Sjávarútvegsstefnan á að vera byggðastefna!

Sjávarútvegsstefnan á að vera byggðastefna!

Sá tími er liðinn þegar við Íslendingar sem þjóð áttum allt okkar undir sjávarútveginum.  Við höfum á undanförnum 12 árum náð að renna fjölmörgum nýjum stoðum undir íslenskt efnahagslíf - og þolum því sem heild áföll í sjávarútvegi sem við hefðum ekki þolað fyrir 12 árum síðan.

En því miður þá þola ekki allar sjávarbyggðir landsins áföll í sjávarútvegi - ef það þýðir samdrátt í þeirri undirstöðu sem sjávarbyggðirnar byggja á. Þess vegna eigum við ekki að draga úr umsvifum sjávarútvegsins á landsbyggðinni þar sem útgerð og fiskvinnsla er kjarni mannlífsins. Við eigum að láta samdráttinn koma fram á þeim svæðum þar sem áhrif hans leggja samfélagið ekki í rúst.

Já, við eigum að hætta útgerð og fiskvinnslu í Reykjavík!

Það dettur engum í hug að Reykvíkingar skuli vera stórtækir í sauðfjárrækt - á kostnað landsbyggðarinnar! 

Á sama hátt er engin ástæða fyrir því að Reykvíkingar séu stórtækir í útgerð og fiskvinnslu - á kostnað landsbyggðarinnar!

Einhver kynni að halda fram að það skipti öllu máli að ná hámarks arðsemi út úr atvinnuveginum sjávarútvegi.

Að sjálfsögðu á að nýta auðlindina sem best og með hámarksarðsemi að leiðarljósi - en við höfum bara vel efni á því að minnka heildararðsemi atvinnugreinarinnar - ef það skilar sér í hærri arðsemi og betri stöðu landsbyggðarinnar.

Við eigum að gera breytingar á kvótakerfinu - sem leiða til þess að byggðirnar styrkist. Þær leiðir eru til.

Meira um það síðar í vikunni!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

já , frjálsar krókaveiðar.

Óskar Þorkelsson, 11.2.2008 kl. 23:23

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þarna sagðir þú margt sem ég hef trassað að koma frá mér í rituðu máli. Og þessi samanburður á sauðfjárræktinni og útgerðinni er ein snjallasta ályktun sem ég hef lesið í áraraðir. Reyndar er allur þessi pistill eins og talaður út úr mínu hjarta þó ég hafi löngun til að gera smávægilegar athugasemdir.

Þú virðist gefa þér að með því að koma sjávarútveginum fyrir á landsbyggðinni væri það ávísun á minnkandi arðsemi greinarinnar. Þetta tel ég misskilning.

1. Sala og leiga á kvóta er fölsk fjármagnsmyndun ef grant er skoðað og auk þess brot á jafnræðisreglu í þröngri skilgreiningu. Ný "fundin" álitsgerð umboðsmanns Alþingis frá árinu 1983 hafnar þeirri úthlutun aflaréttinda sem viðgengist hefur hér í aldarfjórðung og úrskurður Mannréttindanefndar S.þ. er á sama veg. Þetta kallar á tafarlausa endurskoðun með þeim breytingum sem úrskurðurinn felur í sér.

2. Þar sem ráðgjöf Hafró hefur í öllum efnum mistekist og hrun fiskistofna okkar er komin fast að hættumörkum. Það ætti að vera hverjum þeim ljóst sem líta vill hlutlaust á málið að það getur ekki verið skynsamlegt að halda áfram gengdarlausum veiðum á loðnunni jafnframt því að friða smáþorskinn. Enginn bóndi myndi setja á allar gimbrarnar en selja heyið.

3. Efling smábátaútgerðar hringinn kringum land og helst með skilyrtum búsetukröfum, þ.e. að einungis þeim sem búsettir væru á hverjum stað væri heimilt að gera út frá plássinu.

Þetta er það umhverfi útgerðar sem ég sé fyrir mér í grófum dráttum meðan við erum að byggja upp fiskstofna okkar.

Þetta kæmi til með að spara ríkinu veruleg útgjöld vegna sértækra mótvægisaðgerða.

Landsbyggðin óx af útgerð, mjólkurframleiðslu og kjötframleiðslu og hún á að halda þeirri stöðu. Höfuðborgarsvæðið óx af öðrum starfsgreinum.  

Árni Gunnarsson, 11.2.2008 kl. 23:54

3 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæti Árni.

Ég er ekki að gefa mér það að með því að sjávarútvegurinn yrði einungis rekinn af landsbyggðinni þá minnki arðsemin. Hins vegar er ég að segja að ÞÓTT heildararðsemi greinarinnar myndu minnka við það - þá sé styrking byggðanna mikilvægari - enda á að taka arðsemi þess með í reikninginn.

Hallur Magnússon, 11.2.2008 kl. 23:58

4 Smámynd: Sveinn Hjörtur

Sæll. Kvitt fyrir lesningu!

Kveðja, 

Sveinn Hjörtur , 12.2.2008 kl. 00:09

5 identicon

Mjög athyglisverð nálgun, TAKK.

Guðmundur Kristjánsson (IP-tala skráð) 12.2.2008 kl. 08:29

6 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

heyr heyr!!

Guðrún Sæmundsdóttir, 12.2.2008 kl. 10:01

7 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Takk fyrir mjög áhugavert innlegg í umræðu um sjávarútvegsmál og byggðastefnu. 

Soffía Sigurðardóttir, 12.2.2008 kl. 10:52

8 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þetta er görsamlega rangt hjá þér Ingvar Guðmundsson.  Menn þurfa að vera flokksbundinr í Heimdalli eða Framsókn, já helst á báðum stöðum til að geta látið frá sér aðra eins þvælu.  Eftir að lénskipulagi var komið á í sjávarútvegi hafa fiskistofnarnir hrunið og skuldir sjávarútvedgsins margfaldast þrátt fyrir hærra hráefnisverð.  Sjávarútvegurinn skuldar nú rösk 300% af ársveltu!  Til að lengja í hengingarólinni hafa stjórnvöld kvótasett vannýttar fiskitegundir til að auka "veðhæfini". Afleiðingar kvótakefisins blasa við: Hrun fiskistofna, meiri skuldir, rekstrarlegt hrun og verri afkoma sjómanna þrátt fyrir hærra fiskverð.

Sigurður Þórðarson, 12.2.2008 kl. 21:27

9 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæti Sigurður!

Ekki ætla ég að taka afstöðu til orða þinna - en minni á að það var Alþýðuflokkurinn sem breytti lögum þannig að unnt var að veðsetja kvótann. SKil því ekki af hverju þú tekur ekki fram arftaka Alþýðuflokksins  -  Samfylkinguna í þessari upptalningu þinni

Hallur Magnússon, 12.2.2008 kl. 22:23

10 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæll Hallur, ég þekki þessa sögu ekki út í hörgul en treysti því að þú farir með rétt mál. Ég spyrti Framsókn við kvótakefið aðalega vegna eins manns sem stýrði þínum annars merka flokki alltof lengi, að mínu mati.  Kratar mega eiga sína skömm refjalaust fyrir mér.  Hallur, aðalatriðið er ekki að leita sökudólga heldur að lagfæra það sem úr lgegi hefur farið og reyna að koma því til betri vegar. Ég sé greinileg merki þess að ýmsir áhrifamenn í Framsóknarflokknum eru tilbúnir til að skoða þessi mál með opnum huga. Ég fagna því innilega og nenni ekki að hírast  í nöprum skotgröfum fortíðarhyggju. Kjarni málsins er sá að við eigum sameiginlega hagsmuni í því að sjávarútvegurinn blómstri á ný.  Vafalaust hafa allir meint vel en líffræðileg þekking er ekki sú sama og hún var fyrir 5 árum, hvað þá fyrir 24 árum.  Ég þakka þér fyrir þennan pistil en er þó ekki sammála því upphafsskilyrði að samasemmerki sé á milli aflamarkskerfis (á skip) og hagkvæmni. Slíkar kennisetningar eru til þess fallnar að byrgja mönnum sýn og ættu síst heima í Framsóknarflokknum sem gjarnan vildi kenna sig við kreddulausa og heilbrigða skynsemi.  En að öðru Hallur, ert  þú ekki ættaður af Snæfellsnesi?

Sigurður Þórðarson, 13.2.2008 kl. 00:47

11 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæti Sigurður.

Sammála því að það skipti fyrst og fremst máli að laga kerfið. Get upplýst þig um það að gegnum tíðina hefur verið fjörleg umræða um sjávarútvegsmál innan Framsóknarflokksins - þótt í stefnu flokksins hafi verið staðið að baki kvótakerfinu.

Til að mynda ályktaði SUF á sínum tíma í tengslum við endurskoðun fiskveiðistjórnarlögin á árinu 1991 að taka ætti upp fyrningu fiskveiðiheimilda. Sú umræða hefur verið í gangi á flokksþingum síðan - ásamt fleiri áherslum - þótt meirihluti  hafi ekki verið fyrir slíku.

Hvað varðar tengsl hagkvæmni og aflamarkskerfis á skip - þá held ég engu fram í því í pistlinum. Dreg hins vegar fram að ekki sé lengur rétt að beita rökum um hámarkshagkvæmni í greininni - til þess að réttlæta niðurlagningu útgerðar á landsbyggðinni. Það er kjarni málsins.

Jú, ég er af vondu fólki!  Föðurfólkið mitt býr í Hallkelsstaðahlíð - Hallsbörn afa míns og nafna Halls Magnússonar og hún frænka mín Sigrún Ólafsdóttir sem tók við félagsbúinu þar ásamt manni sínum.

Hluti föðurfólks mín hefur búið að vera á þessum slóðum lengi. Skyldur Snorrastaðafólkinu - og þannig frændi Gísla Marteins - sem líka er af vondu fólki þar með!  

Ein systirin flutti í Grundarfjörð og býr þar - sem og 4 af 5 börnum hennar.

Þá var langamma mín í móðurætt - Rannveig Vigfúsdóttir - fædd að Búðum og bjó þar sem barn. Þekki hins vegar ekki þann frændgarð vel. Veit að ég er skyldur Þórði á Dagverðará gegnum móðurættina - en man ekki hvernig.

Hallur Magnússon, 13.2.2008 kl. 11:09

12 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ekki skilja mig þannig að ég sé ósáttur við færsluna þína, þvert á móti eru byggðasjónarmið líka réttmæt rök. En staðreyndirnar tala sínu máli og það er fullkominn óþarfi að láta auglýsinga- og almannatenslafulltrúa kvótaþeganna (ég  heyrt talað um bókfært verð 1000 milljarðar) afmarka okkur þann bás að ræða málin eingöngu út frá byggða-mannréttinda eða réttlætissjónarmiði. Ekki ætla ég að gera lítið úr þessum sjónarmiðum og fagna því að framsóknarmenn sýni þeim mikinn áhuga. Spyrjum áleitinna spurninga: Af hverju er deilt út úr mörgum staðbundnum þorskstofnum eins og um einn stofn sé að ræða? Hvernig ætlast menn til að smávaxnir þorskstofnar séu nýttir ef leiguverðið á kvóta er hærra en verð fyrir landaðan fisk? Hvernig er ástand fiskistofna fyrir og eftir kvótakerfi?  Hverjar eru tekjur sjómanna fyrir og eftir kvótakerfi?  Hverjar eru skuldir sjávarútvegsins fyrir og eftir kvótakerfi osf, osf?   Og hvað með brottkastið, sem var óþekkt fyrir tíma kvótakerfisins? Þá telja flestir sem ekki hafa beinan hag að sölu leigu eða veðsetningu óveidds fisks að það sé útilokað að giska á afrakstursgetu stofna nema með þeim hætti að að minnsta kosti hluti flotans sé á sóknarstýringu. Svona má auðvitað lengi telja.  

Já við erum greinilega ættaðir af sömu þúfunni af Vondu fólki að langfeðratali. Afasystir mín Elísabet Sigurðardóttir (Skógarnesætt) var gift séra Árna Þórarinssyni.  Mér sýnist þú í fljótu bragði vera ættaður líka úr Dölunum og þannig  ertu skyldari krökkunum mínum. Det er nu anden sag.

Kveðja 

siggi 

Sigurður Þórðarson, 13.2.2008 kl. 15:28

13 identicon

Það er til önnur leið,sem ég tel ekki síður koma til greyna, en hún er að skilyrða úthlutun veiðiheimilda þ.e. að skilyrða veiðiheimildir til vistvænna veiða, sem þýðir að togarar munda verða að hætta veiðum og um leið mundi veiðar verða meira staðbundnar og koma landsbyggðinni til góða. Ég skrifaði grein í mbl. undir heitinu "  Vistvænar veiðar " og þar kemur þetta fram og fleira, sem varðar sjávarútvegsmál.

Hafsteinn Sigurbjörnsson

hafsteinn sigurbiörnsson (IP-tala skráð) 14.2.2008 kl. 17:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband