Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Ábyrgð, heiðarleiki og samvinna í Framsókn nýrra tíma?

Ábyrgð, heiðarleiki og samvinna eru forsenda þess að íslenskt samfélag komist heilt út úr þeim hremmingum sem við eigum við að glíma. Framsókn nýrra tíma getur leikið lykilhlutverk í þeirri glímu, enda hefur Framsóknarflokkurinn mikla reynslu í að koma hjólum atvinnulífsins af stað á ný í kjölfar fjöldaatvinnuleysis.

En er ábyrgð, heiðarleiki og samvinna í Framsókn nýrra tíma?

Þrátt fyrir að afmarkaður hópur ungra, kappsfullra manna í Framsóknarfélagi Reykjavíkur hafi misst sig í keppnisskapinu og tekið á einum fundi upp vinnubrögð sem Framsóknarfólk yfir höfuð hefur krafist að væri að baki og reynt á vafasaman hátt að éta alla kökuna í stað þess að óska eftir réttlátum hlut í henni, þá eru allar forsendur fyrir því að Framsókn nýrra tíma byggi á ábyrgð, heiðarleika og samvinnu.

Sú staðreynd að ábyrgð, heiðarleiki og samvinna hefur verið ríkjandi tónn á öllum öðrum fundum en þessum átakafundi í  Reykjavík, ætti að gefa tóninn fyrir flokksþing Framsólnarmanna og framhald þess.

Sérstaklega vil ég benda á góðan fund Framsóknarfélaganna í Kópavogi þar sem á undanförnum árum hefur ríkt nokkur togstreita milli fylkinga. Fundurinn einkenndist af ábyrgð, heiðarleika og samvinnu, þrátt fyrir að fundurinn var daginn eftir átakafundinn í Reykjavík þar sem ljóst er að markmið kappsfullu, ungu mannanna var að fylkja liði gegn Kópavogsbúanum Páli Magnússyni.

Einhvern tíma hefði viðbragðið orðið hefnd og átök. En svo varð ekki, enda held ég að allir frambjóðendur til formanns Framsóknarflokksins hafi viljað koma í veg fyrir að mistökin í Reykjavík endurtækju sig.

Þrátt fyrir að hart hafi verið sótt að Framsókn þá er það gleðilegt að í framboði til formanns flokksins er hópur vel menntaðra, öflugra ungra manna sem hver um sig getur orðið sterkur forystumaður nýrrar, samhentrar forystu Framsóknarflokksins og alls Framsóknarfólks.

Slysið á fundi Framsóknarfélaganna í Reykjavík í vikunni hefur hugsanlega tímabundið veikt Framsókn í Reykjavík, sem hefur á undanförnum mánuðum unnið þétt saman í borgarmálunum með góðum árangri.

En í ljósi þess að ákveðin sátt náðist um niðurstöðu átakafundarins og að Framsóknarfólk um allt land hefur áttað sig á að ný Framsókn getur ekki byggst á stundum vafasömum aðferðum fortíða, þá er ég þess fullviss að í kjölfar flokksþings þá náist varanleg sátt innan raða Framsóknarmanna í Reykjavík,  sátt sem byggir á ábyrgð, heiðarleika og samvinnu.

Það er forsenda þess að Framsókn nýrra tíma leiki mikilvægt hlutverk í endurreisn Íslands. Endurreisn sem þarf svo á kröftum og hugsjónum Framsóknar að halda svo hún geti heppnast sem best.

Framtíðin er beint lýðræði innan stjórnmálaflokkanna


mbl.is Nýtt fólk í Framsókn viðrar gömlu gildin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin að bregðast í nauðsynlegri atvinnusköpun?

Við aðstæður sem þessar á fjölgun atvinnutækifæra að vera forgangsmál ríkisstjórnar Íslands. Mér hefur þótt vanta nokkuð upp á að ríkisstjórnin uppfylli þessa skyldu sína. Það skiptir líka miklu máli að fólk hafi atvinnu og eitthvað fyrir stafni.

Ég hef bent á einfalda aðgerð sem felur ekki í sér bein útgjöld ríkisins. Það er að Íbúðalánasjóður bjóði endurbótalán afborgunarlaus í 3 ár . Það væri lítið, en mikilvægt skref í þessa átt,

Það hefur stundum verið talað um "atvinnubótavinnu" með niðrandi tón. Það er misskilningur. Það er betra að hafa fólk í vinnu á launum sem eru eitthvað hærri en atvinnuleysisbæturn en að hafa fólk á arvinnuleysisbótum!

Atvinnuleysið núna er öðruvísi en við höfum áður upplifað. Það er mikið af vel menntuðu fólki með fjölbreytta reynslu sem hefur tapað vinnunni.  Það gefur möguleika á fjölbreyttari atvinnubótavinnu en ella - atvinnubótavinnu sem getur skilað miklu til samfélagsins!

Ég ætla að þessu sinn að nefna einungis eitt dæmi um vinnu sem unnt væri að setja af stað. Rafræn skráning, flokkun og skönnun hundruð þúsunda skjala á söfnum og stofnunum í eigu ríkis og sveitarfélaga sem ekki enn hafa verið skráð.

Nei, ég ætla að að nefna annað!

Skógræktarátak! Okkur veitir ekki af að vinna okkur inn aukið svigrúm í losunarkvótum framtíðarinnar.  En ég undirstrika að það þarf að fara afar varlega í val á svæðum undir skógrækt.

Endilega komið með hugmyndir að fleiri verkefnum sem rétt væri að vinna - kannske rankar ríkisstjórnin við sér!


mbl.is Yfir 10 þúsund án atvinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilbrigðisstofnanasvæðin eðlileg stærð framtíðarsveitarfélaga

Þau svæði sem nú eru skilgreind sem 6 heilbrigðisstofnunarsvæði eru eðlileg stærð framtíðarsveitarfélaga á Ísldandi. Framtíðarsveitarfélaga sem taki alfarið að sér rekstur heilbrigðisþjónustu og þjónustu við fatlaðra ásamt öllum þeim málaflokkum sem varða nærþjónustu við íbúana.

Að sjálfsögðu eiga framtíðarsveitarfélögin að fá skatta greidda beint til sín og i ríkinu síðan útsvar til að standa undir sameiginlegri þjónustu.

Að sjálfsögðu eiga öll þau verkefni sem ríkið getur með góðu móti komið til framtíðarsveitarfélaganna 6 að flytjast til framtíðarsveitarfélaganna.

Að sjálfsögðu er jafnframt rétt að skilja milli löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins þannig að ráðherrar í ríkisstjórn sitji ekki á Alþingi og Alþingi endurreist sem sjálfstæð stofnun. Það má nefnilega deila um að Alþingi sé sjálfstæð stofnun um þessar mundir - það virðist eingöngu afgreiðslustofnun ríkisstjórnarinnar og embættismanna ráðuneytanna.

Já, og svo ítreka ég að skipulagsbreyting heilbrigðisráðherra er afar athyglisverð og gefa ný tækifæri í þjónustu heilbrigðiskerfisins.

Sjá:

Athyglisverðar skipulagsbreytingar heilbrigðisráðherra


mbl.is Sameining stofnana mætir harðri andstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverðar skipulagsbreytingar heilbrigðisráðherra

Þær breytingar sem heilbrigðisráðherra kynnti í gær eru athyglisverðar og gefa möguleika á spennandi þróun í heilbrigðismálum.  Ég hef ekki skoðað þær ofan í kjölin og mögulega hefði mátt standa öðruvísi að kynningur þeirra - veit það samt ekki. En allavega þá verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.
mbl.is Svæðið stórt og samlegðaráhrifin mismikil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykjavíkur hækkar ekki skatta né gjaldskrárskrár

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 á fundi sínum í gærkvöldi.  Ég efast um að borgarbúar geri sér grein fyrir því hversu merkileg þessi fjárhqagsáætlun er miðað við fjárhagsáætlanir flestra annarra sveitarfélaga!

Fjárhagsáætlunin er án rekstrarhalla.

Skattar sveitarfélagsins - útsvar - hækkar ekki.

Gjaldskrár hækka ekki!

Það kostar sama í sund og áður, það kostar sama í leikskóla og áður, það kostar sama í strætó og áður skólamáltíð lækka í verði.

Þannig mætti áfram telja!

Fjárframlög til Velferðarmála hækka. Þar munar mest um hækkun vegna fjárhagsaðstoðar og húseligubóta!

Það er reyndar meira merkilegt við fjárhagsáætlunina.  Hún var unnin í samvinnu meirihluta og minnihluta, þótt Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn sem myndar meirihluta í borgarstjórn hafi verið ein um að samþykkja hana - fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna sátu hjá - þar sem þau treystu sér ekki að taka ábyrgð þegar á hólminn var komið - en það breytir því ekki að fjárhagsáætlunin var unnin í samvinnu meirihluta og minnihluta.

Fyrir það eiga borgarfulltrúar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna, Samfylkingar og óháðra hrós skilið. Batnandi fólki er best að lifa!

En það er gott að búa í Reykjavík - undir stjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks!


Framtíðin er beint lýðræði innan stjórnmálaflokkanna

Stjórnmálaflokkarnir eiga að vera eðlilegur og handhægur farvegur fyrir allan almenning til þess að taka beinan þátt í stjórnmálum þegar og ef fólk vill. Nútímafólk vill geta haft bein áhrif á ákvarðanatöku í stjórnmálum um þau atriði sem hjarta þeirra stendur næst.

Núverandi fyrirkomulag fulltrúalýðræðis, þar sem almennir flokksmenn kjósa takmarkaðan fjölda fulltrúa á flokksþing eða landsfundi og fulltrúa í ýmiskonar fulltrúaráð og flokksþing kjósa formenn, varaformenn og ritara, framkvæmdastjórnir og ýmsar nefnir, er gamaldags og úrelt.

Að sjálfsögðu eiga allir skráðir meðlimir stjórnmálaflokka að hafa rétt til setu á flokksþingum og landsfundum með fullan atkvæðisrétt.

Að sjálfsögðu eiga allir meðlimir stjórnmálaflokka að kjósa formenn, varaformenn og hinar ýmsu stjórnir stjórnmálaflokkanna.

Að sjálfsögðu eiga allir meðlimir flokkana að geta haft bein áhrif á stefnumótun stjórnmálaflokkanna hverju sinni með möguleikanum á beinni aðild og atkvæðisrétti.

Það er engin ástæða í nútíma samfélagið að flækja lýðræðið um of. Það á að vera beint.

Það er mjög einfalt að gefa öllum skráðum flokksmönnum stjórnmálaflokkanna kost á að greiða atkvæði í formannskjöri á rafrænan hátt  - hvar sem þeir búa á landinu!  Þeir þurfa ekki að mæta til Reykjavíkur til þess.

Á sama hátt er mjög einfalt fyrir forystu stjórnmálaflokka að leggja tillögur að stórum stefnumálum sem upp koma á milli landsfunda og flokksþinga beint fyrir alla almenna flokksmenn.  Það er unnt að ganga frá atkvæðagreiðslum um slíkar tillögur í rafrænum kosningum gegnum netið.

Halló!

Við erum ekki lengur á 19. öldinni.

Við erum á þeirri 21.  Við eigum að nota 21. aldar tæknina til þess að auka beint lýðræði og gefa almenningi kost á að hafa bein áhrif á stjórnmálin gegnum stjórnmálaflokkana sem eru eðlilegur farvegur og vettvangur fyrir stjórnmálaþátttöku.

Ég vona að Framsókn nýrra tíma taki skref í þessa átt!

 


Framsókn nýrra tíma fær góðan liðsauka frá Samfylkingu!

"Þessi ákvörðun byggist fyrst og fremst á því að innan Framsóknarflokksins hafa skapast forsendur til endurnýjunar, uppbyggingar og endurmats. Mér þykir virðingarvert að flokkurinn ætli að fara út í slíkt endurreisnarstarf og ég hyggst taka þátt í því af heilum hug," segir Guðmundur Steingrímsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar og aðstoðarmaður Dags B. Eggertssonar, fyrrverandi borgarstjóra. Guðmundur hefur tekið þá ákvörðun að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn úr Samfylkingunni." 

Þetta er alveg rétt hjá Guðmundi Steingrímssyni, en hann lét hafa framangreint eftir sér í frétt sem birtist á forsíðu Fréttablaðsins í morgun.

Það er líka alveg rétt mat hjá Guðmundi þegar hann segir:

"Ég get á engan hátt skrifað undir atburðarás síðustu mánaða sem hefur á köflum verið fáránleg og einkennst af fáti, fyrirhyggjuleysi og skorti á gagnsæi. Ég get ekki séð að þessi atburðarás rími við grundvallarhugsjónir Samfylkingarinnar, og ég veit að margir innan flokksins eru sammála mér um það," segir Guðmundur."

Ég talaði síðast í gærkvöld við öflugan Samfylkingarmann sem starfað hefur í samtökunum frá upphafi. Sá var alveg að gefast upp á Samfylkingunni, aðgerðum hennar og aðgerðarleysi.

Í fréttinni er einnig haft eftir Guðmundi Steingrímssyni:

"Guðmundur segir til mikils að vinna að endurreisa Framsókn, enda sé hann á þeirri skoðun að á Íslandi eigi að vera til frjálslyndur, framsækinn og tiltölulega öfgalaus flokkur sem horfi til félagshyggju."

Þetta er einnig dagsatt hjá Guðmundi. 

Það er gott fyrir Framsókn nýrra tíma að fá Guðmund í lið með sér ásamt fjöldan allan af nýju fólki sem gengið hefur til liðs við Framsókn að undanförnu.

Framsókn nýrra tíma býður annað félagshyggjufólk sem hefur fengið nóg af Samfylkingunni og verkum hennar undanfarna mánuði velkomið í Framsókn og taka þátt í endurreisn hennar sem "...frjálslyndur, framsækinn og tiltölulega öfgalaus flokkur sem horfi til félagshyggju."

 


Fyrst kom Bjarni Ármanns með 100% lán - síðan Íbúðalánasjóður með 90%

Bjarni Ármannsson ætti að rifja upp atburðarás ársins 2004 áður en hann ræðir hana á opinberum vettvangi. Það er rétt að gagnrýna Kaupþing fyrir að hefja lánveitingar á  80% fasteignalánum í ágústmánuði 2004 á niðurgreiddum vöxtum án þess að hafa fjármagnað þau til fulls.

Bjarni gagnrýnir einnig Íbúðalánasjóð fyrir 90% lán.

Það er rétt að halda því til haga og minna Bjarna á að áður en til 90% lána Íbúðalánasjóðs kom hafði Bjarni sjálfur boðið viðskiptavinum sínum - fyrst 80% lán - og síðan 100% lán til Íbúðakaupa.

Bjarni vissi árið 2004 mæta vel að ekki stóð til að innleiða 90% Íbúðalánasjóðs fyrr en vorið 2007 - ef efnahagslegar aðstæður leyfðu.

Bjarni hefði átt að halda því til haga að Íbúðalánasjóður fékk ekki lagaheimild til allt að veita allt að 90% lán fyrr en í desember 2004 - löngu eftir 100% lán bankanna. Einnig að lán Íbúðalánasjóðs takmörkuðust af brunabótamati og lágri hámarksfjárhæð og voru því sjaldnast raunveruleg 90% lán.  Lán Bjarna og bankanna takmörkuðust hins vegar ekki við brunabótamat - og engar hámarksfjárhæðir.

Einnig hefði Bjarni átt að minnast á að ástæða þess að Íbúðalánsjóður hóf að veita 90% lán í desember 2004 en ekki vorið 2007 var sú að bankarnir höfðu að engu tekið tillit til efnahagsástandsins og þenslunar í taumlausum útlánum sínum þar sem krafa var gerð að lán Íbúðalánsjóðs yrðu greidd upp - og því skipti engu máli hvort hófleg lán Íbúðalánasjóðs væru 90% eða lægri. Bankarnir tryggðu öllum - nema landsbyggðinni - 90% - 100% lán - þannig að þensluáhrif ÍLS lána voru engin - umfram það ástand sem bankarnir höfðu þegar skapað.

Rétt skal vera rétt.


mbl.is Endurgreiddi 370 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúðalánasjóður bjóði endurbótalán afborgunarlaus í 3 ár

Það ætti að vera forgangsatriði hjá stjórnvöldum að skapa atvinnutækifæri. Ein leið í þá átt er að   Íbúðalánasjóður lækki fjárhæð endurbótalána og gefa kost á að ný endurbótalán séu afborgunarlaus í 3 ár svo fremi sem ásættanlegt veðrými sé til staðar.

Það er töluvert af íbúðarhúsnæði sem þarfnast viðhalds. Nú er rétti tíminn til að fara í slíkt viðhald.  Í ástandinu eins og það er nú er ljóst að minna þarf að greiða fyrir vinnulið þar sem iðnaðarmenn sætta sig við lægri laun nú en áður. Þakka fyrir það að hafa verkefni.

Með hverju viðhaldsverkefni er komið í veg fyrir að iðnaðarmenn sem annars kynnu að missa vinnuna og lenda á atvinnuleysisbótum fá dýrmæta vinnu og unnið er að nauðsynlegu viðhaldi sem viðheldur verðgildi húsnæðisins til lengri tíma.

Á sama hátt gætu slík endurbótalán hentað fólki sem misst hefur vinnuna - vonandi tímabundið - en á húseignir sem þarfnast viðhalds og bera aukna veðsetningu.  Í stað þess að hafa ekkert fyrir stafni getur það fólk unnið sjálft að viðhaldi eigin eigna, fær lán er stendur undir kaupum á efni og til að greiða iðnaðarmönnum fyrir verk sem það getur ekki unnið sjálft.  Eigið vinnuframlag gæti dekkað þau 20% kostnaðar sem lántaki þarf að leggja á móti 80% hluta sem endurbótalánið dekkar.

Að sjálfsögðu getur verið ákveðin áhætta fyrir lántakandann og Íbúðalánasjóð ef ekki rætist úr atvinnuástandinu og efnahagsástandinu á 3 árum þegar byrjað verður að greiða af lánunum - en það er áhætta sem er þess virði að taka fyrir flesta - og örugglega fyrir ríkið!

Hvað varðar fasteignalánamarkaðinn, þá er ljóst að hann mun verða hægur á næstu mánuðum. Markaðurinn mun væntanlega braggast örlítið þegar almenn verðlækkun á húsnæði verður að fullu komin fram, fjármagnseigendur fara að veðja á að botninum sé náð og sjá fram á hagnað þegar fasteignaverð fer að hækka að nýju.

PS. Núverandi reglur um afgreiðslu endurbótaláns eru á þann veg að nýju láni meðtöldu mega lán sem hvíla á fyrri veðréttum ekki fara umfram 20 milljónir samtals. Í ljósi ástandsins kæmi vel til greina að hækka þetta hámark - tímabundið -  þegar um er að ræða endurbótalán.


mbl.is Veltan minnkar um 77,8%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frístundakort á frístundaheimili mikilvæg búbót í kreppunni

Það er afar jákvætt í núverandi efnahagsástandi að foreldrar í Reykjavík geti greitt fyrir dvöl barna sinna á frístundaheimilum með frístundakortinu, sem mætti kalla Framsóknarkortið þar sem Framsóknarflokkurinn stóð fyrir innleiðingu þess.

Vinstri grænir í borgarstjórn hafa lagt áherslu á að unnt sé að nota frístundakortin fyrir frístundaheimilin og eiga heiður skilið fyrir legg

Það er gott að borgarráð náði saman um þessa tillögur Vinstri grænna og ber það vott um breytt vinnubrögð í borginni frá því sem áður var. Nú er áhersla lögð á samvinnu og samstarf meirihluta og minnihluta. Á grunni þess hefur náðst betri árangur á flestum sviðum, þó að sjálfsögðu séu ákveðin mál þar sem ágreiningur er það mikill að ekki næst sameiginleg niðurstaða.


mbl.is Hægt að greiða vistun á frístundaheimili með frístundakorti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband