Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Norsk Samfylking, Framsókn og Vinstri grænir áfram í ríkisstjórn!

Jens Stoltenberg formaður norska Verkamannaflokksins getur verið ánægður með kosningaúrslitin. Bæði eykur Verkamannaflokkurinnn - systurflokkur Samfylkingarinnar - við sig fylgi samhliða því að ríkisstjórn hans heldur velli. Ríkisstjórnin tapar að vísu einum þingmanni en heldur meirihluta sínum 86 þingmenn á móti 83 þingmönnum stjórnarandstöðunnar. 

Ríkisstjórn Stoltenbergs er reyndar afar merkileg í norsku tilliti því lífgjafi þeirrar ríkisstjórnar eru norskir Framsóknarmenn í Miðflokknum sem höfðu alla tíð fylgt borgaraflokkunum en söðluðu yfir miðjuna til vinstri við myndun núverandi ríkisstjórnar. Miðflokkurinn heldur nánast fylgi sínu og heldur þingmannafjölda sínum.

Það á hins vegar ekki við um systurflokk Vinstri grænna - Sósíalíski vinstriflokkinn - sem tapar fylgi og fjórum þingmönnum þar af þremur þingmönnum yfir til Verkamannaflokksins. Miðflokkur Liv Signe Navarsete er reyndar nú orðinn stærri en Sósíalíski Vinstriflokkur Kristínar Halvorsen. Það mun væntanlega styrkja stöðu Miðflokksins í ríkisstjórninni.

En það er nú þannig í Noregi - eins og reyndar á hinum Norðurlöndunum - að þar eru tveir systurflokkar Framsóknar. Á meðan Miðflokkurinn hélt velli þá tapaði Venstre verulega í kosningunum og eru nú með aðeins tvo þingmenn. Lars Sponheim formaður Venstre hefur þegar sagst muni hætta á flokksþingi í vor.

Þriðji flokkurinn á miðju norskra stjórnvalda - Kristilegi þjóðarflokkurinn gefur aðeins eftir en tapar einungis 1 þingmanni.

Hægriflokkurinn bætti við sig sjö þingsætum og er greinilega að braggast.

Hin skelegga Siv Jensen heldur áfram að styrkja hinn umdeilda Framfaraflokk sem bætir við sig fylgi og þremur þingsætum - er áfram næst stærsti flokkur Noregs með 23% atkvæða.


mbl.is Stoltenberg sigurvegarinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðunarlausir saksóknarar?

Verða menn að vera skoðanalausir til þess að geta orðið saksóknarar? Eða verða menn að hafa réttar skoðanir til þess að vera saksóknarar?  Ég hallast að því að ríkisstjórnin telji Jón Magnússon hafa rangar skoðanir. Það sé málið.

En það kemur í  ljós þegar ráðið verður í stöðurnar. Verða það skoðunarlausir saksóknarar eða saksóknarar með "réttar" skoðanir?

Þetta er farið að minna óþægilega á stjórnskipan í ríkjum sem við viljum ekki bera okkur saman við!


mbl.is Jón dregur umsókn til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju gjaldeyrishöft?

Það er miklu einfaldara að afnema gjaldeyrishöftin en að herða þau. Haftastefnan voru mistök frá upphafi. Hún er ekki að ganga upp.

Seðlabankinn hefur "beðið" fyrirtæki sem hafa undanþágu frá gjaldeyrishöftunum að nýta sér ekki þá undanþágu. Væri ekki eðlilegra að sleppa undanþágunum?

Ég bara svona spyr?


mbl.is Eftirlit með gjaldeyri hert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamma hydroxybutyrate auglýsing í Mogganum?

Ég tel mig vera þokkalega upplýstan. En ég lærði heilmikið nýtt í tveggja síðna "auglýsingu" Morgunblaðsins um fíkniefnið Gamma hydroxybutyrate.

Ekki það að ég hyggist feta nýjar slóðir í notkun fíkniefna. Er að hugsa um að láta rauðvínsglasið - og í tilfellum konjakkglasið duga!

En afar í afar "vandaðri" og ítarleg umfjöllun Morgunblaðisins um Gamma hydroxybutyrate sem á íslensku kallast smjörsýra er meðal annars talið upp hvar er unnt að nálgast þetta fíkniefni - sem meðal annars hefur verið notað sem nauðgunarlyf.

Hver er tilgangurinn?   Er það rétt að beina íslenskri æsku inn á þá braut að nota Gamma hydroxybutyrate? Fíkniefnið er ódýrt, aðgengilegt, löglegt og hræðilega ávanabindandi!

"Fráhvörfin eftir margra vikna eða mánaða neyslu voru hrikaleg. Ég hafði ekki sofið dúr í sjö daga þegar ég var fluttur á sjúkrahús og þar var ég hreinlega svæfður eins og ég væri að fara í skurðaðgerð og látinn sofa í tvo sólarhringa með næringu í æð. Ég var algjörlega búinn að vera. Ofskynjanirnar eru líka skelfilegar. Þessi fráhvörf voru brútal,ég hef aldrei kynnst öðru eins" segir neytandi Gamma hydroxybutyrate í Mogganum.

Um fyrstu skipti neyslunnar segir smjörsýruneytandinn:

"Mér leið eins og ég hefði fengið mér 2-3 bjóra, varð allur léettari og átti auðveldara með að umgangast fólk"

Huggulegt ekki satt?

Ég er kannske orðinn svona fordómafullt og forpokað gamalmenni - en mér finnst þessi umfjöllun hafa mátt missa sín.

En væntnanlega eru einhverjir ósammála mér.

Vil að lokum hæla gamallri vinkonu minni Ragnhilid Sverrisdóttur fyrir afar afar vel og fagmannlega unna grein um Gamma hydroxybutyrate - eins og hennar er von og vísa!  En ég hefði talið dýrmætum kröftum hennar betur varið í að fjalla um annað - og látið sannleikann um Gamma hydroxybutyrate liggja áfram í kyrrþey.


Magnús Árni axlar ábyrgð - maður af meiru!

Magnús Árni Skúlason hefur axlað ábyrgð sína á mistökum sem hann gerði. Magnús Árni er maður af meiru.

Það er vert að minna á að Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem svaraði kalli þjóðarinnar um endurnýjun.

Framsóknarflokkurinn er einnig eini flokkurinn sem hefur axlað ábyrgð á mögulegum þætti sínum í aðdragandanum að efnahagshruninu. 

Formaður Framsóknarflokksins og fyrrum ráðherrar flokksins hættu afskiptum af stjórnmálum, gáfu nýju fóki sviðið og glæsilegt 900 manna flokksþing kaus sér nýja forystu.

Sú forysta er ný Framsókn.

Magnús Árni var fulltrúi þeirrar nýju Framsóknar í þeim skilningi að val Magnúsar Árna í bankaráð Seðlabankans byggði fyrst og fremst á því að maðurinn er ágætur hagfræðingur og hefur mikla reynslu og þekkingu - ekki hvað síst í því sem snýr að fasteignamarkaði og fasteignalánamarkaði - sem er afar mikilvæg stærð þegar stefna Seðlabankans er mótuð. 

Hann gerði hins vegar afdrifarík mistök.

Magnús Árni er fulltrúi þeirrar nýju Framsóknar með því að axla ábyrgð á mistökum sínum.

Framsóknarflokkurinn hefur í dag fengið á sig endalaust grjótkast - og úr glerhýsum - vegna mistaka Magnúsar Árna.

Nú þegar Magnús Árni hefur axlað ábyrgð sína - þá heldur grjótkastið áfram - úr glerhýsum. Núna af því hann segir af sér!

Já, það er vandlifað að vera Framsóknarmaður!

En grjótkastararnir ættu að hafa í huga eina af bestu setningu mannkynssögunnar:

"Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum!"

 


mbl.is Fer fram á lausn frá störfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistök Magnúsar Árna ekki mistök Framsóknarflokksins

Mistök Magnúsar Árna Skúlasonar bankaráðsmanns í Seðlabankanum sem sýnir það dómgreindarleysi að vera milligönguaðili fyrir erlent miðlarafyrirtæki og íslenskt fyrirtæki sem starfar á heimsvísu eru mistök Magnúsar Árna en ekki Framsóknarflokksins.

Mér þykir miður að vinur minn hagfræðingurinn Magnús Árni hafi sýnt þetta dómgreindarleysi og gert þessi mistök. Ég hef hvatt hann til þess að segja af sér vegna málsins - sem mér þykir einnig miður - því ég batt miklar vonir við hann í bankaráði Seðlabankans vegna góðrar þekkingar hans og reynslu.

En það er ekki hægt að kenna Framsóknarflokknum um mistök Magnúsar Árna eins og fjölmargir grjótkastarar úr glerhúsum keppast við að gera þessa klukkustundirnar.

Við skulum halda því til haga að Magnús Árni er nýgenginn í Framsóknarflokkinn eftir áratugastarf innan Sjálfstæðisflokksins. Framsóknarmenn í Reykjavík höfnuðu því að Magnús Árni tæki annað sæti á framboðslista Framsóknarflokksins - nýgenginn úr Sjálfstæðisflokknum.

Ekki vegna þess að Framsóknarmenn hefðu neitt á móti Magnúsi Árna.

Ekki vegna þess að Framsóknarmenn mátu ekki yfirgripsmikla þekkingu og reynslu Magnúsar Árna.

Heldur vegna þess að Framsóknarmenn vildu að Magnús Árni tæki þátt í störfum Framsóknarflokksins og sannaði sig þar áður en hann tæki eitt af efstu sætum framboðslista flokksins sem mögulega myndu skila honum á þing fyrir Framsókn.

Skipan Magnúsar Árna í bankaráð Seðlabankans byggði fyrst og fremst á því að maðurinn er ágætur hagfræðingur og hefur mikla reynslu og þekkingu - ekki hvað síst í því sem snýr að fasteignamarkaði og fasteignalánamarkaði - sem er afar mikilvæg stærð þegar stefna Seðlabankans er mótuð. 

Þá var Magnús Árni í fararbroddi Indefence hópsins sem hélt uppi mikilvægum sjónarmiðum og málstað Íslendinga - sjónarmiðum sem nauðsynlegt er að séu reifuð innan stjórnar Seðlabankans.

Það er því afar miður að Magnús Árni hafi gert þessi afdrifaríku mistök.

Mín skoðun er sú að Magnús Árni eigi að segja af sér vegna þessar mistaka. Ég geri ráð fyrir að hann geri það.

Ítreka enn og aftur að mistök Magnúsar Árna eru ekki mistök Framsóknarflokksins heldur mannleg mistök hans. Það er því ómaklegt að ráðast að Framsóknarflokknum með skítkasti vegna þessa eins og gert er á netinu þessar mínúturnar.

Hins vegar má gagnrýna Framsóknarflokkinn ef flokkurinn tekur ekki af festu á málinu á næstu dögum - sem ég tel að ekki komi til þar sem ég trúi því að Magnús Árni muni segja af sér.

Vil að lokum minna á þaulsetu Jóns Sigurðssonar Samfylkingarmanns - sem fylgdi ekki frábæru fordæmi Sigríðar Ingadóttur flokkssystur sinnar sem sagði sig úr stjórn Seðlabankans vegna mistaka stjórnar bankans á sínum tíma.

Sá tvískinnungur stóð ekki í Samfylkingarfólki sem nú hefur grjótkast úr glerhúsi.

PS.

Magnús Árni hefur nú tjáð sig um málið við fréttasofu RÚV.

Hann vísar því á bug að hann hafi vegið að krónunni og ígrundar nú málaferli á hendur Morgunblaðinu fyrir meiðyrði.

Sjá nánar í fréttinni "Íhugar meiðyrðamál vegna ásakana" á vefsíðu RÚV

http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item298019/


mbl.is Gegn markmiðum Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttanefslausir fréttamenn fjalla ekki um Evrópumál

Það fór vel á með Samfylkingarmanninum Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra og Framsóknarmanninum Olli Rehn stækkunarstjóra Evrópusambandsins á afar fróðlegum opnum fundi í hátíðarsal HÍ á miðvikudag.

Fyrirlestur Olli Rehn var afar fróðlegur og góður - og svör hann við spurningum enn betri og vandaðri. 

Ég hef hins vegar beðið eftir fréttum af raunverulegum fréttum af fundinum!

Blaðamenn voru annað hvort ekki að hlusta á Olli Rehn - eða þeir skilja ekki hvað er mikilvægt og hvað ekki.

Aðalmálið og fréttin í hugum blaðamanna virðist vera að Olli taldi rétt að birta spurningalistann sem hann kom með til íslenskra stjórnvalda - sem utanríkisráðherra hafði reyndar ákveðið að gera - enda birtist hann á vef utanríkisráðuneytisins samdægurs!

Hins vegar voru hinar raunverulegri fréttir miklu mikilvægari - þótt blaðamönnum hafi yfirsést þær.

Það er greinilegt að fleiri sakna alvöru fréttaflutnings af fundinum.

G Vald bloggar um þetta undir fyrirsögninni

Eru bara "dropout" í íslenskri blaðamannastétt ?

Þar dregur hann fram raunverulega fréttapunkta af fundinum:

Fyrir liggur nánast kláraður efnahagspakki af hálfu ESB til stuðnings Íslandi.  Þessi pakki er niðurstaða viðræðna íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjóra fjármála og gjaldeyrismála hjá ESB.  Niðurstaða þessara viðræðna er umtalsverðar “makro ökonómiskar tilfærslur” frá ESB til Íslands, sem hellst má bera saman við efnahagslegan stuðning ESB við Serbíu.

ESB hefur undir höndum skjöl sem sýna fram á að íslenskar eftirlitsstofnanir beinlínis hvöttu bankana til að fara á svig við reglugerð um innistæðutryggingar.  En það er sú reglugerð sem allt IceSave málið byggir á.   Fréttamenn hafa engan áhuga á þessu, hafa ekki hirt um að velta því fyrir sér hvaðan þessi skjöl eru komin eða hvernig þau bárust ESB.  Þetta eru allavega spurningar sem ég velti fyrir mér og hef mínar tilgátur um.

ESB bíður eftir niðurstöðu íslenskra rannsóknaraðila á hruninu en þegar skýrslur liggja fyrir mun sambandið setja af stað eigin rannsókn m.a til að vega og meta íslensku skýrslurnar og það hvort viðbrögð íslenskra stjórnvalda séu sannfærandi og í takt við alvarleika málsins.

 


mbl.is Uppstokkun í utanríkisþjónustunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgin heimili minnismerki sem reist verði með frjálsum framlögum

Það er glimrandi hugmynd að finna minnismerki Helga Hóseasonar stað í borgarskipulaginu. En það er hræsni að leggja til að opinberir aðiljar fjármagni það minnismerki. Hið opinbera hefur hunsað kröfu Helga Hóseasonar um áratugaskeið og ætti frekar að heiðra minningu hans með því að viðurkenna kröfu hans um ógildingu skírnarsáttmálans fyrir sitt leiti.

Við sem höfum tekið undir áskorun um að það verði sett upp minnismerki um þennan sérkennilega og merka mann sem stóð fastur á sannfæringu sinni allt sitt líf - það erum við sem eigum að fjármagna minnismerkið. Okkur verður ekki skotaskuld úr því - þótt það sé kreppa. Við erum svo mörg.

Minningu Helga Hóseasonar er miklu betri sómi sýndur á þann hátt.

Reyndar eigum við minnismerki um Helga - hin frábæra heimildarmynd sem um hann var gerð!

 


mbl.is Borgin geri tillögu um stað fyrir minnisvarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"We did not come here just to clean up crisis, we came here to build a future!"

 "We did not come here just to clean up crisis, we came here to build a future!"

Með þessum orðum hóf Framsóknarmaðurinn Barack Obama forseti Bandaríkjanna ræðu sína í fulltrúardeild Bandaríkjaþings þar sem forsetinn hélt þvílíkt brilljant ræðu þar sem hann hvatti þingið til þess að samþykkja tillögur sínar um úrbætur í heilbrigðiskerfinu.

Það er aðdáunarvert hvernig Obama heldur framsókn sinni áfram sem forseti Bandaríkjanna - og það ekki einungis í heilbrigðismálum.

 "We did not come here just to clean up crisis, we came here to build a future!"

Þessa framsæknu setningu Obama ættu ríkisstjórn Íslands og Alþingi í heild sinni að gera að  leiðarljósi sínu í vinnu næstu vikna og mánaða.

Þetta er nefnilega kjarni málsins.


mbl.is Obama krafðist aðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strákarnir farnir að minna á kvennalandsliðið á köflum!

Karlalandsliðið er greinilega að rétta úr kútnum og nær því á köflum að spila af sömu gæðum og kvennalandsliðið í fótbolta!


mbl.is Pétur: Hefði viljað fleiri mörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband