Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Bjálvingarstuðulslánagrunnurinn!

Það var athyglisvert að kynna sér Bjálvingarstuðulsgrunninn, Íbúðagrunninn og Húsalánsgrunninn á fundum í Almanna- og Heilsumálaráðinu í síðustu viku.

Já, það var ekki leiðinlegt að sækja frændur vora í Færeyjum heim, þótt stoppið væri stutt og fundardagurinn langur og strangur. Reyndar er þetta í fyrsta sinn sem ég kem til Færeyja - sem er reyndar með ólíkindum - eftir að hafa gegnum tíðina flækst fram og til baka um Norðurlöndin allt frá Quarqatoq á Grænlandi til Karelíu í Finnlandi. Ekki seinna vænna.

Verkefnið sem ég er að vinna með sérfræðingi úr norska Húsbankanum fyrir færeyska Almanna- og heilsumálaráðið er spennandi - og framundan líklega tvær vinnuferðir til Færeyja. Vonandi get ég tekið einhverja frídaga í tengslum við annan hvorn fundinn til að skoða eyjarnar betur ásamt fjölskyldunni. Enda er þetta örskotstúr - klukkutími og korter með flugi frá Reykjavík til Vágar.

Það var reyndar við hæfi að gista í litlu, gömlu húsi í miðbæ Þórshafnar, en það var ekki pláss á hótelunum vegna stórrar ráðstefnu sem haldin var á sama tíma og fundarhöldin okkar. Það var notaleg tilbreyting að gista í 120 ára húsi - í stað venjulegu, stöðluðu hótelherbergjanna sem alls staðar eru eins.

Þá var sérstakt að éta skerpikjöt, þurrkaða grind, þurrsaltað grindarspik og soðnar kartöflur. Færeyska lambasteikin var nú samt betri.

Reyndar var ráðherralisti nýrrar ríkisstjórnar Íslands birtur meðan ég var í Færeyjum. Hitti Eið Guðnason sendiherra okkar í Færeyjum áður en ráðherralistinn var birtur - og rættist spá hans um ráðherraval held ég alveg.

Já, Bjálvingarstuðulslánagrunnurinn!

Það er upp á íslensku "húsaeinangrunarlánasjóðurinn".

Að lokum. Gústi tölvukall er væntanlega að koma mér aftur í tengingu við internetið heima - svo það verður styttra á milli blogga!  Af nógu er að taka!


Ungt fólk í ráðherrastólana!

Það verður spennandi að sjá málefnasamning nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks - og ekki síður að sjá skiptingu ráðuneyta og ráðherra. Hin nýja ríkisstjórn hefur alla burði til þess að verða öflug og farsæl, enda tekur hún við óvenjulega góðu búi.

Forsenda þess er sú að þau Geir og Ingibjörg Sólrún ná að vinna vel saman og að þau geti tekist tvo á um málin sín á milli, komist að niðurstöðu og staðið saman um hana gagnvart samráðherrum og þingflokkum sínum.

Ég hef fyrirfram enga ástæðu til að halda að svo verði ekki. Geir er öflugur, traustur og reyndur stjórnmálamaður sem getur verið mun fastari fyrir þegar þess þarf en almenningur gerir sér kannske grein fyrir. Ingibjörg Sólrún er afar reyndur leiðtogi sem hefur mikla reynslu af því að vinna með ólíkum stjórnmálaflokkum og ná sínu fram í slíku samstarfi.

Með allri virðingu fyrir miðaldra þingmönnum og þaðan af eldri, þá óska ég eftir að sjá nokkra öfluga ráðherra í yngri kantinum inn í þessa ríkisstjórn.  Þar er af ágætum hóp að taka. Þorgerður Katrín leiðir náttúrlega nýja kynslóð Sjálfstæðismanna sem varaformaður flokksins, Guðlaugur Þór hefur sýnt styrk og hefur orðið yfirvegaðri með hverju árinu. Bjarni Benediktsson er náttúrlega framtíðamaður. Þá hafa yngri konurnar í Sjálfstæðisflokknum verið að styrkja stöðu sína undanfarið.

Samfylkingin er með öfluga menn eins og Björgvin G. Sigurðsson sem nú er kominn með góða þingreynslu, Árna Pál Árnason sem er öflugt leiðtogaefni og með mikla reynslu í málaflokkum eins og öryggis og varnarmálum, Evrópumálum og húsnæðismálum, en geldur þess að hafa einungis náð 4. sæti í sínu fyrsta prófkjöri.  Þá er Þórunn Sveinbjörnsdóttir næstum orðin hokin af reynslu - kornung konan. Hún hefur meðal annars mikla reynslu í utanríkis- og þróunarmálum. Þau tvö bæta hvort annað upp í þeim málaflokkum . Þá er Katrín Júlíusdóttir bráðung og fersk og sýndi pólitísk klókindi í prófkjöri þar sem hún náði 2. sætinu sem hún stefndi að með glans.  Þá er Gunnar Svavarsson nýr í þingflokknum.

Ekki má heldur gleyma Helga Hjörvari sem er miklu yngri en margir halda vegna langrar veru sinnar í stjórnmálum.

Ég myndi vilja að minnsta kosti helming ráðherra úr hópi framangreindra þingmanna úr yngri kantinum.

Finnst reyndar synd að unga fólkið í Framsóknarflokknum fékk ekki tækifæri til að taka þátt í nýrri ríkisstjórn, en þar er öflugt, bráðungt fólk sem hefði þar átt fullt erindi eins og Birkir Jón Jónsson, Sæunn Stefánsdóttir og að sjálfsögðu Siv Friðelifsdóttir sem enn er bráðung þrátt fyrir langan ráðherraferil.


mbl.is Stjórnarmyndunarviðræður halda áfram eftir hádegi í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugsstjórnin mun hún kallast!

Það var aumkunarvert að heyra fréttamann flokksmálgagns Sjálfstæðisflokksins, fréttastofu Ríkissjónvarpsins, reyna að nefna verðandi ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokk "Þingvallastjórnina" í stað þess nafns sem þegar hefur fests við ríkisstjórnina, það er "Baugsstjórnin" . Enda vafðist henni tunga um tönn blessaðri.

Spái því að hitt flokksmálgagnið, Morgunblaðið, muni einnig reyna að taka upp "Þingvallastjórnin", enda virðist blaðið vera að fara af hjörunum vegna þess að ríkisstjórnin hefur verið kölluð "Baugsstjórnin".  Spái því jafnframt að "Baugsstjórnin" verði lífsseigari meðal almennings þótt flokksmálgögn Sjálfstæðisflokksins muni kalla hana annað.

Reyndar ætti að kalla fráfarandi ríkisstjórn "Þingvallastjórnina" því Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson lögðu grunn að henni á Þingvöllum fyirr 12 árum.

Það var enn aumkunarverðara að sjá Hrein Loftsson, sem ritaði dýrasta lesendabréf Íslandssögunnar, reyna að sverja Baugsstimpilinn af ríkisstjórninni.

En aðeins að Baugsstjórninni sem er í burðarliðnum.

Ég vænti þess að sú stjórn geti orðið sterk og jafnvel farsæl, líkt og Baugur sjálfur.  Hefði þó pesónulega viljað sjá samstjórn Samfylkingar og Framsóknar - en það vantaði dálítið upp á kjörfylgi þessara ágætu flokka til þess að það hefði verið unnt W00t


Verið að semja um Baugsvæðingu heilbrigðiskerfisins?

Er verið að semja um Baugsvæðingu heilbrigðiskerfisins í stjórnarmyndunarviðræðunum?

Var að lesa athyglisverða frétt á visir.is þar sem segir:

Baugur kaupir 21 sjúkrahús

Breski fasteignasjóðurinn Prestbury hefur náð samkomulagi um kaup á 21 einkareknu sjúkrahúsi í Bretlandi af fjárfestingasjóðinum Capio AB. Kaupverð nemur 686 milljónum punda, jafnvirði 85,7 milljarða íslenskra króna. Bakhjarlar Prestburys eru Baugur, West Coast Capital, fjárfestingafélag skoska fjárfestisins Tom Hunter, sem ennfremur keypti í Glitni af Milestone á dögunum, og Halifax Bank of Scotland.

Ætli hér sé komin skýringin á Baugsstjórninni! Er það ætlun Baugs að fá Baugsstjórnina til þess að einkavæða sjúkrahúsin á Íslandi - svo Baugur geti tekið heilbrigðiskerfið yfir eins og allt annað? Er það ástæða lesendabréfs Hreins Loftssonar og aðför DV að Framsóknarflokknum - sem lýst hefur því yfir að flokkurinn vilji ekki einkavæða heilbrigðiskerfið?

mbl.is Fundað um stjórnarmyndun á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrg afstaða Árna Finns

Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands á heiður skilið fyrir að skora á Paul Watson, leiðtoga Sea Shepherd samtakanna að hætta við að senda skip sitt Farley Mowat til Íslandsmið í sumar.

Það er rétt hjá Árna að það er ekki málstað hvalfriðunarsinna til framdráttar ef Sea Shepherd grípa til ofbeldisfullra aðgerða gegn íslenskum hvalveiðum.

Afstaða og vinnubrögð Náttúruverndarsamtaka Íslands undanfarin misseri í baráttunni gegn hvalveiðum hafa að mínu mati verið hófsöm og ábyrg og skilað meiri árangri við að breyta afstöðu almennings á Íslandi en hávær og öfgafull mótmæli fyrri tíma.

Tek hins vegar fram að persónuleg tel ég eðlilegt að nýta þessa náttúruauðlind eins og aðrar sjálfbærar náttúruauðlindir okkar. Hins vegar þarf að taka mið af heildarhagsmunum Íslendinga þegar ákvarðanir um slíkt eru teknar.

Aldrei mun ég þó vilja gefa eftir ofbeldismönnum eins og Paul Watson og hyski hans. Lausn svona mála verður að byggja á samræðum og skynsemi, ekki ofbeldi og yfirgangi.

 


mbl.is Náttúruverndarsamtök Íslands gagnrýna fyrirætlanir Sea Shepherd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kvenfrelsisstjórn" þarfnast Framsóknar!

Ég hef heyrt orðið kvenfrelsi oft í kvöld. Oftar en ég hefði kosið frá flokkum sem er fyrst og fremst tejla fram feministum með typpi.

Málið er það að jafnréttisflokkurinn er Framsókn.

Svokallaðir kvenfrelsisflokkar eru bara ekki - ólíkt Framsókn - með jafnt hlutfall kvenna í forystu.

Þannig að ef Samfylking og VG vill "kvenfrelsisstjórn" með feminista með typpi á þingi í stað alvöru kvenna - þá verða Framsóknarkonur og menn að vera með!

Ég mæli með - miðað við stöðuna í talningu núna -  með kvenfrelsisstjórn - en það verða aðrir að hafa frumkvæði að því.

Dæmi: xD + xS er karlastjórn!!!!!


Verðbólgudraugurinn býr ekki í Íbúðalánasjóði

Í ljósi ótrúlegra staðlausra staðhæfinga um 90% lán Íbúðalánasjóðs á blogginu - og í umræðunni undanfarna daga birti ég grein sem ég skrifaði í fyrravor. Þá var ég tímabundið starfandi í norska húsbankanum.

 

 “Af miklum útlánavexti verður ekki hjá því komist að álykta aðbankarnir hafi farið offari. Enginn vafi er á því að þessi mikla aukningá verulegan þátt í vaxandi þenslu og þeirri verðbólgu sem hún hefurhaft í för með sér og kallar á hærri stýrivexti en ella.” 

Með þessum orðum á ársfundi seðlabankans í mars 2005 hitti Birgir Ísleifur Gunnarsson seðlabankastjóri naglann á höfuðið.  Það eru fyrst og fremst bankarnir sem kynnt hafa undir verðbólgudraugnum. Hins vegar hefur Íbúðalánasjóður ranglega verið sakaður um að eiga sök á verðbólgunni. Undir þetta hafa fjölmiðlar því miður tekið gagnrýnilaust og er nú svo komið að almenningur virðist taka þessar alvarlegu rangfærslur sem staðreynd. 

Sannleikurinn er sá að bankar og sparisjóðir hafa þrefaldað íbúðalán á síðastliðnum tveimur árum. Á sama tíma hafa lán Íbúðalánasjóðs dregist saman um tæpan fjórðung. Samdráttur í heildarútlánum Íbúðalánasjóðs getur ekki verið ástæða verðbólgunnar.  

Ýmsir hafa haldið því fram að stjórnvöld hafi sett af stað harða samkeppni á íbúðalánamarkaði með breytingum á lánshlutfalli íbúðalána Íbúðalánasjóðs. Þetta er alrangt.  Þar til bankarnir komu af miklum krafti inn á íbúðalánamarkað í ágústmánuði 2004 með því að lækka vexti af íbúðalánum sínum um helming og bjóða viðskiptavinum sínum nánast ótakmörkuð fasteignatryggð lán var markaðshlutdeild þeirra einungis um 5%. Þeir höfðu enga markaðshlutdeild að verja. 

Hámarkslánshlutfall Íbúðalánasjóðs var 70% við fyrstu kaup en 65% við önnur kaup á þeim tíma sem bankarnir hófu innreið sína á íbúðalánamarkaðinn. Hámarkslán var um 8 milljónir.  Bankarnir buðu viðskiptavinum sínum hins vegar fyrst 80% fasteignatryggt lán og síðar 100% fasteignatryggð lán án þess að nokkrar breytingar höfðu verið gerðar á útlánareglum Íbúðalánasjóðs. 

Ekki verður séð að bankarnir hafi á þeim tíma hugsað eða ritað í greiningarskrifum sínum um efnahagslegar afleiðingar gjörða sinna.  Forsvarsmönnum bankanna höfðu verið kynntar hugmyndir stjórnvalda um að Íbúðalánasjóður skyldi bjóða íbúðalán allt að 90% af verðmæti hóflegrar 3-4 herbergja íbúðar ættu ekki að taka að fullu gildi fyrr en vorið 2007 þegar efnahagslegum  áhrifum af verklegum framkvæmdum í tengslum við orkuver og  byggingu álvera á Austurlandi og Hvalfirði hætti að gæta.  

Þeir vissu einnig að stjórnvöld hygðust innleiða breytingarnar í skilgreindum skrefum eftir því sem efnahagslegt ástand leyfði.  Þess vegna leitaði starfshópur á vegum ríkisstjórnarinnar til Seðlabankans og Fjármálaráðuneytisins til að meta möguleg áhrif fyrirhugaðra breytinga.  

Niðurstöður efnahagslegu úttektanna voru þær að hægt skyldi farið í breytingarnar meðan þensla ríkti. Á grundvelli þess var gert ráð fyrir að innleiða breytingarnar í hægum skrefum og að þær tækju ekki að fullu gildi fyrr en vorið 2007. Þá átti hámarkslánið að vera komið í 15,4 milljónir króna. Þannig yrði efnahagslegum stöðugleika haldið. Þetta allt vissu forsvarsmenn bankanna. 

Þessar fyrirætlanir um innleiðingu 90% lánveitinga Íbúðalánasjóðs urðu að engu þegar bankarnir á haustmánuðum 2004 buðu allt að 100% fasteignatryggð lán með nánast ótakmarkaði lánfjárhæð sem ekki voru bundin við kaup eða byggingu á íbúð eins og skilyrt er gagnvart lánum Íbúðalánasjóðs sem auk þess eru bundin við hámarksupphæð. Þegar svo var komið skipti engu máli efnahagslega hvort Íbúðalánasjóður hækkaði lánshlutfall strax í 90% og hækkaði hámarkslánið hóflega eins og gert var með lagasetningu fyrst í desembermánuði 2004 eftir að bankarnir höfðu þegar bankarnir höfðu verið á þessum markaði í 4 mánuði og þá þegar lánað um 180 milljarða króna sem að stórum hluta fóru beint í neyslu og kynntu af fullum krafti undir verðbólgubálinu, eins og Birgir Ísleifur Gunnarsson seðlabankastjóri benti réttilega á í ræðu sinni ári síðar. 

Kjarni málsins er því sá að Íbúðalánasjóður og stjórnvöld hafa ranglega verið sökuð um að kynda undir þenslu og verðbólgu með breytingum á laga- og reglugerðarumhverfi Íbúðalánasjóðs. Íbúðalánasjóður skiptir nánast engu í því sambandi. Sökin liggur annars staðar. 

Hallur Magnússon

Norska Húsbankanum

Verkefnisstjóri innleiðingar 90% lána

Ingibjörg lofaði sér í stjórnarandstöðu!!!

Ingibjörg Sólgrún Gísladóttir lofaði sér í stjórnarandstöðu í umræðum í Kastljósi í kvöld!!!

Mér finnst með ólíkindum að svo reyndur stjórnmálamaður geri slík mistök sem hún gerði í síðustu sjónvarpsumræðum fyrir kosngingar. Ingibjörg Sólrún lofaði að hún myndi ekki kvika frá einu af einasta atriði af 60 atriðum í kosningastefnu Samfylingarinnar - Unga Ísland!

Það er alveg ljóst að í samsteypustjórn - þá getur stjórnmálaflokkur ekki haldið öllum 60 stefnuatriðum í ákveðnum málaflokki 100% til streitu.

Því hlýtur Ingibjörg annað hvort verða að ganga bak orða sinna - eða sitja áfram í stjórnandstöðu!


mbl.is Steingrímur: forsætisráðherra hreytir ónotum í kjósendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ingibjörg lofaði sér í stjórnarandstöðu!!!

Ingibjörg Sólgrún Gísladóttir lofaði sér í stjórnarandstöðu í umræðum í Kastljósi í kvöld!!!

Mér finnst með ólíkindum að svo reyndur stjórnmálamaður geri slík mistök sem hún gerði í síðustu sjónvarpsumræðum fyrir kosngingar. Ingibjörg Sólrún lofaði að hún myndi ekki kvika frá einu af einasta atriði af 60 atriðum í kosningastefnu Samfylingarinnar - Unga Ísland!

Það er alveg ljóst að í samsteypustjórn - þá getur stjórnmálaflokkur ekki haldið öllum 60 stefnuatriðum í ákveðnum málaflokki 100% til streitu.

Því hlýtur Ingibjörg annað hvort verða að ganga bak orða sinna - eða sitja áfram í stjórnandstöðu.


Framsóknarveður í boði Einars Sveinbjörnssonar!

Þetta er Framsóknarveður í boði veðurfræðingsins, veðurbloggarans og Framsóknarmannsins Einars Sveinbjörnssonar!

Reykvíkingar geta því tryggt Jóni Sigurðssyni þingsæti í góða verðrinu á morgun - en það er nánast skandall ef Reykvíkingar hafna svo hæfum einstaklingi í Alþingiskosningum.

En hvað sem þið ætlið að kjósa - endilega nýtið lýðræðislegan rétt ykkar og kjósið!  (Helst græna kallinn :))


mbl.is Gott kosningaveður á sunnanverðu landinu en verra á norðanverðu landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband