Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Óvissu eytt á vinalegum fundi Davíðs og ungs framsóknarfólks?

Davíð Oddsson seðlabankastjóri fær tækifæri til að eða óvissunni ef hann þekkist elskulegt boð ungra framsóknarmanna um að mæta á opið hús í höfuðstöðvum Framsóknarflokksins við Hverfisgötu næsta laugardag en ungt Framsóknarfólk hefur boðið Davíð sérstaklega með eftirfarandi bréfi:

 

Reykjavík, 20. Nóvember 2008

 

Seðlabanki Íslands

b/t Davíð Oddsson

Kalkofnsvegi 1

101 Reykjavík

  

Kæri Davíð

 

Þú þekkir okkur sennilega ekki, en okkur finnst við sannarlega þekkja þig. Þú hefur verið fjölskylduvinur hjá okkur flestum síðan fyrir fermingu og við vöndumst því að hlusta á þig tala og hlæja og okkur finnst alltaf jafn heimilislegt þegar þú birtist heima hjá okkur. Um tíma óttuðumst við að það yrði minna um heimsóknir frá þér vegna þess að þú fékkst sjálfum þér nýja vinnu. En viti menn, þú varst samt alltaf til í að kíkja við hjá okkur með eitthvað nýtt og spennandi í pokahorninu, nýja stýrivexti, óreiðumenn eða annað skemmtilegt.

 

Okkur langar endilega til að bjóða þér í mat. Það kreppir nú að vísu að hjá okkur, en aldrei svo að við getum ekki boðið vinum okkar í mat og átt skemmtilegt spjall. Það er bara svo margt að skrafa.

 

Við heyrðum þig nefnilega segja svo merkilega hluti á þriðjudaginn. Þú sagðir okkur frá því hvernig þú hefðir nú séð þetta allt saman fyrir og reynt að vara alla við. Hvernig stendur á því að enginn hlustaði á þig? Eða, hvernig stendur þá á því að í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika, sem kom út í maí, er ekki gerð grein fyrir þeirri stórhættu sem þú varst búinn að sjá. Hlustaði kannski enginn í Seðlabankanum á þig heldur? Við könnumst við þetta. Það er heldur ekkert oft hlustað á okkur Framsóknarmenn. En, hvað með vin þinn, Geir? Af hverju trúði hann þér ekki? Þú getur trúað okkur fyrir þessu, við skulum ekkert fara lengra með það. Við kjöftum ekki frá vinum okkar.

 

Annað sem við getum rætt er þetta með Bretana. Við urðum rosalega spennt þegar þú sagðist vita hvers vegna Bretarnir hefðu notað hryðjuverkalög á okkur Íslendinga. Urðum síðan pínu skúffuð þegar þú vildir ekki segja af hverju. Við þekkjum nefnilega fólk, nánar tiltekið 80.385 karla og konur, sem eru svo reið út af þessum prakkaraskap í Gordon Brown að þau skrifuðu sig á heimasíðu til að segja honum að við séum ekki hryðjuverkamenn. Þau langar örugglega öll að vita af hverju Gordon gerði þetta. Við vitum reyndar að svona merkilegir menn eins og þú vita fullt af hlutum sem venjulegt fólk má ekki vita. En þá var nú soldið ljótt af þér að segja okkur að þú vissir. Varstu kannski að monta þig?

 

Best fannst okkur samt að heyra að þú ætlar sko ekki að sitja sem bankastjóri ef í ljós kemur að þú hefur ekki staðið þig. Það er gott að vita að þú lætur þér ekki detta í hug að vera áfram bankastjóri ef sú staða kemur upp að enginn vill hafa þig. Það er karakter.

 

Það er svo margt, margt fleira sem þú sagðir í á þriðjudaginn sem okkur langar til að ræða við þig. Svo endilega láttu okkur vita hvenær þú getur kíkt við. Við verðum með opið hús fyrir þig og aðra áhugasama á Hverfisgötu 33 frá kl. 12 til 14 laugardaginn 22. nóvember nk. Fátt er betra en grjónagrautur og slátur í hádeginu.

  

Kær kveðja,

Ungir framsóknarmenn

 


mbl.is Mikil óvissa um Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni Harðar og Bændaflokkurinn hinn þriðji!

Það er vel við hæfi að vinur minn -  þjóðfræðingurinn og fornbókasalinn Bjarni Harðarson – skuli nú vera í farabroddi í að endurreisa Bændaflokkinn hinn þriðja!  En eins og allir vita þá var Bændaflokkurinn hinn síðari – sem nú verður bráðum hinn annar – stofnaður af flokksbroti úr Framsóknarflokknum árið 1933.

Ástæða þess að flokksbrotið – tveir þingmenn-  yfirgaf Framsóknaflokkinn á sínum tíma var sú að þeir vildu ekki nýja ríkisstjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks.

Það kom þó ekki í veg fyrir eina merkilegustu stjórn 20. aldarinnar – stjórn hinna vinnandi stétta – samvinnustjórn umbótaflokkanna eins og Tíminn kallaði þá - Framsóknarflokks og Alþýðuflokks – en sú stjórn tók við eftir kjördæmabreytingu og  kosningar árið 1934.

Það var einmitt á þessum tímamótum sem unga kynslóðin tók við Framsóknarflokknum – Hermann Jónasson 37 ára sem varð forsætisráðherra og Eysteinn Jónsson 27 ára sem varð fjármálaráðherra – og með þeim í stjórn hinna vinnandi stétta - Alþýðuflokksmaðurinn Haraldur Guðmundsson 42 ára sem varð atvinnumálaráðherra.

Tryggvi Þórhallsson sem sagði skilið við Framsóknarflokkinn og stofnað Bændaflokkinn féll fyrir Hermanni Jónassyni í Strandasýslu!

Reyndar skilaði sér einn af þremur þingmönnum Bændaflokksins sér til Framsóknarflokksins aftur – sýslumaður Árnesinga Magnús Torfason. Þannig það er ekki útséð um það að Árnesingurinn Bjarni Harðarson skili sér heim á ný – kjósi hann að stofna Bændaflokkinn hinn þriðja.

Bændaflokkurinn hinn síðari bauð síðar fram árið 1937 í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn – en þá undir nafninu Breiðfylkingin! Það gekk ekki ýkja vel!

Nú er Bjarni að særa gamlan pólítíska draug úr gröf sögunnar – og telur sig geta náð betri árangri en fyrirmyndin – sem náði þremur mönnum á þing árið 1934.

Bændaflokkurinn hinn fyrri var stofnaður af þingmönnum úr bændastétt árið 1912. Hluti þess Bændaflokks gekk til liðs við Framsóknarflokkinn eftir að Bændaflokkurinn leið undir lok árið 1916.

Ég óska Bjarna vini mínum Harðarsyni velfarnaðar í hinum nýja Bændaflokki – Bændaflokknum hinum þriðja – velji hann að ganga þá götu í stað þess að vinna áfram innan Framsókanrflokksins – þar sem hann er að mínu mati nauðsynleg rödd minnihlutahóps innan flokksins – sem ber að taka tillit til.

En ef Bjarni kýs að halda á brott og stofna nýjan Bændaflokk með broti úr Framsóknarflokknum og nokkrum Sjálfstæðismönnum – þá vil ég benda honum á bút úr stefnuskrá Bændaflokksins hins síðari sem hugsanlega er unnt að endurnýja:

“Telur flokkurinn að landbúnaðurinn eigi að vera þungamiðja þjóðlífsins. Í samræmi við þennan tilgang vill flokkurinn sameina bændur landsins til sveita og við sjó og aðra, sem aðhyllast stefnu flokksins, til sameiginlegarar baráttu.”

Spái því að Barni og Bændaflokkurinn muni - eins og Bændaflokkurinn hinn síðari - nái tveimur þingmönnum - en forystumaðurinn Bjarni falli líkt og Tryggvi á sínum tíma - því nú hafa afar tvær ungar og öflugar Framsóknarkonur tekið sæti sem þingmenn Framsóknarflokksins á Suðurlandi - konur sem ég er ekki viss um að sunnlendingar vilji skipta úr fyrir Bjarna - þótt Bjarni ætti náttúrlega að vera á þingi - skemmtilegur málafylgjumaður með skoðanir sem eiga fullan rétt á sér!


Ingibjörg Sólrún og þingflokkur Sjálfstæðisflokks lengir í líflínu Davíðs!

Það var á allra vitorði að samkomlag hefði náðst milli Geirs Haarde og Samfylkingarinnar um að strax yrði lagt fram frumvarp um sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins - að tillögu Davíðs Oddssonar! 

Á spítunni hékk að við sameininguna hyrfi Davíð úr Seðlabankanum og nýr Seðlabankastjóri tæki við - hugsanlega einungis einn - Már Guðmundsson.

Nú virðist þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafa svelgst á þessu plotti - og stuðningsmenn Davíðs fengið því fram að líflína hans verði lengd. Kannske verður Davíð ofan á enn einu sinni! Ef svo verður mun það veikja stöðu Geirs.

Það er ljóst hvernig sem fer að það fer að styttast í formannsskipti í Sjálfstæðisflokknum. Nöfn Þorgerðar Katrínar, Illuga Gunnarssonar og Bjarna Benediktssonar hafa fyrst og fremst verið nefnd í því efni.

Spái því hins vegar að þegar þar að kemur verði það Guðlaugur Þórðarson heilbrigðisráðherra sem muni hafa slaginn - enda best til þess hæfur - búinn að standa sig lang best af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins.

PS: 

Nú hefur Ingibjörg Sólrún ákveðið að hugsa fyrst og fremst um ráðherrastólinn sinn - og dregið í land hvað varðar atlöguna að Davíð Oddssyni - eftir að Sjálfstæðisflokkurinn vildi lengja í líflínu Davíðs. Voða Samfylkingarlegt!


mbl.is Hugmynd forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baldur Guðlaugsson á að taka sér leyfi frá störfum!

Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins liggur undir grun um að hafa misnotað aðstöðu sína sem innherji þegar hann seldi hlutabréf sín í Landsbankanum í kjölfar fundar sem hann sat með viðskiptamálaráðherra Breta um vanda Landsbankans.

Ég geri ráð fyrir því að á þeim fundi hafi ekki komið fram upplýsingar um Landsbankann sem Baldur hafi misnotað og brotið þannig lög um innherjaviðskipti. Enda væri slíkt grafalvarlegt hjá ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins.

Ég geri einnig ráð fyrir að Baldur hafi ekki fengið upplýsingar um erfiða stöðu bankanna frá Davíð Oddssyni félaga sínum, en eins og Davíð skýrði frá í gær vissi hann allt um erfiða stöðu bankanna allt frá því í febrúar á síðasta ári og segist haf sagt ríkisstjórninni frá því.

Reyndar ef rétt er hjá Davíð þá eru líkur á því að fjármálaráðherra og ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins hafi vitað af því. 

En hvernig sem málið er vaxið - þá á Baldur Guðlaugsson að taka sér leyfi frá störfum meðan Fjármálaeftirlitið kannar hvort ásakanir á honum eru réttar. Annað er ótrúðverðugt og slíkur ótrúverðugleiki í fjármálaráðuneytinu er ekki það sem við þurfum við núverandi aðstæður.


mbl.is Ráðuneytisstjóri hugsanlega innherji
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarastyrjöld er hafin í Sjálfstæðisflokknum!

Borgarstyrjöld er hafin í Sjálfstæðisflokknum. Davíð Odddsson er búinn að rjúfa þau grið sem voru milli hans og Geirs Haarde. Væntanlega er Davíð að hefja ESB orrustuna - sem útkljáð verður á flýttum landsfundi íhaldsins.

Hætt er við að borgarstyrjöld þessi verði afar blóðug. 

Ólíkt skærum innan Framsóknarflokks sem fyrst og fremst byggja á eðlilegum og nauðsynlegum kynslóðaskiptum þar sem markmiðið er breið og samstæð flokksforysta hjá Nýrri Framsókn - þar sem forystan mun endurspegla helstu sjónarmið Framsóknarmanna - þá er borgarastyrjöld Sjálfstæðisflokksins harðvítugt stríð milli mismundandi fylkinga innan flokksins. Fylkinga sem beðið hafa vígbúnar í skotgröfunum um langt árabil.

Davíð Oddsson er öflugur vígamaður og veit að sókn er besta vörnin. Þess vegna kýs hann að verða fyrri til - bæði með harkalegri árás á andstæðing sinn Geir Haarde - og hins vegar með því að fara fram á rannsókn á sjálfum sér - rannsókn sem Davíð vissi að var í tundurskeytarennum andstæðinga hans innan ríkisstjórnarinnar!

Þá var betra að hafa frumkvæðið sjálfur - og slá sig til riddara í stríðsfréttaskeytunum - en að láta aðra strípa sig stríðsorðunum með því að hafa forgöngu um slíka rannsókn.

Það verður ekki af Davíð Oddssyni tekið að hann er mikill stríðsmaður - og heggur ótt og títt á báða bóga þegar hann kemst í færi við andskota sína. Hvort sem þeir eru í hans eigin flokki eða öðrum.

Davíð klikkar ekki sem fréttamatur - þótt hann neiti að verða byssufóður fyrir andstæðinga sína!

 


mbl.is Fréttaskýring: Vígreif varnarræða seðlabankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Seðlabankinn efnahagsleg hryðjuverkasamtök?

Gordon Brown forsætisráðherra Bretlands taldi Seðlabankann greinilega efnahagsleg hryðjuverkasamtök. Er það ekki heldur langt seilst þótt Seðlabankinn hafi gert nánast allt rangt frá því 2003?
mbl.is Seðlabanki á hryðjuverkalista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Munu raunverulegir sökudólgar taka ábyrgð - eða einungis Guðni sem minnsta ábyrgð ber!

Guðni Ágústsson er heiðarlegur maður. Hann hefur nú staðið upp og tekið fyrir sitt leyti ábyrgð á mögulegum þætti Framsóknarflokksins í núverandi efnahagsástandi. Það vita hins vegar allir að Guðni Ágústsson á minnstan - ef nokkurn þátt í núverandi stöðu. Spjótin standa því að þeim sem raunverulega bera ábyrgð.

Þar get ég nefnt nokkur nöfn. Væntanlega eru þau fleiri. Davíð Oddsson, Geir Haarde, Árni Matthiesen, Ingibjörg Sólrún, Björgvin G.

Þetta fólk er núna að éta ofan í sig eigin "prinsipp" í IceSave málinu - sem undirstrikar að það er lítið um slík "prinsipp" í þeirra flokkum.

Þetta fólk hefði kannske átt að segja af sér vegna þess hlutar í núverandi ástandi frekar en Guðni. Guðni hefur hins vegar tekið ábyrgð. Af heiðarleika.

Efast um að þetta fólk séu menn til þess að taka slíka ábyrgð. Það elskar fyrst og fremst stólana sína.

Minni á að ég hvatti Guðna Ágústsson til þess að standa upp. En ekki einsömulum. Það leysir engin mál. Ég hvatti Guðna, Valgerði, Siv og Magnús að standa upp og taka þannig ábyrgð á mögulegri ábyrgð Framsóknaflokksins á núverandi ástandi. Þannig fengist hreint borð fyrir nýtt fólk - Nýja Framsókn.

Framsóknarmenn verða nú að taka höndum saman, slíðra sverðin og koma sér saman um nýja, heildstæða forystu. Forystu sem endurspeglar viðhorf innan Framsóknarflokksins og smellur saman eins og malt og appelsín. Til þess að það sé unnt verða fleiri að hverfa af vettvangi svo nýtt fólk - samhent fólk með breiðan stuðning - geti tekið við.

Framsóknarmenn og íslenska þjóðin eiga Guðna mikið að þakka fyrir áratuga fórnfúst starf.


mbl.is Eygló tekur sæti á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórmenni segir af sér. Sökudólgar sitja sem fastast í ríkisstjórn!

Stórmenni hefur sagt af sér. En sökudólgar sitja sem fastast í ríkisstjórn!

Guðni Ágústsson hefur unnið vel fyrir land og þjóð um áratugaskeið. Hann hefur einnig unnið vel fyrir Framsóknarflokkinn í marga áratugi. Það er ekki unnt að kenna Guðna Ágústssyni um þá stöðu sem Framsóknarflokkurinn er kominn í - þótt hann hafi ekki náð að snúa fylgisþróun Framsóknarflokksins við.

Ég hvatti Guðna Ágústsson til þess að standa upp. En ekki einsömulum. Það leysir engin mál. Ég hvatti Guðna, Valgerði, Siv og Magnús að standa upp og taka þannig ábyrgð á mögulegri ábyrgð Framsóknaflokksins á núverandi ástandi. Þannig fengist hreint borð fyrir nýtt fólk - Nýja Framsókn.

Framsóknarmenn verða nú að taka höndum saman, slíðra sverðin og koma sér saman um nýja, heildstæða forystu. Forystu sem endurspeglar viðhorf innan Framsóknarflokksins og smellur saman eins og malt og appelsín. Til þess að það sé unnt verða fleiri að hverfa af vettvangi svo nýtt fólk - samhent fólk með breiðan stuðning - geti tekið við.

Framsóknarmenn eiga Guðna mikið að þakka fyrir áratuga fórnfúst starf.

 


mbl.is Guðni segir af sér þingmennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Segja þau sannleikann í dag?

Hvað ætlar bráðabirgðaríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að segja okkur í dag?  Sannleikann til tilbreytingar?
mbl.is Ráðherrar boða blaðamannafund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síldin kemur - síldin fer...

Það er gott að fá einhverjar góðar fréttir á þessum síðustu og verstu tímum. Síldin kemur og síldin fer ... og kemur nú aftur sem betur fer!

 


mbl.is Síldarkvóti eykst um 25%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband