar sem smákóngar Samfylkingarinnar munu berjast af mikilli hörku og lítil hætta á eindrægni og samstöðu. Þvert á móti logar samfylkingin og hver höndin upp á móti annarri."

Þetta hefur nú sannast. Spurningin er hvort Sjálfstæðisflokkurinn nær að halda landsfund á þeim nótum sem ég spáði:

"Það sama má segja um Sjálfstæðisflokkinn. Formaður flokksins er farinn að minna á aldna, líflausu leiðtoga Sovétríkjanna sem veifuðu veiklulega og ótrúverðugt af þaki grafhýsi Leníns þegar skipulegar en líflausar göngur hermanna og kommúnistaæsku gengu fram hjá.

Þannig mun það væntanlega verða á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Sýning fyrir fjölmiðla þar sem líflaus formaður sem er pólitískt dauður veifar með daufu brosi til flokksmanna sinna sem vita í hjarta sínu að veldistími formannsins er búinn. Það vantar hins vegar algerlega arftakan, en vongóðir kommisarar hnykkja vöðvana og bíða óþreyfjufullir eftir því að "leiðtoginn" gefi upp öndina pólitískt."

Mögulega mun Geir ekki lifa af pólitískt landfundinn!


mbl.is Geir taldi sér ógnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlagaþing þjóðarinnar og nýja stjórnarskrá

Það verður að rísa nýtt og betra Ísland úr úr því ófremdarástandi sem nú ríkir. Það verður ekki gert nema með nýrri stjórnarskrá.

Ný stjórnarskrá verður ekki að veruleika nema þjóðin kjósi sé stjórnlagaþing hið fyrsta. Stjórnlagaþing sem ekki er skipað núverandi eða fyrrverandi alþingismönnum, ráðherrum eða formönnum stjórnmálahreyfinga. 

Stjórnlagaþing sem sækir umboð sitt beint til þjóðarinnar og hefur skýrt umboð til að semja tillögu að nýrri stjórnarskrá. Tillögu sem síðan verði lögð fram í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Alþingi mun brátt fá til afgreiðslu tillögu um að Alþingi setji lög er kveða á um kosningu til stjórnlagaþings.  Þá reynir á Alþingismenn - ætla þeir að verjast nauðsynlegum úrbótum eða ætla þeir að treysta þjóðinni fyrir framtíðinni.

Ég hef bloggað um þetta áður: Þjóðkjörið stjórnlagaþing móti stjórnskipan framtíðarinnar

Ég var því afar ánæðgur þegar flokksþing Framsóknarflokksins ályktaði eftirfarandi um stjórnlagaþing:

Markmið
Að stjórnskipun Íslands verði endurskoðuð á sérstöku stjórnlagaþingi þar sem stjórnarskrá Íslands og eftir ástæðum viðeigandi lög um stjórnsýslu, dómstóla, löggjafarstarf og kosningar verði endurskoðuð til samræmis við framsæknar hugmyndir um stjórnskipun landsins um gagnsæi, lýðræðislega þátttöku og jafnvægi milli valdþátta.

Leiðir

Helstu álitamál sem taka þarf afstöðu til á stjórnlagaþingi eru meðal annars:

  • Hvort afnema eigi þingræði og taka upp beina kosningu æðsta handhafa framkvæmdarvalds
  • Hvernig eftirliti með valdháttum eigi að vera háttað, eftirlitshlutverk Alþingis, virkari ráðherraábyrgð og óháðara val dómara
  • Hvort auka eigi valfrelsi kjósenda um fulltrúa á framboðslistum
  • Hvort takmarka eigi hámarkssetutíma þingmanna og ráðherra
  • Hvort auka eigi möguleika á þjóðaratkvæði og jafnvel frumkvæði að löggjöf frá almenningi
  • Hvernig gagnsæi stjórnkerfisins sé tryggt
  • Hvort þörf sé á sérstökum þjóðhöfðingja og þá hvert hlutverk hans eigi að vera
  • Hver staða sveitarfélaganna eigi að vera, svo sem með hlutdeild í fjárstjórnarvaldi ríkisins
  • Hvort og þá hvernig skipta eigi landinu í kjördæmi
  • Hvernig staðið skuli að framsali valdheimilda til alþjóðlegra stofnana
  • Hvernig tryggja eigi skýrt og ótvírætt sjálfstæði hinna þriggja meginþátta ríkisvaldsins löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdarvalds


Fyrstu skref
Þingflokkur Framsóknarflokksins skal leggja fram tillögu á Alþingi um kosningu til stjórnlagaþings í samræmi við niðurstöður íbúalýðræðisnefndar flokksins. Einnig verði lögð fram tillaga um breytingu á stjórnarskránni þess eðlis að breytingar á stjórnarskrá verði bornar undir þjóðaratkvæði. Stefnt skal að því að stjórnlagaþing verði kallað saman sem fyrst og tillögur þess að nýrri stjórnarskrá verði lagðar fyrir þjóðina.  Stjórnlagaþing skal ekki vera skipað núverandi eða fyrrverandi alþingismönnum, ráðherrum eða formönnum stjórnmálahreyfinga.


mbl.is Þingfundur fellur niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterk og miklu stærri sveitarfélög eru framtíðin

Sterk og miklu stærri sveitarfélög eru framtíðin.  Gömlu kjördæmin eru æskileg stærð sveitarfélaganna.  Sveitarfélögin ættu að taka að sér öll þau verkefni sem þau geta. Skatttekjur ættu að renna beint til sveitarfélaganna og þau greiði ríkinu útsvar.  Ríkið sjái einungis um sameiginleg mál landsmanna.


mbl.is Vilja efla sveitarstjórnarstigið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grímulaus mótmæli!

Það er mikill hiti í miðbænum og fjöldi fólks að mótmæla.  Ég tek ofan fyrir því fólki sem þarna stendur - grímulaust - og mótmælir undir nafni og kennitölu!

Sem betur fer fer grímuglæddum fækkandi!

Grímulaus mótmæli eru miklu árangursríkari og kröftugri. Svo einfalt er það.

Vonandi missa menn ekki stjórn á sér og leiðast út í ofbeldi. Enginn.


mbl.is Enn mótmælt við þinghúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orðlaus yfir Obama!

Ég er orðlaus yfir Obama.
mbl.is Obama 44. Bandaríkjaforsetinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt að ríkisstjórnin vinni með stjórnarandstöðunni

Það er mikilvægt að ríkisstjórnin vinni með stjórnarandstöðunni að lausn efnahagsmála og endurskipulagningu fjármálakerfisins eftir bankahrunið. Vond staða okkar í dag er meðal annars vegna þess að ráðalaus ríkisstjórn hefur ekki haft þroska til að brjóta odd af oflæti sínu og leita sér hjálpar til stjórnarandstöðunnar.

Formaður Framsóknarflokksins hefur boðið aðstoð sína og Framsóknarflokksins við verkefnið án þess að ganga inn í ríkisstjórnina.  Sjálfstæðisflokkur og Samfylking ættu að taka þessu boði. Ástandið er bara þannig og ljóst að ríkisstjórnin ræður ekki við þetta ein.

Næstu vikur verður að vinna markvisst að lausn á efnahagslegum bráðavanda heimila og fyrirtækja á Íslandi, skilgreina sameiginleg samningsmarkmið Íslendinga í aðildarviðræum við Evrópusambandið og hefja síðan aðildarviðræður.

Því skora ég á ríkisstjórnina að koma nú þegar á fót þverpólitískri nefnd sem fái það hlutverk að undirbúa tillögu að samningsmarkmiðum Íslands og leggja þá tillögu fyrir Alþingi.

Mæli með að samningsmarkmið sem Framsóknarmenn samþykktu á flokksþingi sínu verði lagt til grundvallar í vinnu slíkrar nefndar. Einhversstaðar þarf að byrja.


mbl.is Mikilvægt að stjórnin fái vinnufrið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þverpólitíska nefnd til að undirbúa samningsmarkmið Íslands

Íslendingar eiga að taka upp evru í samráði við Evrópusambandið. Næstu vikur þarf að vinna markvisst að lausn á efnahagslegum bráðavanda heimila og fyrirtækja á Íslandi, skilgreina sameiginleg samningsmarkmið Íslendinga í aðildarviðræum við Evrópusambandið og hefja síðan aðildarviðræður.

Framsóknarmenn hafa skilgreint samningsmarkmið sín á skýran hátt. Sjálfstæðismenn ættu að gera það á landsfundi um næstu helgi og Samfylkingin þarf að gera það líka - en lítið hefur farið fyrir samningsmarkmiðum þeirra þótt vilji um inngöngu í ESB sé ljós.

Vandamálið er vanmáttug ríkisstjórn, en vanmáttug ríkisstjórn á erfitt með leysa aðkallandi vanda og halda skynsamlega um aðildarviðræður.

Formaður Framsóknarflokksins hefur boðið ríkisstjórninni aðstoð Framsóknarflokksins í því erfiða ástandi sem ríkir, án þess þó að ganga inn í núverandi ríkisstjórn.

Sjáflstæðisflokkur og Samfylking ættu að taka þessu boði. Ástandið er bara þannig og ljóst að ríkisstjórnin ræður ekki við þetta ein.

Þá skora ég á ríkisstjórnina að koma nú þegar á fót þverpólitískri nefnd sem fái það hlutverk að undirbúa tillögu að samningsmarkmiðum Íslands og leggja þá tillögu fyrir Alþingi.

Mæli með að samningsmarkmið sem Framsóknarmenn samþykktu á flokksþingi sínu verði lagt til grundvallar í vinnu slíkrar nefndar. Einhversstaðar þarf að byrja.


Framsóknarstemming í Bandaríkjunum!

Það er Framsóknarstemming í Bandaríkjunum í dag. Enda ekki von. Framsóknarmaðurinn Barack Obama er að taka við völdum sem forseti Bandaríkjanna. Framsókn nýrra tíma að hefjast.


mbl.is Eftirvænting í Washington
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband