Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Stórskipahöfn á Selfoss?

Eigum við ekki að byggja stórskipahöfn á Selfossi!

Það er álíka gáfulegt og að byggja varanlega flugstöð í Vatnsmýrinni þegar ljóst er að flugvöllurinn mun fara þaðan fyrr en síðar. Sama hvaða óra Ólafur Friðrik bæjarstjóri í Reykjavík og Kristján Möller sveitamálaráðherra hafa um varanlegan flugvöll í miðbæ Reykjavíkur.

Mér þætti gaman að sjá framan í Gísla Martein og Hönnu Birnu - sem fram að þessu hafa tekið skynsamlega á málunum.

Á virkilega að kasta milljörðum í vitleysu í Vatnsmýrinni - bara til að sitja nokkra mánuði í meirihluta í Reykjavík - þar sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru ekki einu sinni að ná málum sínum fram?

PS. Ætli snillingarnir hafi minnst á það sem skiptir máli - Sundagöng?


mbl.is Samgöngumiðstöð hýsi alla samgöngustarfsemi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúðalánasjóður til aðstoðar bönkum í sjálfskaparvíti og skuldsettum heimilum?

Stjórnvöld geta beitt Íbúðalánasjóði til þess að leggja lausafjársveltum bönkum í sjálfskaparvíti og skuldsettum heimilum lið í þeirri kreppu sem nú virðist vera að leggjast yfir landið eftir  10 mánaða setu ríkisstjórnarinnar. Ef heldur fram sem horfir og stjórnvöld halda áfram að sitja aðgerðarlaus hjá,  þá mun fasteignamarkaðurinn og í kjölfarið byggingariðnaðurinn hrynja með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Vaxtabyrði þeirra heimila sem tóku lán hjá bönkum og sparisjóðum þar sem vextir eru endurskoðaðir á 5 ára fresti mun að líkindum aukast verulega í kjölfar slíkrar endurskoðunar sem hefst á elstu lánunum haustið 2009.  Sú vaxtahækkun bankanna kann að verða dropinn sem fyllir mælin hjá mörgum fjölskyldum og sett fjölda heimila í þrot með skelfilegum afleiðingum fyrir  fjölda barna og foreldra! 

Alfeiðingar slíkrar stöðu setur mark á þessar fjölskyldur langtum lengur en tímabundin efnahagskreppa – jafnvel ævilangt!

Aðgerðir stjórnvalda til þess að koma í veg fyrir kollsteypu fasteignamarkaðar og byggingariðnaðarins gætu verið:

  1. Afnám úrelts viðmiðunar lána Íbúðalánasjóðs við brunabótamat
  2. Leiðrétting á hámarksláni Íbúðalánasjóð úr 18 milljónum í þær 25 sem hámarkslánið ætti að vera ef fyrra viðmiði hefði verið haldið
  3. Afnám stimpilgjalda
  4. Uppsetning skattfrjáls húsnæðissparnaðarreikninga þar sem ungt fólk leggur til hliðar fjármagn vegna innborgunar samhliða því að ríkið taki upp beina styrki til fyrstu kaupenda á móti húsnæðissparnaðinum.

Fyrstu þrír liðirnir gætu tekið gildi strax ef ríkisstjórnin vaknar af dvalanum og stuðlað að mjúkri lendingu efnahagslífsins, en fjórði liðurinn tæki að virka eftir nokkur misseri þegar ungt fólk hefur lagt til hliðar á húsnæðissparnaðarreikninga um eitthvert skeið.

Í bloggi mínu á morgun mun ég skýra frá því hvernig stjórnvöld geta beitt Íbúðalánasjóði til að losa bankakerfið undan því sjálfskaparvíti sem þeir sköpuðu sér í fljótfærni þeirra í vanfjármögnuðum íbúðalánum til langs tíma 2004-2005 og varð til þess að setja efnahagslífið á hvolf. 

Einnig hvernig þær aðgerðir stjórnvalda geta dregið úr fyrirsjáanlegum vaxtahækkunum fjölda heimila haustið 2009 og vorið 2010 á sama tíma og aðerðirnar geta aðstoðað bankakerfið í lausafjárkrísunni.

PS. Vegna fréttarinnar sem þetta blogg tengist - þá gætu stjórnvöld beint því til stjórnar Íbúðalánasjóðs að fara í útboð strax þar sem slíklt útboð myndi tryggja nauðsynlega vaxtalækkun á íbúðalánum. Það yrði liður í að koma í veg fyrir hrun fasteignamarkaðarins.


mbl.is Engin útboð hjá Íbúðalánasjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drottning íslenskra fréttaskýringa virtist ósátt við Hall Magnússon í Silfrinu!

Drottning íslenskra fréttaskýringa - þar sem iðulega er vitnað til ónefndra heimildarmanna - Agnes Bragadóttir - virtist ekki alveg sátt við mig í Silfri Egils í dag.

Ástæða óánægju hennar var sú að ég sagðist hafa orðið fyrir vonbrigðum með þann mæta mann Þorstein Pálsson fyrir að hafa ekki svarað afdráttarlaust með jái eða nei fyrirspurn Karls Th. Birgissonar um það hvort Þorsteinn hafi orðið vitni að samtali Styrmir Gunnarssonar - hins vandaða ritstjóra Morgunblaðsins - við Kristin Björnsson um "yfirvofandi tíðindi" hjá Baugi tiltekinn dag.

Herðubreið heldur því fram að upphaf Baugsmálsins megi rekja til Morgunblaðsins og áhrifamanna í Sjálfstæðisflokknum - og að ritstjóri Morgunblaðsins hafi vitað af aðgerðum gegn Baugi fyrirfram. Einnig að Þorsteinn Pálsson hafi orðið vitni að slíku samtali Styrmis og Kristins Björnssonar.

Nú hef ég enga skoðun á því hvernig málavextir voru - en tel þá staðreynd að Þorsteinn Pálsson hafi ekki svarað spurningu ritstjóra Herðubreiðar með jái eða nei - hafi orðið til þess að ýta undir grunsemdir almennings um að eitthvað sé til í staðhæfingum Herðubreiðar. Það vita það allir að vandaður og heiðvirður maður eins og Þorsteinn Pálsson myndi aldrei segja beinlínis ósatt. En hann svaraði hvorki já - né nei!


Á leið í Silfur Egils!

Er á leið í Silfur Egils! Spennandi að taka þátt í flottasta þjóðmálaþætti í  íslensku sjónvarpi. Vonandi missi ég ekki málið í beinni útsendingu - en mér skilst að ég verði með stórkanónum sem eru svo sannarlega með munninn fyrir neðan nefið!  Agnesi Bragadóttur blaðamanni og Sigurði G. Guðjónssyni lögfræðingi.


Vanmetnasti bloggari dagsins í dag!

Magnús Stefánsson alþingismaður er líklega vanmetnasti bloggarinn í dag. Mér finnst hans framlag í efnahagsumræðuna ekki síður gáfulegt en málflutningur Seðlabankans!  Ríkisstjórnin telst ekki með - því hún leikur gamalkunnan leik barna sem hlaupa hægar en allir hinir - ég er stikk frí!

Hinn hægláti Magnús er líklega öflugasti þingmaður Framsóknarflokksins þegar kemur að því sem skiptir máli í efnahagsmálum -með fullri virðingu fyrir Valgerði Sverrisdóttur - fyrrum viðskiptaráðherra - sem eflist í sögunni sem einn flottasti utanríkisráðherra lýðveldisins - eftir því sem Ingibjörg Sólrún gegnir því annars ágæta embætti lengur!

Magnús er hægur - en málefnalegur - í efnahagasmálaumræðunni. Hann er með mikla reynslu og góðan bakgrunn sem fyrrum formaður fjárlaganefndar Alþingis - þar sem hann vakti athygli fyrir málefnaleg og fagleg vinnubrögð - sem hann tók ætíð umfram pólitíska hagsmuni Framsóknarflokksins!

Auk þess er Magnús með góðan rekstrarlegan og viðskiptalegan bakgrunn sem rekstrarfræðingur, fyrrum öflugur og vinsæll sveitarstjóri og nú með áralanga þingmennsku að baki jafnframt því að hann er bæta við sig viðskipta og stjórnunarmenntun  í MBA námi samhliða þingmennsku. Þannig fetar Magnús í fótspor þúsunda Íslendinga sem skila vinnu sinni af alúð á sama tíma og þeir bæta við sig dýrmætri menntun sem skila samfélaginu og þeim sem einstaklingum ómetanlegum arði.

Magnús ætti því að vera talsmaður þingflokks Framsóknarmanna í efnahagsmálum!

Sannleikurinn er nefnilega sá að flestir þeir sem setja sig inn í efnahagsumræðuna í dag vita og skilja að gagnrýni Framsóknarmanna á dugleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum er rétt - en sjá hins vegar ekki trúverðugan fulltrúa þingflokksins í efnahagsmálum!

Magnús Stefánsson er hinn rétti fulltrúi Framsóknarmanna á því sviði!

Ég hvet alla áhugamenn um stjórnmál og efnahagsmál að fylgjast með bloggi Magnúsar Stefánssonar!

 

 


mbl.is Reynt að brjóta fjármálakerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vextir Íbúðalánasjóðs lækkuðu í 5,05% ef farið yrði útboð í dag!

Vextir Íbúðalánasjóðs myndi væntanlega lækka í 5,05% ef farið yrði í útboð íbúðabréfa í dag og ávöxtunarkrafa í útboðinu yrði sú sama og hún var á eftirmarkaði um hádegisbilið í dag. Reyndar gætu vextirnir farið í 4,80% ef Íbúðalánasjóður tæki tilboðum í stysta íbúðabréfaflokkinn, en sjóðurinn hefur ekki tekið tilboðum í þann flokk þrátt fyrir hvatningu Seðlabankans um að gera slíkt, enda myndi sú aðgerð væntanlega rugga lögbundnu jafnvægi í áhættustýringu sjóðsins.

Tekið skal fram að um er að ræða vexti á lánum með ákvæðum um uppgreiðslugjald, en vextir lána sem ætíð er unnt að greiða upp án sérstaks uppgreiðslugjalds, færu úr 5,50% í 5,30%.

Íbúðalánasjóður hefur ekki farið í útboð á íbúðabréfum á þessu ári, en útgáfuáætlanir sjóðsins gerðu ráð fyrir útboðum á fyrsta ársfjórðungi sem nú er að ljúka.

 

 


mbl.is Mikil velta á skuldabréfamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðstjórnarhugmynd Heimdallar bjarghringur Sjálfstæðisflokksins?

Fjarvera borgarstjórans í dag var táknræn - þegar samþykkt var að kanna hagkvæmni lestarsamgangna - en borgarstjórinn hafði reynt að koma hugmyndum um lestarsamgöngur út af teinunum með því að fresta afgreiðslu tillögu þess efnis á síðasta fundi, enda ávísun á brottflutning flugvallarins úr Vatnsmýrinni sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins raun og veru vilja!

Sjálfstæðismenn, Framsóknarmenn, Samfylking og VG náðu saman um málið - sem gæti verið fyrsta skrefið í að mynda þjóðstjórn allra flokka í borgarstjórn Reykjavíkur undir forystu ópólitísks borgarstjóra! Fjarvera borgarstjóra í dag gæti einnig verið tákn um slíkt!

En er þjóðstjórnarhugmynd formanns Heimdallar kannske bjarghringur Sjálfstæðisflokksins - og leið unga fólksins - Gísla Marteins og Hönnu Birnu - til að tryggja sér stöðu sem framtíðarleiðtogar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík? 

Það er allavega skoðun G. Valdimars Valdemarssonar í athugasemd við pistil minn Sammála formanni Heimdallar - þjóðstjórn í Reykjavík!

 G. Valdimar segir:

"En er það rétt að henda bjarghring til íhaldsins í þeirri stöðu sem þeir hafa komið sjálfum sér í.  Það er skiljanlegt að menn hafi áhyggjur af því ástandi sem upp er komið í Reykjavík og vilji reyna að skipa málum þannig að líklegt sé til árangurs.  En hver er staðan?  Borgarstjóri er leppur Vilhjálms Þ Vilhjálmssonar og situr í hans skjóli og Vilhjálmur hefur öll spilin á hendi þegar kemur að því að ákveða hver tekur við af núverandi borgarstjóra.  

Það er ljóst að innan borgarstjórnarflokks íhaldsins er hver höndin uppi á móti annarri og amk þrír sækjast eftir því að verða borgarstjórar þegar kemur að þeim að taka við.  Gísli Marteinn og Hanna Birna njóta takmarkaðs stuðnings í eigin röðum og hugnast greinilega ekki Vilhjálmi.  Það er því líklegt að ef hann tekur ekki sjálfur stólinn muni hann setja Júlíus Vífil sem borgarstjóra sem einhverskonar málamiðlun í þeirri baráttu sem er innan borgarstjórnarflokksins.  Júlíus Vífill hefði því forskot í komandi prófkjöri og væri líklegasti kostur sem borgarstjóraefni í komandi sveitarstjórnarkosningum.  

Allt þetta klúður skrifast á Sjálfstæðisflokkinn og það er ekki hlutverk minnihlutans í borgarstjórn að rétta þeim hjálparhönd við að klóra yfir klúðrið.   Það eru augljósir hagsmunir hluta Sjálfstæðisflokksins að losa þá pattstöðu sem þeir hafa komið sér í og þaðan eru þessar raddir um þjóðstjórn í Reykjavík sprottnar.  Ég segi nei takk, látum þá taka til eftir sig og leysa sín mál án hjálpar frá minnihlutanum."

Þetta kann að vera rétt hjá G. Valdimar!

En ég held samt að þjóðstjórn í borginni sé rétta leiðinn - þótt það þýði að bjarghring verði hent til Sjálfstæðisflokksins!


mbl.is Borgarráð skoðar hagkvæmni lesta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúðalánasjóður einmana á íbúðalánamarkaðnum með langlægstu vextina!

Íbúðalánasjóður er einmana á íbúðalánamarkaðnum eftir að bankarnir hafa nánast alfarið hætt að lána íbúðalán, enda vextir íbúðalána bankanna í himinhæðum og fara hækkandi!

Eftir situr á sínum stað Íbúðalánasjóður með langlægstu íbúðalánavextina - vexti sem hljóta að fara að lækka á næstunni þegar sjóðurinn fer í boðað útboð á íbúðabréfum - en miðað við ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði þá verður Íbúðalánasjóður að lækka útlánavexti sína verulega - hvað sem stjórnvöldum kann að finnast um það!

Fasteignakaupendum hlýtur að finnast ennþá vænna um Íbúðalánasjóð nú en áður - og þótti þeim nú ansi vænt um sjóðinn fyrir ef marka má viðhorfskannanir!

Nú væri reyndar gott tækifæri að afnema löngu úrelt viðmið útlána Íbúðalánasjóðs við brunabótamat!

Rök stjórnvalda fyrir að gera það ekki voru alltaf að það væri ekki hægt þegar þensla ríkti á fasteignamarkaði. Nú ríkir engin þensla á fasteignamarkaði - þannig að stjórnvöld hafa enga afsökun fyrir því að afnema ekki þetta fáránlega viðmið.

Jóhanna félagsmálaráðherra hlýtur að ganga frá reglugerðarbreytingu sem afnemur þetta illræmda viðmið nú næstu daga! Það yrði farsælt skref fyrir alþýðu manna - og ekki hvað síst unga fólkið!


mbl.is Bankar og sparisjóðir skoða vextina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fallast Frakkar og Bretar í faðma?

Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti virtist ná eyrum breskrar þingmanna í Westminster í dag þar sem hann hélt stórmerka ræðu - sem varð til þess að ég hljóp nokkuð lengur á hlaupabrettinu í Hreyfingu en til stóð til að hlusta á kallinn - en það var sýnt beint frá ræðunni á einhverri fréttastöðinni þar sem hin hljómfagra franska var jafnóðum þýdd yfir á engilsaxnesku.

Það er greinilegt að Sarkozy leggur megináherslu á að ná góðum tengslum við Breta og bresku ríkisstjórnina. Ræddi um óaðskiljanlega samtvinnun sögu Englands og Frakklands undanfarin 1000 ár eða allt frá því afkomandi Göngu-Hrólfs - Vilhjálmur bastarður eða sigursæli eins og Sarkozy nefndi hann - hélt frá Normandí til Englands og gerðist konungur þar 1066!

Sarkozy staldraði sérstaklega við þá þakkarskuld sem Frakkar stæðu við Englendinga - sem í tvígang á 20.öldinni hefðu fórnað tugþúsundum sona sinna á vígvöllum meginlands Evrópu til að tryggja frelsi og lýðræði Frakka.

Sarkozy ræddi ekki sérstaklega um það við hverja Englendingar börðust við hlið Frakka í tveimur heimsstyrjöldum - en það fór aðeins um mig hrollur þegar ég mundi hversu köldu andar milli Sarkozy og Angelu Merkel kanzlara Þýskalands!

Sarkozy virðist leggja mikið á sig til að ná góðu sambandi við Breta og mér sýnist allar líkur á að framundan geti verið nýjir tímar náinnar samvinnu þessara ríkja. Reyndar eru hæg heimatökin þar sem Sarkozy og Brown forsætisráðherra Bretlands eru góðir kunningjar frá þeim tíma sem þeir gegndu samhliða embætti fjármálaráðherra í hvoru ríkinu fyrir sig.

Það vekur líka athygli hvað leiðtogarnir ætla að ræða - meðal annars samstarf á sviði hermála, kjarnorkumála og á sviði innflytjendamála!

Þess má geta að forsetafrú okkar mun sitja veislu með hinni nýju forsetafrú Frakklands í Lundúnum ásamt fleiri leiðtogafrúm Evrópu af tilefni heimsóknar Sarkozys.

Hér má reyndar heyra forsetafrúnna frönsku syngja um ástina!

... og hér um eitthvað sem ég hef enga hugmynd um hvað fjallar um - en er bara svo fallegt!


mbl.is Sarkozy heitir að senda fleiri hermenn til Afganistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxtahækkun Seðlabanka bara bull og vitleysa?

Vaxtahækkun Seðlabankans er bara bull og vitleysa ef eitthvað er að marka Vilhjálm Egilsson framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í morgunútvarpi Rásar 1 í morgun! Vilhjálmur segir að gengi íslensku krónunnar hefði hækkað þótt Seðlabankinn hefði látið stýrivaxtahækkun eiga sig - og segir stefnu Seðlabankans orsaka miklar sveiflur í hagkerfinu sem séu gríðarlega íþyngjandi fyrir atvinnulífið auk þess sem þær dragi úr trúverðugleika þess.

... og það eru heimilin og atvinnulífið sem blæða!

Vilhjálmur bendir réttilega á að vaxtahækkunin hafi einungis áhrif á lítinn hluta hagkerfisins þar sem stærstur hluti langtímalána eru annað hvort verðtryggð eða í erlendri mynt - þannig að stýrivextir Seðlabanka bíti hægt og illa.

Mig setti hljóðan að heyra í Vilhjálmi!

Get þó huggað mig við að í því ástandi sem nú er - þar sem ástæða er að auka lausafé bankanna - þá rýmkaði Seðlabankinn bindiskyldu íslensku bankanna.

Sú aðgerð er jákvæð og eðlileg - en með þeirri aðgerð staðfesti Seðlabankinn mistök sín í efnahagsmálum haustið 2004 þegar hann klikkaði á því að hækka bindiskyldu íslensku bankana til að draga úr útlánagetu þeirra, en óhófleg fasteignalán bankanna á niðurgreiddum vöxtum haustið 2004 og vorið 2005 setti efnahagslífið á hvolf eins og kunnugt er!

Seðlabankinn hefur í raun gengið gegn þeim rökum sem forsvarsmenn hans hafa beitt fyrir því að hækka ekki bindiskylduna á sínum tíma - eða með öðrum orðum - óbeint viðurkennt afdrifarík mistök sín haustið 2004!!!


mbl.is Áhrif vaxtahækkunarinnar: Heimilum blæðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband