Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Framsókn faglegust í ESB?

Framsóknarflokkurinn var um langt árabil faglegasti stjórnmálaflokkurinn þegar unnið var í stefnumótun um aðildarumsókn eða aðildarumsókn ekki að ESB.  Framsóknarflokkurinn vann undirbúning Evrópustefnu sinnar á árabilinu 2001 til 2009 afar faglega.

Í kjölfar afar vandaðrar greiningarvinnu Framsóknarflokksins í aðdraganda flokksþings árið 2005 var ljóst að klár meirihluti Framsóknarmanna vildu skoða aðildarumsókn að Evrópusambandinu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

En vegna hatrammrar baráttu stækra andstæðinga Evrópusambandsins gegn því að aðildarumsókn að Evrópusambandinu yrði skoðuð gáfu stuðningsmenn mögulegrar aðildarumsóknar eftir. Flestir þeirra mátu mikilvægara að halda flokknum saman og fresta ákvörðun um aðildarumsókn eða aðildarumsókn ekki að sinni.

Enda börðust meðal annars áhrifamiklir ráðherrar og fyrrverandi ráðherrar með kjafti og klóm gegn meirihlutaskoðun flokksþingsfulltrúa í Evrópumálum. Þar gerði tilfinnaríkt innlegg hins ástsæla leiðtoga Framsóknarmanna, Steingríms Hermannssonar, gegn aðildarumsókn að Evrópusambandinu gæfumuninn.

Fylgjendur aðildarumsóknar að Evrópusambandinu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum drógu sig í hlé í anda samvinnu og frjálslyndis til að koma í veg fyrir alvarlega sundrung flokksins. Andstæðingar aðildarumsóknar unnu fullan sigur þótt færri væru.

Afleiðingar þessa varð sú að fjölmargir góðir samvinnumenn og frjálslyndir miðjumenn hættu þátttöku í starfi Framsóknarflokksins og sumir sögðu sig alfarið úr flokknum.

Þrátt fyrir þetta hélt fagleg umræða um kosti og galla aðildar að Framsóknarflokknum áfram innan flokksins. Sú umræða náði hámarki í aðdraganda flokksþings í janúar 2009 – flokksþings sem svaraði kalli þjóðarinnar um endurnýju og endurnýjaði algerlega forystusveit Framsóknarflokksins.

Hluti hins nýja Framsóknarflokks var breið samstaða um að sækja skyldi um aðild að Evrópusambandinu með ákveðnum skilyrðum. Rúmlega 90% þingfulltrúa á rúmlega 900 fulltrúa flokksþingi Framsóknarflokksins í janúar 2009 samþykkti að hefja ætti aðildarumsókn.

Þrátt fyrir það var lítill en afar öflugur hópur innan Framsóknarflokksins sem staðfastlega vildi vinna gegn aðildarviðræðum að Evrópusambandinu. Sumir þeirra ákváðu að bera kápuna á báðum öxlum og tjá sig sem minnst um samþykkta stefnu Framsóknarflokksins í Evrópumálum.

Fleiri en einn og fleiri en tveir þeirra náðu að komast í efstu sæti Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningarnar 2009 og fleiri en einn og fleiri en tveir náðu kjöri.

Þrátt fyrir skýra stefnu Framsóknarflokksins sem byggist á margra ára faglegrar upplýsingaöflunar og umræðu um kosti og kalla aðildar að Evrópusambandinu, þá telja flestir kjósendur að Framsóknarflokkurinn sé gegn aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Eðlilega þar sem áberandi þingmenn tala og kjósa gegn stefnu sem grasrót Framsóknarflokksins vann og samþykkti á flokksþingi í janúar 2009.

Stefnu sem byggir á margra ára umræðu og upplýsingaöflun.

Það er sárgrætilegt að horfa upp á þessa stöðu þar sem sumir þingmenn og forystumenn Framsóknarflokksins vanvirða áralanga faglega vinnu almennra Framsóknarmanna og vinan gegn samþykktri stefnu flokksins um aðildarviðræður á grunni ákveðinna skilyrða.

Eftirfarandi var eitt helsta áherslutriði í kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins fyrir Alþingiskosningarnar árið 2009:

“… að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar líkt og kveðið er á um í skilyrðum síðasta flokksþings framsóknarmanna. Viðræðuferlið á að vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings.”

Þar sem Framsóknarflokkurinn er ekki lengur að vinna heilsteyptur að framgangi aðildarumsóknar að Evrópusambandinu er ljóst að núverandi og fyrrverandi Framsóknarmenn og aðrir miðjumenn sem vilja láta reyna á aðildarumsókn að Evrópusambandinu verða að finna sér öflugan vettvang utan Framsóknarflokkinn þar sem leiðarljósið er samvinna og frjálslynd miðjustefna.

Fagleg vinna Framsóknarflokksins í Evrópumálum:

Evrópunefnd Framsóknarflokksins 2001 – niðurstöður smella hér 

Skýrsla Evrópunefndar Framsóknarflokksins 2007 – smella hér

Skýrsla gjaldmiðilsnefndar Framsóknarflokksins 2008: „Staða krónunnar og valkostir í gjaldeyrismálum“

Samþykkt stefna Framsóknarflokksins á flokksþingi 2009 – smella hér


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband