Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Takk fyrir mig!

Kæru lesendur!

Nú þegar Ólafi Þ Stephensen hefur verið sagt upp sem ritstjóra Morgunblaðsins hef ég ákveðið að hætta að blogga á mbl.is. Ég vil því þakka þeim 415.606 gestum sem lesið hafa blogg mitt frá því ég byrjaði að blogga á haustmánuðum árið 2007. Sérstaklega vil ég þakka þeim 289.674 gestum sem ómökuðu sig á að lesa pistla mína undanfarið ár.

Ég hef haft það sama að leiðarljósi á blogginu og ég hef haft í lífinu frá því á unglingsaldri - að segja það sem mér finnst - hvort sem það komi mér illa eður vel.

Ég vona að innlegg mitt hér á mbl.is undanfarin tvö ár hafi eitthvað haft að segja í þjóðmálaumræðunni - umræðu sem líklega hefur sjaldan verið eins frjó og undanfarin misseri - þökk sé þessum lýðræðislega miðli blogginu.

Kærar þakkir fyrir mig.

Kveðja

Hallur Magnússon

www.spesia.is


Ólafur Stephensen var góður ritstjóri Morgunblaðsins

Ólafur Stephensen var að mínu mati góður ritstjóri Morgunblaðsins á erfiðum tímum. Mér finnst hann hafa reynt að gera Morgunblaðið að óháðum, kröftugum og vönduðum fjölmiðli. Vandi Ólafs var hins vegar verulegir fjárhagslegir erfiðleikar í rekstri blaðsins - og að hann fékk aldrei fullkomið ritstjórnarvald yfir blaðinu. Þurfti að dragnast með það sem einhverjir gætu kallað lík í lestinni.

Því fer fjarri að ég og Ólafur Stephensen séum sammála um allt. Þvert á móti erum við ósammála um mjög marga hluti. Það breytir ekki skoðun minni á Ólafi sem ritstjóra og vönduðum blaðamanni.

Sú skoðun byggir á kynnum mínum af Ólafi þegar við störfuðum báðir sem ungir blaðamenn á sitthvorum fjölmiðlinum og vorum hvor á sinn hátt róttækir. Sátum oft hlið við hlið á borgarstjórnarfundum og sendum fréttir þaðan. Þá var Davíð Oddsson borgarstjóri.

Við tókumst þá stundum á um menn og málefni í samræðum. Vorum nánast alltaf ósammála.

Ég var reyndar skammaður af félögum mínum þegar ég bloggaði á þann veginn að ég teldi Ólaf rétta manninn í djobbið. Ég er ennþá þeirrar skoðunar.


mbl.is Ólafur kvaddi starfsmenn Morgunblaðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lykilatriði í framþróun Evrópusambandsins

Samþykkt efri deildar hins þýska Bundersrat á lögum sem heimila staðfestingu á Lissabonsáttmálanum er lykilatriði fyrir framþróun Evrópusambandsins og skiptir miklu máli fyrir inngöngu Íslands í bandalagið kjósi íslenska þjóðin inngöngu þegar aðildarsamningur liggur fyrir.

Nú eru það frændur okkar Írar sem eiga næsta leik - en þeir hafa verið afar tortryggnir gagnvart  Lissabon sáttmálanum.

Talandi um Íra. Andstæðingar Evrópusambandsins hafa mikið velt sér upp úr efnahagsörðugleikum Íra um þessar mundir. Þeir virðast reyndar hafa gleymt hver staða Írlands var áður en þeir gengu í Evrópusambandið og tóku upp Evru. Nánast efnahagsleg auðn!

Þá er ljóst að írska kreppan væri enn dýpri - og jafnvel svipuð okkar - ef Írar hefðu ekki verið í Evrópusambandinu og tekið upp Evru.

Við ættum að hafa það í huga.


mbl.is Staðfestu Lissabon-sáttmálann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afstaða Spánverja til aðildarviðræðna mikilvæg fyrir Íslendinga

Það eru gleðifréttir að Miguel Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar skuli leggja áherslu á að aðildarviðræðum Íslendinga við Evrópusambandið ljúki strax á næsta ári. Spánverjar taka við formennsku í Evrópusambandinu af Svíum um áramót. Það er því mikilvægt að Spánverjar styðji aðild Íslands að Evrópusambandinu og þeir leggja áherslu á að hraða viðræðum eins og kostur er.

Það skiptir nefnilega miklu máli að Íslendingar geti sem allra fyrst tekið endanlega afstöðu til aðildar þannig það sé ljóst sem allra fyrst hvort framíðaruppbygging Íslands verði innan eða utan Evrópusambandsins.

Afstaða Íslendinga mun ekki verða ljós fyrr en aðildarsamningur liggur fyrir og ljóst er hver staða Íslands innan Evrópusambandsins yrði og hvort mikilvægum hagsmunum Íslendinga verði fórnað ef gengið er í sambandið.

Um þessar mundir er nokkur meirihluti landsmanna sem er mótfallinn inngöngu í Evrópusambandið - en fyrir skömmu var því öfugt farið.

Það var því rétt að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið og fá á hreint hvað aðild þýðir fyrir Íslendinga í aðildarsamningi. Á grundvelli aðildarsamnings á þjóðin að taka endanlega afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er best fyrir alla að það verði gert fyrr en síðar.

Fundir Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar með Moratinos eru mikilvægt skref í umsóknarferlinu. Stjórnvöld þurfa á næstu vikum og mánuðum að vinna mikilvæga vinnu við undirbúning aðildarviðræðnanna svo unnt verð að ná fram eins hagstæðum samningi og unnt er þannig að þjóðin sé þess fullviss að hún sé að greiða atkvæði um besta mögulegu stöðu Íslands innan Evrópusambandsins þegar þar að kemur.

Það er mikilvægt fyrir framhaldið að þjóðin sé þess fullviss að ekki hafi verið slakað á í aðildarviðræðunum og að niðurstaðan sé sú besta mögulega.

Hvort sá samningur er nægilega góður svo meirihluti þjóðarinnar samþykki hann mun framtíðin leiða í ljós. En niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar ákvarðar framtíðastefnu Íslands og þjóðin á að standa saman um áframhaldið hver sem niðurstaðan verður. En sú framtíðarstefna þarf að liggja fyrir eins fljótt og auðið er.


mbl.is Aðildarferli ljúki á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármögnun á núllausn á fjárhagsvanda heimilanna

Það verður spennandi að sjá hver svör Breta og Hollendinga verða - þau geta skipt sköpum hvað varðar endurreisn Íslands. Hluti af endurreisn Ísland er að styðja fjölskyldurnar í landinu við að komast í gegnum stóraukna greiðslubyrði af lánum á meðan tekjur dragast saman og fasteignaverð lækkar.

Ég kom á framfæri svokallaðri núllausn á bloggi mínu í morgun. Tillögu að lausninni var komið til mín af hugmyndasmiðnum fyrir allnokkru síðan - þótt ég birti hana opinberlega fyrst nú.

Lausnin hefur einnig verið kynnt á bloggsíðu Jóns Árna Bragasonar. 

Bæti nú við í umræðuna umfjöllun um það hvernig fjármagna skuli núllausnina:

"Gefum okkur að af 1200 milljarða fasteignalánum heimilanna séum við að greiða 90 milljarða á ári í vexti. Það er það sem fjármálakerfið eða öllu heldur eigendur fasteignalána yrðu af árlega næstu 3 árin ef þjóðarsátt um núllvexti yrði gerð.

Í Vaxtasjóðinn kæmu 30 milljarðar þar sem við skattleggjum sparnaðinn ( minni vaxtagreiðslur heimilanna ) um 33%. Greitt er af honum til eigenda fasteignalánanna. Í þessu tilfelli myndi ég greiða það allt saman inn í Íbúðalánasjóð. Þá standa eftir 60 milljarðar í tapaðar tekjur.

Lífeyrissjóðir, sem eru eign heimilanna, tækju á sig 36 milljarða af þeirri upphæð með því að fá 36 milljarða í lægri ávöxtun á eignir sínar árlega. Lífeyrissjóðirnir, sem eru eign okkar, eiga í dag um 1.800 milljarða. 1% ávöxtun eigna skilar því 18 milljörðum á ári. Því er einungis um það að ræða að Lífeyrirsjóðirnir, sem eru eign heimilanna, sætti sig við 2% lægri ávöxtun en ella væri á samningstíma. Rétt er að benda á í þessu sambandi að Lífeyrissjóðirnir, sem eru eign okkar, töpuðu um 200 milljörðum á síðasta ári og þeir hurfu í fjármálakerfið og atvinnulífið. Þetta eru því smámunir einir og krefst eingöngu vandaðrar og áhættulausrar stýringu á eignum.

Eftir voru 60 milljarðar og Lífeyrissjóðirnir, sem eru eign heimilanna, tækju 36 milljarða og þá eru 24 milljarðar eftir.

Fjármálakerfið, sem er að mestum hluta í eign ríkisins, sem er í sameign okkar, er líklega um 4.000 milljarðar að stærð. Stór hluti rekstrarkerfisins byggir á þeim vaxtamun sem kerfið tekur sér. 1% vaxtamunur gefur til dæmis af sér um 40 milljarða á ársgrunni. Gefum okkur það að við ætlum fjármálakerfinu, sem er okkar sameign, að taka á sig 15 milljarða af þessum 24 milljörðum. Það þýðir að fjármálakerfið, sem er sameign okkar, þarf einungis að vinna með 0,4% minni vaxtamun en ella. Þessu er auðveldlega hægt að ná með betri rekstri og hagkvæmari einingum.

Þá eru eftir 9 milljarðar enn sem þarf að bæta úr. Það er einfalt. Gert er ráð fyrir því að greiða 9 milljarða árlega í vaxtabætur til heimilanna og svo var gert vegna tekjuársins 2008. Þau útgjöld ríksins falla niður vegna þess að heimilin hætta að borga vexti í 3 ár. Því eru þeir 9 milljarðar afskaplega einfaldlega fluttir yfir í Vaxtasjóðinn og úr honum greitt inn til Íbúðalánasjóðs.

Hér með er því búið að dreifa byrðunum með sanngjörnum og réttlátum hætti. Heimilin losna við 90 milljarða vaxtagreiðslur. Heimilin greiða 30 milljarða í skatt inn í Vaxtasjóðinn. Heimilin geta notað hina 60 milljarðana til að mæta lækkandi tekjum, eða aukið neysluna, eða greitt lánin sín hraðar niður eða sparað og lagt fyrir. Á hinni hliðinni eru ríkið engu að kosta til. Íbúðalánsjóður fær allt sitt bætt. Lífeyrissjóðirnir, sem eru eign heimilanna, taka þátt í endurreisninni og styðja við eigendur sína án þess að afskrifa krónu. Þeir meira að segja ávaxta sitt fé betur en ella og minnka áhættuna sína á töpuðum eignum. Fjármálakerfið tekur sínar byrðar en samt að algjöru lágmarki og vel innan þeirrar kröfu sem hægt er að gera um hagkvæmar, arðsamari, áhættulausari og skynsamlegri rekstur en verið hefur.

Vandinn leystur fyrir alla og við getum einbeitt okkur að því að laga til í þjóðfélaginu og koma atvinnulífinu í gang og atvinnustiginu í samt lag."

 


mbl.is Hugmyndir Breta og Hollendinga kynntar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðför fréttastofu RÚV að æru Sigmundar Davíðs!

Fréttastofa RÚV gerði vísvitandi aðför að æru Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Framsóknarflokksins um síðustu helgi þegar fréttastofan tók ítrekað fram að hún hefði ekki náð sambandi við Sigmund Davíð þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Með þessu gaf fréttastofan vísvitandi í skyn að Sigmundur Davíð væri að forðast fréttastofuna.

Þegar fyrsta frétt RÚV þar sem fréttastofan lagði mikla áherslu á að hún hefði ekki náð í Sigmund þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir - þá hringdi ég í fréttastofuna og sagði þeim að mér þætti þetta ómaklegt þar sem Sigmundur Davíð væri erlendis og utan farsímasambands. Fréttamaðurinn sem svaraði sagði að þeim hefði verið ókunnugt um það - þrátt fyrir að aðrir fjölmiðlar hefðu tekið fram í sínum fréttaflutningi að Sigmundur Davíð væri erlendis.

Ég vildi láta fréttastofuna njóta vafans og að þau hefðu ekki vitað að Sigmundur væri erlendis utan farsímasambands. Sem ég er ekki viss umþegar ég skoðaði eftirleikinn.

Fréttamaðurinn sagðist myndi koma þessu á framfæri við fréttastjóra.

Það kom því verulega á óvart þegar ég heyrði fréttastofu RÚV halda áfram að að undirstrika að ekki hefði náðst til Sigmundar Davíðs þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Nú fóru bloggheimar af stað í að velta fyrir sér hvort Sigmundur Davíð væri að forðast fréttaviðtal.

Í morgun fékkst það svo staðfest að fréttastofa hafði ítrekað fengið það staðfest að Sigmundur Davíð væri í dreifbýli á Íslendingaslóðum í Kanada og væri ekki í farsímasambandi.

Þrátt fyrir það hélt fréttastofa RÚV ítrekað áfram með fréttaflutning - þar sem sagt var að ekki hefði náðst í Sigmund Davíð þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Ég sé ekki betur en að þetta sé aðför RÚV að æru Sigmundar Davíðs.

Hefur fréttastofa RÚV beitt sama fréttaflutningi varðandi aðra stjórnmálamenn í öðrum flokkum sem hafa verið áberandi týndir í fjölmiðlum?

Mig rekur ekki minni til þess!


Núlllausnin athyglisverð í stöðunni!

Það á ekki að koma neinum á óvart að vanskil aukist hratt um þessar mundir. Það var fyrirsjáanlegt. Vandamálið er að finna bestu lausnina til að styðja við fjölskyldur og fyrirtæki á þessum erfiðum tímum.

Fyrir nokkrum mánuðum var mér bent á svokallaða núllausn - sem nú hefur verið útfærð betur.

Mér finnst hún athyglisverð og þess virði að skoða þá leið af fullri alvöru og kanna hvort þetta sé skásta lausnin í stöðunni.

Lausnin er svona:

"Inngangur

Nú er það svo að öllum er það ljóst orðið að bankar, lífeyrirssjóðir og önnur fjármálafyrirtæki í höndum óvarkárra stjórnenda og í skjóli slakra laga og reglna ESB/EES og undirslælegri framistöðu eftirlitsaðila í mörgum löndum, komu íslensku hagkerfi á hnén og almennum skuldugum íslendingum í erfiða aðstöðu.

Það er einnig ljóst að margir hafa tapað miklu fé.  Skuldir heimilanna hafa hins vegar aukist verulega vegna þessa og ekki bara á pappírunum því ætlunin virðist vera að láta hinn almenna íslending borga fyrir allt sukkið.  Ljóst er að margur mun ekki geta staðið undir því oki sem á hefur verið sett.

Það mætti líka vera flestum ljóst að þær aðgerðir sem hingað til hefur verið unnið í miðast allar við að bjarga fjármagnseigendum frá tapi, að bjarga þeim sem eiga skuldir en ekki þeim sem skulda.  Nýju bankarnir hafa líklega fengið eignir/útlán gömlu bankanna á 30-40% afskriftum en virðast einbeittir í að innheimta skuldirnar að fullu og þá gjarnan með aukaálagi að ystu þolmörkum skuldaranna.

Hins vegar hefur öll umræða hingað til beinst að lausnum sem fela í sér afskriftir, niðurfærslur, tekjutengingar,aukningu á flækjustigi, miðstýringu, tilsjónarmennsku, skrifræði, eftirliti og annarri almennri forræðishyggju.  Ekki er tekið á því sem raunverulega skiptir máli sem er hið séreinangraða íslenskavaxtaokur sem hefur viðgengist bæði gagnvart atvinnulífi og heimilum undanfarna áratugi.  Kastljósi lausna á að beina að þeim vöxtum sem fara á milli lánveitenda og lántakenda.  Í því felst sáttarmöguleikiog leið til lausnar án forræðishyggju og afskrifta.

Staðan

  • Heimilin - Aukning skulda heimilanna vegna íbúðakaupa vegna fjármálakreppu nemur um 300 - 500 milljörðum.  Þá eru ótaldar skuldir sem hið opinbera tekur yfir og ætlunin er að láta heimilin borga að auki. Við óbreytt kerfi munu fjármálafyrirtækin leggja auknar byrðar í formi vaxta á heimilin til að ná "tapinu" til baka.  Tapi sem búið er að flytja á heimilin nú þegar. Greiðsluflæðið/eignatilfærslan er einhliða og aukning greiðslubyrði leiðir til gjaldþrota, eignahruns o.s.frv.
  • Ríki og Sveitarfélög - Aukning skulda ríkis ogsveitarfélaga vegna fjármálakreppunnar nemur um 700 - 1.000 milljörðum
  • Atvinnulífið - Aukning skulda atvinnulífsins vegna fjármálakreppunnar nemur hundruðum ef ekki þúsundum milljarða, segum um 1.000 milljörðum.
  • Bankar, sparisjóðir, önnur fjármálafyrirtæki og Lífeyrissjóðir.  Þessir aðilar eru ábyrgir að stórum hluta fyrir hruninu og því ekki óeðlilegt að þau taki á sig á næstu árum hluta þessara 2 - 3 þúsund milljarða skuldaaukningar heimilanna, hins opinbera og atvinnulífsins.

Lausnin

Gerður yrði samningur um að ekki yrðu greiddir vextir né verðtryggðir vextir af fasteignalánum í 3 ár.  Eingöngu afborganir og verðtryggðar afborganir yrðu greiddar eigendum fasteignalána.  Verðtrygging og gengisvísitala yrði áfram virk og með þeim hætti væru eigendum fasteignalánanna tryggð raunverðmæti eigna sinna á þessum3ja ára samningstíma.  Skuldarar fasteignalána myndu um leið staðfesta skuld sína við lánadrottna.

Fasteignalán heimila eru í dag um 1.200 milljarðar.  Ætla má að afborganir vaxta og verðtryggðra vaxta séu um 80 - 100 milljarðar á ári, gróft reiknað.  Sparnaður skuldara vegna þessarar aðferðar yrði skattlagður um 33% og rynni sá skattur til ríkisins inn í Vaxtasjóðinn.  Vaxtabætur ríkisins til einstaklinga og heimila yrðu aflagðar enda um niðurgreiðslur að ræða sem ekki hafa náð tilgangi sínum. Skuldari sem tekið hefur lán til fasteignakaupa á síðustu arum og skuldar 10 milljónir í eftirstöðvar í dag er að borga í dag rétt rúmar 50 þúsund krónur á mánuði og þar af um 42 þús í vexti.  Verði þessi leið farin borgaði þessi skuldari um 21-25 þúsund krónur á mánuði eða 28 þúsund krónum minna á mánuði.  Af greiðslunni færi um 14 þúsund krónur í Vaxtastjóðinn í umsjá ríkisins og 7-11 þúsund í greiðslu af höfuðstól lánsins.

Ríkið myndi nota innheimtar tekjur til greiðslu vaxtabóta til eigenda fasteignalána annars vegar og til aðstoðar við tekju- og efnaminni heimila hinsvegar.  Ríkið gæti að auki komið með framlög inn í Vaxtasjóðinn til að mæta kostnaði vegna þessa verkefnis.

Öll kerfi eru til staðar.  Útreikningar allra lána yrðu áfram með sama hætti en fjármálastofnanir og lífeyrissjóðirmyndu aðeins innheimta hverju sinni afborganir og þriðjung vaxtagreiðslanna.  Vaxtagreiðslunum væri skilað í ríkissjóð (Vaxtasjóðinn) og inneign/krafa myndast fyrir fyrir vöxtum og verðtryggðum vöxtum á ríkið.  Það væri ríkisins (fyrir hönd íslenskra heimila) og eigenda fasteignalánanna að semja um hversu stór hluti þeirrar kröfu yrði greiddur á samningstíma af Vaxtasjóðnum.

Þeir sem skulda mest og nýjast myndu greiða mest í Vaxtasjóðinn.  Þeir hafa líka tekið mestu hamfarirnar á sig í aukinni skuldabyrði.  Þetta fyrirkomulag yrði lagt niður eftir 3 ár og allt færist í sama horf.  Ef skoðaðar eru vísitölur 10 ár aftur í tímann er ljóst að á lengri tími er um leiðréttingar að ræða og núverðandi erfiðleikar eru vegna of mikilla breytinga á of skömmum tíma í samhengi vísitalna neyslu, launa og eigna.

Verðieignir seldar á tímabilinu með áhvílandi lánum yrði að gera upp viðkomandi lán.

Kaup nýrra aðila á fasteignamarkaði yrðu óbreytt og tækju mið af núverandi kerfum og eðlilegu mati á greiðslu og eignastöðu viðkomandi.

Þetta fyrirkomulag tryggir fjármunaeignir og veðhæfi eigna.  Það er gott fyrir fjármagnseigandann og betra en afskriftir á kröfum.  Þetta fyrirkomulag tryggir greiðsluhæfi skuldara næstu 3 árin og eyðir óvissu um stöðu heimila.  Fyrirkomulagið gefur heimilinum þann tíma sem þarf þangað til nokkurn vegin eðlilegt jafnvægi næst aftur í vísitölum, neyslu, launa og íbúðaverðs.

Þetta fyrirkomulag eykur að auki neysluhæfi heimilanna sem er gott fyrir samfélagið og atvinnulífið.  Þetta fyrirkomulag eykur einnig möguleika skuldara að lækka skuldir sínar hraðar en ella og minnka þar með fjármálakerfið og innbyggða áhættu þess.  Það er raunverulegt langtímamarkmiðið fyrir Íslendinga. 

Þetta fyrirkomulag tryggir ríkinu tekjur og samningsstöðu um útgjöld yfir óvissutíma og eykur möguleika ríkis og heimila á að ná tökum á vandanum sem liggur fyrir.

Mun Íbúðalánasjóður tapa á þessu. Svarið er já og nei. Til skemmri tíma já.  Til lengri tíma er svarið nei.  Sama á við um fjármálastofnanir í eigu ríkisins.  Sama á við um lífeyrissjóðina.

Það er vaxtaokur sem veldur gríðarlegum eignatilfærslum.  Stoppum vextina og setjum raunvexti í núll í 3 ár.  Það er raunveruleg sáttaleið í samfélagi sem er að gliðna í sundur."

 


mbl.is Vanskil aukast hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef Silja Bára væri í Framsókn!

Ef Silja Bára Ómarsdóttir fulltrúi í nefnd um erlendar fjárfestingar væri í Framsókn þá hefðu bloggheimar og væntanlega einhverjir fjölmiðlar logað í ásökunum um misbeitingu og að líkindum væri krafan um að Silja Bára segði af sér.

En Silja Bára er ekki í Framsókn.

Silja Bára er í Vinstri grænum.

Þess vegna er allt kyrrt og hljótt.

Silja Bára blekkti vísvitandi fjölmiðla og almenning í landinu með því að senda út fréttatilkynningu í nafni nefndar sem ekki hefur fundað og ekki hafði verið skipaður formaður fyrir. 

Blekkingarbréfið til fjölmiðla var hápólitískt þar sem Silja Bára reyndi að láta líta út sem hún væri að tala í nafni faglegrar nefndar þegar hún var að tala sem hápólitískur stuðningsmaður Vinstri grænna.

Ég ætla að leyfa mér að efast um hæfi Silju Báru til að fjalla um samning Orkuveitunnar um sölu á hlut sínum í HS Orku til Magma Energy.

Ástæðan er einföld. Silja Bára hefur fyrirfram tekið hlutdræga afstöðu í málinu sem henni ber skylda til að skoða á hlutlægan hátt. Það getur hún ekki úr þessu og málið getur því ekki fengið eðlilega og faglega afgreiðslu í nefndinni meðan Silja Bára situr þar.

Að sjálfsögðu verður hún að víkja við afgreiðslu þess máls – þótt ég krefjist þess ekki að hún víki alfarið úr nefndinni.

En það er alveg ljóst að ef um Framsóknarmann væri að ræða – þá væri sá maður að íhuga afsögn sína.


Að hengja bakar fyrir smið!

Mótmælendur á pöllum borgarstjórnar eru að gera hróp að röngum aðila. Ef fólkið er á móti því að leigja orkulindirnar á Suðurnesjum þá er Orkuveitan og meirihlutinn í borgarstjórn ekki rétti aðilinn að skamma. Reykvíkingar hafa ekki umráð yfir þeim orkuréttindum. Það eru sveitarfélög á Suðurnesjum sem þegar hafa samið um nýtingu orkulindanna.

Ef fólkið er á móti því að leigja orkulindirnar í svo langan sem raunin er - það er til 65 ára - þá eiga þeir ennþá síður að gera hróp að meirihlutanum í borgarstjórn. Þeir eiga að gera hróp að ríkisstjórninni fyrir að breyta ekki lögum þannig að leigutími á auðlindum verði styttri og að sveitarfélögunum á Suðurnesjum fyrir að nýta sér að fullu þann möguleika sem lögin gefa.

Ef fólkið er á móti því að Orkuveitan selji hlut sinn þá á það að gera hróp að samkeppnisyfirvöldum sem túlka samkeppnislög á þann hátt  raun ber og skikkaði Orkuveituna að selja. Eða þá stjórnvöldum fyrir að setja ekki sérlög um að Orkuveitan geti átt hlutinn áfram.

Ef fólkið er á móti því að Orkuveitan selji Magma Energy hlut sinn í HS Orku - þá er Orkuveitan ekki sá aðili sem skamma skal. Magma Energy er eini aðilinn sem hefur gert tilboð. Fólkið á að skamma ríkisstjórnina fyrir að ganga ekki inn í samninginn - eða það á að skamma ríkisstjórnina fyrir að breyta ekki löggjöf þannig að ekki megi selja hlutinn til erlends aðila.

Hvernig sem á málið er litið - þá er fólkið á pöllunum að gera hróp að löngum aðilja.

Ein ástæða þess er reyndar augljós og hefur ekkert með sölu Orkuveitunnar á HS Orku til Magma Energy. Það er nefnilega stór hluti sem er að gera hróp að meirihlutanum í borgarstjórn vegna þess að þar er um að ræða stuðningsmenn Samfylkingar, VG og Borgarahreyfingar sem eru að hefja kosningabaráttu fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar og vilja fella meirihlutann í borgarstjórn hvað sem það kostar og með hvaða meðulum sem er.

Tvískinnungur Samfylkingar sem er með eina stefnu í ríkisstjórn í málinu og aðra í borgarstjórn undirstrikar þetta. Einnig það að stuðningsmenn VG  beitir sitt fólk í ríkisstjórn ekki þrýstingi til að grípa inn í á þann hátt sem ríkisstjórnin getur gert.

Við eigum eftir að sjá fleiri svona flokkspólitískar uppákomur í vetur af hálfu stuðningsmanna minnihlutans í borgarstjórn.


mbl.is Hróp gerð að borgarstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norska stjórnin gæti sprungið!

Norska ríkisstjórnin gæti sprungið vegna þess afhroðs sem Sósíalíski Vinstriflokkur Kristínar Halvorsen fékk í kosningunum. Flokkurinn tapaði 4 þingmönnum þar af þremur til Verkamannaflokksins - en það var greinilegt að norskir kjósendur voru að kjósa Jens Stoltenberg sem forsætisráðherra - þar af margir fyrrum kjósendur SV.

Það sem fer afar illa í liðsmenn er ekki bara það að missa fylgi til Verkamannaflokksins heldur sú staðreynd að SV er nú með minna fylgi en Miðflokkurinn sem í raun myndaði núverandi rauðgræna ríkisstjón með því að yfirgefa áratugasamstarf borgaraflokkanna og gekk til liðs við vinstri flokkana.

SV og Miðflokkurinn eru nú með sama þingmannafjölda sem þýðir væntanlega að Miðflokkurinn mun fá jafnmarga ráðherra og SV - ef ríkisstjórnin lifir. Málið er nefnilega að margir liðsmenn SV hafa lýst óánægju sína með að flokkurinn hafi misst fylgi vegna ríkisstjórnarsetunar og hafa ýjað að því að draga sig út úr stjórninni. Kristín Halvorsen mun væntanlega berjast fyrir áframhaldandi stjórnarsamstarfi - en eins og í sumum systurflokkum SV - þá láta flokksmenn ekki alltaf að stjórn!

SV systurflokkur VG, Miðflokkurinn er systurflokkur Framsóknarflokksins og Verkamannaflokkurinn systurflokkur Samfylkingar.

Ef SV dregur sig úr úr stjórninni kemur upp sérkennileg staða. Borgaraflokkarnir hafa ekki meirihluta nema Miðflokkurinn snúi baki við Verkamannaflokknum - auk þess sem Framfaraflokkurinn á ekki upp á pallborðið sjá öllum borgaralegu flokkunum.

Niðurstaðan yrði væntanlega minnihlutastjórn Jens Stoltenberg - sem er nú óumdeidur leiðtogi norskra stjórnmála - með aðild Miðflokksins en SV verji ríkisstjórnina falli.

En þetta á allt eftir að koma í ljós.

 


mbl.is Stjórnin virðist halda velli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband