Færsluflokkur: Bloggar

HallurMagg geymdur á Landsbókasafninu með Sóleyju Tómasdóttur!

HallurMagg er geymdur á Landsbókasafninu með Sóleyju Tómasdóttur. Það kom mér dálítið á óvart, en þannig er það samt! Reyndar erum við ekki geymd þar með holdi og blóði, heldur eru blogfærslur okkar - og reyndar allra hinna bloggaranna - afritaðar reglulega og geymdar á rafrænana hátt.

Reyndar eru allar vefsíður íslenskar sem enda á .is afritaðar! Líka mynda og bloggsíðurnar!  Þannig er blogg og myndir fjölskyldunnar frá Noregsdvölinni nú á vísum stað!

Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir þessu.  Held að sumir eigi eftir að hugsa sig tvisvar um áður en þeir sitjast fyrir framan takkaborðið næst - sem reyndar er hollt og gott því það á ekki að láta hvað sem er fjúka!

Íslendingar þurfa því ekki að skrifa bók til að verk þeirra lifi inn í framtíðina - bloggið mun bera okkur vitni um ókomna tíð!

Skrítið!

... ég sem hélt ég þyrfti að skrifa bók!


Sjómannadagsráð og langafi minn Sigurjón á Garðari

Í dag eru liðin 70 ár frá því langafi minn Sigurjón Einarsson skipstjóri, oftast kenndur við togaran Garðar frá Hafnarfirði, stofnaði Sjómannadagsráð ásamt Henry Hálfdánarsyni og fleirum.

Langafi minn átti eftir að starfa að framgangi Sjómannadagsráðs allt sitt líf. Fljótt eftir stofnun Sjómannadagsráðs hóf það fjársöfnum til byggingar dvalar- og elliheimilis fyrir aldraða sjómenn. Sigurjón langafi minn hélt í land árið 1957 til þess að taka við sem fyrsti forstjóri Hrafnistu, dvalarheimilis aldraðra sjómanna. Þá voru 20 ár liðin frá stofnun Sjómannadagsráðs.

Á Hrafnistu ríkti Sigurjón sem forstjóri í 8 ár og við hlið hans langamma mín Rannveig Vigfúsdóttir.

Tuttugu árum síðar, 1977, höguðu örlögin því þannig að Rannveig langamma mín og fyrrum hússtýra á Hrafnistu í Reykjavík, varð sú fyrsta sem flutti á nýtt dvalar- og hjúkrunarheimili Hrafnistu í Hafnarfirði, heimabæ þeirra hjóna.

Nú á þessum merkisdegi er mér ljúft og skylt að minnast þessara öndvegishjóna. Þótt ég muni glöggt eftir langafa mínum, Sigurjóni á Garðari, þá var ég ekki nema tæpra 7 ára þegar hann varð bráðkvaddur stuttu eftir að hann hafði haldið ræðu fyrir minni sjómannskonunnar í hófi þann 3. janúar 1969.

Aftur á móti átti ég margar góðar stundir með langömmu minni, Rannveigu, bæði heima á Austurgötu 40 og á Hrafnistu í Hafnarfirði eftir að hún fluttist þangað.

Fyrir þessar stundir er ég þakklátur.

Mig langar af tilefni dagsins annars vegar að birta lýsingu langafa míns að aðdraganda stofnunar Sjómannadagsráðs og hins vegar vitna til ræðu hans við vígslu Hrafnistu:'

“Ekki veit ég, hvað tveir menn ræddu fyrst sín á milli um stofnun Sjómannadags, en það ætla ég, að skriður hafi fyrst komizt á það mál fyrir alvöru, þegar við Henry Hálfdánarsson bundumst samtökum um að ryðja því braut. Varð það að samkomulagi með okkur, að málið skyldi borið fram við sjómenn með þeim hætti, að Henty kallaði í loftskeyta- eða talstöðina á bv Hannesi ráðherra, sem hann var loftskeytamaður á, og tilkynnti sjómönnum, sem til hans gátu heyrt, að hann hefði mál fyrir þá að leggja og væru þeir hvattir til að hlusta vel. Mitt hlutverk var svo að taka strax til máls og mæla með stofnun dagsins. Undirtektir urðu þegar í stað svo góðar, að áfram var haldið og dagurinn stofnaður í bróðerni...”

(Sigurjón Einarsson, Sigurjón á Garðari. Endurminningar Sigurjóns Einarssonar skipsstjóra (Reykjavík 1969), bls. 241.)

 “...Þegar ég tek nú við lykli Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, sem tákni þeirrar vörzlu sem mér er þar með falin, þá kemur mér í hug að þessi lykill er á fleiri vegu táknrænn, því að hann gengur að byggingu, sem er gerð úr gulli, gulli okkar innri manns, gulli samstarfs og bræðralags, þeirra kennda, sem mannkynið er því miður of fátækt af, en endist þó bezt til fegurra og betra lífs.   Mótuð í fast efni er hér mannúð og drenglund og um leið verðugur og gagnlegur minnisvarði sjómannasamtakanna í Reykjavík og Hafnarfirði...”. 

(Sigurjón Einarsson, Sigurjón á Garðari, bls. 251)


Rykinu dustað af lyklaborðinu

Það er nokkuð um liðið síðan ég stakk niður penna og bloggaði síðast.  Ástæða þess er einföld. Sem opinber embættismaður á ég erfitt með að blogga um mál sem að atvinnu minni snúa.  Húsnæðislánamál og málefni Íbúðalánasjóðs hefur verið mjög áberandi í umræðunni - ekki hvað síst þeirri pólitísku - og mig klæjað í lofana að blogga um eitt og annað.

Það er hins vegar ekki hlutverk mitt sem embættismaður að tjá mínar persónulegu skoðanir hvað þetta svið varðar.  Því hef ég látið það vera að blogga.

Nú er ég hins vegar búinn að segja upp starfi mínu hjá Íbúðalánasjóði - eftir rúmlega 8 ára krefjandi og skemmtilegt starf - þar sem við höfum staðið okkur frábærlega - þótt ég segi sjálfur frá.

 Því dusta ég nú rykið af lyklaborðinu og byrja að blogga á ný.  Af nógu er að taka!

 


Fastir vextir norskra íbúðalána 6,50 - 7,0%

Hér er yfirlit yfir fasta vexti á Íbúðalánum stærsta banka Noregs DnB Nor eins og þeir eru birtir á vefsíðu bankans. Ef fólk er ekki í sérstöku viðskiptavinaprógrammi hjá bankanum þá eru vextirnir 0,5% hærri.

Hvar eru nú snillingarnir sem í fyrravetur voru að belgja sig út og halda því fram að vextir af norskum íbúðalánum væru langtum lægri en þeir íslensku - og allir fjölmiðlarnir sem átu það upp gagnrýnilaust?

Priser på boliglån med fast rente

Rentebetingelsene gjelder lån over 1.000.000 kroner med fast rente. Ny rentefastsettelse skjer hver tirsdag.

For kunder med kundeprogram:
 
RentebindingRentereguleringInnenfor 60 % av kjøpesum 
  nom. rente eff. rente 
1 år  15.06.20085,856,10
3 år  15.06.20106,256,52
5 år  15.06.20126,256,52
10 år  15.06.20176,256,52

mbl.is Vextir íbúðalánasjóðs hækka enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjálvingarstuðulslánagrunnurinn!

Það var athyglisvert að kynna sér Bjálvingarstuðulsgrunninn, Íbúðagrunninn og Húsalánsgrunninn á fundum í Almanna- og Heilsumálaráðinu í síðustu viku.

Já, það var ekki leiðinlegt að sækja frændur vora í Færeyjum heim, þótt stoppið væri stutt og fundardagurinn langur og strangur. Reyndar er þetta í fyrsta sinn sem ég kem til Færeyja - sem er reyndar með ólíkindum - eftir að hafa gegnum tíðina flækst fram og til baka um Norðurlöndin allt frá Quarqatoq á Grænlandi til Karelíu í Finnlandi. Ekki seinna vænna.

Verkefnið sem ég er að vinna með sérfræðingi úr norska Húsbankanum fyrir færeyska Almanna- og heilsumálaráðið er spennandi - og framundan líklega tvær vinnuferðir til Færeyja. Vonandi get ég tekið einhverja frídaga í tengslum við annan hvorn fundinn til að skoða eyjarnar betur ásamt fjölskyldunni. Enda er þetta örskotstúr - klukkutími og korter með flugi frá Reykjavík til Vágar.

Það var reyndar við hæfi að gista í litlu, gömlu húsi í miðbæ Þórshafnar, en það var ekki pláss á hótelunum vegna stórrar ráðstefnu sem haldin var á sama tíma og fundarhöldin okkar. Það var notaleg tilbreyting að gista í 120 ára húsi - í stað venjulegu, stöðluðu hótelherbergjanna sem alls staðar eru eins.

Þá var sérstakt að éta skerpikjöt, þurrkaða grind, þurrsaltað grindarspik og soðnar kartöflur. Færeyska lambasteikin var nú samt betri.

Reyndar var ráðherralisti nýrrar ríkisstjórnar Íslands birtur meðan ég var í Færeyjum. Hitti Eið Guðnason sendiherra okkar í Færeyjum áður en ráðherralistinn var birtur - og rættist spá hans um ráðherraval held ég alveg.

Já, Bjálvingarstuðulslánagrunnurinn!

Það er upp á íslensku "húsaeinangrunarlánasjóðurinn".

Að lokum. Gústi tölvukall er væntanlega að koma mér aftur í tengingu við internetið heima - svo það verður styttra á milli blogga!  Af nógu er að taka!


Ungt fólk í ráðherrastólana!

Það verður spennandi að sjá málefnasamning nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks - og ekki síður að sjá skiptingu ráðuneyta og ráðherra. Hin nýja ríkisstjórn hefur alla burði til þess að verða öflug og farsæl, enda tekur hún við óvenjulega góðu búi.

Forsenda þess er sú að þau Geir og Ingibjörg Sólrún ná að vinna vel saman og að þau geti tekist tvo á um málin sín á milli, komist að niðurstöðu og staðið saman um hana gagnvart samráðherrum og þingflokkum sínum.

Ég hef fyrirfram enga ástæðu til að halda að svo verði ekki. Geir er öflugur, traustur og reyndur stjórnmálamaður sem getur verið mun fastari fyrir þegar þess þarf en almenningur gerir sér kannske grein fyrir. Ingibjörg Sólrún er afar reyndur leiðtogi sem hefur mikla reynslu af því að vinna með ólíkum stjórnmálaflokkum og ná sínu fram í slíku samstarfi.

Með allri virðingu fyrir miðaldra þingmönnum og þaðan af eldri, þá óska ég eftir að sjá nokkra öfluga ráðherra í yngri kantinum inn í þessa ríkisstjórn.  Þar er af ágætum hóp að taka. Þorgerður Katrín leiðir náttúrlega nýja kynslóð Sjálfstæðismanna sem varaformaður flokksins, Guðlaugur Þór hefur sýnt styrk og hefur orðið yfirvegaðri með hverju árinu. Bjarni Benediktsson er náttúrlega framtíðamaður. Þá hafa yngri konurnar í Sjálfstæðisflokknum verið að styrkja stöðu sína undanfarið.

Samfylkingin er með öfluga menn eins og Björgvin G. Sigurðsson sem nú er kominn með góða þingreynslu, Árna Pál Árnason sem er öflugt leiðtogaefni og með mikla reynslu í málaflokkum eins og öryggis og varnarmálum, Evrópumálum og húsnæðismálum, en geldur þess að hafa einungis náð 4. sæti í sínu fyrsta prófkjöri.  Þá er Þórunn Sveinbjörnsdóttir næstum orðin hokin af reynslu - kornung konan. Hún hefur meðal annars mikla reynslu í utanríkis- og þróunarmálum. Þau tvö bæta hvort annað upp í þeim málaflokkum . Þá er Katrín Júlíusdóttir bráðung og fersk og sýndi pólitísk klókindi í prófkjöri þar sem hún náði 2. sætinu sem hún stefndi að með glans.  Þá er Gunnar Svavarsson nýr í þingflokknum.

Ekki má heldur gleyma Helga Hjörvari sem er miklu yngri en margir halda vegna langrar veru sinnar í stjórnmálum.

Ég myndi vilja að minnsta kosti helming ráðherra úr hópi framangreindra þingmanna úr yngri kantinum.

Finnst reyndar synd að unga fólkið í Framsóknarflokknum fékk ekki tækifæri til að taka þátt í nýrri ríkisstjórn, en þar er öflugt, bráðungt fólk sem hefði þar átt fullt erindi eins og Birkir Jón Jónsson, Sæunn Stefánsdóttir og að sjálfsögðu Siv Friðelifsdóttir sem enn er bráðung þrátt fyrir langan ráðherraferil.


mbl.is Stjórnarmyndunarviðræður halda áfram eftir hádegi í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrg afstaða Árna Finns

Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands á heiður skilið fyrir að skora á Paul Watson, leiðtoga Sea Shepherd samtakanna að hætta við að senda skip sitt Farley Mowat til Íslandsmið í sumar.

Það er rétt hjá Árna að það er ekki málstað hvalfriðunarsinna til framdráttar ef Sea Shepherd grípa til ofbeldisfullra aðgerða gegn íslenskum hvalveiðum.

Afstaða og vinnubrögð Náttúruverndarsamtaka Íslands undanfarin misseri í baráttunni gegn hvalveiðum hafa að mínu mati verið hófsöm og ábyrg og skilað meiri árangri við að breyta afstöðu almennings á Íslandi en hávær og öfgafull mótmæli fyrri tíma.

Tek hins vegar fram að persónuleg tel ég eðlilegt að nýta þessa náttúruauðlind eins og aðrar sjálfbærar náttúruauðlindir okkar. Hins vegar þarf að taka mið af heildarhagsmunum Íslendinga þegar ákvarðanir um slíkt eru teknar.

Aldrei mun ég þó vilja gefa eftir ofbeldismönnum eins og Paul Watson og hyski hans. Lausn svona mála verður að byggja á samræðum og skynsemi, ekki ofbeldi og yfirgangi.

 


mbl.is Náttúruverndarsamtök Íslands gagnrýna fyrirætlanir Sea Shepherd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ingibjörg lofaði sér í stjórnarandstöðu!!!

Ingibjörg Sólgrún Gísladóttir lofaði sér í stjórnarandstöðu í umræðum í Kastljósi í kvöld!!!

Mér finnst með ólíkindum að svo reyndur stjórnmálamaður geri slík mistök sem hún gerði í síðustu sjónvarpsumræðum fyrir kosngingar. Ingibjörg Sólrún lofaði að hún myndi ekki kvika frá einu af einasta atriði af 60 atriðum í kosningastefnu Samfylingarinnar - Unga Ísland!

Það er alveg ljóst að í samsteypustjórn - þá getur stjórnmálaflokkur ekki haldið öllum 60 stefnuatriðum í ákveðnum málaflokki 100% til streitu.

Því hlýtur Ingibjörg annað hvort verða að ganga bak orða sinna - eða sitja áfram í stjórnandstöðu!


mbl.is Steingrímur: forsætisráðherra hreytir ónotum í kjósendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarveður í boði Einars Sveinbjörnssonar!

Þetta er Framsóknarveður í boði veðurfræðingsins, veðurbloggarans og Framsóknarmannsins Einars Sveinbjörnssonar!

Reykvíkingar geta því tryggt Jóni Sigurðssyni þingsæti í góða verðrinu á morgun - en það er nánast skandall ef Reykvíkingar hafna svo hæfum einstaklingi í Alþingiskosningum.

En hvað sem þið ætlið að kjósa - endilega nýtið lýðræðislegan rétt ykkar og kjósið!  (Helst græna kallinn :))


mbl.is Gott kosningaveður á sunnanverðu landinu en verra á norðanverðu landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiríkur segir satt!

Eiríkur er flottur að segja sannleikann!

Sumir hefðu ekki þorað því.


mbl.is Eiríkur: Samsæri austantjaldsmafíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband