Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Ólafur Friðrik: 1, 2 og Réttarholtsveg í stokk!

Ólafur Friðrik Magnússon borgarstjóri ætti að hefja samráðsverkefnið 1,2 og Reykjavík með því að taka undir með íbúum í Bústaðahverfi þegar þeir segja ! "1,2 og Réttarholtsveg í stokk" og "1,2 og öruggar gönguleiðir yfir Bústaðaveg!"

Reykjavíkurborg hyggst loka vinstri akrein af Bústaðavegi inn á Reykjanesbraut. Alfeiðing þess verður stóraukin umferð um Réttarholtsveg - þar sem umferð er nú allt of mikil og allt og hröð nú þegar.

Það eru ekki góð tíðindi að umferð um Réttarholtsveg aukist enda umferð gangandi barna og unglinga mjög mikil yfir þessa götu sem er í miðju íbúðahverfi og slítur sundur skólahverfi. 

Reykjavíkurborg hyggst setja undirgöng undir Réttarholtsveginn sem mótvægisaðgerð vegna aukinnar umferðar. Undirgöng eru bara ekki nóg!

Íbúar vilja að akandi umferð um Réttarholtsveg verði sett í göng frekar en að byggð verði undirgöng fyrir gangandi vegfarendur. Þannig er einnig hægt að gera meira úr umhverfi svæðisins við Réttarholt, en á þessu svæði eru tveir grunnskólar, tveir leikskólar og félagsaðstaða fyrir aldraða. 

Ef slíkt yrði gert mætti jafnvel bæta við tveimur sambærilegum íbúðarturnum fyrir íbúðir aldraðra og nú eru við Hæðargarð í tengslum við þjónustumiðstöð aldraðra þar! 

Einnig stórbæta aðstöðu kring um Réttarholtsskóla - ekki veitir af!

Á íbúafundi í gærkvöldi kom skýrt fram að íbúarnir eru mjög uggandi um þessar breytingar og krefjast þess að mótvægisaðgerðun vegna þessa verði lokið áður en vinstri beygju verður lokað - ef henni verður lokað sem margir hafa efasemdir um að sé rétt að gera.

En það var fleira sem kom fram.

Íbúarnir ítrekuðu enn og einu sinni nauðsyn þess að setja göngubrýr og undirgöng á hina miklu umferðagötu Bústaðaveg - en Bústaðavegurinn slítur í sundur skólahverfi Réttarholtsskóla og félagshverfi Víkings - og hamlar þannig möguleika þeirra barna sem búa norðan Bústaðavegar að stunda íþróttir með Víkingi sem hefur aðstöðu sína í Víkinni - sunnan þessarar þungu umferðaræðar.

Ólafur Friðrik! 

Ég treysti því að þú sýnir viljann í verki, takir á með okkur hinum í hverfinu þínu og segir: "1,2 og Réttarholtsveginn í stokk!" og einnig "1,2 og öruggar gönguleiðir yfir Bústaðaveg!"

... og ekki bara það - heldur sjáir til þess að þetta verði framkvæmt!

TIL ÍBÚA Í BÚSTAÐAHVERFI!

ENDILEGA SKRIFIÐ ÁLIT YKKAR Í ATHUGASEMDIR VIÐ ÞETTA BLOGG OG SÍNUM BORGARYFIRVÖLDUM AÐ OKKUR ER ALVARA!!!


mbl.is Aukið samráð við íbúa borgarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskar Bergsson stimplar sig inn í borgarstjórn

Óskar Bergsson hefur stimplað sig inn í borgarstjórn undanfarið á ákveðinn og málefnalegan hátt. Óskar hefur gagnrýnt hinn nýja meirihluta í nokkrum málum af festu og með vel ígrunduðum rökum. Ég spái því að Óskar eigi eftir að koma borgarbúum þægilega á óvart sem nýr borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, enda þrautseigur baráttumaður og hokinn af reynslu úr borgarkerfinu.

Hinn nýji borgarfulltrúi hefur ekki síst tekið á óðagoti nýja meirihlutans við ótímabær kaup á Laugavegi 4 og 6. 

Óskar hittir naglan á höfuðið - enda bæði húsasmíðameistari og rekstrarfræðingur - þegar hann segir í bókun sinni vegna kaupanna:

"...Kaupin á Laugavegi 4 og 6 og Skólavörðustíg 1A hafa dregið úr trúverðugleika borgarinnar sem skipulagsvalds, hafa sett skipulag Laugavegsreita í uppnám og hleypt upp verði á gömlum húsum í miðborginni. Þessi vinnubrögð eru fáheyrð þar sem virðing fyrir almannafé og vandaðri stjórnsýslu er gefið langt nef..." 

og einnig:

"...Í stað þess að nýta alla þá vönduðu vinnu sem borgarstarfsmenn, borgarfulltrúar og húsverndarsérfræðingar hafa lagt til og hér hefur verið lögð fram, hefur Sjálfstæðisflokkurinn og borgarstjóri gert þessa vinnu að engu og hleypt upp verði á óbyggðum fermetrum í miðborg Reykjavíkur..."


mbl.is Vandaðri stjórnsýslu gefið langt nef
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúmlega 85% Íslendinga vill óbreyttan Íbúðalánasjóð

Lögbundið hlutverk Íbúðalánasjóðs er  "...að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum."

Stjórnvöld geta því ekki að óbreyttum lögum ákvarðað útlánsvexti sjóðsins að vild, hvað sem Seðlabanka eða viðskiptabankana hugnast.

Reyndar er Íbúðalánasjóði væntanlega óheimilt að hafa vaxtaálag sitt of hátt vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Íbúðalánasjóður fjármagnar útlán sín með útboði íbúðabréfa á fjármálamarkaði. Ávöxtunarkrafa sú sem úr útboðum kemur leggur grunn að útlánsvöxtum Íbúðalánasjóðs, því fast vaxtaálag leggst ofan á niðurstöðu útboðsins.

Það eru meðal annars bankarnir sem bjóða í íbúðabréfin og taka þannig þátt í verðmyndun þeirra. Með öðrum orðum - bankarnir eiga óbeinan þátt í ákvörðun útlánsvaxta Íbúðalánasjóðs - en það er í raun fjármagnsmarkaðurinn sem vöxtunum ræður.

Það ríkir almenn sátt um tilvist Íbúðalánasjóðs meðal almennings á Íslandi. Í viðhorfskönnunum annars vegar meðal þeirra er festu kaup á fasteign á síðari hluta ársins 2007 og hins vegar meðal almennings kom fram skýr vilji til þess að Íbúðalánasjóður starfaði áfram í óbreyttri mynd. Hlutfall þeirra sem vilja óbreyttan Íbúðalánasjóð hefur aldrei áður verið svo hátt.

Meðal fasteignakaupenda vill 87,4% óbreytta starfsemi en það hlutfall var 82,8% í desember 2006. Í almennu könnuninni var þetta hlutfall 85,5% í desember 2007 á móti 74,2% í desember 2006.


Umsókn um aðild að Evrópusambandinu skaðar ekki sjávarútveginn!

Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu skaðar á engan hátt hagsmuni sjávarútvegsins, enda ljóst að það er unnt að semja um fiskveiðistjórnina í aðildarviðræðum.  Það er í alla staði hagsmunir Íslands að hefja nú þegar undirbúning að umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Það er reyndar ábyrgðarhluti hjá stjórnvöldum að hefja ekki nú þegar slíkan undirbúning.

Aðildarumsókn er nefnilega eitt. Innganga er annað.

Ástæða þess að ég sting niður penna öðru sinni í dag til að hvetja til undirbúnings aðildarumsóknar að Evrópusambandinu eru harkaleg viðbrögð andstæðinga Evrópusambandsins í athugasemdum við pistil minn "Undirbúum umsókn um aðild að Evrópusambandinu!"

Þar staðhæfa menn að ekki sé unnt að sækja um vegna sjávarútvegsins! Það er algjör firra því það er alveg ljóst að unnt er að semja um fiskveiðistjórnina.

Það eru fordæmi fyrir því að einstök lönd eða landssvæði haldi fullu forræði fyrir sjávarútvegnum. Má þar nefna Asoreyjar og Grænhöfðaeyjar sem dæmi. Ástæðan er sú að þessi landssvæði eru efnahagslega háð sjávarútvegi og floti Evrópusambandslanda hefur ekki veiðihefð innan lögsögunnar.

Það er ekki markmið ESB að gera einstök lönd eða svæði efnahagslega háð Brussel.  Þessvegna halda menn t.d. olíulindum, sjávarútvegi, skógrækt sbr Finnland og fleiru utan ESB ef þess er óskað í aðildarviðræðum.

Það verður aldrei hægt að tala sig niður á þá niðurstöðu sem við getum náð í aðildarviðræðum án þess að sækja um og láta á það reyna.  

Ég skal vera fyrsti maður til að greiða atkvæði gegn aðild að ESB ef ekki nást viðunandi samningar um sjávarútvegsmál og önnur atriði sem skipta okkur meginmáli. Hins vegar er ég nokkuð viss um að ég geti með góðri samvisku greitt atkvæði með slíkri aðild - þar sem ég tel okkur getað náð ásættanlegum samningum,

Reyndar er það ábyrgðarhluti hjá stjórnvöldum að hafa ekki þegar undirbúið aðildarumsókn - í ljósi þeirra hagsmuna sem Íslendingar hafa af Evrópusambandsaðild - ef ásættanlegir samningar nást um sjávarútveginn.


Visir.is - fréttavefur eða fréttaannáll?

Mér sýnist visir.is vera að breytast í fréttaannál frekar en fréttavef. Í næstum því viku hefur ofarlega á forsíðu visir.is blasað við mér sama myndin af glæsilegum ungum þingmanni, Birki Jóni Jónssyni, ásamt fyrirsögn sem í marga daga hefur verið ljóst að er rangfærsla. 

Bak við fyrisögnina er sérkennileg umfjöllun Andra Ólafssonar fyrrum formanns ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði - sem ku vera blaðamaður á Fréttablaðinu. Samfylkingarmaðurinn fjallar í hneykslunartón um að þingmaðurinn - sem er afar öflugur bridgespilari - hafi tekið í spil um daginn.

Samfylkingarmanninum er frjálst að hneykslast á því að þingmaðurinn taki í spil - en ég get ómögulega séð ástæðu til þess að visir.is sem vill láta taka sig alvarlega sem fréttavefur - skuli breyta sjálfum sér í fréttaannál - og það lélegan fréttaannál - með því að hafa sömu "ekkifréttina" á áberandi stað í heila viku.  Jafnvel þó spilamennska þingmannsins hefði brotið í bága við lög - sem hún gerði alls ekki eins og alþjóð ætti nú að vita þótt Samfylkingarmaðurinn hefði viljað gefa annað í skyn - þá réttlætti það ekki þessa framsetningu "fréttavefjarins".

Hvað þá að halda inni allan þennan tíma fyrirsögn sem ekki stenst - eins og ítrekað hefur komið fram í öðrum fjölmiðlum. 

Það er alveg ljóst hvaða hvatir liggja að baki umfjöllunar Samfylkingarmannsins - en hvaða hvatir liggja þarna að baki hjá visir.is?

Annars skrifar Pétur Tyrfingsson skemmtilegan pistil á Eyjunni um fjaðrafokið sem saklaus - og lögleg - spilamennska þingmannsins unga og öfluga hefur valdið.

PS: Fréttaannállinn hefur verið fjarlægður af forsíðu visir.is - eftir amk. 5 daga veru. Kannske voru þetta bara mistök hjá visir.is. Ég kýs allavega að líta svo á.


Undirbúum umsókn um aðild að Evrópusambandinu!

Það er hagur okkar Íslendinga að ganga í Evrópusambandið. Það er ljóst. Þjóðin er að átta sig á því. Ríkisstjórnin á því að undirbúa umsókn að Evrópusambandinu. Til lengri tíma mun það verða til þess að auka stöðugleika í íslensku hagkerfi. Enda er krónan 20. aldar gjaldmiðill - en ekki gjaldmiðill fyrir 21. öldina.

Þeir sem óttast að við Íslendingar séum að afsala okkur fullveldi með slíkri inngöngu - verð ég að benda á að fullveldið fór með EES samningnum - hvort sem okkur líkar betur eður verr.


mbl.is Stuðningur við ESB rúm 55%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn og endurnýjað þvottahús!

Það var sérkennileg upplifun að hafa á sama degi verið talinn annars vegar genginn í Samfylkinguna og hins vegar vera talinn Sjálfstæðismaður á leið úr skápnum í Evrópumálum. Hvorutveggja var að finna í athugasemdum við pistil minn Ráðherra Björgvin, stattu þig drengur!

Þessar athugasemdir voru þó ekki ástæðan fyrir nokkurra daga bloggfríi hjá mér - en kunningi minn taldi það geta hafa verið!

Ástæðan var einfaldlega sú að konan var búin að fá nóg af gamla þvottahúsinu - enda orðið nokkuð sjúskað - og vildi gera það upp!

Það var því ekkert annað að gera en að taka upp stóru sleggjuna - brjóta niður það sem brjóta þurfti, mála og flísaleggja, henda upp nýrri innréttingu - setja upp nýjan vask, handklæðaofn og ný ljós.

Þetta tók á skrifstofublókina - bæði andlega og líkamlega. Fingurnir helaumir og ekki takkaborðshæfir - strengir á sérstökum stöðum þrátt fyrir þokkalega ástundun í líkamsræktinni að undanförnu - og sálin átti í erfiðleikum með að sætta sig við klaufaskapinn á stundum.

Veit ekki hvar þetta hefði endað ef ég ætti ekki góða að sem réttu hjálparhönd - en markmiðið náðist - nýtt þvottahús tilbúið á konudaginn!

Fingurgómarnir eru að koma til á ný - svo ég get aftur farið að vinna við tölvuna - og blogga. Ekki viss um að öllum þyki það til bóta ...


Hugrökk og skynsamleg ákvörðun hjá Einari Kristni!

Einar Kristinn Guðfinnsson sýnir bæði hugrekki og skynsemi með því að ákveða stöðvun loðnuveiða á meðan óvissa ríkir um stofnstærð loðnunnar. Hann sýndi sama hugrekki og skynsemi þegar hann skar niður þorskvótann fyrir þetta fiskveiðiár.

Einar Kristinn hefði að líkindum verið vinsælli í kjördæminu sínu ef hann hefði látið undan og ekki látið fiskistofnana njóta vafans. En hann valdi skynsamlegir leiðina.

Hins vegar verður Einar Kristinn að berja í ríkisstjórnarborðið og knýja fram raunverulegar mótvægisaðgerðir fyrir sjávarbyggðirnar! Það sem ríkisstjórnin hefur kynnt sem "mótvægisaðgerðir" duga bara allt of skammt!

Oft var þörf - en nú er nauðsyn að sjávarútvegsstefnan sé byggðastefna eins og ég sagði í pistli mínum:  Sjávarútvegsstefnan á að vera byggðastefna!


mbl.is Veiðum hætt á hádegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherra Björgvin, stattu þig drengur!

Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur staðið í lappirnar í Evrópuumræðunni þrátt fyrir að að honum hafi verið sótt úr ýmsum áttum - ekki hvað síst frá aðiljum í samstarfsflokknum í ríkisstjórn. Ég er innilega sammála afstöðu Björgvins - eins og lesendur bloggsins míns hafa séð gegnum tíðina.

Ég átti ekki von á því að hann myndi standa svo fast við hugmyndafræði sína þegar hann væri kominn í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Ánægður með ráðherra Björgvin - já, stattu þig drengur!


mbl.is Eina leiðin að sækja um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrkir Northern Rock Íbúðalánasjóð?

Á undanförnum misserum hefur verið sett spurningamerki við ríkisábyrgð Íbúðalánasjóðs og því haldið fram að vegna ríkisábyrgðarinnar ætti sjóðurinn ekki að lána öllum almenningi íbúðalán á bestu kjörum.  Vegna þessa hefur Eftirlitsstofnun EFTA verið að kanna starfsemi Íbúðalánasjóðs og bíða menn nú niðurstöðu stofnunarinnar.

Því skýtur það skökku við að ríkisstjórn Bretlands geti hreinlega þjóðnýtt Northern Rock bankann - sem er íbúðalánabanki!   Þá hefur verið áberandi umræðan um óbeina ríkisábyrgð íslenska ríkisins á íslensku bönkunum - þar sem gengið hefur verið út frá því að ríkið muni koma bönkunum til hjálpar ef illa fer - eins og breska ríkisstjórnin er nú búin að veita Northern Rock beina ríkisábyrgð.

Hvers vegna er þá verið að þjarma að Íbúðalánasjóði?

Er ekki bara rétt að láta sjóðinn í friði og beita honum til að aðstoða almenning á Íslandi til að koma sér þaki yfir höfuðið á bestu möguleg kjörum - og með ríkisábyrgð?

Rök þeirra sem halda því fram að ríkisábyrgð til íbúðalána sé óheimil ættu að heyra í Gordon Brown og bresku ríkisstjórninni!


mbl.is Northern Rock þjóðnýttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband