Ræktum kirkjugarðana okkar!

Við eigum að leggja rækt við hina fjölmörgu kirkjugarða sem er að finna við gamlar sveitakirkjur víðs vegar um landið. Það er ekki sæmilegt hvernig við látum þessa heilögu reiti allt of víða drabbast niður og fleytum þanneginn áum um okkar inn í gleymskunar dá!

Ástæða þess að ég fór að hugsa um þetta á ný - en ég hef reyndar lengi verið áhugamaður um verndun og viðhald gamalla kirkjugarða - voru orð hlustanda sem hringdi inn í þátt Sigurðar G. Tómassonar á Útvarpi Sögu - sem ég var að hlusta á í endurtekningu áðan meðan ég var að skúra eldhúsgólfið.

Hlustandinn var reyndar faðir eins besta vinar míns og ágætur kunningi - Marínó Finnbogason.

Marínó er Vestfirðingur að upplagi - og var á dögunum í berjamó fyrir vestan. Hann notaði ferðina og sótti heim Selárdal - þar sem hann á ættir sínar að rekja - og fannst til fyrirmyndar hvernig verið er að hlú að einstökum listaverkum Samúels. Hins vegar sárnaði honum hvernig komið er fyrir kirkjugarðinum á þessu forna og merka menntasetri. Þar var margra ára sina yfir kirkjugarðinum -þar sem hann eftir langa leit fann leiði afa síns - skóflustungu undir sinuvoðinni.

Marínó benti einnig á að leiðum foreldra Jóns Sigurðssonar forseta - sem liggja grafin á Rafnseyri -hafi ekki verið viðhaldið og gerður sá sómi sem eðlilegt ætti að vera eðli málsins vegna.

Ég er sammála Marínó. Það er ósæmilegt að leggja ekki rækt við þessa gömlu kirkjugarða sem ættu að vera órjúfanlegur hluti sögu okkar og menningu. Vandamálið liggur hins vegar í því að það er erfitt fyrir litlar sóknir að halda rækt við gamla kirkjugarða sína. Og það er nánast ómögulegt fyrir áhugamenn um gamla kirkjustaði í eyði að viðhalda þeirri tign sem áar okkar sem liggja í kirkjugörðunum þar eiga af okkur skilið.

Okkur ber skylda til þess að snúa þessari þróun við. Okkur ber skylda til þess að leggja fé og fyrirhöfn í það að viðhalda þessum gömlu kirkjugörðum. Þetta er arfleið okkar og menning.

Ég kalla eftir hugmyndum um það hvernig unnt er að leggja rækt við kirkjugarðanna okkar og sýna þannig áum okkar þá virðingu sem þeim ber.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mæltu heill bróðir.

Það er nú þannig að fólk leitar oft að rótum sínum þegar það er á ferð um landið. Á mörgum stöðum er það til fyrirmyndar hvernig staðið er að viðhaldi kirkjugarða þó að fleiri séu þeir sem horfnir eru í sinu, með brotna og skakka legsteina sokkna í moldina. Annarsstaðar eru þeir voðalega snyrtilegir en lítið aðlaðandi,  búið að slétta allt vel og vendilega til að koma að stórvirkum vinnuvélum. Kirkjugarður á að vera friðsæll staður þar sem fólk getur komið, gengið um og leitt hugann að gengnum kynslóðum, minnst forfeðranna og bent börnum sínum á hvar langalangamma hvílir.  Til að svo megi vera verðum við auðvitað að gera þeim sem áhuga hafa á kleift að viðhalda görðunum jafnt sem gömlul kirkjunum sem oft standa hnípnar innan girðingar sem á má sjá hvaða litur var á rúlluböggunum það árið, eða jafnvel árin á undan. Hvaðan það fjármagn ætti að koma hef ég ekki neina lausn á, en skoða mætti aukin fjárframlög í þá sjóði sem vinna að viðhaldi menningaminja.

Þóra Magnúsdóttir þjóðfræðingur 

Þóra Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 00:00

2 identicon

Allir kirkjugarðar landsins fá úthlutað fé úr kirkjugarðasjóði eftir stærð þeirra og fjölda grafa. Fénu er ætlað að standa undir kostnaði af umhirðu garðanna. Þar sem ekki er starfandi sérstök kirkjugarðsstjórn er það viðkomandi sóknarnefnd, sem ber ábyrgð á kirkjugarðinum. Að öllum líkindum ber sóknarnefndin á Bíldudal ábyrgð á umhirðu kirkjugarðsins í Selárdal.

Allir þegnar landsins greiða kirkjugarðsgjald með sköttum sínum. Það er hins vegar dapuleg staðreynd að Alþingi hefur stundum skert þessar tekjur garðanna og tekið hluta þeirra til sín. Einu sinni var til orð um það á íslensku að taka það sem aðrir eiga.

Annað vandamál við umhirðu kirkjugarða í dreifbýli er sú staðreynd að fámenni, vegalengdir og fjöldi lítilla garða, sem hver um sig eru sjálfstæð rekstrarleg eining, gerir það að verkum að stundum er erfitt að skipuleggja og standa að reglubundinni umhirðu.

Gömlum kirkjum er viðhaldið af söfnuðum. Í fámennri sókn eru sóknargjöldin eðli málsins samkvæmt ekki há.

Magnús Erlingsson, sóknarprestur á Ísafirði

Magnús Erlingsson (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 11:38

3 Smámynd: Hallur Magnússon

Kærar þakkir fyrir þetta félagi Magnús!

Ekki kemur það á óvart að Alþingi skerði tekjustofna sem þessa. Undirstrikar að betur má ef duga skal!

Hallur Magnússon, 12.9.2007 kl. 13:51

4 Smámynd: Kristján Björnsson

Blessaður Hallur!

Ég skrifa þér þó að seint sé. Þú ert að benda á merkilegan þátt í menningunni okkar, sem allir eiga að leggja rækt við. Það er yfirleitt hægt að lesa menningarstig hverrar þjóðar eftir því hvernig hún hugsar um grafreitina. Í því speglast virðing fyrir minningu látinna og í hverju trú íbúanna er fólgin hvað varðar eilífðina.

Hver kirkjugarður fær greidda ákveðna upphæð sem helgast að hluta til af kostnaði við garðinn. Í þeirri greiðslu er t.d. gert ráð fyrir venjulegri umhirðu. Þó er það svo að á Íslandi (og víðast um heim) eru það afkomendur og ættingjar sem annast leiði ástvina sinna. Ég verð oft var við þetta hér í Eyjum, en ein mynd þess er sú að ef allri eru fluttir af svæðinu fá ættmennin einhvern til að annast þetta fyrir sig eða kaupa jafnvel þessa þjónustu.

Þetta getur verið erfitt við að eiga þar sem garðurinn er í heild ekki hirtur og hreinlega erfitt að komast að leiðum þótt ástvinir vilji annast um þau. Um langan tíma hefur það verið þannig að til sveita hafa sveitungar og sóknarnefndarfólk, sem oft stjórnir þessara kirkjugarða, slá garðana sjálfir, en þá er ekki alltaf sama viðmiðun á því hvað er vel sleginn garður. Það eru engar reglur til um það. Ég hef tekið eftir því að sumum finnst gott að slá kirkjugarð einu sinni til tvisvar yfir sumarið þótt sumum þyki það fjarri lagi.

Ég skal kanna þetta mál með Selárdalinn sérstaklega og láta þig og aðra sem hér lesa vita hvað kemur út úr því.

Það sem Þóra kemur inná og þú líka og einnig Marinó, er afar merkilegt mál. Hvernig getum við flokkað og skilgreint ákveðin leiði sem menningarsöguleg minningarmörk, sem þjóðin á að annast á einhvern sérstakan hátt? Það ætti að sumpart að vera metnaðarmál viðkomandi kirkjugarðsstjórnar, sumpart Kirkjugarðasambandsins og sumpart þjóðarinnar eða jafnvel félagasamtaka, ef minning persónunnar er á einhvern hátt tengd félagi, samtökum eða þá kafla Íslandssögunnar. Þetta er verðugt verkefni.

Í Guðs friði,

Kristján Björnsson í Eyjum

Kristján Björnsson, 17.9.2007 kl. 23:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband