Samfylking og Sjálfstæðisflokkur í sjálfheldu

Samfylking og Sjáflstæðisflokkur eru nú komin í sjálfheldu eftir að Framsóknarflokkurinn gerði upp við fortíðina og hóf vegferð inn í framtíðina með því að kjósa nýja, unga forystu á glæsilegu flokksþingi.

Forysta Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks standa nú afhjúpuð í sviðsljósi eigin efnahags- og stjórnunarmistaka á meðan nýr formaður og forysta Framsóknarflokksins er farinn að leiða endurreisn Íslands nýrra tíma í hugum almennings.

Sjálfhelda Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks felst í því að forysta flokkanna er ónýt, en geta þeirra til endurnýjunnar er nánast engin.

Varaformanni Samfylkingarinnar er ekki treyst þannig að formaðurinn getur ekki stigið til hliðar fyrr en á flokksþingi, flokksþingi þar sem smákóngar Samfylkingarinnar munu berjast af mikilli hörku og lítil hætta á eindrægni og samstöðu. Þvert á móti logar samfylkingin og hver höndin upp á móti annarri.

Það sama má segja um Sjálfstæðisflokkinn. Formaður flokksins er farinn að minna á aldna, líflausu leiðtoga Sovétríkjanna sem veifuðu veiklulega og ótrúverðugt af þaki grafhýsi Leníns þegar skipulegar en líflausar göngur hermanna og kommúnistaæsku gengu fram hjá.

Þannig mun það væntanlega verða á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Sýning fyrir fjölmiðla þar sem líflaus formaður sem er pólitískt dauður veifar með daufu brosi til flokksmanna sinna sem vita í hjarta sínu að veldistími formannsins er búinn. Það vantar hins vegar algerlega arftakan, en vongóðir kommisarar hnykkja vöðvana og bíða óþreyfjufullir eftir því að "leiðtoginn" gefi upp öndina pólitískt.

Á meðan gengur unga fólkið í Framsóknarflokknum traustum fótum út úr vetrarkulda núverandi ríkisstjórnar og inn í framtíðina - inn í Framsóknarvorið sem þjóðin býður eftir!


mbl.is Vill færa flokkinn frá hægri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Það er virðingarvert af Framsóknarflokknum að endurnýja forystuna.  En ég get samt ekki endilega fallist á að það leysi einhverja sjálfheldu eða skapi sérstaka sjálfheldu fyrir hina flokkana.  Það er flokkakerfið sjálft sem er í sjálfheldu og því miður breytir litlu í því sambandi hvort einn eða fleiri flokkar skipti um forystu. 

Það ástand sem nú ríkir í þjóðfélaginu er vegna þess að stjórnkerfið í heild hefur brugðist.  Ég er nokkuð sannfærður um að nýir menn í forystu Framsóknarflokksins er því vart meira en einnota plástur á svöðusár það sem Framsóknarflokkurinn tók þátt í að veita þjóðinni.

Það er því ekki nægjanlegt að flokkar skipti um forystu til að endurnýja traust þjóðarinnar á stjórnkerfinu eða trú erlendra samstafsþjóða á íslenskri pólitík.  Það þarf svo miklu meira að koma til. 

Jón Kristófer Arnarson, 19.1.2009 kl. 16:12

2 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Eðlilegt að Framsókn losi sig við forustu sem var rúin öllu trausti innanflokks... Forusta Samfylkingar og formaður hafa fullt traust og það var undirstrikað á síðasta flokksstjórnarfundi...

Vandi framsóknar verður ekki vandi annrra þó svo þig langi voðalega til þess minn kæri. 

Og svo á nú eftir að koma í ljós hvernig reynslulaus formaður plummar sig... gefum honum séns

Jón Ingi Cæsarsson, 19.1.2009 kl. 16:16

3 Smámynd: Jón Kristófer Arnarson

Svona er þetta Jón minn Ingi.  Samfylkingin treystir formanni sínum til allra góðra verka og formaðurinn treystir Árna Matt, Geir og Davíð einnig til allra verka.  Og á meðan svo er þá er auðvitað allt í lukkunar velstandi, eða er ekki svo?

Jón Kristófer Arnarson, 19.1.2009 kl. 16:27

4 identicon

Ég bara get engan vegin skilið hvernig þú finnur það út að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur séu nú allt í einu komin í sjálfheldu vegna þess að Framsókn skipti um forustu. Vissulega eru stjórnarflokkarnir báðir í öngstræti en það hefur ekkert með Framsóknarflokkinn að gera. Við eigum líka eftir að sjá hvort að sátt verður í Framsókn við þá ungu menn sem nú hafa tekið við stjórnartaumunum þar á bæ. Menn þar á bæ hafa nú ekki veigrað fyrir sér að stinga flokkssystkin sín í bakið á undanförnum árum.Meðan slík upplausn er í flokkum eru þeir ekki líklegir til afreka eða að ganga traustum fótum eitt eða neitt.

Sigurður Eðvaldsson (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 16:56

5 Smámynd: Baldur Hermannsson

Hvaða órar eru þetta, Hallur, framsókn hefur ekki gert upp við fortíðina nema síður sé - þegar höfuðpaur og erkisyndaselur einkavæðingar bankanna sver af sér alla ábyrgð, þá heitir það ekki uppgjör heldur afneitun. Og endurnýjun - formannsræksnin gáfust upp hvert af öðru og einhvern varð að finna í staðinn. Þeir völdu mann af handahófi, mann sem enginn þekkir af öðru en því að hann er komin af gamalli framsóknarætt ásamt þeim böggli sem alltaf fylgir slíku. Íhaldið er ekki í neinum slíkum vanda og þarf ekki að endurnýja eitt eða neitt. Samfylkingin á við annað vandamál að stríða, sem menn vita ekki enn þá hversu alvarlegt er.

Baldur Hermannsson, 19.1.2009 kl. 17:29

6 identicon

Mér finnst Framsókn ekki vera búin að gera upp við fortíðina þó svo ný forista komi til sögunnar. Það sem þeir verða að gera er að biðja þjóðina afsökunar á ýmsum þáttum eins og kvótakerfinu, einkavæðingu bankanna, sölu Íslenskra aðalverktaka, íraksstríðið og svo efnahagshrunið. Þangað til þeir gera þetta þá hafa þeir ekki gert upp við þjóðina og eru í raun sama spillta stjórnmálaaflið. Ég vonaði eins og margir að Sigmundur Davíð yrði formaður og það er frábært að svo varð, en ef hann ætlar að hunsa þessa afsökun til þjóðarinnar, þá getur hann bara átt sig og farið í kaffi til Halldórs Ásgrímssonar eða Finns Ingólfssonar mín vegna.

Valsól (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 17:48

7 identicon

Til hamingju með nýjan formaninn og flokksforystu!

Ég hef nú ekki verið neinn framsóknarmaður og aldrei kosið Framsóknarflokkinn.  Núna held ég að þið séuð komnir með góðan foringja. Fólk vill fá forystu og vill fá að vita hvernig við komum okkur frá þessu hruni.  Ljóst er að núverandi ríkisstjórn er búin og rúin trausti.  Ef óbreyttur Sjálfstæðisflokkur með dýralækninn og sitt gamla lið ætlar mót þessu eða Samfylkingin eða Baugsflokkurinn ætlar óbreyttur með Björgvin, Ingibjörgu og Össur þá á Framsóknarflokkurinn sitt tækifæri núna tilbaka úr "eyðumerkurgöngunni".  Fólk vill upplýsingar og og forystu og vitræna áætlun. 

Tja maður veit ekki sýna ævi fyrrr en ævin er öll og núna og hver veit nema maður merki X við B ef ekki eitthvað dramatískt kemur frá Sjálfstæðisflokknum.  Evrópubandalagsumsókn er ekki lausnin en óþarfi að loka þeirri leið.  Uppstokkun kvótakerfisins og afnám þess tel ég nauðsynlega.  Framsóknarflokkurinn er búinn að taka innri beygju á hina flokkana en hvernig verður þingflokkurinn á ekki að skola þessu liði út og þessu spillingarliði með Finn Ingólfsson, Ólaf Ólafsson og fleirri sníkjudýr.

Gunnr (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 18:48

8 Smámynd: Dunni

Þrátt fyrir nýjan formann, sjálfsagt ágætis dreng, er langt frá því að flokkurinn sé búinn að þvo af sér flórsletturnar og enn angar af honum fjósaþefurinn.  Nýji varaformaðurinn er alinn upp í spillingarbælinu sem flokkurinn hefur verið ára tugum saman. Það verða sjálfsagt sömu fjósaformennirnir sem sitja í bakherbergjunum.  Á erfitt með að sjá Alfreð Þ. og co sleppa takinu af taumunum. Höllustaða Palli og Lómatjarnar Valla sem og sjálfur Hornarfjarðargoðinn hafa heldur ekki gefið upp vonina um að fá að ráða því sem þau vilja ráða hér eftir sem hingað til.

Svo kann flokkurinn ekki að telja.  Hvernig á maður að treysta svona liði.  Það er skítlykt af Framsóknarflokknum.

Dunni, 19.1.2009 kl. 18:48

9 identicon

Ég vil óska framsóknarmönnum til hamingju með nýjan formann

og forystu.

 

Rétt er að fagna því þegar ungt fólk vill takast á hendur pólitísk störf

og vilja þjóð sinni vel.

 

Ég vil taka það fram að Framsóknarflokkurinn hefur ekki gert upp sína

fortíð það er fjarri lagi. Maður er að heyra þetta úr ýmsum áttum að flokkurinn

hafi gert upp við fortíðina.

 

Til þess þarf hann að skipa nefnd og skrifa skýrslu um það sem aflaga fór.

Þetta er þekkt úr stjórnmálastarfi og mig minnir að þetta hafi einhverju sinni

verið gert í Alþýðubandalaginu.

Fólk sem er með lík í lestinni verur á endanum myrkfælið.

 

Þorsteinn H. Gunnarsson (IP-tala skráð) 19.1.2009 kl. 19:47

10 Smámynd: Guðrún Jónsdóttir

Sammála með ríkisstjórnarflokkana en það þarf að hreinsa betur til í framsókn er ekki Útrásargerður enn þarna ??? ásamt fleirum sem koma til með að skipta sér af.

Guðrún Jónsdóttir, 19.1.2009 kl. 22:11

11 Smámynd: Gísli Tryggvason

Fróðleg skoðanaskipti; ég má til með að leiðrétta þá staðreyndarvillu sem með góðum vilja má lesa út úr athugasemd Stefáns Jóhanns enda rennur mér blóðið til skyldunnar - af tveimur ástæðum. Þannig er að sú byltingartilraun sem forystumenn í Framsóknarflokknum töldu felast í viðleitni dr. Ólafs Ragnars Grímssonar snemma á 8. áratugnum við að ná samstöðu félagshyggjuaflanna í þeim flokki og öðrum var réttilega kennd við Möðruvelli. Það voru þó ekki hið fornfræga höfðingja-, kirkju- og skáldasetur í Hörgardal norðan Akureyrar heldur þá nýlegt raungreinakennsluhús Menntaskólans á AKureyri - sem kennt er við fyrrgreint setur. Þar fengu framsóknarmennirnir ungu inni hjá ungum skólameistara, Tryggva Gíslasyni, framsóknarmanni og föður mínum, en hann stóð reyndar í þeirri trú að um væri að ræða samstarfsmenn Ólafs Ragnars úr Háskóla Íslands. Um þetta skrifaði ég smá grein, byggða að mestu á munnlegum heimildum helstu þátttakenda, annarra en Ólafs Ragnars, í tímarit SUF í kringum 1996.

Gísli Tryggvason, 19.1.2009 kl. 22:29

12 Smámynd: Dexter Morgan

Haha, haldið þið virkilega, framsóknarmenn, og konur, að fortíðin "hverfi" eftir eitt stykki flokksþing. Jú, forystan er önnur, en flokkurinn er sá sami. Enginn getur "eytt" sinni fortíð svona, nema þá útrásarvíkingar sem kunna að skipta um kennitölu, og skipta um nafn í leiðinni. Nei, ég kaupi þetta ekki. Framsókn er og veður alltaf flórinn í íslenskri pólitík. 

Dexter Morgan, 19.1.2009 kl. 22:37

13 identicon

Þegar Framsókn viðurkennir að rangt hafi verið staðið að einkavinavæðingu bankanna, ráðningu dómara, skattahækkunum á almenning, skattalækkunum á auðmenn, hækkun lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs, lækkun matarskatts, stofnun fjölda sendiráða erlendis, stuðningnum við innrásina í Írak, ráðningu Seðlabankastjóra, sóun eigna Samvinnutrygginga, Héðinsfjarðargöngum, kvótakerfinu og fjölmörgu öðru sem ég man ekki eftir í svipinn, þá skal ég kjósa Framsókn, fyrr ekki.

Hinrik (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 00:31

14 identicon

Framsókn tekur nú frumkvæðið í íslenskum stjórnmálum eftir þetta flokksþing. Nýr og glæsilegur formaður tekur við og boðar nýja tíma með nýjum áherslum og breyttum vinnubrögðum. Vilji samfélagsins um breytingar er skýr. Vilji hins almenna framsóknarmanns um hið sama kom fram á flokksþinginu og náði fram að ganga. Það hefur ekki gerst í öðrum flokkum.

Jóhanna (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 01:49

15 Smámynd: Sigurveig Eysteins

 Já... og formaður ætlar að hlaða niður álverum og verða svo grænn á eftir (sagði þetta í Kastljósi í gær) ykkur getur ekki verið alvar, fyrst getið þið ekki lagt saman 2. og 2. svo þetta. Hvað næst ???

þetta er eins og góð framhaldssaga.

Sigurveig Eysteins, 20.1.2009 kl. 07:02

16 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Framsókn er fólkið í flokknum. Einfaldlega. Lýðræðið ræður.

Hægrisveifla undanfarinna ára hefur verið kveðin niður. Ekki af einhverjum sem vill framkvæma sýndarbreytingu, heldur fólkinu í Framsóknarflokknum sem var ósátt við stöðu mála. Gamla valdaklíkan er ekki lengur við völd.

Við viljum endurskoðun stjórnarskrárinnar frá grunni. Stjórnlagaþing sem ekki sé skipað pólitíkusum sem reyna að verja völdin sín.

Við viljum líka ný vinnubrögð í mannaráðningum hjá hinu opinbera. Burt með samtrygginguna og þessar sífelldu pólitísku ráðningar, menn fari eftir stjórnsýslulögum og taki mark á athugasemdum aðila eins og umboðsmanns Alþingis. Ólíkt því sem Árni Matt. gerir.

Eflaust höfum við framsóknarmenn okkar syndir í mannaráðningum, þetta er gamalt kerfi sem einu sinni var sjálfsagt en er löngu úrelt. Það hefur verið einhugur meðal framsóknarmanna sem ég hef heyrt í að umbylta þessu.

Þið sem viljið gagnrýna fyrrverandi forystu Framsóknar, gerið svo vel. En unnið okkur í grasrótinni sannmælis. Og munið: Við erum flokkurinn. Ekki einhverjir sem búið er að svipta völdum.

Einar Sigurbergur Arason, 21.1.2009 kl. 02:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband