Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Losunarkvótan til álvers á Bakka eða í álbræðslu í Helguvík?

Vinur minn iðnaðarráðherra sagði á sínum tíma að óskir Íslendinga um séríslenskt ákvæði í loftlagsmálum yrði "hlegið út af borðinu". Umhverfisráðherra vill greinilega ekki verða að mögulegu aðhlátursefni og treystir sér ekki einu sinni til þess að reyna. Því virðist útséð um að Íslendingar fái auknar losunarheimildir. 

Þá er bara pláss fyrir eitt álver - annað hvort á Bakka við Húsavík eða í Helguvík.

Samfylkingin getur ekki verið stykkfrí í afstöðunni til þess hvort næsta álver verði byggt á Bakka eða í Helguvík.

Á Íslandi eru annars vegar álbræðslur sem einungis bræða ál og hins vegar álverksmiðjur sem bræða ál og vinna úr því til dæmis barra, álþráð og bolta með þeim virðisauka fyrir Íslendinga sem því fylgir.

Álbræðslan á Grundartanga er álbræðsla sem ekki áframvinnur álið á Íslandi. Álverið á Reyðarfirði og í Straumsvík vinna meira úr álinu og nýta því losunarkvótan mun betur fyrir efnahagslífið á Íslandi.

Fyrirhuguð álbræðsla í Helguvík er af fyrri taginu og því ekki eins dýrmæt fyrir Íslendinga og fyrirhugað álver á Bakka sem nýta mun losunarkvótan miklu mun betur fyrir íslenskt efnahagslíf - auk þess að skipta miklu meira málið fyrir nærumhverfið en álbræðslan í Helguvík.

Þá má bæta við að með álverinu á Bakka gætu skapast aðstæður til þess að setja á fót völsunarverksmiðju á norðausturlandi þar sem samanlögð framleiðsla Bakka og Reyðaráls yrði það mikil að rekstrarlegar forsendur fyrir slíkri, umhverfisvænni stóriðju skapast.


mbl.is Helguvík bíði enn um sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Bogdan ekki á lausu!

Geir er góður drengur. Spilaði með honum í unglingalandsliðinu - og svo vorum við samtíða í MH! Kemur væntanlega í ljós um helgina hvort hann er til í tuskið.

En hvernig er það. Er Bogdan ekki á lausu!

Af hverju ekki að fá kallinn aftur í djobbið! Fæ ennþá harðsperrur bara við það að lesa nafnið!

Siggi Sveins gæti síðan verið aðstoðarmaður hans - eða bara Gaupi!


mbl.is HSÍ ræðir við Geir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugvöllurinn teiknaður úr Vatnsmýrinni af öryggi!

Flugvöllurinn hefur verið teiknaður úr Vatnsmýrinni af miklu öryggi. Völlurinn mun fara þaðan fyrr en síðar hvað sem Ólafur F. Magnússon rembist. Það vita það allir - líka Ólafur F. - að svokallaður "málefnasamningur" þar sem rætt er um að taka ekki formlega ákvörðun um flutning flugvallarins næstu örfáu mánuðina - er ekki pappírsins virði.  "Málefnasamningurinn" er Potkemíntjöld - til þess að halda völdum - örlítið lengur en Jörundur hundadagakonungur.

Það er alveg ljóst eftir niðurstöður skipulagssamkeppni fyrir Vatnsmýrina hefur birst borgarbúum - að flugvöllurinn á ekki heima á þeim stað.  Það verður einungis afar lítill minnihlutahópur sem mun hanga á þeirri hugmynd til framtíðar.

Þetta veit Hanna Birna. Þetta veit Gísli Marteinn. Þess vegna passa þau sig á því að tala alltaf á þeim nótum að flugvöllurinn muni fara - þótt hann eigi að vera næstu mánuði. Þau ætla sér framhaldslíf í pólitík.

Þetta veit Ólafur F. líka . Það væri heiðarlegast af honum að hætta þessu streði - hætta að staglast á flugvellinum - og einbeita sér að því að vinna vinnuna sína á öðrum sviðum - þessa örfáu daga sem hann á eftir í stól borgarstjóra.


George W. Bush talsmaður pyntinga!

Ég tek ofan fyrir Bandaríkjaþingi sem hefur nú samþykkt að banna vatnspyntingar sem tíðkaðst hafa hjá CIA undir verndarvæng þess sem síst skyldi - forseta Bandaríkjanna George W. Bush! Bush mun ætla að beita neitunarvaldi til að koma í veg fyrir bannið - þar sem hann vill gjarnan að Bandaríkjamenn beiti slíkum pyntingum gegn meintum óvinum Bandaríkjanna.

Sem betur fer eru líkur á að skipulögðum pyntingum Bandaríkjastjórnar fari að linna þar sem allar líkur eru á að næsti forseti Bandaríkjanna verði demókrati, en það voru einmitt demókratar sem komu banninu gegnum þingið í andstöðu við flesta repúblikana - sem eins og forsetinn - virðast talsmenn pyntinga.

Það er með óhug sem maður fylgist með mannréttindabrotum Bandaríkjanna - þessa ríkis sem ætti að vera í farabroddi fyrir mannréttindi og lýðræði í heiminum. Ég treysti því að næsti forseti Bandaríkjanna - hver sem hann verður - snúi við blaðinu og beiti sér fyrir því sem leiðtogi öflugasta lýðræðisríkis í heimi - að vinna að framgangi lýðræðis og mannréttinda í heiminum - í stað þess að grafa undir hvorutveggja með ofbeldisstefnu sinni.


Frábær árangur Víkinga!

Það var frábær árangur 1. deildarliðs Víkings gegn úrvalsdeildarliði Vals í undanúrslitum bikarkeppninnar í handbolta í kvöld! Úrvalsdeildarlið Vals þurfti bilaða klukku og dómara sem dæmdu af 2 fullkomlega gild mörk af Víkingum í aðalleiktíma - þar sem þeir blésu of snemma í flauturnar - til að komast í úrslit bikarkeppninnar.

Skemmtilegt að sjá Víking á uppleið eftir mörg mögur ár - þetta gamalgróna lið sem var það allra besta á Íslandi í fjölmörg ár á 9. áratugnum.

Yfirleitt baráttuglatt Valslið var ekki upp á sitt besta í kvöld - verða að gera betur ef þeir ætla að klára bikarinn.

Víkingar hefðu að líkindum klárað leikinn í eðlilegum leiktíma ef ekki hefði verið fyrir það að 2 fullkomlega góð og gild mörk voru blásin af - þegar dómarar flautuðu varnarbrot rétt eftir að skot reið af. Fyrir utan vafasamt mark sem Valsmenn fengu þar sem boltinn fór ekki inn fyrir línu - en dómarararnir voru of fljótir að flauta það sem mark - en vissu væntanlega betur.

Já, og ég er ekki viss um að tímavörðurinn sofi vel í kvöld - þar sem tæknileg mistök urðu líklega til þess að Víkingar töpuðu leiknum - misstu tveggja marka forystu í byrjun fyrri framlengingar - niður í eitt mark þar sem snjöll fyrsta sókn þeirra sem gaf fullkomlega löglegt mark - og að öllu eðlilegu tveggja marka forystu - var dæmt af þar sem klukkan fór ekki í gang. Þegar sóknin fór aftur af stað eftir að markið var dæmt af og tíminn settur á núllpunkt að nýju - þá skoruðu Víkingar ekki - en þess í stað jöfnuðu ákveðnir Valsmenn.

Ennþá sárara var það fyrir gamlan Víking að sjá stöngin út - svona eins og á móti Dönum - úr síðasta skoti fyrri framlengingar!

En fyrst kom til annarrar framlengingar - þá áttu Valsmenn skilið að vinna leikinn. Þá kom munurinn milli deilda í ljós - og frábær markvarsla markvarðar Vals - sem meðal annars varði víti í síðari framlengingu - og amk. tvö skot maður á móti manni -tryggði Valsmönnum sigurinn.

En það sem stóð upp úr í kvöld - var frábær skemmtun! Takk fyrir leikinn Valsmenn og Víkingar! Svona leikir styrkja handboltan á Íslandi.

... og dómararnir - þótt ég hafi tiltekið vafasöm atvik - þar sem hlutirnir hefðu getað lent öðruvísi hefðu þeir aaaaðeeeeiiiiins beðið með að flauta - þá var alveg ljóst að þeir gerðu sig besta og drógu hvorki taum Valsmanna né Víkinga! Þannig á það að vera!

Frábær skemmtun!

 PS. Var að sjá í fréttum að þetta er í fyrsta sinn í 10 ár sem Valur er í úrslitum bikarsins! Mér fannst það vera miklu styttra síðan. Þetta er því langþráður árangurt Valsmanna!  Til hamingu Valsmenn - og gangi ykkur allt í haginn í úrslitaleiknum.


mbl.is Valsmenn mæta Fram í úrslitaleiknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjávarútvegsstefnan á að vera byggðastefna!

Sjávarútvegsstefnan á að vera byggðastefna!

Sá tími er liðinn þegar við Íslendingar sem þjóð áttum allt okkar undir sjávarútveginum.  Við höfum á undanförnum 12 árum náð að renna fjölmörgum nýjum stoðum undir íslenskt efnahagslíf - og þolum því sem heild áföll í sjávarútvegi sem við hefðum ekki þolað fyrir 12 árum síðan.

En því miður þá þola ekki allar sjávarbyggðir landsins áföll í sjávarútvegi - ef það þýðir samdrátt í þeirri undirstöðu sem sjávarbyggðirnar byggja á. Þess vegna eigum við ekki að draga úr umsvifum sjávarútvegsins á landsbyggðinni þar sem útgerð og fiskvinnsla er kjarni mannlífsins. Við eigum að láta samdráttinn koma fram á þeim svæðum þar sem áhrif hans leggja samfélagið ekki í rúst.

Já, við eigum að hætta útgerð og fiskvinnslu í Reykjavík!

Það dettur engum í hug að Reykvíkingar skuli vera stórtækir í sauðfjárrækt - á kostnað landsbyggðarinnar! 

Á sama hátt er engin ástæða fyrir því að Reykvíkingar séu stórtækir í útgerð og fiskvinnslu - á kostnað landsbyggðarinnar!

Einhver kynni að halda fram að það skipti öllu máli að ná hámarks arðsemi út úr atvinnuveginum sjávarútvegi.

Að sjálfsögðu á að nýta auðlindina sem best og með hámarksarðsemi að leiðarljósi - en við höfum bara vel efni á því að minnka heildararðsemi atvinnugreinarinnar - ef það skilar sér í hærri arðsemi og betri stöðu landsbyggðarinnar.

Við eigum að gera breytingar á kvótakerfinu - sem leiða til þess að byggðirnar styrkist. Þær leiðir eru til.

Meira um það síðar í vikunni!


Er Evrópusambandsaðild margfalt verðmætari en EES aðild?

Aðild Íslendinga að Evrópusambandinu og að evrunni sparar íslenskum heimilum 50 til 100 milljarða á ári á meðan aðalforsendan fyrir EES samningnum á sínum tíma var 4 til 5 milljarða króna tollafríðindi á fiski.  Þetta kom fram hjá Árna Páli Árnasyni eins öflugasta Alþingismanns Samfylkingarinnar á ráðstefnu norsku Evrópusamtakanna.

Það er alveg ljóst að íslenska krónan er ekki gjaldmiðill 21. aldarinnar eins og ég hef margoft bent á. Ef við viljum endilega halda í krónuna - þá skulum við skipta yfir í færeysku krónuna.

Þótt það sé ekki á dagskrá ríkissjórnarinnar - þá verðum við að taka afstöðu til þess hvort við viljum hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið og taka upp Evruna.  Það skaðar okkur að ýta þeirri umræðu og þeirri ákvörðun á undan okkur - eins og ríkisstjórnin virðist ætla að gera - þótt skýr vilji hafi komið fram hjá ráðherrum bæði Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um að upptaka Evru sé æskileg.

Minni einnig á tímabærar vangaveltur hinnar öflugu framsóknarkonu Valgerðar Sverrisdóttur á sínum tíma um að skoða beri möguleika á þvi að taka upp Evru án þess að ganga í Evrópusambandið. Geri ráð fyrir því að Valgerður sé sammála mér að við ættum að hefja aðildarviðræður ef ekki er mögulegt eða hagkvæmt að taka upp Evru einhliða - án þess ég viti það. Hún hafði myndugleik og hugrekki til að taka þá umræðu upp á sínum tíma.

Mín skoðun er nefnilega sú að hag okkar sé betur farið innan Evrópusambandsins - og að við eigum að hefja viðræður hið snarasta.

Ég áskil mér hins vegar rétt til þess í þessu máli sem öðrum að skipta um skoðun ef fram koma gild rök sem sýna framá að ég hafi rangt fyrir mér - en hingað til hafa þau ekki komið fram - ekki einu sinni hjá vini mínum og félaga Bjarna Harðarsyni.

Við megum ekki láta misskilið þjóðarsstolt flækjast fyrir okkur í þessu máli - frekar en öðrum.

Að þessum orðum sögðum held ég fullur þjóðarstolts á þorrablót með Hornfirðingum og gæði mér á hákarli og súrmeti eins og sönnum Íslendingi sæmir.  Joyful

Írleg frétt um ræðu Árna Páls er að finna á Eyjunni.


Íslandsmeistaramótið í Hornafjarðarmanna!

Íslandsmeistaramótinu í Hornafjarðarmanna lýkur í kvöld við upphaf þorrablóts Hornfirðinga á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þá fer fram úrslitaviðureign þriggja efstu manna úr undankeppni Hornafjarðarmannamótsins.  Heimsmeistaramótið í Hornafjarðamanna er hins vegar haldið á Humarhátíð á Hornafirði í sumar.

Þorrablót Hornfirðinga á Stór-Reykjavíkursvæðinu er haldið í 30. skipti eftir því sem ég kemst næst. Við hjónin mætum að sjálfsögðu ásamt hóp fólks sem - eins og við - vann í lengri eða skemri tíma á Hornafirði. Þetta er reyndar í fyrsta skipti sem við mætum hér í Reykjavík - 10 árum eftir að við fluttum frá Hornafirði aftur á mölina í Reykjavík - en þorrablótin fyrir austan voru stórkostleg og ógleymanleg.  Þar varð ég meðal annars þess heiðurs aðnjótandi að verða umfjöllunarefni í annál þorrablótsins - þar sem þorrablótsnefndin gerði grín að þeim sem það áttu skilið! 

Það er uppselt á þorrablótið í kvöld - en klukkan 23:00 hefst dansleikur - þar sem hljómsveit Hauks Þorvaldssonar leikur fyrir dansi - að sjálfsögðu. Á dansleikinn skilst mér að allir séu velkomnir - meðan húsrúm leyfir.

Á vef Þorrablóts Hornfirðinga á Stór-Reykjavíkursvæðinu er að finna skemmtilegar orðskýringar er snerta þorrablót.  Læt þér fylgja.

Þorrablót
Á Íslandi er siður að halda þorrablót í febrúar. Þorrablót er veisla, þar sem Íslendingar borða hefðbundinn íslenskan mat, drekka brennivín, syngja íslensk lög, kveða vísur og dansa gömlu dansana. Fyrstu þorrablótin voru haldin í kaupstöðum á Íslandi á nítjándu öld.

Harðfiskur
er þurrkuð fiskflök af þorski, ýsu eða steinbít. Harðfiskurinn er rifinn og borðaður þurr, án þess að vera matreiddur á nokkurn hátt. Oft er borðað smjör með honum eins og með brauði.

Hákarl
er venjulega óætur. En ef hann er grafinn niður í fjörusand í nokkra mánuði yfir veturinn, rotnar hann á sérstakan hátt og fær sterkt bragð, sem minnir á sterkan ost. Það er kallað kæstur eða verkaður hákarl. Íslendingum finnst hákarl góður með brennivíni.

Svið
eru lambahöfuð, sem eru sviðin yfir eldi eða með logsuðutæki til þess að brenna burt ullina, og síðan soðin með salti. Mörgum finnast augun best, en mestur matur er í kjömmunum og tungunni.

Með þorramatnum er borin fram rófustappa, kartöflujafningur og flatrúgbrauð með smjöri. Það er ekkert grænmeti borið fram með þorramat, það er ekki íslenskur matur.

Á eftir dansa Íslendingarnir gömlu dansana með harmoníkuundirleik. Það er drukkinn bjór með matnum og brennivín. Þorrablótið stendur oft alla nóttina.

 


Félagsmálaráðherra! Nú er tækifærið að afnema lánaviðmið ÍLS við brunabótamat!

Nú er rétta tækifærið til að afnema fáránleg viðmið lána Íbúðalánasjóðs við brunabótamat.  Íbúðamarkaðurinn er gersamlega frosinn í augnablikinu og þarf reyndar að fá smá púst svo ekki fari illa. 

Ég treysti því að Jóhanna Sigurðardóttir breyti reglugerð vegna þessa nú þegar. Slík aðgerð yrði ungu fólki og fólki í lægstu tekjuhópunum mjög dýrmæt.

Stjórnvöld hafa undanfarin ár hafa ekki viljað að útlán Íbúðalánasjóðs taki mið af markaðsverði og því ríghaldið í viðmið við brunabótamat á þeim forsendum að breytingin kynni að kynda undir þenslu á fasteignamarkaði - tíminn væri ekki réttur.

Þau rök eiga ekki við eins og ástandið er í dag - svo nú er tækifærið.  

 


Vaxtalækkun hjá Íbúðalánasjóði í farvatninu?

Það kynni að vera vaxtalækkun í farvatninu hjá Íbúðalánasjóði í ljósi þess að ávöxtunarkrafa íbúðabréfa hefur lækkað um 25-105 punkta eftir flokkum í janúar. Ávöxtunarkrafa á 40 ára flokkum er 4,54% þegar þetta er skrifað - sem myndi þýða vaxtalækkun úr 5,5% í  líklega 5,1% ef sjóðurinn færi í útboð og tæki tilboðum á þessum kjörum.

Vaxtalækkun hjá Íbúðalánasjóði nú væri kærkomin fyrir fasteignamarkaðinn sem hefur ekki einungis kólnað - heldur snöggfrosið - á undanförnum vikum.

Útlánaaukning Íbúðalánasjóðs í janúar er reyndar mjög eðlileg - því bankarnir hafa nánast dregið sig út af íbúðalánamarkaði - líkt og þeir gerðu árið 2006.


mbl.is Útlán Íbúðalánasjóðs aukast um 6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband