Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Nauðsynlegt að flytja Seðlabankann á Ísafjörð!

Í ljósi röksemdafærslna Seðlabankans í tengslum við verðbógluspá sína er ljóst að það er ekki einungis rétt að flytja Seðlabankann, heldur er nauðsynlegt að flytja Seðlabankann á Ísafjörð.

Seðlabankinn verður að ná jarðtengingu og sambandi við vinnandi fólk í landinu, venjulegt fólk sem stritar í svita síns andlits. Ísafjörður er úrvalsstaður til þess. 

Það er alveg ljóst að þótt sérfræðingarnir í Seðlabankanum telji sér trú um það að þjóðin sé tilbúin að horfa fram á 5% atvinnuleysi til að ná verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, þá er það ekki raunin.  Íslendingar sætta sig ekki við atvinnuleysi.

Menn ætti kannske að rifja upp þátt Seðlabankans í þenslu undanfarinna ára!  Það var nefnilega Seðlabankinn sem minnkaði bindiskyldu bankanna á versta tíma og fyllti þannig vasa bankanna af peningum sem  þeir þuftu að koma út í formi útlána. akkúrat þegar ljóst var að þensluskeið var framundan. Sú aðgerð kynnti heldur betur á verðbólgubálinu sem bankinn hefur síðan verið að eiga við - og stundum virst bæta í köstinn frekar en hitt!


Jón Hnefill Aðalsteinsson áttræður!

Jón Hnefill Aðalsteinsson lærifaðir minn í þjóðfræðináminu er 80 ára í dag, 27. mars. Í tilefni þess  verður haldið áttræðisþing til heiðurs Jóni Hnefli undir yfirskriftinni Þjóðfræði og þakkarskuld!

Áttræðisþingið verður haldið í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands á morgun, 28. mars og stendur frá kl. 13:00 til 18:00.

Jón Hnefill er afar merkilegur maður að mínu viti og vann frábært frumkvöðlastarf við uppbyggingu þjóðfræðikennslu við Háskóla Íslands, en það nám hefur verið íslenskri menningu mikilvægt, enda stendur það í miklum blóma um þessar mundir. Ég var svo lánsamur að stunda þjóðfræðinám samhliða sagnfræðináminu einmitt á þeim tíma sem Jón Hnefill var að hefja uppbyggingastarfið við félagssvísindadeildina.

Þá er Jón Hnefill merkur vísindamaður á sviði þjóðfræðinnar. Hann vakti fyrst athygli á því sviði fyrir frábæra bók að mínu mati - "Under the Cloak" - þar sem fjallað er um kristnitökuna út frá öðru sjónarhorni en almennt hefur verið gert á Íslandi.  Því miður finnst mér því sjónarhorni hafa verið gefinn allt of lítll gaumur í umfjöllun um þennan einn merkasta viðburð Íslandssögunnar.

Ég tek undir lokaorðin í umfjöllun um áttræðisþingið og Jón Hnefil á vef félagsvísindadeildar:

"Lengi mætti áfram að telja afrek afmælisbarnsins á fjölbreyttri starfsævi. Umfram allt er Jón Hnefill Aðalssteinsson þó góður maður."

 Jón Hnefill - kærar þakkir fyrir samfylgdina og leiðsögnina!  Til hamingju með afmælið!

 


Opið land - gott innlegg

Er með í höndunum Opið land, nýja bók Eiríks Bergmanns. Verð að segja að mér virðist þetta gott innlegg í þjóðmálaumræðuna og skyldulesning fyrir þá sem hafa áhuga á þjóðmálum á Íslandi. Eftir að hafa rétt flett gegnum gripinn finnst mér innlegg hans um óttann við útlendinga sérstaklega áhugaverður - sem og umfjöllun um Litháa sem eru bara alveg eins og Íslendingar! 

 Sá á heimasíðunni hans Eiríks að það er unnt að lesa upphaf bókarinnar á netinu.


Já, Seðlabankann á Ísafjörð!

Pistill minn, Seðlabankann á Ísafjörð? hefur vakið nokkra athygli og hefur jafnvel verið vitnað til hans á vefsíðu hins skemmtilega vestfirska blaðs BB sem er mér mikill heiður.

Margir hafa spurt mig hvort ég meini virkilega að það ætti að færa Seðlabankann á Ísafjörð. Já, ég meina það virkilega. Geri mér grein fyrir að það eru ekki miklar líkur á að bankinn verði fluttur þar í einu lagi, en er eitthvað því til fyrirstöðu að færa einhvern hluta hans þangað?

Eins og fram kom í fyrri pistli mínum þá vinn ég í opinberu fyrirtæki sem er með starfsstöðvar bæði í Reykjavík og Sauðárkróki. Ég veit hvað starfstöðin á Sauðárkróki skiptir fyrir Skagfirðinga. Vestfirðingar eiga það inni hjá okkur að fá hluta af alvöru opinberu fyrirtæki flutt vestur til að styrkja samfélagið þar. 

Opinber fyrirtæki eiga að flytja þann hluta starfsemi sinnar sem unnt er að flytja með góðu móti frá höfuðborgarsvæðinu út á land. Við eigum öll ríkisfyrirtækin - ekki bara við höfuðborgarbúarnir.  

 


Óli "Léttfeti" og Mjólka í Borgarnes!

Það eru ánægjuleg tíðindi að vinur minn Ólafur "Léttfeti" Magnússon hyggist flytja Mjólku í Borgarnes vegna þess að starfsemin hefur sprengt utan af sér í núverandi húsnæði. 

Gleði mín er þríþætt.

Í fyrsta lagi gleðst ég yfir velgengni vinar míns Ólafs "Léttfeta".

Í öðru lagi gleðst ég yfir velgengni Mjólku sem er nauðsynlegt aðhald risans MS Auðhumlu, bæði á neytendamarkaði og gagnvart bændum sem hafa nú val um hverjum þeir selja mjólkina sína.

Í þriðja lagi gleðst ég yfir því að aftur er farið að vinna mjólk í Borgarnesi, sem reyndar er nú orðinn hluti Kolbeinstaðahrepps hins forna, enda hálfur Kolhreppingur. Þetta styrkir atvinnulífið á þessum slóðum.

Svona í lokin fyrst ég er farinn að snerta sameiningarmál - þá skil ég ekkert í því afhverju sveitarfélagið var ekki nefnt því tígurlega nafni "Eldborg" - þegar Eldborg í Hnappadal kom inn í sveitarfélagið með Kolbeinsstaðahreppi hér um árið Tounge

Svo er nú það!

 


mbl.is Afurðastöð Mjólku verði flutt í Borgarnes
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afnemum tolla á 3. heiminn!

Ég varð hugsi yfir frétt um að Íslendingar hyggist aftur setja tolla á grænmeti sem flutt er inn frá öðrum ríkjum en þau sem eru innan evrópska efnahagssvæðisins (reyndar var það orðað innan Evrópusambandsins sem lýsir vankunnáttu blaðamanns á stöðu okkar í Evrópu).

Ég hef ekkert á móti því að setja toll á grænmeti frá Bandaríkjunum eða Ástralíu ef það þarf á annað borð að setja á tolla.  Hins vegar tel ég að við Íslendingar eigum að ganga fram fyrir skjöldu og afnema alfarið tolla á vörur frá fátækustu ríkjum 3. heimsins. Ég veit að menn vilja semja um slíkt í alþjóða samningum - en fátækustu þjóðir heims geta ekki beðið!

Er ekki rétt að byrja á grænmetinu - tolla í topp grænmeti á ríkustu ríkin utan EES - en afnema á móti grænmeti frá fátækustu ríki heimsins.  Það er raunveruleg þróunaraðstoð!

Svo er nú það!


Unglingur um hækkun bílprófsaldurs

Dóttir mín var að fá æfingaleyfi vegna bílprófs og mun væntanlega fá bílprófsréttindi í lok apríl. Þetta minnir mann á að tíminn líður - og ég er ekkert unglamb lengur!

Það er væntanlega þess vegna sem hún velur að skrifa smá pistil í skólanum um hækkun bílprófsaldurs, en umræða um að hækka bílprófsaldur í 18 ár hefur skotið upp kollinum af og til.

Mér finnst ekki úr vegi að sýna alþjóð viðhorf 16 ára stelpu sem bíður eftir bílprófinu sínu:

"Hér á eftir ætla ég að fjalla lítilega um hækkun bílprófsaldursins og af hverju ég tel hann ekki eiga eftir að fækka slysum.

      Mikið hefur verið rætt um það að hækka bílsprófsaldurinn vegna þess hve mörgum slysum ungt fólk veldur, eða hefur sjálft lent í undanfarin ár . Það er að vísu rétt að mörg slys verða vegna ungs fólks á aldrinum 17 – 20 ára . En það má ekki gleyma þvi að fullorðið fólk veldur þeim líka .

 

      Ég tel að það muni ekki hjálpa neitt að hækka aldurinn uppi 18 ár . Því fólk þroskast ekki svo mikið á einu ári . Auk þess fær það alveg jafn langan undirbúningstíma hvort sem er. Það má byrja í ökukennslu einu ári áður en aldri til að byrja keyra er náð.

Oft verða umferðaslys  þegar ungir strákar ( í flestum tilvikum ) eru að sýna hvað þeir geta og keyra þar af leiðandi of hratt. Í þeim tilvikum finnst mér að í staðinn fyrir að hækka bílprófsaldurinn, eigi einfaldlega að vera betri löggæsla í umferðinni og hærri sektir heldur en nú gengur og gerist. Því ungt fólk á oft ekki mikið af peningum og ef það lendir einu sinni í svona aðstöðu að borga himinháa sekt t.d. fyrir að vera ekki með bílbelti, fara yfir á rauðu ljósi, eða einfaldlega keyra of hratt.

Þá myndi það forðast eins og heitan eldinn að endurtaka svona vitleysisgang aftur og kanski gera sér betur grein fyrir alvöru málsins.

 

     Þess vegna tel ég að fólk komi alveg jafn óundirbúið eða vel undirbúið, út í umferðina hvort sem það fengi prófið 18 ára eða 17 ára . Vegna þess að það er einfaldlega með sömu reynsluna .

Þetta er eins og að halda því fram að nemandi í myndlist kynni betur að teikna ef hann væri 18 ára og byrjaði 17 ára að læra að teikna en myndi teikna ver ef hann myndi byrja að læra þegar hann væri  16 ára og lyki teiknináminu við 17 ára aldurinn. 

Ungt fólk sem er ekki komið með bílpróf notar strætó mikið og er það bæði dýrt , tímafrekt og mjög leiðinlegt . Strætisvagninn er nær aldrei á réttum tíma og þá er unga fólkið að koma of seint til vinnu eða skóla og ekki er það nú gott . Það er því voða gott að geta verið komin með bílpróf þegar maður er orðinn 17 ára . Þá getur maður hjálpað til heima og t.d sótt yngri systkini sín á leikskólann þegar foreldrar eru i vinnu.

 

   Í staðinn fyrir að hækka aldurinn uppí 18 ár væri ef til vill sniðugra að leyfa unga fólkinu að byrja að læra fyrr svo það hafi meiri tíma til að venjast umferðinni og hættunum sem í henni leynast . Þá myndi unga fólkið koma betur undirbúið út í umferðinna og væri að auki vanara að keyra. Það myndi klárlega fækka slysum í umferðinni.

Álfrun Elsa Hallsdóttir " 

Flott hjá Faxaflóahöfnum sf.!

Ég tek ofan fyrir stjórn Faxaflóahafna sf. fyrir að lýsa yfir eindregnum áhuga og vilja fyrirtækisins til að koma að framkvæmdum við Sundabraut og leiða þær til lykta eins fljótt og unnt er. Þetta er til fyrirmyndar og ekki eftir neinu að bíða.  Þessi framkvæmd er gífurlega mikilvæg bæði fyrir landsbyggð og íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Treysti því að stjórnvöld segi játakk í hvelli! Þetta á ekki að þurfa að vera kosningamál.

Fyrst Faxaflóahafnir eru reiðubúnir að ganga í þetta verk nú þegar, þá er ekkert því til fyrirstöðu að Vegagerðin gangi strax í það að tvöfalda Suðurlandsveg að Selfossi.  Sorglegt dauðaslys á þeim vegi í dag undirstrikar þessa þörf.

Reyndar er með ólíkindum asnaskapurinn hjá samgönguyfirvöldum og Vegagerðinni að leyfa sér að leggja ófullkominn, nýjan veg yfir Svínahraun í stað þess að hafa veginn strax tvöfaldan og aðskilinn.

Þá á að sjálfsögðu að tvöfalda Vesturlandsveg á Kjalarnesi að Hvalfjarðargöngum hið fyrsta.

Þótt þessar framkvæmdir fara af stað þá mega þær ekki verða til þess að tefja nauðsynlegar samgöngubætur á landsbyggðinni - allra síst nauðsynlegar gangnagerðir.  Við verðum að bora nokkur göt milli byggðarlaga svo fljótt sem auðið er til að tryggja nauðsynlegan styrk samfélaga úti á landi.

Meira um það síðar.

Svo er nú það!


Seðlabankann á Ísafjörð?

Hvernig væri að flytja Seðlabankann á Ísafjörð? Þessa spurningu spurði vinnufélagi minn mig í morgun.

Fyrstu viðbrögð mín voru neikvæð, en svo fór ég að hugsa!

Ísafjörður hefur farið illa út úr flutningi hátæknifyrirtækis af staðnum og samkvæmt nýlegri tölfræði hefur staðurinn verið afar afskiptur hvað varðar flutning opinberra starfa út á landsbyggðina. Það er æskilegt að flytja alvöru opinbert fyrirtæki vestur, allt eða hluta þess. Vestfirðingar eiga það inni hjá þjóðinni. 

Ég vinn í fyrirtæki sem er staðsett á tveimur stöðum, 50 manns í Reykjavík og 16 á Sauðárkróki.  Þetta fyrirkomulag hefur gengið afar vel og starfstöðin á Sauðárkróki er til fyrirmyndar mönnuð metnaðarfullu starfsfólki.

Því þá ekki að flytja Seðlabankann á Ísafjörð? 

Það myndi fjölga hámenntuðu fólki á staðnum sem hvort eð er er ekki á þeytingi vítt og breytt um höfuðborgina í starfi sínu, enda fer starfið fyrst og fremst fram inn á kontór og með upplýsingaöflun gegnum netið, skilst mér.

Margföldunaráhrifinn fyrir Ísafjörð yrðu veruleg - og háskóli á Vestfjörðum hefði aðgang að bestu hagfræðingum til kennslu og jafnvel rannsókna.

Auk þess myndi úrvals húsnæði á besta stað losna í miðbænum. Það væri best nýtt undir listaháskóla - sem stæði þá við hlið stærstu menningarhúsa landsins og við hlið ráðuneyti menningarmála!

Já, af hverju ekki að flytja Seðlabankann á Ísafjörð!

Svo er nú það!


Takmörkun lánshlutfalls vegna brunabótamats á útleið?

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra vill afnema þá reglu að takmarka lánsfjárhæð Íbúðalánasjóðs við brunabótamat íbúðar að viðbættu lóðarmati.  Þetta kemur fram í svari  hans við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttir á Alþingi á dögunum.

 

Í svarinu kemur fram að þetta mál hafi verið til athugunar í félagsmálaráðuneytinu og hjá Íbúðalánasjóði og vilji sé til þess að afnema þetta skilyrði. Engin ákvörðun liggi þó enn fyrir um hvort eða hvenær ráðist yrði í þessa breytingu. Ákvörðun í því efni verði meðal annars tekin í samráði við fjármálaráðuneytið með hliðsjón af stöðu efnahagsmála.

 

Þessi afstaða félagsmálaráðherra ætti að kæta Ingibjörgu Þórðardóttur formanns Félags fasteignasala, sem hefur ítrekað hvatt til þess í viðtölum að undanförnu að framangreint  við brunabótamat verði afnumið.

 

Ingibjörg hefur bent á að 90% lán Íbúðalánasjóðs sé sjaldnast 90% lán á höfuðborgarsvæðinu.  Í nýlegu fréttaviðtali sagði Ingibjörg meðal annars:

... hámarkslánið fer aldrei umfram brunabótamat og lóðamat hjá Íbúðalánasjóði og það má segja að þær séu teljandi á fingrunum þær íbúðir sem að geta farið í gegnum þetta nálarauga að lánið nái 90% af kaupverðinu… …En brunabótamatið er sem sagt sá akkilesarhæll sem Íbúðalánasjóður býr við og sníður þeim þar af leiðandi afar þröngan stakk. 

Þetta er rétt hjá Ingibjörgu, því á árinu 2006 voru einungis veitt 78 lán á höfuðborgarsvæðið sem raunverulega náðu gildandi hámarksláni, 90% fyrri hluta ársins og 80% síðari hluta ársins. Þetta er aðeins 1,3% af heildarfjölda útlána Íbúðalánasjóðs.

 

Ákvæðið um viðmið við brunabótamat var á sínum tíma ekki ætlað að takmarka almennar lánveitingar Íbúðalánasjóðs enda var verð íbúða sjaldnast yfir brunabótamati fyrr en eftir að húsnæðisverð fór að hækka verulega upp úr árinu 1998. Því var það undantekning að ákvæðið skerti hámarkslánshlutfall.

 

Ákvæðinu var fremur ætlað að vera kostnaðarviðmið í þeim tilfellum sem ekki var um lánveitingar vegna kaupa að ræða heldur þegar veitt voru greiðsluerfiðleikalán eða lán til endurbóta.. Þá var ákvæðið ákveðinn öryggisventill vegna mögulegra málamyndagerninga við kaup og sölu íbúðarhúsnæðis.

 

Þess má geta að Glitnir auglýsir nú 90% lán sem ekki eru takmörkuð af brunabótamati

Svo er nú það!

Undirstrikað skal að bloggfærslur á síðunni endurspegla eingöngu mín eigin viðhorf, sbr. http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/entry/145053/ 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband