Verðbólgudraugurinn býr ekki í Íbúðalánasjóði

Í ljósi ótrúlegra staðlausra staðhæfinga um 90% lán Íbúðalánasjóðs á blogginu - og í umræðunni undanfarna daga birti ég grein sem ég skrifaði í fyrravor. Þá var ég tímabundið starfandi í norska húsbankanum.

 

 “Af miklum útlánavexti verður ekki hjá því komist að álykta aðbankarnir hafi farið offari. Enginn vafi er á því að þessi mikla aukningá verulegan þátt í vaxandi þenslu og þeirri verðbólgu sem hún hefurhaft í för með sér og kallar á hærri stýrivexti en ella.” 

Með þessum orðum á ársfundi seðlabankans í mars 2005 hitti Birgir Ísleifur Gunnarsson seðlabankastjóri naglann á höfuðið.  Það eru fyrst og fremst bankarnir sem kynnt hafa undir verðbólgudraugnum. Hins vegar hefur Íbúðalánasjóður ranglega verið sakaður um að eiga sök á verðbólgunni. Undir þetta hafa fjölmiðlar því miður tekið gagnrýnilaust og er nú svo komið að almenningur virðist taka þessar alvarlegu rangfærslur sem staðreynd. 

Sannleikurinn er sá að bankar og sparisjóðir hafa þrefaldað íbúðalán á síðastliðnum tveimur árum. Á sama tíma hafa lán Íbúðalánasjóðs dregist saman um tæpan fjórðung. Samdráttur í heildarútlánum Íbúðalánasjóðs getur ekki verið ástæða verðbólgunnar.  

Ýmsir hafa haldið því fram að stjórnvöld hafi sett af stað harða samkeppni á íbúðalánamarkaði með breytingum á lánshlutfalli íbúðalána Íbúðalánasjóðs. Þetta er alrangt.  Þar til bankarnir komu af miklum krafti inn á íbúðalánamarkað í ágústmánuði 2004 með því að lækka vexti af íbúðalánum sínum um helming og bjóða viðskiptavinum sínum nánast ótakmörkuð fasteignatryggð lán var markaðshlutdeild þeirra einungis um 5%. Þeir höfðu enga markaðshlutdeild að verja. 

Hámarkslánshlutfall Íbúðalánasjóðs var 70% við fyrstu kaup en 65% við önnur kaup á þeim tíma sem bankarnir hófu innreið sína á íbúðalánamarkaðinn. Hámarkslán var um 8 milljónir.  Bankarnir buðu viðskiptavinum sínum hins vegar fyrst 80% fasteignatryggt lán og síðar 100% fasteignatryggð lán án þess að nokkrar breytingar höfðu verið gerðar á útlánareglum Íbúðalánasjóðs. 

Ekki verður séð að bankarnir hafi á þeim tíma hugsað eða ritað í greiningarskrifum sínum um efnahagslegar afleiðingar gjörða sinna.  Forsvarsmönnum bankanna höfðu verið kynntar hugmyndir stjórnvalda um að Íbúðalánasjóður skyldi bjóða íbúðalán allt að 90% af verðmæti hóflegrar 3-4 herbergja íbúðar ættu ekki að taka að fullu gildi fyrr en vorið 2007 þegar efnahagslegum  áhrifum af verklegum framkvæmdum í tengslum við orkuver og  byggingu álvera á Austurlandi og Hvalfirði hætti að gæta.  

Þeir vissu einnig að stjórnvöld hygðust innleiða breytingarnar í skilgreindum skrefum eftir því sem efnahagslegt ástand leyfði.  Þess vegna leitaði starfshópur á vegum ríkisstjórnarinnar til Seðlabankans og Fjármálaráðuneytisins til að meta möguleg áhrif fyrirhugaðra breytinga.  

Niðurstöður efnahagslegu úttektanna voru þær að hægt skyldi farið í breytingarnar meðan þensla ríkti. Á grundvelli þess var gert ráð fyrir að innleiða breytingarnar í hægum skrefum og að þær tækju ekki að fullu gildi fyrr en vorið 2007. Þá átti hámarkslánið að vera komið í 15,4 milljónir króna. Þannig yrði efnahagslegum stöðugleika haldið. Þetta allt vissu forsvarsmenn bankanna. 

Þessar fyrirætlanir um innleiðingu 90% lánveitinga Íbúðalánasjóðs urðu að engu þegar bankarnir á haustmánuðum 2004 buðu allt að 100% fasteignatryggð lán með nánast ótakmarkaði lánfjárhæð sem ekki voru bundin við kaup eða byggingu á íbúð eins og skilyrt er gagnvart lánum Íbúðalánasjóðs sem auk þess eru bundin við hámarksupphæð. Þegar svo var komið skipti engu máli efnahagslega hvort Íbúðalánasjóður hækkaði lánshlutfall strax í 90% og hækkaði hámarkslánið hóflega eins og gert var með lagasetningu fyrst í desembermánuði 2004 eftir að bankarnir höfðu þegar bankarnir höfðu verið á þessum markaði í 4 mánuði og þá þegar lánað um 180 milljarða króna sem að stórum hluta fóru beint í neyslu og kynntu af fullum krafti undir verðbólgubálinu, eins og Birgir Ísleifur Gunnarsson seðlabankastjóri benti réttilega á í ræðu sinni ári síðar. 

Kjarni málsins er því sá að Íbúðalánasjóður og stjórnvöld hafa ranglega verið sökuð um að kynda undir þenslu og verðbólgu með breytingum á laga- og reglugerðarumhverfi Íbúðalánasjóðs. Íbúðalánasjóður skiptir nánast engu í því sambandi. Sökin liggur annars staðar. 

Hallur Magnússon

Norska Húsbankanum

Verkefnisstjóri innleiðingar 90% lána

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband