Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Guðni á villigötum í umræðunni um aðildarviðræður að ESB?

Ansi er ég hræddur um að vinur minn Guðni Ágústsson sé á villigötum í umræðunni um aðildarviðræður að Evrópusambandinu þegar hann heldur því fram að breytingar á stjórnarskrá Íslands séu forsenda fyrir því að hægt sé að hefja aðildarviðræður!

Þeir sérfræðingar í Evrópurétti sem ég hef borið þessi ummæli Guðna undir eru honum algerlega ósammála! 

Þeir eru sömu skoðunar og ég - að ekkert sé því til fyrirstöðu að ganga til aðildarviðræðna að óbreyttri stjórnarskrá - en að breyta verði stjórnarskránni áður en gengið er inn í Evrópusambandið verði það niðurstaða þjóðarinnar!

Guðni verður að svara því hvaðan hann hefur þessar lögskýringar og hverjar röksemdirnar fyrir þeim eru - ef hann ætlar að halda áfram málflutningi á þessum nótum.

Það dugir ekki fyrir Guðna að slengja þessum lögskýringum fram í Framsóknarmenn á miðstjórnarfundi um helgina - sem skálkaskjól fyrir því að fara ekki að skynsamlegri tillögu Magnúsar Stefánssonar og ungra framsóknarmanna um að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hefja skuli aðildarviðræður við ESB.

Ef Guðni ætlar að halda þessum málflutningi áfram verður hann að leggja fram trausta greinargerð viðurkenndra lögfræðinga fyrir þessari sérstöku lögfræðilegu túlkun. Ef hún liggur ekki fyrir - þá er ekkert því til fyrirstöðu að Guðni taki af skarið og fylki Framsóknarmönnum - andstæðingum Evrópuaðildar og jafnt sem Evrópusinnum - saman um að leggja ákvörðun um aðildarviðræður fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða næstu sveitarstjórnarkosningum! Þeirri atkvæðagreiðslu þjóðarinnar ber Framsóknarflokknum að lúta!


Guðni er glæsilegur formaður Framsóknarflokksins!

Guðni Ágústsson er glæsilegur formaður Framsóknarflokksins og ég styð hann sem slíkan! Ástæða þess að ég undirstrika þetta er að sá misskilningur komst á kreik vegna skrifa minna um Jón Sigurðsson forvera Guðna í embætti formanns Framsóknarflokksins, að ég styddi ekki Guðna sem formann Framsóknarflokksins. Því fer fjarri!

Mér þótti hins vegar nauðsynlegt í þeirri umræðu sem fram fór í fjölmiðlum um grein Jóns þar sem hann færir fram sterk rök fyrir því að nú sé tími til kominn að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið, að minna á að Jón er ekki einhver Jón úti í bæ, heldur Jón Sigursson sem var réttkjörinn formaður Framsóknarflokksins á síðasta flokksþingi, en flokksþing er æðsta stofnun Framsóknarflokksins.

Mér þótti tilhneyging hjá sumum Framsóknarmönnum að gera lítið úr traustri röksemdarfærslu Jóns og að lítið væri gert úr þeirri staðreynd að Jón var nýlega kjörinn formaður Framsóknarflokksins með meirihluta atkvæða flokksþingsfulltrúa og meirihluta flokksmanna að baki sér!

Jón ákvað að segja af sér þegar hann komst ekki á þing og við tók Guðni Ágústsson varaformaður. Ég studdi Guðna í að taka við formennskunni og ég styð Guðna ennþá sem formann. Ég geri ráð fyrir að fá tækifæri til að kjósa Guðna sem formann á flokksþingi í vor - ef ég verð valinn fulltrúi til flokksþings - sem er ekki sjálfgefið þótt ég sé ennþá skráður í Framsóknarflokkinn.

Ég treysti Guðna líka til að taka af skarið, ná skynsamlegustu lendingu fyrir Framsóknarflokkinn sem unnt er í Evrópumálunum og hvetja til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort ganga skuli til aðildarviðræðna við ESB eða ekki. Mismunandi afstaða Framsóknarmanna til mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu þarf ekki að kljúfa flokkinn. Þjóðin á að ákveða aðildarviðræður eða aðildarviðræður ekki. Ekki Framsóknarflokkurinn.

Bloggið sem olli þessum misskilningi er hér: Jón Sigurðsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins á síðasta flokksþingi!


Jón Sigurðsson var kjörinn formaður Framsóknarflokksins á síðasta flokksþingi!

Jón Sigurðsson var réttkjörinn formaður Framsóknarflokksins á síðasta flokksþingi, en flokksþing er æðsta stofnun Framsóknarflokksins. Jón stígur nú fram fyrir skjöldu og segir að nú sé rétti tíminn til aðildarumsóknar að Evrópusambandinu. Jón færir skotheld rök fyrir þeirri skoðun sinni í frábærri grein.  Jón er að tala fyrir munn stórs hluta Framsóknarmanna.  

 

Magnús Stefánsson er reyndur alþingismaður og helsti sérfræðingur þingflokks Framsóknarmanna í efnahagsmálum. Hann hefur lagt til að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Íslendingar skuli ganga til aðildarviðræðna um ESB. Magnús er að tala fyrir hönd meirihluta Framsóknarmanna.  

 

Bjarni Harðarson er snjall og nýkjörinn alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn. Hann berst gegn Evrópusambandinu og hann berst gegn þeirri tillögu Magnúsar að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður. Bjarni er talsmaður minnihluta Framsóknarmanna í málinu.  

 

Jón Sigurðsson komst illu heilli ekki að sem alþingismaður Reykvíkinga, en hann tók þá áhættu að fara fram í veikasta kjördæmi flokksins þar sem skoðanakannanir sýndu að nær vonlaust var fyrir flokkinn að ná manni. En Jón tók áhættuna og slaginn. Það vantaði einungis 300 atkvæði að hann næði inn á þing.  

 

Auðvitað átti Jón að halda áfram sem formaður Framsóknarflokksins. En hann kaus að gera það ekki.  Sumir segja vegna þess að brot úr nýjum þingflokki Framsóknarmanna var ekki reiðubúið til að standa óskorað að baki honum þar sem hann var ekki í þingflokknum.  Meirihlutinn hefði hins vegar lagt að honum að halda áfram. Ekki veit ég hvort það er rétt.   

 

Við tók varaformaður Framsóknarflokksins til margra ára, hinn glæsilegi stjórnmálamaður Guðni Ágústsson. Hann var ekki kjörinn formaður, hann tók einungis við sem varaformaður eins og lög Framsóknarflokksins gera ráð fyrir.


 

Guðni verður væntanlega réttkjörinn formaður á flokksþingi Framsóknarflokksins næsta vor.


Kæri Davíð Oddsson seðlabankastjóri!

Kæri Davíð Oddsson seðlabankastjóri.

Mig langar að spyrja þig nokkra spurninga vegna bréfs sem þú sendir vini mínum Guðna Ágústssyni og birst hefur í fjölmiðlum.

Hvernig getur lækkun heildarútlána Íbúðalánasjóðs úr 482 milljörðum 1. júlí 2004 í  377 milljarða þann 1.janúar 2006 verið þensluvaldandi? 

Hvernig getur það verið að fækkun raunverulegra 90% lána úr 33% allra útlána Íbúðalánasjóðs á árinu 2003 í innan við 20% allra útlána Íbúðalánasjóðs á árinu 2005 og síðar í um 1% allra útlána sjóðsins á árinu 2007 geti verið þensluvaldandi? 

Eru ekki meiri líkur á því að ástæðan þenslunnar sé:  “útlánabylgja í kjölfar einkavæðingar bankanna sem þöndu efnahagsreikning sinn ört út í krafti ódýrs erlends fjármangs”  eins og segir orðrétt í bréfi þínu til Guðna vinar míns? 

Er ekki rétt að ein ástæða þeirrar útlánabylgju hafi verið lækkun Seðlabankans á bindiskyldu bankanna árið 2003? 

Er ekki líka rétt að Seðlabankinn hefði getað dregið úr útlánabylgju bankanna haustið 2004 með því að hækka bindiskylduna aftur? 

Ég vonast til þess að það taki ekki tvo mánuði að fá svör við þessum spurningum – en það tók Seðlabankann tvo mánuði að svara Guðna og félögum í þingflokki Framsóknarmanna! 

Kær kveðja 

Þinn gamli aðdáandi

Hallur Magnússon


mbl.is Engin rök fyrir örvandi aðgerðum ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rætt um ekkiaðild Íslands að ESB?

"Ráðherrarnir ræddu málefni Evrópusambandsins en tóku skýrt fram að ekki var rædd aðild Íslands."

Þetta er hætt að vera fyndið.


mbl.is Ráðherrar á rökstólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðurinn felst í konum og samfélagslegri ábyrgð!

"Fjölmargar erlendar rannsóknir sýna fram á að fyrirtæki sem njóta aðkomu kvenna í lykilhlutverkum skila betri arðsemi þegar til lengri tíma er litið... Við höfnum því viðhorfi að velja þurfi á milli fjárhagslegrar arðsemi og samfélagslegs ávinnings. Við teljum einfaldlega að það felist fjárhagslegur ávinningur í því að taka samfélagslega ábyrgð."

Þennan sannleik er að finna í skilgreindri hugmyndafræði Auðar Capital sem nú hefur fengi leyfi Fjármálaeftirlitsins sem verðbréfafyrirtæki.  Ég fagna þessum áfanga hjá þeim stöllum sem hafa á undanförnum mánuðum byggt upp öflugt fjármálafyrirtæki á eigin forsendum - forsendum sem því miður hafa ekki átt upp á pallborðið í karllægum fjármálamarkaði.

Hópurinn sem stendur að Auði Capital er ekkert slor.  Öflugar, vel menntaðar konur sem vita hvað þær vilja eins og fram kemur í þeirri hugmyndafræði Auðar Capital sem kynnt hefur verið:

 "Auður telur skynsamlegt að nýta viðskiptatækifæri sem felast í samfélagsbreytingum. Þegar horft er til framtíðar eru tvær áberand breytingar sem munu skipta miklu hvað varðar framtíðarhagvöxt og verðmætasköpun.

Í fyrsta lagi felast mikil tækifæri í vaxandi mann- og fjárauði kvenna, auknum kaupmætti þeirra og frumkvæði til athafna. Í öðru lagi eru ómæld vaxtartækifæri tengd fyrirtækjum sem ná að gera samfélagslega og siðferðislega ábyrgð að viðskiptalegum ávinningi. Þessi tækifæri eru hreinlega of góð til að láta fram hjá sér fara."

Ég hef mikla trú á Auði Capital!  Gangi ykkur allt í haginn!


mbl.is Auður Capital fær starfsleyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólgan er 33,1% í kjölfar ofsaþenslufjárlaga ríkisstjórnarinnar!

Ofsaþenslufjárlög ríkisstjórnarinnar og vanmáttur Seðlabankans hafa undanfarna þrjá mánuði kallað yfir okkur 33,1% verðbólgu! Samkvæmt upplýsingum hagstofunnar hefur hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6,4% undanfarna þrjá mánuði sem jafngildir 28% verðbólgu á ári, en 33,1% fyrir vísitöluna án húsnæðis!

Reyndar ber að halda til haga að fleiri þættir en ofsaþenslufjárlög ríkisstjórnarinna - þar sem útgjöld voru hækkuð um 20% á þeim tíma sem draga hefði átt úr útgjöldum - valda þessari ofsaverðbólgu. En ofsaþenslufjárlögin var sá neisti sem kveikti þetta verðbólgubál fyrir alvöru.

Athygli vekur að verðbólgan er "einungis" 28% ef húsnæðisliðurinn er tekinn með í verðbólgumælinguna, en undanfarin ár hefur húsnæðisliðurinn verið ráðandi þáttur í verðbólgunni - algerlega að óþörfu - því mæling húsnæðisliðarins á Íslandi allt önnur en almennt gerist.

Mig grunar reyndar að ríkisstjórnin hyggist þvinga fram verðhrun á fasteignamaði - einmitt til þess að húsnæðisliður vísitöluna lækki á þennan hátt raunverulegar verðbólgutölur - því það er deginum ljósara að ríkisstjórn og Seðbanki eru ráðþrota fyrir vandanum - sem að miklu leiti er heimatilbúinn - bæði hjá ríkisstjórn þenslufjárlaga og Seðlabanka vanmáttar.

Meira um það síðar!


mbl.is Mesta verðbólga í tæp 18 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kalár í fasteignatúnum eða tími Jóhönnu kominn sem vorboðinn ljúfi?

Nú er fasteignamarkaðurinn frosinn. Ef heldur fram sem horfir verður þetta illræmt kalár á fasteignamarkaðstúninu.  Eins og bændur vita getur tekið langan tíma að vinna upp alvarleg kalsár í túni.

Vandamálið er að kalið verður ekki einskorðað við fasteignamarkaðinn. Kalið getur leikið efnahagslíf þjóðarinnar grátt. En það getur verið að í ríkisstjórninni leynist vorboðinn ljúfi sem hefur tök á því að velgja markaðinn og koma í veg fyrir illyrmislegt kal. Nú gæti tími vorboðans ljúfa verið kominn.

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra hefur tækin til að koma í veg fyrir algjört hrun og getur tryggt efnahagslífinu mjúka lendingu. Það eina er að fá haukana - eða fálkana - í fjármálaráðuneytinu til að slaka á klónni og leggjast ekki lengur gegn nauðsynlegum aðgerðum.

Aðgerðirnar geta verið eftirfarandi:

  1. Afnám úrelts viðmiðunar lána Íbúðalánasjóðs við brunabótamat
  2. Leiðrétting á hámarksláni Íbúðalánasjóð úr 18 milljónum í þær 25 sem hámarkslánið ætti að vera ef fyrra viðmiði hefði verið haldið
  3. Afnám stimpilgjalda
  4. Uppsetning skattfrjáls húsnæðissparnaðarreikninga þar sem ungt fólk leggur til hliðar fjármagn vegna innborgunar samhliða því að ríkið taki upp beina styrki til fyrstu kaupenda á móti húsnæðissparnaðinum.

Fyrstu þrír liðirnir gætu tekið gildi strax ef ríkisstjórnin vaknar af dvalanum og stuðlað að mjúkri lendingu efnahagslífsins, en fjórði liðurinn tæki að virka eftir nokkur misseri þegar ungt fólk hefur lagt til hliðar á húsnæðissparnaðarreikninga um eitthvert skeið.

Þessar áhyggjur eru ekki einungis áhyggjur mínar.

Rætt var við hinn virta hagfræðing og sérfræðing í húsnæðismálum, Sjálfstæðismanninn Magnús Árni Skúlason í fréttum RÚV í dag:

"Örva þarf fasteignamarkaðinn"

Vextir bankanna þurfa að lækka eða hámarkslán Íbúðalánasjóðs að hækka til að koma lífi í fasteignamarkaðinn á ný, segir Magnús Árni Skúlason hagfræðingur. Lækkun fasteignaverðs geti haft afar neikvæðar afleiðingar fyrir hagkerfið og lengt og dýpkað þá kreppu sem nú ríkir.

Umsvif á fasteignamarkaði hafa dregist mikið saman undanfarnar vikur og segja fasteignasalar sem fréttastofa Útvarps hefur rætt við að greinileg skil séu um páskana, þá hafa viðskipti nánast stöðvast. Sumir, þó ekki allir, vilja kenna þetta við spá Seðlabankans um 30% lækkun raunverð fasteigna á næstu tveimur árum.

 

Einn fasteignasali kallar það rothögg og segir mörg dæmi vera í sínu starfi um að fólk hafi þá snarlega kippt að sér höndunum og fallið frá áður ákveðnum viðskiptum. Samkvæmt Fasteignamati ríkisins hefur verð nú þegar lækkað lítillega á fasteignum.

Magnús Árni Skúlason hefur um langt skeið rannsakað fasteignamarkaðinn. Hann segir nokkra þætti helst valda lækkun á verði: þeir séu: Hækkandi vextir sem auki greiðslubyrði, það hafi þegar gerst hér. Verðbólga umfram verðhækkun á húsnæði hækki höfuðstól verðtryggðu lánanna, það geti étið upp eigið fé. Atvinnuleysi minnki greiðslugetu og geti leitt til nauðungarsölu og loks skapi offramboð nýbygginga þrýsting á verktaka að selja sem geti valdið lækkun á fasteignaverði.

Almennt séð geti lækkun fasteignaverðs haft talsvert neikvæðar afleiðingar fyrir hagkerfið. Ef húsnæðisverð lækkar séu afleiðingarnar yfirleitt mun alvarlegri og geti staðið í nærri tvöfalt lengri tíma en leiðrétting á hlutabréfamörkuðum. Framleiðslutapið sé einnig tvöfalt meira sem endurspegli meiri áhrif á neyslu og bankakerfi en bankar séu oft berskjaldaðir gagnvart breytingum á verði fasteigna. Til að koma í veg fyrir þessi neikvæðu áhrif verði að tryggja eðlileg umsvif á fasteignamarkaði.


mbl.is Einungis 51 kaupsamningi þinglýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsbankamaður kallar eftir rannsóknarsetri sem bankarnir höfnuðu 2003!

“Mikil óvissa er á fasteignamarkaðnum, enda sárvantar ýmislegar tölulegar upplýsingar um stöðuna í byggingargeiranum ...Það er mikilvægt fyrir fjármálafyrirtæki að hafa nýjustu upplýsingar í höndunum þegar teknar eru ákvarðanir um lán til einstaklinga og fyrirtækja”. 

Þannig hljóð inngangur að viðtali við Ara Skúlason forstöðumann fyrirtækjasviðs Landsbankans í sjónvarpsfréttum.  Í fréttinni segir Ari  meðal annars: 

“... öll statistikk um byggingarstarfsemi er í raun og veru  kaldakoli...hér á landi er alveg ótrúlega lítill áhuga á því að safna upplýsingum vinna þær og gefa þær út.”

... og Ari kallar eftir stofnun sem safni slíkum upplýsingum!

Alveg er ég innilega sammála Ara, enda átti ég - þótt ég segi sjálfur frá - stærstan þátt í að sett var á fót Rannsóknarsetur í húsnæðismálum á Bifröst árið 2003. Markmiðið var að byggja upp faglega, óháða rannsóknarmiðstöð í húsnæðismálum sem meðal annars safnaði upplýsingum sem Ari saknar svo mjög.

Hins vegar varð uppbygging rannsóknarsetursins ekki eins mikil og til stóð  - einmitt vegna andstöðu bankanna!  Sannleikurinn er nefnilega sá að bankarnir vildu ekki samstarf við rannsóknarsetrið þar sem til þess var stofnað meðal annars af Íbúðalánasjóði!  Því varð aldrei forsenda til að afla þeirra upplýsinga sem til stóð - því gott samstarf við bankana var ein forsenda starfsins.

Því miður varð rannsókarsetrið aldrei mannað nema af einum manni - Magnús Árna Skúlasyni - og var starfsemi þess ekki áfram haldið eftir að upphaflegum 3 ára samningstíma vegna þess lauk.  Ég verð að segja að ég er afar ósáttur við félagsmálaráðuneytið að hafa dregið sig út úr verkefninu - í stað þess að efla það eins og til stóð.

Nú þegar Landsbankinn er búinn að átta sig - þá væri kannske ekki úr vegi að endurreisa rannsóknarsetrið - og gera það öflugt!

Hér á eftir fer hluti fréttatilkynningar sem senda var út í tengslum við stofnun rannsóknarsetursins.

"Stjórn Rannsóknarseturs í húsnæðismálum verður skipuð þremur fulltrúum tilnefndum af Íbúðalánasjóði, félagsmálaráðherra og Viðskiptaháskólanum á Bifröst.

Við stofnun rannsóknarsetursins verður sett á fót rannsóknarstaða í húsnæðismálum sem fjármögnuð verður af  Íbúðalánasjóði og Viðskiptaháskólanum á Bifröst. Gert er ráð fyrir að í rannsóknarstöðuna verði ráðinn vel menntaður hagfræðingu með haldgóða þekkingu á íslenskum fjármála- og fasteignamarkaði. Viðkomandi mun veita Rannsóknarsetri í húsnæðismálum forstöðu.

Verkefni Rannsóknarseturs í húsnæðismálum verður að vinna að víðtækum rannsóknum á húsnæðis- og fasteignamarkaði, meðal annars í tengslum við spálíkan fyrir fasteignamarkað á höfuðborgarsvæðinu, sem unnið hefur verið af nemendum við Viðskiptaháskólann á Bifröst í samstarfi við Íbúðalánasjóð. 

Einnig mun Rannsóknarsetrið hafa umsjón með sérstakri gagnaöflun og úrvinnsla upplýsinga á sviði húsnæðismála, samkvæmt sérstökum samningi við félagsmálaráðherra og Íbúðalánasjóð, og eftir atvikum við fleiri aðila. Þá er rannsóknarsetrinu ætlað að vera stjórnvöldum og fagaðilum til ráðuneytis um húsnæðismál, einkum félagsmálaráðuneyti og Íbúðalánasjóði."


Ólafur Þ. Stephensen langbesti kosturinn í stöðunni!

Ólafur Þ. Stephensen var langbesti kosturinn sem ritstjóri í stað Styrmis Gunnarssonar.  Ólafi bíður það verkefni að reisa Morgunblaðið aftur við sem öflugast dagblað landsins, en blaðið hefur mátt muna sinn fífil fegri á undanförum misserum.

Ólafur hefur sýnt það með starfi sínu á 24 stundum að hann er til alls líklegur.

Skemmtileg tilviljun að ég var einmitt að blogga um Ólaf og Morgunblaðið í bloggi mínu í gærkvöldi og sagðii meðal annars:

Ólafur Þ. Stephensen hefur gert kraftaverk með 24 stundir! Ólafur tók við deyjandi blaði - Blaðinu - breytti því í 24 stundir - og breytt því í áhugavert, fjölbreytt og skemmtilegt dagblað - sem fjölskyldan togast á um á morgnanna.

Ef Ólafur tekur ekki við Mogganum þegar Styrmir hættir - þá held ég að Mogginn geti bara pakkað saman og komið út sem helgarblað 24 stunda í framtíðinni!

Spútnikblöðin 24 stundir og Viðskiptablaðið!


mbl.is Ólafur nýr ritstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband