Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Hvaða ráðherra "hótaði" stjórnsýslufræðingnum?

Hvaða ráðherra ætli hafi "hótað" stjórnsýslufræðingnum Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur sem staðhæfði á borgarafundi í Háskólabíói gær að hún hefði fengið boð frá ónefndum ráðherra um  að hún ætti að tala varlega á fundinum.

Svo sérkennilega vill til að stjórnsýslufræðingurinn vill ekki segja hvaða ráðherra var að "hóta" henni. Því liggur öll ríkisstjórnin undir grun!

Persónulega finnst mér hálf lúalegt - og dulítið í takt við seðlabankastjórann - að segja ekki beint út hvaða ráðherra vildi múlbinda hana. Held að þjóðin eigi rétt að fá að vita það.

En mér finnst uppákoman dálítið skemmtilegt - og sé fyrir mér alla ríkisstjórnina engjast á sakbendingarbekk - og setti því upp skoðanakönnum þar sem spurt er "Hvaða ráðherra "hótaði" stjórnsýslufræðingnum?

Endilega takið þátt í þessum pólitíska samkvæmisleik!

 


mbl.is Guðlaugur kemur af fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar afrek á erfiðum tímum

Ætli fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna ársins 2009 þar sem gert er ráð fyrir tekjuafgangi, þrátt fyrir að grunnþjónusta borgarinnar er varin, gjaldskrár eru ekki hækkaðar og útsvar ekki hækkað, virðist nánast afrek í ljósi aðstæðna.  Þá var nokkuð góð pólitísk sátt um meginatriði fjárhagsáætlunarinnar!

Þessi árangur náðist vegna breyttra vinnubragða í borginni sem byggja á samvinnu, en Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn sem mynda meirihluta í borgarstjórn kölluðu strax í haust Vinstri græna og  Samfylkingu að borðinu til að vinna sameiginlega aðgerðaráætlun borgarinnar vegna fyrirsjáanlegra erfiðleika í efnahagslífinu.

Vinstri grænir og Samfylking sýndu ábyrgð og svöruðu kallinu, tóku þátt í samvinnu við gerð aðgerðaráætlunar og í framhaldinu við gerð fjárhagsáætlunar á grunni þeirrar samvinnuhugsjónar sem Framsókn og Sjálfstæðisflokkur lögðu til grundvallar.

Að vísu guggnuðu minnihlutaflokkarnir á því að greiða fjárhagsáætluninni atkvæði sitt og kusu að sitja hjá, enda stundum dálítið ábyrgðarfælnir, en þrátt fyrir það tryggði samvinnan innan borgarstjórnar fjárhagsáætlun sem er nánast afrek við núverandi aðstæður.

En því miður er fjöldi sveitarfélaga sem ekki ná endum saman eins og Reykjavíkurborg.

Lausnin á því er að stækka sveitarfélögin verulega, fjölga verkefnum þeirra og láta skatttekjurnar renna beint til þeirra - en þau greiði síðan útsvar til ríkissins vegna sameiginlegrar þjónustu.

Sjá nánar:

Heilbrigðisstofnanasvæðin eðlileg stærð framtíðarsveitarfélaga

Þapð


mbl.is Áhyggjur af greiðsluþroti sveitarfélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðkjörið stjórnlagaþing móti stjórnskipan framtíðarinnar

Íslenska þjóðin á að kjósa sér stjórnlagaþing sem endurskoði stjórnarskránna og geri tillögu um stjórnskipan framtíðarinnar. Tillögu sem síðan verði lögð fyrir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Á stjórnlagaþinginu sitji ekki alþingismenn né ráðherrar - heldur fulltrúar sem kjörnir eru beint af íslensku þjóðinni.

Hugmyndin um þjóðkjörið stjórnlagaþing hefur lengi verið til umræðu í "gufuklúbbnum" mínum og löngu ljóst meðal þeirra sem þar sitja að brýn þörf sé á slíkri stjórnlagaþingsvinnu á þingi sem sæki umboð sitt beint til þjóðarinnar.

Þá er jafn ljóst að stjórnarskránna þarf að endurskoða.

Sú endurskoðun þarf að klárast og tillaga lögð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Sagan sýnir að endurskoðun stjórnarskrárinnar á vegum Alþingis gengur ekki upp. Þar næst sjaldan heildstæð niðurstaða um tillögu vegna flokkspólitískra hagsmuna.  Því er ástæða til þess að kjósa sérstakt stjórnlagaþing til að sjá um verkið, enda miklu eðlilegra að þjóðin velji sér beint fulltrúa til að sjá um endurskoðun stjórnarskrár og leggja línurnar fyrir stjórnskipan framtíðar.

Það hefur verið þörf á slíkri endurskoðun um nokkurt skeið.  

En núverandi ástand, þar sem orðið hefur kerfishrun, ráðherraræði ríkisstjórnar náð nýjum víddum og niðurlæging Alþingis gagnvart framkvæmdavaldinu aldrei verið meiri, þá er stjórnlagaþing kosið beint af þjóðinni orðið algjör nauðsyn.


Norskir Framsóknarmenn vilja Ísland utan ESB

Norskir Framsóknarmenn vilja Ísland utan Evrópusambandsins og hafa nokkrir vinir okkar í norska Miðflokknum skellt sér yfir Atlantsála til að hvetja Framsóknarmenn að hafna aðild að ESB á komandi  flokksþingi.

Ég á marga vini í norska Miðflokknum. Þeir hafa margt gott lagt til málanna, en ég held ég verði að vera þeim ósammála í þessari baráttu. Að sjálfsögðu á að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið með skýr og klár markmið. Þegar niðurstaða liggur fyrir getum við - íslenska þjóðin - tekið afstöðu líkt og sú norska hefur gert í tvígang.

Og að sjálfsögðu er farsælat að Framsóknarmenn leiði slíkar viðræður!


mbl.is Sagðir beita sér gegn ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gazalegur ágreiningur í ríkisstjórn

Það virðist ríkja Gazalegur ágreiningur í ríkisstjórn. Líklega minnst í málefnum Palestínu. Hver ætli afstaða Samfylkingarinnar sé gagnvart ákvörðun heilbrigðisráðherra um St. Jóhannesarspítala?

Við vitum að varaformaður Sjálfstæðisflokksins hefur sagt að heilbrigðisráðherrann hafi gert mistök. Allavega glittir í ágreining milli flokkssystkinanna þar!

... og hvað með Evrópumálin?

 


mbl.is Ekki ágreiningur í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað á þjóðin að kjósa um aðild að ESB

Auðvitað á þjóðin að kjósa um aðilda að ESB. Hefur einhverjum dottið annað í hug.

Reyndar er skandall að það sé ekki fyrir löngu búið að skilgreina klár og skýr samningsmarkmið í mögulegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

Slóðaháttur Sjálfstæðisflokksins er ein ástæða þess - vingulsháttur Samfylkingar annar.


mbl.is Þjóðin á að kjósa um aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur á leið í kosningar

Össur Skarphéðinsson er á leið í kosningar ef marka blogfærslu hans Alphabylgjur og kosningaskjálfti

"...Iðnaðarráðherra var með sterkar alphabylgur, og því stresslaus. Það vakti hins vegar athygli Kristins að mælingin sýndi merkilegt frávik, sem hann hafði ekki séð áður. Yfir þessu lá eðlisfræðingurinn drykklanga stund. Síðan leit hann upp með glampa snillingsins í augum, og lagði fram greiningu sína, sem kann að hafa pólitíska þýðingu:

Heilabylgjumæling Mentis Cura á iðnaðarráðherra sýndi svo ekki varð um villst að það er kominn í hann kosningaskjálfti!"

Það veit á gott að Össur er á leið í kosningar. Íslendingar þurfa á því að halda - og það er alveg jafnljóst að við þurfum á ríkisstjórn að halda - því ekki ráða Össur og félagar við ástandið - sem að hluta til er til komið vegna vitleysisgangis ríkisstjórnarinnar á undanförnum mánuðum.

Nema Össur sé að undirbúa formannskosningar í Samfylkingunni!


Ísraelar verða að hætta barnadrápum og mögulegum stríðsglæpum

Ísraelar verða að hætta barnadrápum sem þeir sannarlega hafa stundað að undanförnu sem og stríðsglæpum og mannréttindabrotum sem þeir kunna að hafa framið að undanförnu.  Alþjóðasamfélagið verður að kanna hvor fótur er fyrir ásökunum um að Ísraelar beit fosfór í árásum í hinu þéttbýla Gaza og hvort Ísraelar hafa smalað tugum fólks inn í hús og sprengt það síðan í loft upp.

Ef Ísraelar halda áfram á þeirri braut sem þeir hafa verið undanfarnar vikur - þá endar það með því að þjóðir heims munu snúa baki við Ísraelum. Það má ekki gerast - því að sjálfsögðu eiga Ísraelar tilverurétt í sjálfstæðu ríkis eins og Palestínumenn eiga þann sama rétt.

Það er ekki hægt að skýla sér á bak við óhæfuverk Hamas þegar börn eru drepin í hundraðatali.

Þessu verður að linna.

Óverjandi ofbeldi Ísraela kosta börnin lífið!

Ísraelar ætluðu alltaf að ráðast á Gaza þrátt fyrir vopnahlé við Hamas

Dráp á palestínskum börnum móðgun við minningu myrtra gyðingabarna


mbl.is Fosfórský á Gasasvæðinu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarmenn sækja að Guðlaugi Þór - en ég er samt ánægður með hann!

"Framsóknarmenn kalla eftir haldbærum skýringum frá ráðherra og fallast ekki á loðin svör hans um mögulegan sparnað með lokun spítalans. Framsóknarmenn í Hafnarfirði styðja starfsfólk St.Jósefsspítala, sjúklinga og aðra sem bera hag spítalans fyrir brjósti í baráttu sinni fyrir því að honum verði ekki lokað. Stöndum vörð um St. Jósefsspítala og látum ákall frá borgarafundinum hljóma svo hátt að ráðherrann heyri til"

 Svo hljóðar samþykkt Framsóknarfélaganna í Hafnarfirði. Ég skil vel áhyggjur þeirra - enda finn ég Gaflarablóðið kalla á mig í að berjast fyrir hagsmunum Hafnfirðinga!

Engu að síður er ég ánægður með meginatriði Guðlaugs Þórs sem hefur tekið djarft - og að mínu mati farsælt skref - með því að skipta landinu upp í einungis 6 heilbrigðisstofnanasvæði.

Ég er þess fullviss að í því felast sóknartækifæri.

Undirstrika þó það sem ég hef sagt: Guðlaugur Þór sýnir kjark og áræði

Undirstrika þó það sem ég hef einnig sagt:

"En þótt mikil breyting felist í þessum róttæku breytingum sem og öðrum breytingum sem heilbrigðisráðherra hefur boðað, þá fer fyrst að reyna á ráðherrann í framhaldinu.

Það skiptir nefnilega öllu máli hvernig unnið verður úr þeim ramma sem settur hefur verið og hvernig unnið verði úr þeim tillögum um breytingar sem samhliða voru kynntar á starfsemi ýmissa sjúkrastofnanna.

Það verður úrvinnsluferlið og endanleg útfærsla sem skiptir mál. Þessi aðgerð getur endað með ósköpum ef ekki er vel haldið á málum og ekki tekið tillit til aðstæðna á hverjum stað fyrir sig. En þessi róttæka breyting getur einnig orðið til þess að auka hagkvæmni og bæta heilbrigðiskerfið í heild til lengri tíma litið.

Tíminn mun leiða í ljós hvort ráðherrann ræður við verkefnið eða hvort það verði banabiti hans sem stjórnmálamanns."

Það hvernig ráðherrann nær lendingu í St.Jó. mun ráða miklu um framhaldið.

Vil taka sérstaklega fram að margir Framsóknarmenn hafa haft við mig samband og hundskammað mig fyrir þessa afstöðu. Ég met það mikils. En mér finnst þetta samt.

 


mbl.is Skorað á Hafnfirðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðlaugur Þór sýnir kjark og áræði

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra sýnir mikinn kjark og áræði með þeim róttæku skipulagsbreytingum sem hann hefur boðað og felast í að skipta Íslandi upp i 6 stjórnsýsluleg heilbrigðisstofnanasvæði.  Í þessum breytingum felast mikil tækifæri.

Það væri betur að fleiri ráðherrar ríkisstjórnarinnar sýndu sambærilegan kjark og áræði og væru tilbúnir að taka slag sem fyrirfram er ljóst að verður harður. Við stæðum þá væntanlega betur í dag sem þjóð.

En þótt mikil breyting felist í þessum róttæku breytingum sem og öðrum breytingum sem heilbrigðisráðherra hefur boðað, þá fer fyrst að reyna á ráðherrann í framhaldinu.

Það skiptir nefnilega öllu máli hvernig unnið verður úr þeim ramma sem settur hefur verið og hvernig unnið verði úr þeim tillögum um breytingar sem samhliða voru kynntar á starfsemi ýmissa sjúkrastofnanna.

Það verður úrvinnsluferlið og endanleg útfærsla sem skiptir mál. Þessi aðgerð getur endað með ósköpum ef ekki er vel haldið á málum og ekki tekið tillit til aðstæðna á hverjum stað fyrir sig. En þessi róttæka breyting getur einnig orðið til þess að auka hagkvæmni og bæta heilbrigðiskerfið í heild til lengri tíma litið.

Tíminn mun leiða í ljós hvort ráðherrann ræður við verkefnið eða hvort það verði banabiti hans sem stjórnmálamanns.

Sjá einnig:

Heilbrigðisstofnanasvæðin eðlileg stærð framtíðarsveitarfélaga

Athyglisverðar skipulagsbreytingar heilbrigðisráðherra


mbl.is Ógnar ekki öryggi sjúklinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband