Endurvekjum séríslensku öskupokana!

Það er sorglegt að vita til þess að hinir séríslenski öskupokar séu nánast horfnir, en þessi aldagamli íslenski siður lifði góðu lífi allt frá kaþólsku á Íslandi fram undir lok 20. aldarinnar. Ég hvet því alla foreldra sem enn muna hve skemmtilegt það var að næla öskupoka aftan í náungan að setjast við sauma í kvöld og kynna börnunum sínum þennan gamla, skemmtilega sið.

Þótt nútímabörnin séu fórnarlömb útlenskrar grímubúningamenningar þá er ekki úr vegi að viðhalda gömlu öskupokunum - þótt ekki væri nema sem hluti grímubúninganna - til dæmis að fá börnin til að hafa öskupoka hangandi einhversstaðar á grímubúningnum.

Eins og áður segir á öskupokasiðurinn sér rætur aftur úr kaþólsku, en askan er í Biblíunni tákn hins forgengilega og óverðuga, en í kaþólskunni var askan talin búa yfir heilnæmum og hreinsandi krafti. Enda tíðkaðistað dreifa ösku yfir kirkjugesti í á öskudag, dies cinerum, í upphafi lönguföstu. Öskunni var gjarnan dreift með sérstökum vendi - sem síðar varð bolluvöndur bolludagsins þegar lúterskan hafði tekið við. Sá siður kom reyndar ekki til Íslands fyrr en á 19. öld vegna danskra og norskra áhrifa.

Upphaf öskupokanna á Íslandi má væntanlega rekja til þess að fólk hafi viljað taka með sér hina hreinsandi ösku úr kirkjunni heim í bæ - þar sem hún hlyti líka að gera sitt heilaga gagn - og blessað heimilið.

Sá siður að hengja öskupoka aftan í heimilisfólkið á öskudag er að minnsta kosti frá því á miðri 18. öld - mögulega miklu eldri.

Einhverra hluta vegna þá þróaðist öskupokasiðurinn þannig að stelpurnar hengdu öskupoka á strákana, en strákarnir hengdu poka með steinum á stelpurnar. En aðalsportið var að koma pokanum á aðra - án þess að eftir væri tekið!

Í ljósi þessarar merku sögu íslensku öskupokanna hvet ég foreldra enn og aftur að endurvekja þennan skemmtilega sið öskudagsins - þótt ekki væri nema á þann táknræna hátt að öskupokinn sé hluti öskudagsbúningsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Sammála þér. Það mætti gjarna endurvekja þennan sið. En einhvers staðar heyrði ég, að ástæðan fyrir því að öskupokarnir hafa horfið sé sú, að ekki fáist lengur títuprjónar sem hægt er að beygja.

Þorsteinn Siglaugsson, 5.2.2008 kl. 12:55

2 identicon

Hmn, áhugavert, ég vissi ekki að þetta hefði lagst af þar sem ég á engin börn og er vaxinn upp úr þessu sjálfur. Það voru þó hengdir einhverjir pokar á mig eftir að ég komst á unglingsárin (man aftir að fá svona á frakka sem ég gekk í í gaggó), svo líklega hefur þetta verið í dauðateygjunum fyrir þetta tíu-tólf árum eða svo.

Veit einhver hvort þetta er satt með títuprjónana? 

Gunnar Hrafn Jónsson (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 16:29

3 Smámynd: Eiríkur Harðarson


Blessaður vertu Hallur minn, held að það séu meiri líkur á að það frjósi í helvíti. Áður en foreldrar átta sig á því einfalda atriði að miklu HAGKVÆMARA er að vekja þennan gamla, góða og"praktísa"sið upp að nýju. Með því að gera það myndi margt sparast, miklu minni tannviðgerðarkostnaður, miklu grennri og úthaldsbetri börn. Nei í þessari"velsæld" er bara hugsað um hvernig KAUPA má sér frið, það einfaldlega nægjir ekki að framleyða þessa hnokka.

Eiríkur Harðarson, 5.2.2008 kl. 17:56

4 Smámynd: Lýður Pálsson

Já Hallur - upp með öskupokana!

Lýður Pálsson, 5.2.2008 kl. 20:16

5 identicon

Sæll Hallur,er þessu innilega sammála.hef reynt að viðhalda gömlum gildum úr mínu uppeldi,en það er horft á mann eins og eitthvað furðubæri,af unglingunum á heimilinu, kv jobbi

jobbi (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 20:21

6 identicon

Ég hef reynt að endurvekja þennan sið hjá nemendum mínum og sendi auðvitað son minn með nokkra poka á öskudagsball. Vandamálið liggur að hluta til í hraða samfélagsins, enginn hefur tíma og svo hitt að á fæstum heimilum í dag eru til saumavélar til að sauma. Þetta með títuprjónana er alveg rétt, ég hef keypt nokkrar tegundir og náði á endanum einum pakka sem ég passa eins og gull.

Þóra Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 21:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband