Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Stígamót vel að viðurkenningu komin

Stígamót eru vel að viðurkenningu alþjóðasamtakanna Equality komin. Fórnfúst starf samtakanna á undanförnum árum hefur verið ómetanlegt fyrir íslensku þjóðina og í raun hefur Stígamót lyft grettistaki í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi - og gert hundrum - jafnvel þúsundum kvenna kleift að vinna sig upp úr djúpum táradal afleiðinga kynferðislegrar misnotkunar og kynferðislegs ofbeldis.

En betur má en duga skal í þeirri baráttu. Því er viðurkenning sem þessi mikilvæg fyrir Stígamót.

Til hamingju Stígamót og gangi ykkur allt í haginn í baráttunni!


mbl.is Stígamót fá alþjóðlega viðurkenningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrar vanhæfir hægri vinstri?

Mér líkar illa sú þróun í stjórnmálunum að ráðherrar geti komið sér undan pólitískri umræðu með vísan til þess að ef þeir tjái sig um einstök mál þá geti þeir orðið vanhæfir við afgreiðslu þeirra á seinni stigum. Ég skil hins vegar rökin - en tel þetta vera gengið út í öfgar.

Gagnályktunin er þá sú að ráðherrar sem hafa tjáð sig um einstök mál séu þegar orðnir vanhæfir hægri vinstri. ´

Viðskiptaráðherrann gæti þannig verið talinn vanhæfur að taka á málum er varða evru. Reyndar má ganga svo langt að halda því fram að ráðherrann hafi gefið Sjálfstæðisflokknum sjálfdæmi um gjaldmiðilsmál vegna einarðrar afstöðu ráðherrans sem vill að við göngum í Evrópusambandið og tökum upp evruna. Hann geti ekki beitt sér í málinu þegar það kemur á hans borð í alvöru. 

Ég er reyndar sammála ráðherranum í þessu efni - þótt ég hafi bent á millileik sem er að taka upp færeysku krónuna.

Fjármálaráðherra hefur á sama hátt þagað þunnu hljóði um vistarbönd sem sett eru á íslensku bankanna með því að meina þeim að gera upp í evrum.

Sé ekki betur en að samgönguráðherra sé meira og minna vanhæfur í samgöngumálum þar sem hann hefur tjáð sig hægri vinstri um hvaðeina er varðar slík mál - þótt hann hafi farið í þagnarbindindi vegna Sundabrautar - sem er vonandi ekki vísbending um það að hann ætli að elta vitleysuna í Vegagerðinni í þeim málum.

Þannig mætti áfram telja með alla ráðherrana.

Er ríkisstjórnin kannske meira og minna vanhæf nema hún snarhaldi kj..... ?


Sólarlagsskipun á dómara og ríkissaksóknara!

Það á að taka upp sólarlagsskipun á dómara og ríkissaksóknara, en þessir embættismenn eru þeir einu sem enn eru æviráðnir og einungis unnt að víkja frá embætti með dómi. Þetta er fullkomlega óeðlilegt - og að líkindum síðustu leifar gamla embættismannaveldisins.

Það sjá allir að brýn nauðsyn er á að breyta núverandi fyrirkomulagi skipunar dómara. Núverandi aðferðafræði er óásættanleg fyrir alla - framkvæmdavaldið, dómsvaldið og löggjafarvaldið. Það held ég að allir geti verið sammála um.

Mín skoðun er sú að dómsmálaráðherra eigi að tilnefna kandidat í dómaraembætti, en Alþingi að staðfest valið með einföldum meirihluta þegar um héraðsdómara er að ræða. Hins vegar þurfi 2/3 hluta Alþingis til að samþykkja tilnefningu dómsmálaráðherra í hæstarétt.

Um þetta atriði eru eflaust deildar meiningar, en núverandi kerfi þarf að stokka upp.

Í þeirri uppstokkun á að taka upp sólarlagsráðningar dómara eftir sömu lögmálum og nú tíðkast meðal annarra embættismanna. Upphafleg skipan í 5 ár og unnt að framlengja í önnur 5 ár. Það sama á við um embætti ríkissaksóknara.

Vísa enn og aftur í ágæta grein Gísla Tryggvasonar sem hann ritaði þegar hann var framkvæmdastjóri BHM - Veiting starfa hjá hinu opinbera - sem fjallar um þá aðferðafræði sem skal fara eftir við veitingu starfa hjá hinu opinbera.


Hefjið útboðsferli Sundabrautar í göngum strax!

Það er forgangsverkefni í samgöngumálum að hefja þegar útboðsferli vegna Sundabrautar og það Sundabrautar sem liggi í göngum. Annað er ekki ásættanlegt fyrir íbúa Vestur og Norðurlands - hvað þá íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Reykjavíkurborg og ríkisstjórnin þurfa að taka nú þegar ákvörðun um að leggja Sundabraut í göng - önnur lausn er ósættanleg - og hraða þeim framkvæmdum eins og unnt er.  Þetta er pólitísk ákvörðun sem hefur beðið í of mörg ár.

Minni á að Símapeningarnir eru til - og eiga að fara í verkið. 

Undirstrika að ákvörðunin er ekki Vegagerðarinnar - eins og má lesa úr fyrri pistli mínum Vegagerðin og gömul stöð belja .


mbl.is Sundabraut útboðsskyld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samband og Tjóðveldi hava meiriluta einsamallir

"Sambandsflokkurin og Tjóðveldi renna undan øllum hinum flokkunum í einari nýggjari veljarakanning, sum Gallup Føroyar hava gjørt fyri Dimmalætting. Flokkarnir fáa meirilutan einsamallir. Heilt nógvir veljarar eru tó enn í villareiði um, hvar krossurin skal setast."

Svo segir á dimma.fo - vefsetri færeyska blaðsins Dimmalætting - en um helgina munu Færeyingar ganga að kjörborðinu. Kosningarnar eru að mörgu leiti merkilegar - ekki síst þar sem en nú eru Færeyja í fyrsta skiptið eitt kjördæmi.

Það verður spennandi að sjá hver niðurstaðan verður - ekki hvað síst hvernig hið nýja kosningafyrirkomulag mun takast. Ef  fyrirkomulagið gengur vel og  Færeyingar verða sáttir - er þá ekki kominn tími til að taka aftur upp umræðuna Ísland eitt kjördæmi?  Mun væntanlega blogga eitthvað um það í kjölfar kosninga.

Ætla ekki að missa mig í stjórnmálaskýringar á færeyskum stjórnmálum að þessu sinni - en sakna þess að íslenskir fjölmiðlar fylgist ekki betur með fréttum frá þessum bræðrum okkar í austri.

 


Ofbeldisfull karlremba í sókn meðal ungra?

Á undanförnum misserum hefur mér fundist ofbeldisfull karlremba vera sífellt meira áberandi meðal unglingsstráka og ungra karlmanna. Algeng afstaða virðist vera sú að karlinn eigi að geta hagað sér að vild í samböndum og að konan eigi að að lúta vilja hans. Þá sé það klárlega hlutverk konunar að sjá um heimilið og börnin.

Þá hef ég ítrekað heyrt af tali ungra manna að þeim finnst allt í lagi "að banka kellinguna" ef þeim líkar ekki hvernig hún hagar sé.

Skelfilegt ef satt er. Þetta er áfall fyrir mig og þá karlmenn sem hafa gegnum tíðina - að minnsta kosti í orði - lagt áherslu á jafnrétti kynjanna. Já, þetta er áfall fyrir íslenskt samfélag í heild - svona samfélag viljum við ekki sjá.

Þessari þróun verður að snúa við.


"...að styrkja enn frekar faglega ferla stjórnkerfisins."

Í ljósi þeirrar óvissu sem greinilega ríkir um réttmæta aðferðafræði í veitingu opinberra staða er ánægjulegt að Ingibjörg Sólrún taki af skarið og boði nauðsyn þess "að styrkja enn frekar faglega ferla stjórnkerfisins."

Það er nauðsynlegt allra málsaðilja vegna.

Vil benda enn og aftur á greinargerð Gísla Tryggvasonar - þáverandi framkvæmdastjóra BHM - Veiting starfa hjá hinu opinbera - sem fjallar einmitt um þetta viðfangsefni.


mbl.is Ef til vill tilefni til að styrkja faglega ferla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur er laxfiskur

Mér hefur lengi verið ljóst að vinur minn Össur Skarphéðinsson er laxfiskur. Össur staðfesti þetta í viðtali við 24 stundir í dag þegar hann sagði: "Ég er eins og urriðinn ..." 

Mér hefur reyndar oftar fundist Össur vera eins og laxinn - vill sífellt synda á móti straumnum - og taka kröftug stökk yfir flúðir og fossa sem á vegi hans verða.  Reyndar ganga þau heljarstökk ekki alltaf upp - heldur skellur hann hastarlega á vatnsborðið að nýju - hverfur í ánna - en safnar síðan kröftum og stekkur á ný - og á ný...

En kannske er hann eins og urriðinn. Eða eins og Össur segir sjálfur:"Ég er eins og urriðinn sem hefur mesta aðlögunarhæfni allra fiska. Ég get látið mér líða vel við hvaða kringumstæður sem er."

Það er reyndar nokkuð til í þessu hjá hinum fyrrum róttæka ritstjóra sem ég kynntist á svo skemmtilegan hátt á sínum tíma þegar við sátum saman á stjórnarfundum hjá Strætó 1986-1990.  Össur  hefur aðlögunarhæfni og getur látið sér líða vel við hvaða kringumstæður sem er. Það sýnir þessi fyrrum formaður Samfylkingarinnar sem hefur aldrei verið pattaralegri en einmitt nú í ríkisstjórn með höfuðandstæðingnum Sjálfstæðisflokknum.

Vona bara að Össur endi ekki eins og murta sem verði étinn af risaurriðunum í Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórnarsamstarfinu!

Gangi þér vel í Þingvallavatni ríkisstjórnarinnar - kæri vin - Össur laxfiskur!


Hrekjast íslensku bankarnir úr landi?

Seðlabankinn er mótfallinn því að innlend fjármálafyrirtæki taki alfarið upp erlendan gjaldmiðil í reikningshaldi sínu. Eflaust eru rök þeirra góð og gild. En spurningin er hvenær íslensku bankarnir hætta að vera íslenskir. Er kannske hætta á að þeir yfirgefi Ísland og íslensku krónuna í kjölfar þessarar andstöðu Seðlabankans? 

Ég bara spyr.

Minni enn á hugmynd mína um að við tökum upp færeysku krónuna! Tökum upp færeysku krónuna! 


mbl.is Seðlabanki andvígur evrubókhaldi fjármálafyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegagerðin og gömul stöð belja

Vegagerð ríkisins minnir mig oft á staða belju sem var að gera mér lífið leitt þegar ég var kúasmali. Það var gersamlega ómögulegt að koma henni úr stað ef hún hafði ákveðið eitthvað - hversu heimskulegt sem það var. Ef hún tók það í sig að vilja ekki af básnum út í góða veðrið að úða í sig ilmandi grasið - þá var nánast ómögulegt að hnika henni.  Ef hún tók það í sig að vilja ekki heim að láta mjólka sig - þá þrýsti hún klaufunum ofan í svörðin og stóð þar pikkföst!

Vegagerðin ætlar ekki að leggja Sundabrautina í göng. Hversu heimskulegt sem það er að gera það ekki. Tekur sig til og smyr öllum þeim mögulega kostnaði sem unnt er að láta sér detta í hug við gerð kostnaðaráætlunar gangna vegna Sundabrautar til þess að reyna að fá sína leið fram.  Mér þætti gaman að sjá sambærilega aðferðafræði við kostnaðaráætlanir vegna annarra jarðgangna!

Auðvitað á að leggja Sundabrautina í göng. Reyndar á ekki að láta þar staðar numið í gangnagerð á höfuðborgarsvæðinu - heldur beita göngum víðar til að leysa umferðavandann - þótt það kosti peninga. 

Á sama hátt er Vegagerðin enn að ströggla við fáránlegar hugmyndir sínar um 2+1 þjóðveg út frá höfuðborgarsvæðinu´- í stað þess að leggja almennilegan veg. Ef Vegagerðin hefði ráðið þá hefði Reykjanesbrautin orðið slík braut. Skiptir þá engu að allir aðrir eru hættir slíkri vitleysu vegna slysahættu og óhagkvæmni til langs tíma litið.

Heimskulegasta vegaframkvæmd síðar tíma er í Svínahrauni á leiðinni austur fyrir fjall. Í stað þess að leggja þar 4 akreina veg - þar sem hráefnið í veginn var í vegastæðinu - þá er  þessi kúdelluhugmynd 2+1 orðin að veruleika - ökumönnum flestum til mikillar armæðu. Allir aðrir en Vegagerðin sjá hversu vitlaust það fyrirkomulag er.

Það versta er að samgönguráðherrar hafa látið Vegagerðina hlaupa með sig í gönur fram að þessu - og mér sýnist hinn ágæti Siglfirðingur sem nú situr í samgönguráðuneytinu ætli að lenda í sama fjóshaugnum - en vonandi sér hann að sér.


mbl.is Vegagerð með bæði belti og axlabönd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband