Færsluflokkur: Menning og listir

Íslandsmeistaramótið í Hornafjarðarmanna!

Íslandsmeistaramótinu í Hornafjarðarmanna lýkur í kvöld við upphaf þorrablóts Hornfirðinga á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þá fer fram úrslitaviðureign þriggja efstu manna úr undankeppni Hornafjarðarmannamótsins.  Heimsmeistaramótið í Hornafjarðamanna er hins vegar haldið á Humarhátíð á Hornafirði í sumar.

Þorrablót Hornfirðinga á Stór-Reykjavíkursvæðinu er haldið í 30. skipti eftir því sem ég kemst næst. Við hjónin mætum að sjálfsögðu ásamt hóp fólks sem - eins og við - vann í lengri eða skemri tíma á Hornafirði. Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem við mætum hér í Reykjavík - 10 árum eftir að við fluttum frá Hornafirði aftur á mölina í Reykjavík - en þorrablótin fyrir austan voru stórkostleg og ógleymanleg.  Þar varð ég meðal annars þess heiðurs aðnjótandi að verða umfjöllunarefni í annál þorrablótsins - þar sem þorrablótsnefndin gerði grín að þeim sem það áttu skilið! 

Það er uppselt á þorrablótið í kvöld - en klukkan 23:00 hefst dansleikur - þar sem hljómsveit Hauks Þorvaldssonar leikur fyrir dansi - að sjálfsögðu. Á dansleikinn skilst mér að allir séu velkomnir - meðan húsrúm leyfir.

Á vef Þorrablóts Hornfirðinga á Stór-Reykjavíkursvæðinu er að finna skemmtilegar orðskýringar er snerta þorrablót.  Læt þér fylgja.

Þorrablót
Á Íslandi er siður að halda þorrablót í febrúar. Þorrablót er veisla, þar sem Íslendingar borða hefðbundinn íslenskan mat, drekka brennivín, syngja íslensk lög, kveða vísur og dansa gömlu dansana. Fyrstu þorrablótin voru haldin í kaupstöðum á Íslandi á nítjándu öld.

Harðfiskur
er þurrkuð fiskflök af þorski, ýsu eða steinbít. Harðfiskurinn er rifinn og borðaður þurr, án þess að vera matreiddur á nokkurn hátt. Oft er borðað smjör með honum eins og með brauði.

Hákarl
er venjulega óætur. En ef hann er grafinn niður í fjörusand í nokkra mánuði yfir veturinn, rotnar hann á sérstakan hátt og fær sterkt bragð, sem minnir á sterkan ost. Það er kallað kæstur eða verkaður hákarl. Íslendingum finnst hákarl góður með brennivíni.

Svið
eru lambahöfuð, sem eru sviðin yfir eldi eða með logsuðutæki til þess að brenna burt ullina, og síðan soðin með salti. Mörgum finnast augun best, en mestur matur er í kjömmunum og tungunni.

Með þorramatnum er borin fram rófustappa, kartöflujafningur og flatrúgbrauð með smjöri. Það er ekkert grænmeti borið fram með þorramat, það er ekki íslenskur matur.

Á eftir dansa Íslendingarnir gömlu dansana með harmoníkuundirleik. Það er drukkinn bjór með matnum og brennivín. Þorrablótið stendur oft alla nóttina.

 


Endurvekjum séríslensku öskupokana!

Það er sorglegt að vita til þess að hinir séríslenski öskupokar séu nánast horfnir, en þessi aldagamli íslenski siður lifði góðu lífi allt frá kaþólsku á Íslandi fram undir lok 20. aldarinnar. Ég hvet því alla foreldra sem enn muna hve skemmtilegt það var að næla öskupoka aftan í náungan að setjast við sauma í kvöld og kynna börnunum sínum þennan gamla, skemmtilega sið.

Þótt nútímabörnin séu fórnarlömb útlenskrar grímubúningamenningar þá er ekki úr vegi að viðhalda gömlu öskupokunum - þótt ekki væri nema sem hluti grímubúninganna - til dæmis að fá börnin til að hafa öskupoka hangandi einhversstaðar á grímubúningnum.

Eins og áður segir á öskupokasiðurinn sér rætur aftur úr kaþólsku, en askan er í Biblíunni tákn hins forgengilega og óverðuga, en í kaþólskunni var askan talin búa yfir heilnæmum og hreinsandi krafti. Enda tíðkaðistað dreifa ösku yfir kirkjugesti í á öskudag, dies cinerum, í upphafi lönguföstu. Öskunni var gjarnan dreift með sérstökum vendi - sem síðar varð bolluvöndur bolludagsins þegar lúterskan hafði tekið við. Sá siður kom reyndar ekki til Íslands fyrr en á 19. öld vegna danskra og norskra áhrifa.

Upphaf öskupokanna á Íslandi má væntanlega rekja til þess að fólk hafi viljað taka með sér hina hreinsandi ösku úr kirkjunni heim í bæ - þar sem hún hlyti líka að gera sitt heilaga gagn - og blessað heimilið.

Sá siður að hengja öskupoka aftan í heimilisfólkið á öskudag er að minnsta kosti frá því á miðri 18. öld - mögulega miklu eldri.

Einhverra hluta vegna þá þróaðist öskupokasiðurinn þannig að stelpurnar hengdu öskupoka á strákana, en strákarnir hengdu poka með steinum á stelpurnar. En aðalsportið var að koma pokanum á aðra - án þess að eftir væri tekið!

Í ljósi þessarar merku sögu íslensku öskupokanna hvet ég foreldra enn og aftur að endurvekja þennan skemmtilega sið öskudagsins - þótt ekki væri nema á þann táknræna hátt að öskupokinn sé hluti öskudagsbúningsins.


Íslenskar geitur takk!

Okkur ber skylda til þess að vernda íslenska geitakynið okkar sem að líkindum er einstakt í heiminum.  Vona að ég verði ekki sakaður um rasisma vegna þessa eins og þegar ég bloggaði um íslensku kýrnar í pistlinum "Íslenskar beljur takk". 

Það var mikið líffræðilegt og menningarsögulegt slys þegar geitahjörðinni var slátrað á dögunum.

Við eigum að vernda og viðhalda íslenska húsdýrastofna sem ættir sínar eiga að rekja til landnámshúsdýra.  Íslenski geitastofnin hefur lifað af við erfiðar aðstæður á Íslandi í 1100 ár - staðið af sér harðindi og plágur - en nú gæti íslenska geitin fallið í nútímaplágu - vellauðugum, sinnulausum nútímamanninum!

Íslenski hesturinn og hundurinn er í tryggri stöðu - þótt íslenski hundurinn hafi á tímabili verði í hættu. Geiturnar eru í mikilli hættu - sem og íslensku hænurnar.

Þá eru háværar raddir um að skipta eigi út íslenska kúakyninu - sem yrði stórslys. Við það stend ég þótt mér sé fyrir það brigslað að vera rasisti!


mbl.is Vilja að ríkið aðstoði geitabændur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðey heilagur staður!

Það er vel við hæfi að viðhalda aldalangri helgi Viðeyjar með friðarsúlunni "Imagine Peace Tower". Friðarboðskapurinn sem þetta táknræna nútímaverk stendur fyrir er í takt við þann þátt sögu Viðeyjar sem tengist hinum kristna friðarboðskap sem birtist til dæmis í starfsemi Ágústínusarklaustursins sem þar var starfrækt 1225-1550.

Þá er ekki síður vert að minnast eins af forgangsmönnum húmanisma og mannúðar á Íslandi, Magnúsar Stephensen konferensráðs, en hann bjó einmitt í Viðey frá því hann keypti eyjuna 1817 til dauðadags 1833. Mannúð hans birtist ekki hvað síst í baráttu hans fyrir vægari refsingum en fram að hans tíð höfðu tíðkast.

Magnús stofnaði prentsmiðju í Viðey og prentaði þar margan fræðslubæklingin fyrir almenning sem ætlaðir voru til að styðja við nauðsynlegar framfari í anda upplýsingarinnar.

Viðey er merkur sögustaður eins og fræðast má um td. á vef NAT Norðurferða.

Í eynni hafa fundist merki um mannvistir allt frá 10. öld. Árið 1225 var reist klaustur í eynni, mikið menningar- og lærdómssetur, og var svo til siðaskipta um miðja 16. öld. Í siðaskiptunum var klaustrið rænt og Viðey gerð eign danska kóngsins.

"Faðir Reykjavíkur", Skúli Magnússon fyrsti íslenski landfógetinn lét byggja Viðeyjarstofu sem embættisbústað sinn. Viðeyjarstofa er fyrsta steinhúsið sem byggt var á Íslandi og eitt elsta hús landsins en smíði hennar lauk árið 1755. Skúli stóð einnig að smíði Viðeyjarkirkju sem var tekin í notkun árið 1774 og er næstelsta kirkja landsins. Kirkjan er með upprunalegum innréttingum sem eru þær elstu á landinu.

Kirkjan hefur verið gerð upp á myndarlegan hátt og engu til kostað til að fá fram sem upprunalegustu mynd hennar.  Þá hefur umhverfi kirkjunnar og staðarins verið gert upp af miklum smekkleik - þótt smekkur manna um hvernig kirkjugarðurinn var gerður upp á sínum hafi verið mismunandi - en niðurstaðan klárlega smekkleg.

Á 19. öld bjó Stephensenættin í Viðey og þar má nefna Ólafur Stephensen fyrsta íslenska stiftamtmannsins og fer mörgum sögum af veglegum veislum sem hann hélt í eynni. Frægust er líklega veisla hans með Jörundi hundadagakonungi og manna hans - sem duttu það hressilega í það og kýldu belgin þannig fram úr hófi vegna veglegra veitinga Ólafs í fljótandi og föstu formi - að þeir höfðu ekki mátt til þess að ljúka ætlunarverki sínu - að fá Ólaf lið með sér með því að sverja Jörundi eið gegn eiðsvari Ólafs gagnvart konungi Íslands, Danmerkur, Noregs, Slésvíkur, Holsetalands og hvað lönd Danakonungs voru tiltekin á þeim tíma! 

Við hans búi tók sonur hans Magnús konferensráð sem áður getur.

Afkomandi Ólafs Stephensens er meðal annars Ólafur Þ. Stephensen ritstjóri 24 stunda sem lengst af hefur verið talsmaður frjálsræðis - ekki hvað síst frjálsar verslunar - og fetað þannig í fótspor frænda síns Magnúsar sem barðist mjög fyrir frjálsri verslu.

Þá er gaman að geta þess að faðir Ólafs Stephensen ritstjóra er sr. Þórir Stephensen sem varð staðarhaldari í Viðey þegar Reykjavíkurborg endurreisti þennan merka stað á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Sr. Þórir hefur unnið ómetanlegt starf við að rifja upp sögu Viðeyjar og byggja upp tengsl landsmanna við þennan merka stað.

 


mbl.is Fjölmenni í Viðey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskar beljur takk!

Okkur ber skylda til þess að vernda íslenska kúakynið okkar sem að líkindum er einstakt í heiminum. Allavega virðast rannsóknir sýna að íslensk mjólk sé öðruvísi - og jafnvel hollari en flest önnur mjólk. Þótt einn og einn tuddi hafi lagt til sæði í íslenska kúakynið þá er það í grunnin það sama og forfeður okkar fluttu með sér til landsins fyrir 1100 árum.

Ef Íslendingar vilja útlenda mjólk og mjólkurvörur - þá eigum við bara að flytja þær inn! Íslenska skyrið og íslenska mjólkin mun lifa slíkan innflutning af - gæðanna vegna!

Það sama á við aðra dýrastofna sem ættir sínar eiga að rekja til landnámshúsdýra. Það var sorglegt að lesa um daginn frétt um að farga ætti stórum hóp íslenskra geita.  Íslenski geitastofnin hefur lifað af við erfiðar aðstæður á Íslandi í 1100 ár - staðið af sér harðindi og plágur - en nú gæti íslenska geitin fallið í nútímaplágu - vellauðugum, sinnulausum nútímamanninum!

Annar stofn sem er í hættu - er íslenska hænan - en sem betur fer virðist sá stofn vera að braggast!

Nóg í bili - með kveðju frá Halli Magnússyni fyrrverandi kúasmala!


mbl.is Dæmi eru um að útlenskar kýr séu notaðar hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maó kemur af stað unaðslegri ritdeilu!

Það er hrein unun að fylgjast með tveimur af mínum uppáhalds pennum kljást á ritvellinum í skemmtilegri ritdeilu - sem getur ekkert annað en magnast - okkur hinum til ánægju og yndisauka! Þetta eru snillingarnir Sverrir Jakobsson sagnfræðingur og Ólafur Teitur Guðnason fyrrum blaðamaður.

Ólafur Teitur þýddi "Maó: Sagan sem aldrei var sögð" sem út kom á dögunum. Sverrir skrifaði nokkuð harðan - og skemmtilegan - ritdóm um bókina sem Ólafur Teitur var ekki alls kostar ánægður með.  Eins og Ólafi Teiti er von og vísa svarað hann fyrir sig af mikilli hörku - og fær að vonum skemmtilegt andsvar í lesbók Morgunblaðsins í dag.

Sverrir segir meðal annars í lesbókinni: "Það eru svo sem ekki ný tíðindi að menn taki bókadóma óstinnt upp, ekki síst þegar þeir eru sjálfir viðriðnir útgáfu verkanna, en þó er sjaldgæft að jafn glannalegar ályktanir séu dregnar af neikvæðum ritdómi". 

Sverrir bætir um betur í niðurlagi greinar sinnar þegar hann segir: "Þrátt fyrir gífuryrði Ólafs Teits og rangtúlkanir á köflum er ég ekki ósammála öllu því sem sagt er í þessu andsvari. Það er td. heiðarlega mælt hjá honum að viðurkenna að hann sé "enginn sérfræðingur í sögu Kína" þótt andsvar hans taki raunar af öll tvímæli um það."

Ég hlakka til að lesa andsvar Ólafs Teits við þessu - sem örugglega verður hnitmiðað og kjarnyrt!


Ræktum kirkjugarðana okkar!

Við eigum að leggja rækt við hina fjölmörgu kirkjugarða sem er að finna við gamlar sveitakirkjur víðs vegar um landið. Það er ekki sæmilegt hvernig við látum þessa heilögu reiti allt of víða drabbast niður og fleytum þanneginn áum um okkar inn í gleymskunar dá!

Ástæða þess að ég fór að hugsa um þetta á ný - en ég hef reyndar lengi verið áhugamaður um verndun og viðhald gamalla kirkjugarða - voru orð hlustanda sem hringdi inn í þátt Sigurðar G. Tómassonar á Útvarpi Sögu - sem ég var að hlusta á í endurtekningu áðan meðan ég var að skúra eldhúsgólfið.

Hlustandinn var reyndar faðir eins besta vinar míns og ágætur kunningi - Marínó Finnbogason.

Marínó er Vestfirðingur að upplagi - og var á dögunum í berjamó fyrir vestan. Hann notaði ferðina og sótti heim Selárdal - þar sem hann á ættir sínar að rekja - og fannst til fyrirmyndar hvernig verið er að hlú að einstökum listaverkum Samúels. Hins vegar sárnaði honum hvernig komið er fyrir kirkjugarðinum á þessu forna og merka menntasetri. Þar var margra ára sina yfir kirkjugarðinum -þar sem hann eftir langa leit fann leiði afa síns - skóflustungu undir sinuvoðinni.

Marínó benti einnig á að leiðum foreldra Jóns Sigurðssonar forseta - sem liggja grafin á Rafnseyri -hafi ekki verið viðhaldið og gerður sá sómi sem eðlilegt ætti að vera eðli málsins vegna.

Ég er sammála Marínó. Það er ósæmilegt að leggja ekki rækt við þessa gömlu kirkjugarða sem ættu að vera órjúfanlegur hluti sögu okkar og menningu. Vandamálið liggur hins vegar í því að það er erfitt fyrir litlar sóknir að halda rækt við gamla kirkjugarða sína. Og það er nánast ómögulegt fyrir áhugamenn um gamla kirkjustaði í eyði að viðhalda þeirri tign sem áar okkar sem liggja í kirkjugörðunum þar eiga af okkur skilið.

Okkur ber skylda til þess að snúa þessari þróun við. Okkur ber skylda til þess að leggja fé og fyrirhöfn í það að viðhalda þessum gömlu kirkjugörðum. Þetta er arfleið okkar og menning.

Ég kalla eftir hugmyndum um það hvernig unnt er að leggja rækt við kirkjugarðanna okkar og sýna þannig áum okkar þá virðingu sem þeim ber.

 


Rakkarnir krafsa yfir skítinn sinn!

Sem gamall áhugamaður um mismunandi lundarfar misgóðra smalahunda get ég ekki annað en dáðst að dugnaði nokkurra rakka í fjölmiðlastétt sem á undanförnum dögum hafa verið að krafsa yfir skítinn sinn í von um að almenningur taki mark á þeim en ekki siðanefnd Blaðamannafélags Íslands.

Fyrst er að nefna rakka sem minnir mig á öflugan flökkuhund frá Rauðamel sem löngum dvaldi á Oddastöðum. Hundkvikindið fann lykt af lóðatíkum í margra kílómetra fjarlægð og var mættur til uppáferðar vítt og breytt um sveitina. Dvaldi hins vegar þess á milli á Rauðamel eða Oddastöðum eftir því sem betur var við hann gert. Þetta var að mörgu leiti sjálfstæður hundur en fylgdi þó húsbónda sínum á ögurstundu þegar þess var virkileg þörf. Átti þó til að svíkja húsbónda sinn tímabundið, en kom alltaf aftur flaðrandi upp um hann. Góður smalahundur og af góðu smalahundakyni held ég.  Smalahundakynið minnir mig að hafi komið úr eyjum - það er Breiðafjarðareyjum.

Þá er það afar sérstök tík sem neri sér alltaf upp að fyrrnefndum rakka - hvort sem hún var á lóðaríi eða ekki. Var reyndar óeðlilega oft á lóðaríi minnir mig og svona undirlægja ef öflugir hundar voru nærri. Gelti hins vegar ákaft að utanaðkomandi hundum sem ekki áttu öflugan húsbónda.  Grönn tík og með sérstakt grásprengt háralag. Kölluð Fluga minnir mig. Tíkin var frekar rólyndisleg í framkomu en beit helvíti fast ef henni var sigað. Mikill leikur í henni.

Í þessum hundahópi var í fyrstu minningum mínum einnig skemmtilegur og státinn hvolpur - sem hélt hvolpnum í sér langt frameftir aldri. Dálítið bangsalegur og var snillingur í að gjamma í túnrollurnar sem yfirleitt hröktust undan. Mér þótti alltaf vænt um þennan hvolp - jafnvel eftir að hann varð fullorðinn hundur - ekki fjarri því að hann væri músíkalskur helvítið á honum. Hann gjammaði reyndar með forysturakkanum og grásprengdu tíkinni þegar hastað var á þá - en mér fannst ekki alltaf sem hugur fyldi gelti.

Að lokum verð ég að minnast á smáhvolp sem rataði inn í þennan rakkahóp undir það síðasta sem ég fylgdist með í sveitinni. Hann var afar státinn - kom reyndar að austan þar sem hann hafði getið sér góðan orðstí við að hælbíta túnrollur. Nær því hvítur með spert eyru. Var selfluttur vestur á land þar sem hann missti sig og réðst að glæsilegri hryssu sem lofaði ágætu á komandi hestamóti. Særði hana þannig að hún komst ekki á mótið - en síðar kom í ljós að hundsbitið var ekki eins djúpt og menn héldu - en þá var mótið bara búið.

Þessi rakkahópur - að hvíta hvolpinum undanskilnum - hefur farið mikinn að undanförnu og gjammað undan skömmunum sem þeir fengu réttilega fyrir hælbitið. Bera sig vel - en ættu að hundskast með skottið á milli lappanna.

Svo er nú það.

Meira síðar um fleiri misjafna hunda sem tekið hafa undir gólið og reynt að hjálpa framangreindum rökkum við að krafs yfir skítinn sinn.


Seðlabankann á Ísafjörð?

Hvernig væri að flytja Seðlabankann á Ísafjörð? Þessa spurningu spurði vinnufélagi minn mig í morgun.

Fyrstu viðbrögð mín voru neikvæð, en svo fór ég að hugsa!

Ísafjörður hefur farið illa út úr flutningi hátæknifyrirtækis af staðnum og samkvæmt nýlegri tölfræði hefur staðurinn verið afar afskiptur hvað varðar flutning opinberra starfa út á landsbyggðina. Það er æskilegt að flytja alvöru opinbert fyrirtæki vestur, allt eða hluta þess. Vestfirðingar eiga það inni hjá þjóðinni. 

Ég vinn í fyrirtæki sem er staðsett á tveimur stöðum, 50 manns í Reykjavík og 16 á Sauðárkróki.  Þetta fyrirkomulag hefur gengið afar vel og starfstöðin á Sauðárkróki er til fyrirmyndar mönnuð metnaðarfullu starfsfólki.

Því þá ekki að flytja Seðlabankann á Ísafjörð? 

Það myndi fjölga hámenntuðu fólki á staðnum sem hvort eð er er ekki á þeytingi vítt og breytt um höfuðborgina í starfi sínu, enda fer starfið fyrst og fremst fram inn á kontór og með upplýsingaöflun gegnum netið, skilst mér.

Margföldunaráhrifinn fyrir Ísafjörð yrðu veruleg - og háskóli á Vestfjörðum hefði aðgang að bestu hagfræðingum til kennslu og jafnvel rannsókna.

Auk þess myndi úrvals húsnæði á besta stað losna í miðbænum. Það væri best nýtt undir listaháskóla - sem stæði þá við hlið stærstu menningarhúsa landsins og við hlið ráðuneyti menningarmála!

Já, af hverju ekki að flytja Seðlabankann á Ísafjörð!

Svo er nú það!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband