Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Ræktum kirkjugarðana okkar!

Við eigum að leggja rækt við hina fjölmörgu kirkjugarða sem er að finna við gamlar sveitakirkjur víðs vegar um landið. Það er ekki sæmilegt hvernig við látum þessa heilögu reiti allt of víða drabbast niður og fleytum þanneginn áum um okkar inn í gleymskunar dá!

Ástæða þess að ég fór að hugsa um þetta á ný - en ég hef reyndar lengi verið áhugamaður um verndun og viðhald gamalla kirkjugarða - voru orð hlustanda sem hringdi inn í þátt Sigurðar G. Tómassonar á Útvarpi Sögu - sem ég var að hlusta á í endurtekningu áðan meðan ég var að skúra eldhúsgólfið.

Hlustandinn var reyndar faðir eins besta vinar míns og ágætur kunningi - Marínó Finnbogason.

Marínó er Vestfirðingur að upplagi - og var á dögunum í berjamó fyrir vestan. Hann notaði ferðina og sótti heim Selárdal - þar sem hann á ættir sínar að rekja - og fannst til fyrirmyndar hvernig verið er að hlú að einstökum listaverkum Samúels. Hins vegar sárnaði honum hvernig komið er fyrir kirkjugarðinum á þessu forna og merka menntasetri. Þar var margra ára sina yfir kirkjugarðinum -þar sem hann eftir langa leit fann leiði afa síns - skóflustungu undir sinuvoðinni.

Marínó benti einnig á að leiðum foreldra Jóns Sigurðssonar forseta - sem liggja grafin á Rafnseyri -hafi ekki verið viðhaldið og gerður sá sómi sem eðlilegt ætti að vera eðli málsins vegna.

Ég er sammála Marínó. Það er ósæmilegt að leggja ekki rækt við þessa gömlu kirkjugarða sem ættu að vera órjúfanlegur hluti sögu okkar og menningu. Vandamálið liggur hins vegar í því að það er erfitt fyrir litlar sóknir að halda rækt við gamla kirkjugarða sína. Og það er nánast ómögulegt fyrir áhugamenn um gamla kirkjustaði í eyði að viðhalda þeirri tign sem áar okkar sem liggja í kirkjugörðunum þar eiga af okkur skilið.

Okkur ber skylda til þess að snúa þessari þróun við. Okkur ber skylda til þess að leggja fé og fyrirhöfn í það að viðhalda þessum gömlu kirkjugörðum. Þetta er arfleið okkar og menning.

Ég kalla eftir hugmyndum um það hvernig unnt er að leggja rækt við kirkjugarðanna okkar og sýna þannig áum okkar þá virðingu sem þeim ber.

 


Ánægjuleg afstaða almennings til Íbúðalánasjóðs

Það er ánægjulegt að sjá afstöðu almennings til Íbúðalánasjóðs.

Þrír af hverjum fjórum fasteignakaupendum eru jákvæðir gagnvart Íbúðalánasjóði og mikill meirihluti vill að sjóðurinn starfi í óbreyttri mynd.
Mikill meirihluti fasteignakaupenda vill að Íbúðalánasjóður starfi óbreyttur áfram. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Íbúðalánasjóð í júní og júlí. 82,5% eru þessarar skoðunar samkvæmt könnuninni, ámóta margir og í sambærilegri könnun í lok síðasta árs.

 

9,2% telja að sjóðurinn eigi að vera heildsölu og einungis 8,4% vilja að Íbúðalánasjóður hætti starfsemi og viðskiptabankarnir sjái alveg um íbúðalán.
Fleiri en 8 af hverjum 10 hafa talið að Íbúðalánasjóður ætti að starfa í óbreyttri mynd í sambærilegum könnunum sem Capacent Gallup hefur gert fyrir sjóðinn síðastliðið eitt og hálft ár. Nærri þrír af hverjum fjórum fasteignakaupendum eru mjög eða frekar jákvæðir gagnvart Íbúðalánasjóði og aðeins 7% eru mjög eða frekar neikvæðir gagnvart sjóðnum.

Niðurstöður könnunarinnar má sjá í heild sinni hér.

 


Tökum upp færeysku krónuna!

Það hefur verið í gangi sprenghlægilegur slagur milli stjórnanda Seðlabankans - en sú stofnun ber grunnábyrgð á verðbólgu og stórhækkuðu húsnæðisverði á Íslandi - og stjóra öflugasta banka á Íslandi - sem sá um hinn helminginn á verðbólgu og stórhækkuðu húsnæðisverði á Íslandi.

Þeir eru ekki sammála um það hvort taka eigi upp evru sem gjaldmiðið á Íslandi - eða hvort halda skuli í krónuna.

Ég er með málamiðlun.

Tökum upp færeysku krónuna.


Hæ! Kominn aftur eftir frábært sumarfrí!

Hæ!

Kominn aftur eftir langa bloggpásu - og frábært sumarfrí í faðmi fjölskyldunnar.

Ekki það að ég var oft kominn á fremsta hlunn með að láta vaða - en ákvað að halda mig við ákvörðun mína um að þegja í þrjá mánuði - þannig að fólk fái fengi ekki algjerlega leið á mér - en koma aftur á meðan einhverjir myndu eftir mér.

Þakka þessum sjö sem hafa spurt mig hvort ég sé hættur að blogga :)

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband