Framtíðin er beint lýðræði innan stjórnmálaflokkanna

Stjórnmálaflokkarnir eiga að vera eðlilegur og handhægur farvegur fyrir allan almenning til þess að taka beinan þátt í stjórnmálum þegar og ef fólk vill. Nútímafólk vill geta haft bein áhrif á ákvarðanatöku í stjórnmálum um þau atriði sem hjarta þeirra stendur næst.

Núverandi fyrirkomulag fulltrúalýðræðis, þar sem almennir flokksmenn kjósa takmarkaðan fjölda fulltrúa á flokksþing eða landsfundi og fulltrúa í ýmiskonar fulltrúaráð og flokksþing kjósa formenn, varaformenn og ritara, framkvæmdastjórnir og ýmsar nefnir, er gamaldags og úrelt.

Að sjálfsögðu eiga allir skráðir meðlimir stjórnmálaflokka að hafa rétt til setu á flokksþingum og landsfundum með fullan atkvæðisrétt.

Að sjálfsögðu eiga allir meðlimir stjórnmálaflokka að kjósa formenn, varaformenn og hinar ýmsu stjórnir stjórnmálaflokkanna.

Að sjálfsögðu eiga allir meðlimir flokkana að geta haft bein áhrif á stefnumótun stjórnmálaflokkanna hverju sinni með möguleikanum á beinni aðild og atkvæðisrétti.

Það er engin ástæða í nútíma samfélagið að flækja lýðræðið um of. Það á að vera beint.

Það er mjög einfalt að gefa öllum skráðum flokksmönnum stjórnmálaflokkanna kost á að greiða atkvæði í formannskjöri á rafrænan hátt  - hvar sem þeir búa á landinu!  Þeir þurfa ekki að mæta til Reykjavíkur til þess.

Á sama hátt er mjög einfalt fyrir forystu stjórnmálaflokka að leggja tillögur að stórum stefnumálum sem upp koma á milli landsfunda og flokksþinga beint fyrir alla almenna flokksmenn.  Það er unnt að ganga frá atkvæðagreiðslum um slíkar tillögur í rafrænum kosningum gegnum netið.

Halló!

Við erum ekki lengur á 19. öldinni.

Við erum á þeirri 21.  Við eigum að nota 21. aldar tæknina til þess að auka beint lýðræði og gefa almenningi kost á að hafa bein áhrif á stjórnmálin gegnum stjórnmálaflokkana sem eru eðlilegur farvegur og vettvangur fyrir stjórnmálaþátttöku.

Ég vona að Framsókn nýrra tíma taki skref í þessa átt!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er sammála þessu og vona að allir flokkar taki þetta skref.  Flokksmenn eiga ekki þurfa að fara í gegnum einhverjar síur til að komast á aðalfundi flokkanna.  Rafrænt flokksskírteini handa meðlimum og allir geta mætt á fund.

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 16:54

2 Smámynd: Skaz

Góð hugmynd. En afhverju ekki að færa þetta aðeins lengra og leyfa öllum í landinu að kjósa hvern sem það vill í staðinn fyrir einhverja flokkskálfa sem valdir eru af einhverjum í flokkum?

Flokkakerfið er með öllu úrelt og er farið að sýna merki þess að hafa breyst úr stjórnmálaflokkum í hagsmunasamtök þeirra sem þau styðja. Og eru ekkert að auglýsa svo hverjir það eru sem styðja þessa flokka.

Skaz, 6.1.2009 kl. 18:11

4 identicon

Prófaðu að hugsa út fyrir "flokk". Aðeins brot landsmanna tilheyra stjórnmálaflokkunum. Flokkarnir eru "tómar skeljar", eins og Jón Ormur Halldórsson lýsti þeim.

Rómverji (IP-tala skráð) 6.1.2009 kl. 22:54

5 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Við skulum ganga hægt um gleðinnar dyr í þessu það er oft stutt á milli frelsi og ringulreiðar það er ekki holt að fólk gangi í flokka fyrir prófkjör og fari síðan í annan flokk og kjósi þar eins er með formannskjör væri um rafræna kosningu að ræða eða póstkosningu þá ætti að loka á þá sem taka mega þátt í kosningunni áður en framboðsfrestur rennur út þannig að ef ég ætla að bjóða mig fram og fæ vini og vandamenn úr öllum flokkum til að kjósa mig er kannski ekki vinsæll í flokknum hef sýnt það að ég er ekki maður til að leiða flokk. Er það góður kostur fyrir frekar fámennan flokk að aðrir flokkar velji formann fyrir minn flokk nei aldrei fyrir utan að hafi frambjóðandi aðgang að miklum fjármunum er honum flestri vegir færir og hverjum er hann þá háður sem formaður? þetta leiðir til spillingar og ég hef trú á að það sé hluti af því sem Samfylkingin er að kljást við núna hver greiddi kosninga baráttu formanns og þess sem hún keppti við, er nokkur baugur í kringum það ég veit það ekki en það er margt sem er ekki eins og það á að vera á tímum eins og nú eru hér á landi.

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 6.1.2009 kl. 22:59

6 Smámynd: Benedikt Bjarnason

Athyglisverðar tillögur sem vert er að skoða nánar. Fljótt á litið sé ég ekki að þetta gangi alveg upp hjá þér. Best að taka hvern lið fyrir sig.

Þú villt að allir skráðir meðlimir stjórnmálaflokka hafi rétt til setu á flokksþingum, o.s.frv. Ég er ekki viss um að það gengi upp. Í „stóru“ flokkunum er mikill fjöldi skráðra félagsmanna. Ekki veit ég hve margir eru t.d. skráðir í Sjálfstæðisflokkinn eða Samfylkinguna. Þó svo að ekki myndu allir skráðir flokksmenn mæta á landsfund þá yrði þarna um mikinn fjölda að ræða. Svona fundir yrðu mjög fyrirferðarmiklir. Á svona margmönnum fundi yrði erfitt að halda uppi dagskrá, margir sem vildu tjá sig og allt einhvernvegin þyngra í framkvæmd.

Hins vegar má vel skoða, að hver og einn flokksfélagi geti kosið í æðstu stöður flokksins, slíkt er auðvitað hægt að gera með rafrænni kosningu. 

 Ég starfaði í verkalýðsfélagi um tíma. Þar eiga allir félagsmenn kost á að mæta á aðalfund og kjósa sér stjórn og í þær nefndir og ráð sem lög félagsins mæla til um. Ein nefndin heitir uppstillingarnefnd og er hennar hlutverk að stilla upp í nefndir, ráð og stjórn fyrir næsta aðalfund. Fer ekki nánar út í fyrirkomulag á þessu, en þarna hafa allir félagsmenn (þ.e þeir sem mæta á fundinn) atkvæðarétt.

 Verkalýðsfélagið sem ég er í er aðili að Samiðn, og þarf að senda menn á þing Samiðnar. Þá eru það félagsmenn á aðalfundi sem tilnefna þann fjölda manna sem sækja mega þingið. Ég fór einu sinni á þing Samiðnar og ég get ekki séð að hægt hefði verið að halda slíkt þing með öllum félagsmönnum stéttarfélagana. Þó svo að vitanlega hefðu ekki nema fáir mætt frá hverju félagi, og ekki í neinu samræmi við fjölda félagsmanna í hverju stéttarfélagi.

Veit vel að þetta er ekki sambærilegt að öllu leyti en örugglega að hluta til.

Ég geri mér alveg grein fyrir því, hvað þú ert að tala um. Þessi hugmynd um að allir hafi sama rétt er eins lýðræðisleg eins og hún getur verið, og er því góð. En hún er ekki gallalaus vegna þeirra annmarka að hún er illframkvæmanleg að sumu leyti, að mér finnst.

Hinn almenni flokksmaður hlýtur að hafa möguleika á að leggja fyrir flokksþing eða landsþing breytingartillögur. Annað er óhugsandi. Þó svo að þær tillögur kæmu ekki til framkvæmda fyrr en á næsta landsfundi.

Benedikt Bjarnason, 7.1.2009 kl. 00:28

7 identicon

Hallur!

 Hleyptir þú upp fundinum í gærkveldi?

Hvað er að gerast í þessum volaða flokki?

Stöðugir hnífabardagar, gamla settið alveg brjálað yfir því að það komu nýjir félagar í flokkinn.

Hvaða formannsefni styður þú? Skil það vel ef þú getur ekki gefið það upp. Þá veit ég að þú átt eftir að semja um það, eins frömmurum er einum lagið. Það hefur ríkt mikil hljóð um það hjá þér hvern þú ætlar að styðja.

Höður Már Karlsson (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 07:37

8 Smámynd: Skaz

Fékk náttúrulega hugmynd. Við erum ein tölvuvæddasta og rafvæddasta þjóð í heimi ekki satt? Við stærum okkur af því að vera framsækin, nýjungagjörn en jafnframt að passa upp á menningararfinn.

Hvernig væri nú að við förum aðeins að sækja fram á veg. Beint íbúalýðræði? Svipað og er í Sviss og hefur reynst nokkuð vel í guð má vita hvað margar aldir...

Þar kýs fólkið um meiriháttar tillögur í stað þess að láta pólitíkusa ákveða hvort það henti flokkstrúnni. Fólkið ákveður beint hver stefna landsins skal vera og hvað það vill. 

Þá fara menn að væla yfir kostnaði hér vegna sífelldra kosninga um hitt og þetta málefni sem fólk veit ekkert um og ég held að ég hafi heyrt einu sinni Sjálfstæðismann kalla kosningar "of pólitískar" hvað sem hann meinti með þeim gáfulegu orðum.

Það hefur alltaf sýnt sig að fólk sýnir hjarðhneigð, fólk eltir hjörðina jafnvel þó að hjörðin geri heimskulega hluti. En einstaklingurinn hefur alltaf þótt nokkuð skarpur. Þegar fólk fær frið og reiðir sig á sjálfan sig kemst það merkilega oftast að gáfulegri niðurstöðu. Og svo er það auðvitað kostnaðurinn...ein spurning, treystið þið heimabönkunum ykkar? Ef ekki, afhverju eruð þið að nota þá? Heimabankar eru nú þegar taldir vera "öruggir" að því leyti að við notum þá í öllum gjörningum með peninga. Af hverju ætti þá fólk ekki að geta kosið í gegnum heimabankann sinn?

Svona, ég er kominn hér með línurnar að beinu íbúalýðræði, nú skulið þið koma þessu í framkvæmd...

Skaz, 7.1.2009 kl. 07:42

9 Smámynd: Hallur Magnússon

Hörður Már!

Ekki veit ég hvort það var ég sem hleypti upp fundinum.  Veit þó að mitt nafn var ekki á nýja listanum - einhverra hluta vegna.

Hvað varðar formannskjörið - þá er þetta allt flottir karlmenn sem hafa ýmislegt fram að færa. Hvern finnst ´þér að ég ætti að kjósa?

Hallur Magnússon, 8.1.2009 kl. 12:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband