Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Gott innlegg hjá Gísla Marteini sem vill byggð í Vatnsmýri og Örfirisey!

Það var gott innleggið hjá frænda mínum Gísla Marteini í fréttum RÚV þar sem hann segir áríðandi að hugsa til framtíðar og skipuleggja ný hverfi í Reykjavík. Hann vill byggð í Vatnsmýri og í Örfirisey og segir þjóðhagslegan sparnað af því geta numið allt að fimm mijörðum á ári miðað við byggð austast í borginni.

Gísli Marteinn ætlar ekki að lúffa fyrir pólitískum stundarhagsmunum sem felast í því að hafa núverandi borgarstjóra góðan fram yfir kosningar.

Gísli Marteinn segir að eingöngu sé búið að skipuleggja byggð fyrir 12.000 manns í Úlfarsfelli þar sem framkvæmdir eru hafnar. Í Örfirisey væri hægt að reisa byggð fyrir 15.000 manns ef samgöngur þar yrðu bættar og í Vatnsmýri fyrir 20.000 manns. Þá verður flugvöllurinn reyndar að færast til eins og hver heilvita maður ætti að sjá - með allri virðingu fyrir afstöðu margra góðra vina minna af landsbyggðinni!

Þarna fylgir Gísli Marteinn eftir baráttumáli frænda míns Björns Inga sem vann hörðum höndum að undirbúa skynsamlega íbúðabyggð í Örfirisey.

Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar verða Íslendingar 438.000 árið 2050. Hlutfall höfuðborgarbúa af heildarmannfjölda landsins er 37,6%. Verði það hlutfall óbreytt árið 2050 má gera ráð fyrir að Reykvíkingum fjölgi um 47.000 á næstu fjórum áratugum.

Það er því eins gott að huga að skynsamlegri uppbyggingu byggðar - og ganga frá Sundabraut í göng sem allra fyrst - til að anna óhjákvæmilegri umferð.  Hugmyndir "ónefndra heimildarmanna ríkisútvarpsins" sem hafa ákveðið að vinna gegn Sundabrautargöngum með neðanjarðarstarfsemi - gegn þeirri aðgerð ætti að grafa í snatri ef þessi spá Hagstofunnar gengur eftir.


Algjör Sirkus!

Húsafriðunarmál á Laugavegi og nágrenni er að breytast í algjöran sirkus - þökk sé nýja borgarstjóranum.  Það er alveg ljóst að allir þeir sem eiga gömul hús á samþykktum byggingarlóðum á Laugavegi og nágrenni munu nú koma í röðum ásamt húsfriðunarfólki og þrýsta á um að Reykjavíkurborg kaupi húsin á svipuðum kjörum og borgarstjórinn keypti á Laugaveginum í síðustu viku - algerlega að óþörfu.

Ætli þetta muni ekki kosta borgarbúa svona 10 milljarða - ef miðað er við verðmiðann á húsunum sem þegar hafa verið keypt. Það eru hálf Sundabrautargöng.

Ekki veit ég hvort sirkusinn gangi svo langt að borgin kaupi Sirkus - þann ágæta skemmtistað - sem rekinn er í handónýtum skúr við Klapparstíg - og fellur afar illa inn í núverandi götumynd þar.

Þá geri ég mér ekki heldur grein fyrir því hvort listamennirnir vilja vernda Sirkus eins og hann er í dag - eða hvort þeir vilja að húsið verði gert út í upphaflegri mynd.  Menn geta rifist um það.

En einhvern veginn hef ég grun um að hin skemmtilega stemning sem hefur verið í þessum handónýta skúr fari veg allrar veraldrar ef hann verður gerður upp. Þá muni partýin og listsköpunin finna sér nýjan, ónýtan skúr, til að finna aftur flottu stemminguna.

Hver veit!


mbl.is Niðurrifi mótmælt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfall fyrir Kaupthing!

Það hlýtur að teljast áfall fyrir Kaupþing að neyðast til þess að falla frá yfirtöku Kaupþings á NIBC, enda hafa forsvarsmenn Kaupþings talið að samruninn hefði geta styrkt stöðu þeirra sem evrópsks banka verulega.

En í núverandi stöðu á fjármálamörkuðum virðist ljóst að það var lítið annað fyrir Kaupþing að gera.

Ef ég þekki forsvarsmenn Kaupþings rétt, þá munu þeir ekki láta þetta á sig fá, heldur pústa lítillega,  horfa á innri vöxt Kaupþings um tíma eins og forstjórinn orðaði það og síðan halda áfram af fullum krafti í útrásinni við fyrsta tækifæri,

Það verður reyndar spennandi að sjá ársuppgjör bankans vegna árins 2007 á morgun.  Væntanlega mun draga út hagnaði fyrirtækisins, þótt hagnaður Kaupþings verði væntanlega stjarnfræðilegur á vísu meðaljónsins á Íslandi, eins og hagnaður hinna stóru bankanna.


mbl.is Hætt við yfirtöku á NIBC
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samgönguráðherra í ógöngum með Sundabrautargöng

Það gengur hvorki né rekur hjá samgönguráðherra sem er komin í ógöngur með Sundabrautargöng þar sem hvorki gengur né rekur hjá ráðherranum að taka ákvörðun þegar ráðherrann ætti að gera gangskör í því að klára málið, enda getur hann gengið að öllum nauðsynlegum forsendum fyrir pólitískri ákvörðun svo unnt sé að ganga í málið og ákveða að leggja Sundabraut í göng.

Þessí stað felur ráðherrann sig á bak við umhverfismatsskýrslu sem breytir engu í því að ráðherrann ann geti tekið pólitíska ákvörðun um að leggja göngin, eins og þverpólitísk samstastaða er um í borgarstjórn, hjá nágrannasveitarfélögum, öllum íbúasamtökum sem að málinu koma, formanni flokks samgönguráðherra og samflokksmanns hans sem situr sem formaður samgöngunefndar!

Þá liggja allar jarðboranir fyrir og klárt að jarðfræðilega er ekkert til fyrirstöðu

Hvað er að?  Hvenær urðu Siglfirðingar svona gangafælnir? Hvers vegna vill samgönguráðherrann tefja málið að óþörfu? 


Bæjarútgerð Reykjavíkur að ganga frá Akranesi sem útgerðarbæ?

Svo virðist sem Bæjarútgerð Reykjavíkur - sem nú nefnist HB Grandi - sé að ganga frá Akranesi sem útgerðarbæ! Og það einungis nokkrum mánuðum eftir að hafa slegið sér á brjóst og sagst ætla að renna styrkum stoðum undir fiskvinnslu á Skaganum.  Hefði ekki verið nær að halda sig við fyrri áform, styrkja vinnsluna á Akranesi og draga úr henni hér í Reykjavík - þar sem nóg er að bíta og brenna?
mbl.is Svartur dagur í sögu Akraness
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neðanjarðarumferð í Reykjavík!

Ég sé að hugmyndir um neðanjarðarumferð í Reykjavík eru að verða sífellt vinsælari. Það sjá flestir sem það vilja sjá að Sundabraut í göng er eina vitið. Þá blasir það við öllum sem ganga á Öskjuhlíðina að það var nánast galið að hafa ekki lagt Hringbrautina í stokk þegar hún var lögð um Vatnsmýrina.

Nú vill Gísli Marteinn leggja Miklubraut í stokk frá Kringlumýrarbraut að Rauðarárstíg og Kringlumýrarbraut frá Miklubraut að Bústaðavegi einnig í stokk. Athyglisvert og spennandi að sjá útfærsluna

Vonandi er þetta vísbending um að Sundabraut verði lögð í göng - en það er ekki skýrt í svokölluðum málefnasamningi meirihlutans - eins og fram kom í pistli mínum Mun borgarstjóri svíkja Reykvíkinga um Sundabrautargöng?

Þá hef bent á að það ætti að setja Réttarholtsveginn í jörðu, sbr. pistilinn Ökum frekar undir Réttarholtsveginn


mbl.is Vill fá stokk frá Kringlumýrarbraut að Rauðarárstíg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langlíf lygi um meinta spillingu Framsóknar!

Það er með ólíkindum hvað langlíf lygin um að Auðunn Georg Ólafsson sem ráðinn var sem fréttastjóri á RÚV á sínum tíma hafi verið Framsóknarmaður. Alltaf þegar rætt er um meintar pólitískar ráðningar stjórnmálaflokka er Auðunn Georg tekinn sem dæmi um meinta spillingu Framsóknar  - þrátt fyrir að það hafi alla tíð legið fyrir að maðurinn hefur aldrei verið í Framsóknarflokknum.

Nú síðast er þetta gefið í skyn í Fréttablaðinu - þar sem blaðamðurinn sér reyndar sóma sinn í að segja "... en Auðun var tengdur við flokkstarf Framsóknarflokksins. Auðun neitaði því alltaf í viðtölum að hann hefði verið ráðinn í starfið vegna pólitískra tengsla..."

Hins vegar gefur umfjöllunin til kynna að Auðunn hafi verið í Framsóknarflokknum - sem er hreinlega lygi - sem fengið hefur að lifa og verið kynnt undir reglulega í umfjöllun um pólitískar ráðningar.

Hin dæmin sem Fréttablaðið fjallar um er ráðning Sjálfstæðismannsins Þorsteins Davíðssonar, Jóns Steinars vinar Davíð Odssonar og Sjálfstæðismanns, Ólafar Ýrr Atladóttur og Guðna Más Jóhannessonar úr Samfylkingu og skipun Ólafs Barkar Þorvaldssonar frænda Davíðs Oddssonar. Ekki veit ég hvort hann var í Sjálfstæðisflokknum.

Framsóknarflokkurinn er í góðum málum hvað meinta spillingu varðar ef ráðning Auðuns er helsta dæmi um slíkt - því maðurinn er ekki og hefur ekki verið Framsóknarmaður.


Játa mig sigraðan!

Ég verð að játa mig sigraðan í veðmáli um það hver yrði næsti forseti Bandaríkjanna - en spádómur minn um að John Edwards yrði næsti forseti Bandaríkjanna virðist ekki ætla að ganga eftir!

Ekki það að ég sé ósáttur með að annað hvort Hillary eða Obama verði forseti Bandríkjanna - þvert á móti - en taldi Bandaríkjamenn ekki það þroskaða að þeir gæru valið konu eða blökkumann sem forseta.

Ég taldi fyrirfram fyrir nokkrum vikum að Edwards myndi sigra í Suður-Karólínu - og koma þannig á flugi inn í baráttuna í 5. febrúar þegar úrslitin munu hugsanlega ráðast! En fyrst hann klárar ekki heimaríkið sitt - þá er þetta búið fyrir hann.

Vonandi mun það þeirra sem verður forsetaframbjóðandi halda sjó - og koma repúblikönum út úr Hvíta húsinu. Það yrði jákvæður sögulegur atburður - hvort sem nýi forsetinn yrði kona eða blökkumaður.


mbl.is Obama sigraði í Suður-Karólínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngusker langbesti kosturinn!

Löngusker er langbesti kosturinn sem flugvallarstæði fyrir Reykjavíkurflugvöll framtíðarinnar. Að sjálfsögðu á að reisa íbúðabyggð í Vatnsmýrinni eins og frændi minn Gísli Marteinn vill. Íbúðabyggð í bland við fyrirtæki sem tengjast starfsemi háskólanna og starfsemi Ríkisspítala.

Á sama hátt er Sundabraut í göng langbesti kosturinn sem framtíðar vegastæði fyrir Vesturlandsveg inn á höfuðborgarsvæðið eins og frændi minn Björn Ingi Hrafnsson hefur margoft bent á.

Vonandi halda Faxaflóahafnir áfram að þrýsta á samgönguyfirvöld landsins í að leggja Sundabraut í göng og haldi boðinu um að sjá um framkvæmdina opnu undir nýrri styrkri stjórn frænda míns Júlíusar Vífils.

Það er tilvalið að nýta efni sem kemur upp við gangnagerð vegna Sundabrautar og gangnagerðar vegna ganga undir Öskjuhlíð í landfyllingu á Lönguskerjum fyrir flugvöll framtíðarinnar.

Þá á ekki að ljúka göngum Sundabrautar við norðurströnd Reykjavíkur. Að sjálfsögðu á að halda áfram akrein undir Reykjavík og upp við Reykjavíkurflugvöll á Lönguskerjum. Þaðan áfram á brú yfir á Álftanes þar sem Vesturlandsvegur tengist Reykjanesbraut.

Svo á að sjálfsögðu að leggja Hringbrautina í Vatnsmýrina í stokk. Hef aldrei skilið af hverju R listinn og samgönguyfirvöld heyktust á því á sínum tíma. Væntanlega hafa snillingarnir í Vegagerðinni eitthvað haft með það að gera - þótt ég muni það ekki.

Treysti því að Gísli Marteinn og Hanna Birna haldi áfram vinnu við að undirbúa framtíðarflugvallarstæði fyrir Reykjavíkurflugvöll á skynsömum nótum - þótt þau hafi lofað að sýna flugvöllinn í Vatnsmýrinni á skipulagsuppdráttum næstu 2 árin - enda hefði þeim uppdráttum hvort eð er ekki verið breytt fyrr en eftir þann tíma.

Mér þætti athyglisvert að sjá niðurstöðu viðhorfskönnunar þar sem spurt væri: "Hvar vilt þú að Reykjavíkurflugvöllur verði staðsettur ef hann verður færður úr Vatnsmýrinni?"

Viss um að stór hluti þeirra sem vill völlin í Vatnsmýrinni myndi velja Löngusker!


mbl.is Vilja íbúðabyggð í Vatnsmýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin að yfirgefa krónuna!

Þjóðin er að yfirgefa krónuna. Gengisbundin lán heimilanna námu 138 milljörðum í desember. Þetta er í takt við niðurstöður skoðanakannana Capacent Gallup þar sem fram kom meðal annars að 42,6% þeirra sem telja sig munu festa kaup á næstu misserum gera ráð fyrir að taka myntlán - en ekki krónulán. Þetta hlutfall var einungis 9,7% í sambærilegri könnun í desember 2006.

Stjórnvöld geta ekki stungið hausinn í sandinn hvað þetta varðar. Mín skoðun er sú að við eigum að undirbúa inngöngu í Evrópusambandið og taka upp Evruna. Fyrsta skrefið í því er að koma efnahagsmálunum í skikk. Annað að skilgreina samningsmarkmið okkar og í þriðja lagi að hringja í gamlan vin minn úr NCF - Finnan Olli Rehn og ganga frá þessu. Það ætti ekki að taka langan tíma.


mbl.is Gengisbundin lán heimila í sögulegu hámarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband