Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Seðlabankinn staðfestir mistök sín í efnahagsmálum haustið 2004!

Seðlabankinn hefur nú staðfest mistök sín í efnahagsmálum haustið 2004 þegar hann klikkaði á því að hækka bindiskyldu íslensku bankana til að draga úr útlánagetu þeirra, en óhófleg fasteignalán bankanna á niðurgreiddum vöxtum haustið 2004 og vorið 2005 setti efnahagslífið á hvolf eins og kunnugt er!

 Nú hefur Seðlabankinn gripið til þess ráðs að rýmka bindiskyldu bankanna til að styrkja lausafjárstöðu þeirra. Það er aðgerð í hina áttina - enda ástæða til þess að hlaupa undir með bönkunum við núverandi aðstæður - á sama hátt og það hefði verið rétt að draga úr lausafjárstöðu bankana haustið 2004 með hækkun bindiskyldu.

Að sjálfsögðu eru bankastjórarnir ánægðir með að Seðlabankinn liðki fyrir í bindiskyldunni - enda er það gott í stöðunni í dag! 

Með þessari ákvörðun sinni í dag hefur Seðlabankinn í raun gengið gegn þeim rökum sem þeir hafa beitt fyrir því að hækka ekki bindiskylduna á sínum tíma - eða með öðrum orðum - óbeint viðurkennt afdrifarík mistök sín haustið 2004!!!

Batnandi mönnum er best að lifa!

Hins vegar boðar aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum ekki gott - en ríkisstjórnin á drjúgan þátt í erfiðri stöðu dagsins í dag - þar sem hún lagði fram og lét samþykkja verðbólgufjárlög síðastliðið haust. Þar missti hún trúverðugleika é efnahagsmálum erlendis.   Ekki veit ég hvernig ríkisstjórnin ætlar að ná þeim trúverðugleika aftur - en hún gerir það ekki með vikulegum "ekki-fréttafundum".


mbl.is Stýrivaxtaákvörðun skiljanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sammála formanni Heimdallar - þjóðstjórn í Reykjavík!

Mikilvægt skref í átt til þjóðstjórnar allra flokka í borgarstjórn Reykjavíkur var tekið með grein Erlu Óskar Ásgeirsdóttur formanns Heimdallar í Mogganum í morgun. Slík þjóðstjórn undir forystu ópólitísks borgarstjóra sem sóttur er út fyrir hóp núverandi borgarfulltrúa er eina leiðin til að endurheimta trúverðugleika borgarsjórnar Reykjavíkur.

Í slíkri þjóðstjórn fengju allir flokkar formennsku í einni meginnefnd borgarinnar, en að öðru leiti yrði heildarfulltrúaskipting í nefndum borgarinnar í takt við fjölda borgarfulltrúa hvers flokks þar sem Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hefðu að sjálfsögðu flesta fulltrúa, en jafnframt tryggt að minni flokkarnir fái aðkomu að nefndum.

Ég verð að hrósa Erlu Ósk Ásgeirsdóttur formanni Heimdallar fyrir grein hennar og þá útrétta hönd til sátta sem greinin óneitanlega er. Vænti þess að félagar hennar - borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins - séu reiðubúnir að fylgja orðum hennar og ganga til liðs við fulltrúa núverandi minnihluta um að vinna sameiginlega að hagsmunum borgarbúa. Slík samvinna hlýtur að þýða þjóðsstjórn.

Í greininni segir Erla Ósk:

Það er löngu tímabært að stjórnmálamenn í borginni beini sjónum sínum aftur að málefnum borgarinnar og vinni saman að hagsmunum borgarbúa.

Dýrmætur tími hefur farið til spillis þar sem einblínt hefur verið á það hver skipar borgarstjórastólinn og hvort viðkomandi passi í hann.

 Það er lykilatriði að nú horfi borgarfulltrúar Reykvíkinga allir sem einn fram á veginn og vinni saman að eflingu Reykjavíkurborgar...

...Nú er tækifæri til þess að láta verkin tala.

Já borgarfulltrúar! Látið verkin tala, myndið þjóðstjórn í Reykjavík og ráðið utanaðkomandi ópólitískan borgarstjóra til að leiða borgina út þetta kjörtímabil!

 


Flensuskratti og óþekktarormar tóku völdin!

Flensuskratti og óþekktarormar tóku völdin á blogginu mínu á föstudaginn langa! Þegar ég kveikti á tölvunni til að láta móðan mása varð skjárinn eins og ljósaskilti í Las Vegas. Vírusvörninn æpti á móti mér: Vírussýking og tölvuormar á ferð!

Ég beit mig í vörina fyrir að hafa ekki uppfært vírusvarnarforritið - því nú verð ég að sjá um það sjálfur - get ekki lengur stólað á tölvusnillingana í Íbúðalánasjóði þá Gústa og Sigga!

Þannig slökkti ég bara á tölvunni og  fór með fjölskylduna á skíði í Bláfjöllum - í frábæru veðri! Enn einn stórkostlegur dagur í Bláfjöllum. 

Dagurinn í gær fór í að lækna flensuna og elta uppi óþekktarormana. Það hefur vonandi tekist!

En í öllum látunum hef ég steingleymt tímamótablogginu á föstudaginn langa - sem átti að lesast af alþjóð af andakt! 

Það er í góðu lagi!  Maður á  nefnilega að njóta friðhelgi páskanna og sinna fjölskyldunni. Ekki vera að rífa kjaft framan í alþjóð!

Gleðilega páska!


Sjálfstæðismenn - ekki halda blaðamannafundi!

Ég hef verið í dálitlu sjokki yfir blaðamannafundi forsætisráðherrans í vikunni - þar sem hann flutti ekkifréttir af efnahagsmálum þjóðarinnar. Gaf mér rúman sólarhring til að reyna að átta mig á því hvort það hefðu verið einhver dulin skilaboð hjá ráðherranum - en svo virðist ekki vera. Allavega virðast vinir mínir og kunningjar erlendis ekki sjá ljósið ...

... ég gat ekki svarað spurningunni: "Why this press-conference?"

Rifjaði vegna þessa upp blaðamannafundi Sjálfstæðismanna undanfarið - hjá Geir, hjá Vilhjálmi í Valhöll - og hjá núverandi meirihluta í borginni á Klambratúni - þegar þeir tóku við undir forystu Ólafs Friðriks og sex "sjálfstæðis"manna.

Eftir þá yfirferð get ég ekki annað gert en að gefa Sjálfstæðismönnum heilræði:

Ekki halda blaðamannafundi!

 


Leiðir Guðni Framsókn lýðræðis eða Framsókn flokksræðis?

Samband ungra framsóknarmanna endurspeglar viðhorf stórs hluta Framsóknarmanna - sérstaklega hinna yngri - sem vill láta á það reyna í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort þjóðin vilji ganga til viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þá er ekki þar með sagt að innan Sambands ungra framsóknarmanna séu menn sammála um afstöðuna til Evrópusambandsins. Því fer fjarri - eins og innan Framsóknarflokksins í heild.

En SUF hefur sýnt þann þroska - sem sumir flokksmenn unga fólksins mættu taka sér til fyrirmyndar - að láta þjóðina ákveða beint hvort rétt sé að fara í aðildarviðræður.  Ef þjóðin vill fara í aðildarviðræður yrði næsta skref að ræða við Evrópusambandið.

Þegar niðurstaða þeirra viðræðna liggur fyrir - þá getur þjóðin fyrst tekið upplýsta ákvörðun um það í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu - hvort Ísland skuli ganga í Evrópusambandið eða ekki. Þetta er lýðræðisleg leið - leið unga fólksins í flokknum.

Væntanlega munu rísa upp á lappirnar forhertir andstæðingar Evrópusambandsins innan Framsóknarflokksins - sem ekki treysta þjóðinni til að taka sjálf ákvörðun um framtíð Íslands - og berjast með kjaft og klóm gegn þessari tillögu Sambands ungra framsóknarmanna. 

Sem betur fer eru þess háttar Framsóknarmenn í minnihluta - en þeir geta verið háværir. Verði þeir ofaná - og Framsóknarflokkurinn í heild sinni mæli EKKI með því að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um það HVORT skuli fara í aðildarviðræður - þá hefur lýðræðishugsunin orðið undir í Framsóknarflokknum.

Nú reynir á Guðna Ágústsson.

Ætlar hann að stýra Framsóknarskútunni gegnum skerjagarðinn og inn í framtíðina með því að taka undir með Sambandi ungra framsóknarmanna - og leiða Framsóknarflokkinn áfram á grunni lýðræðis - eða ætlar Guðni að taka botnlokuna úr Framsóknarskútunni með því að leggjast gegn þessari tillögu um lýðræði - og leiða flokkinn inn á braut flokksræðis sem getur ekki annað en endað með brotlendingu á hafnlausri strönd Suðurlands.

Ég hvet Guðna til að fara leið lýðræðis - kalla saman flokksþing ekki síðar en í haust - og láta Framsóknarmenn kjósa um inntak þessarar lýðræðislegu tillögu Sambands ungra Framsóknarmanna - þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður.

 

 


mbl.is SUF vill kosningar um hvort hefja eigi ESB viðræður í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun Guðlaugur Þór hneppa hjúkrunarfræðinga í nauðungarvinnu?

Mun Guðlaugur Þór heilbrigðisráðherra hneppa hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum í nauðungarvinnu ef þeir beygja sig ekki undir þær kjaraskerðingar sem breytingar á vaktafyrirkomulagi hjúkrunarfræðinga á skurðdeildum Landspítalans munu væntanlega leiða af sér?

Hótun um að grípa til lagasetningar ef hjúkrunarfræðingarnir beygja sig ekki undir pískinn er með ólíkindum. Það vita það allir sem fylgst hafa með álaginu á starfsfólk Landsspítalans að starfsfólk þar er að gefast upp. Það er ekki hægt að píska það áfram.

Það er ekki hægt að skera meira niður en orðið er - og reka spítalan með fólki í nauðungarvinnu. Nú þegar starfa hjúkrunarfræðingarnir fyrst og fremst vegna hollustu við sjúklingana sem þeim er falið að hjúkra - ekki vegna launanna!  Hótun um nauðungarvinnu gæti slökkt þann síðasta neista sem heldur fagfólki í vinnu á Landspítalanum.

Niðurstaða útboðs á rekstri öldrunardeildar á Landakoti sýnir það svart á hvítu að aðhaldsaðgerðir í rekstri Landspítalans hafa gengið of langt. Draumur ráðherrans um að beita einkavæðingu til að ná niður kostnaði er að breytast í martröð. Það er enginn einkaaðili sem treystir sér til að reka starfsemina með fyrirsjáanlegu tapi.

Einkamarkaðurinn hefur lagt sitt mat á rekstur Landspítalans. Það er hreinlega þannig að það er ekki unnt að ganga lengra í sparnaði. Einkamarkaðurinn mun krejast mun hærri fjárframlaga til að halda uppi sambærilegri þjónustu.

Væri ekki nær að sætta sig við staðreyndir - leggja niður pískinn og fara að reka Landspítalann eins og heiðarlegt fagfólk- ekki þrælahaldarar.

Ég treysti að Guðlaugur Þór leggi niður pískinn og afturkalli hótanir sviðsstjóra á LSH um lagasetningu. Það er ekki í anda hans að beita nauðung - þvert á móti - þá er hefur hann verið talsmaður frelsisins!


mbl.is Lagasetning á hjúkrunarfræðinga ef ekki semst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grín um Grana löggu háalvarleg vísbending um ófremdarástand í lögreglunni!

Grínið um Grana löggu sem sagt var upp í Spaugstofunni og sendur heim á nærbrókinni einni saman vegna fjárskorts lögreglunnar er háalvarleg vísbending um ófremdarástand sem er að skapast hjá íslensku lögreglunni. Það að lögreglustöðin við Hlemm skuli vera lokuð almenningi á kvöldin og næturna er önnur vísbending um ófremdarástand hjá löreglunni vegna fjárskorts.

Þótt hinn snaggaralegi lögreglustjóri Stefán Eiríksson, sem að mínu mati hefur staðið sig afar vel við erfiðar aðstæður, segi að lokunin hafi ekki áhrif á öryggi almennings, þá er ljóst að tilfinning almennings er önnur.  Okkur líður eins og öryggi okkar sé minna!

Fagleg og öflug lögregla sem vinnur á grunni þess lýðræðis sem við byggjum samfélag okkar á er einn af hornsteinum samfélagsins. Þessi hornsteinn er að molna þar sem lögreglumenn eru hreint og beint að gefast upp vegna of mikils álags og allt of lágra launa.

Við verðum að hafa skilning á því að löggæslan kosti peninga - og ríkisvaldið verður að leggja það til sem tryggir faglega og góða löggæslu.

Ástandið á Suðurnesjum er skelfilegt! Við megum ekki veikja lögregluna svon - allra síst á svæði þar sem lunginn af alþjóðlegri farþegaumferð fer um!

Nýlegur dómur héraðsdóms - þar sem árásarmenn er gengu í skort á óeinkennisklæddum lögreglumönnum voru ekki dæmdir fyrir árás á valdstjórnina- bætir ekki úr skák, þótt ég sé frekar á því að menn eigi að njóta vafans í sakamálum en að vera dæmdir að ósekju.  Staða löggæslumanna veikist við þetta - og þegar launin eru of lág - þá missum við bestu mennina. Við megum ekki við því!

Björn Bjarnason verður að fá félaga sína í fjármálaráðuneytinu til að taka upp budduna og bæta í launaumslag lögreglumannanna. Ég treysti Birni til þess!


mbl.is Minni þjónusta til þess að spara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1,2 og skíðaparadís í Bláfjöllin!

Veðurguðirnir hafa verið skíðafólki á höfuðborgarsvæðinu hliðhollir í vetur. Nægur skíðasnjór í Bláfjöllum og oft á tíðum frábært skíðaveður! Sit hér framan við tölvuna sæll og sólbrenndur eftir frábæran dag í Bláfjöllum í gær - og dagurinn í dag lofar góðu!

Þegar ég stóð ofan við Kóngsgil og horfði yfir skíðasvæðið - og reyndar yfir allt höfuðborgarsvæðið og upp á Snæfellsnes - þá rifjaði ég upp ferlegan skíðavetur í fyrra. Þá var ástandið þannig í lok desember og köldum janúar - að ekki var unnt að opna skíðasvæðið þar sem snjórinn var allt of þurr og þjappaðist ekki. Það voru ekki margir skíðadagarnir í fyrra - og enn færri árið áður!

Þessu er unnt að breyta. Eftir að hafa búið í Noregi þar sem snjóbyssur eru í hverri brekku - og eftir að hafa skíðað á Akureyri á tilbúnum snjó í fyrra - þá æpir á mann vöntunin á snjógerðartækjum í Bláfjöllum. Við getum ekki treyst á veðurguðina eina saman! Ég skora á sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að taka höndum saman og koma upp snjógerðarkerfi í Bláfjöllum fyrir næsta vetur.

Þannig getum við tryggt góðar aðstæður fyrir heilbrigða fjölskylduíþrótt í Bláfjallaparadísinni!

Ólafur Friðrik og félagar í borgarstjórn Reykjavíkur!  1,2 og skíðaparadís í Bláfjöllin!


KR vann Keflavík - eða hvað?

KR vann Keflavík!

Eða hvað? KR er víst ekki lengur KR!

Vesturbæingarnir fengu það víst í gegn að það mátti ekki nota KR yfir KR! Knattspyrnufélag Reyðarfjarðar varð að breyta nafni sínu úr KR í eitthvað allt annað - vegna þess að vesturbæingunum líkaði ekki heitið!

Hvað eiga Víkingar Ólafsvík að segja? Það er félag í Reykjavík sem leyfir sér að kenna sig við Víking! Meira að segja félag sem verður 100 ára í ár!

Hvað á  Valur á Fáskrúðsfirði - minnir mig- að segja?

Það er félag í Reykjavík sem leyfir sér einnig að kenna sig við Val!!!!

Nei, það var greinilega ekki Knattspyrnufélag Reykjavíkur sem vann Keflavík - enda hefði það verið ótrúlegt! Það va Fjarðarbyggð sem vann Keflavík!

Ég biðst afsökunar á þessum mistökum mínum!

 

 


mbl.is Keflvíkingar töpuðu á Reyðarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talsmaður neytenda er talsmaður neytenda eins og Leiðarkerfi neytenda sannar!

Talsmaður neytenda er talsmaður neytenda - ekki bara embætti út í bæ!

Talsmaður neytenda sýndi það enn og einu sinni í dag - á Alþjóðadegi neytenda!

Neytendamálaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, opnaði í dag "Leiðarkerfi neytenda" sem er afar merkur neytendavefur sem Gísli Tryggvason, Talsmaður neytenda hefur haft forgöngu um að byggja upp. Vefslóðin er http://neytandi.is/ .

Það er með ólíkindum hve öflugt starf Talsmanns neytenda hefur verið í ljósi þess að hann hefur nánast verið einn í þessari baráttu.  Ég skora á Björgvin neytendamálaráðherra að styrkja embætti Talsmanns neytenda í næstu fjárlagagerð - og tryggja talsmanninum fjármagn til að ráða starfsfólki til embættisins - en talsmaðurinn stendur nefnilega einn í baráttunni!

Það má nefnilega ekki rugla saman embætti talsmanns neytenda við fjölmenna Neytendastofu - sem hefur allt annað hlutverk!

Það skiptir nefnilega máli fyrir neytendur á Íslandi að hafa áfram öflugan talsmann - og að honum verði gert kleift að bæta við sig verkefnum í þágu okkar allra - neytenda á Íslandi!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband