Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Athyglisverð mótmæli í Teheran

Það er afar athyglisvert að sjá víðtæk mótmæli í Teheran daginn eftir að Khamenei æðstiklerkur varaði mótmælendur við að halda áfram mótmælum.  Þetta er einsdæmi í Íran á tímum klerkaveldisins og gæti boðað breytta tíma í Íran.

Hingað til hafa Íranir ekki vogað sér að ganga gegn fyrirmælum æðsta klerks klerkastjórnarinnar.

Þetta virðist ekki síst vera andóf ungu frjálslyndari kynslóðarinnar gegn þeirri íhaldssamari eldri.

Það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu - en vonandi taka klerkarnir skynsamlega á málum og freistast ekki til að bæka niður andófið með blóði. En maður er samt smeykur um að það gæti orðið raunin.


mbl.is Óeirðir á götum í Teheran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljómandi!

Ljómandi aðgerð. Niðurskurðarhnífurinn náði semsagt líka í utanríkisþjónustuna.
mbl.is Sendiherrum fækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J að svíða Árna Pál fyrir að vinna vinnuna sína betur en hinir ráðherrarnir?

Svo virðist sem Steingrímur J fjármálaráðherra sé að svíða Árna Pál Árnason félagsmálaráðherra fyrir það að vinna vinnuna sína betur en hinir ráðherrarnir - en eins og menn vita þá var Árni Páll eini ráðherrann sem gekk í það af krafti að vinna sársaukafullar tillögur um sparnað í sínum málaflokki - meðan aðrir virðast ekki hafa gert neitt.

Í stað þess að byrja niðurskurð í lúxusráðuneytunum - eins og utanríkisráðuneytinu og menningarmálaráðuneytinu - þá leggur Steingrímur J. fram frumvarp um afar sársaukalausan niðurskurð á fjárframlögum til aldraðra og fatlaðra - á meðan silkihúfurnar í utanríkisráðuneytinu og menningarvitarnir í menningarmálaráðuneytinu halda áfram að fitna eins og púkinn á fjósbitanum.

Reyndar einnig í atvinnuskapandi verkefnum í samgöngumálum - eins "skynsamlegt" og það nú er.

Var að horfa á Kastljósið þar sem Árni Páll mætti öðrum manni sem hafði unnið heimavinnuna sína á sínum tíma og sett fram nauðsynlegar - en sársaukafullar tillögur um sparnað - og reyndar gáfulegar tillögur um skipulagsbreytingar - Guðlaug Þór fyrrum heilbrigðisráðherra.

Þeir félagarnir voru nokkuð sammála um nauðsyn þess að draga úr ríkisútgjöldum þótt það væri sársaukafullt - enda báðir búnir að gera tillögur um slíkt.

Það er afar blóðugt að sjá þá félaga sem "vondu" kallana í erfiðu ástandi - bara fyrir það að vinna vinnuna sína samviskusamlega - meðan aðrir ráðherrar - núverandi og fyrrverandi sleppa fyrir horn með aðgerðarleysi og hugleysi sitt.

Svo er nú það!


mbl.is ÖBÍ: Siðlaus tekjulækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamleg ráðstöfun hjá ríkisstjórn og Landsvirkjun

Viðbúnaðarsamningur Landsvirkjunar og ríkisins er skynsamleg ráðstöfun. Gott að sjá ríkisstjórnina gera góða hluti - svona inn á milli. Enda ljóst að ríkisstjórnin er að gera ýmsa ágæta hluti - en þeir falla bara svo illilega í skuggan á mistökum stjórnarinnar.
mbl.is Landsvirkjun og ríkið gera viðbúnaðarsamning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna hjólar hjálmlaus á IceSave vegginn!

Jóhanna Sigurðardóttir ætti að læra af mistökum Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra sem slapp með skrekkinn þegar hún flaug á hausinn af hjólinu sínu - hjálmlaus - og hefði getað höfuðkúpubrotið sig og hlotið af varanlegan heilaskaða.

Sem betur fer slapp Svandís með skrekkinn, stóra kúlu og hausverk. Já, hún slapp betur en hún átti skilið - svo notuð séu Svandísar eigin orð.

Jóhanna er í sömu áhættuhegðun með IceSave. Hún er komin á fulla ferð með íslensku þjóðina - hjálmlaus og allar líkur á að hún detti á hausinn. Það gæti farið svo að íslenska þjóðin standi upp aftur einungis með með kúlu og hausverk. Hins vegar eru miklar líkur á að hún fari miklu, miklu verr.

Hvernig væri að Jóhanna lærði af mistökum Svandísar - og setji upp hjálminn í IceSave málinu!

Jóhanna verður - þjóðarinnar vegna - að taka upp IceSave samninginn og fá inn í hann skýr ákvæði um að ekki sé unnt að ganga að Alþingishúsinu, virkjununum og öðrum fasteignum ríkisins ef Ísland getur ekki satðið undir skuldbindingum sínum. Þá verður húnað ganga svo frá hnútunum að útgönguákvæð samningsins séu fortakslaus.

Annars er Jóhanna greinilegur áhættufíkill - sem er um það bil að hjóla á IceSave vegginn á fullri ferð - hjálmlaus!


mbl.is Icesave: Útgönguákvæði ekki afdráttarlaust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamli sáttmáli meinlaust plagg miðað við IceSave "sáttmálann"?

Ef Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra vill vera ábyrgur leiðtogi íslensku þjóðarinnar þá ætti hún að ganga fram fyrir skjöldu og biðja þingheim um að fella tillögu um að veita Tryggingarsjóði ríkisábyrgð vegna IceSave samningsins.

Ekki vegna þess að það eigi ekki að semja við Breta og Hollendinga - sem ég hef ákveðnar efasemdir um sem ekki er aðalatriðið - heldur til þess að taka aftur upp viðræður við Breta og Hollendinga og fá inn í samninginn klárt og skýrt að túlkun Jóhönnu á samningsákvæðunum sé rétt.

Það ætti ekki að vera erfitt ef Jóhanna og ríkisstjórnin er þess fullviss að þeirra túlkun á því að ekki sé verið að veðsetja Alþingishúsið, landið og miðin í samningnum, er rétt.

Við megum ekki við þeirri óvissu sem upp er komin um túlkun samningsins. Ef unnt er að túlka samninginn á þann hátt sem öflugir og virtir lögmenn hafa sýnt fram á að unnt sé að gera Íslandi í óvil - þá er Gamli sáttmáli meinlaust plagg miðað við lagasetningu um IceSave!

PS.

Reyndar verð ég að halda til haga að Gamli sáttmáli var ekki eins slæmur og Íslendingar hafa látið vera láta frá því á 19. öldinni.  En það er annað mál.


mbl.is Icesave-samningar birtir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækkun hámarksláns Íbúðalánasjóðs nauðsynleg

Vaxtalækkun Íbúðalánasjóðs er jákvæð. En það er mikil þörf á að hækka hámarkslán Íbúðalánasjóðs og færa það nærri raunveruleikanum. Slík hækkun getur orðið til þess að hleypa örlitlu lífi í fasteignamarkaðinn, losa fólk úr óhagstæðum lánum og einnig orðið atvinnuskapandi. Ekki veitir af.

Stjórn Íbúðalánasjóðs hefur óskað eftir heimild til hækkunar hámarksláns sjóðsins. Boltinn er nú hjá félagsmálaráðherranum og búinn að vera það í þrjár vikur.

Ráðherrann verður að skila boltanum fljótlega til baka.

En það er rétt hjá félagsmálaráðherranum að það þarf að fara vel yfir málið - en það má ekki taka langan tíma. Ráðherrann segir:

„Menn fóru mjög flatt á því áður að marka lánastefnu Íbúðalánasjóðs án tillits til efnahagslegra forsendna. Við þurfum því að reikna út afleiðingar af aðgerðum eða aðgerðarleysi á þessu sviði.“

Það er nefnilega kominn tími til þess að reikna afleiðingar af AÐGERÐARLEYSI - en aðgerðarleysi á mörgum mikilvægum sviðum hefur verið aðaleinkenni þeirra ríkisstjórna sem Samfylkingin hefur setið í - hvort sem það er Samylkingunni eða samstarfsflokkum hennar að kenna.

Það aðgerðarleysi hefur verið þjóðinni afar dýrt!


mbl.is Vextir Íbúðalánasjóðs lækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna með kíkinn fyrir blinda auganu

Það er tilbreyting að sjá Jóhönnu Sigurðardóttir í þinginu og takast á við pólitíska andstæðinga sína. Það hefur verið áberandi hvað Jóhanna hefur foðast það frá því löngu fyrir kosningar.

En Jóhanna hefur enn einu sinni sett kíkiinn fyrir blinda augað og staðhæfir núna  að engar líkur verði á því að Ísland verði gjaldþrota vegna IceSave samninganna.  Þetta er alrangt!

Það er einmitt möguleiki á að IceSave samningurinn verði - ásamt öðru - að setja Ísland í gjaldþrot.

Það sem verra er. Bretar og Hollendingar eru komnir með veð í Alþingishúsinu og öðrum eigum ríkisins - jafnvel auðlindunum í hafinu -  gegnum IceSave samninginn. Það þýðir ekkert fyrir Jóhönnu og Steingrím að neita því - grein 16.3 í samingi við hollenska ríkið hljóðar svo:

Bæði Tryggingasjóðurinn og Ísland samþykkja algerlega hvers konar málsókn gegn sér í sambandi við hvaða deiluefni, sem upp kunna að koma og hvers konar annað réttarúrræði gegn sér, þar á meðal aðför eða fjárnám, í hvaða eignum eða réttindum (án tillits til hvaða nota þau eru ætluð) samkvæmt hvers konar úrskurði eða dómi.

Ef Tryggingasjóðurinn eða Ísland, eða hvers konar eigur eða réttindi þeirra, eiga rétt á griðhelgi í einhverri lögsögu frá málshöfðun eða birtingu annarra skjala í tengslum við hvaða deilu sem er, eða eiga rétt á hvers konar annarri griðhelgi frá lögsögu, lögsókn, dómi, fjárnámi, kyrrsetningu (þótt það sé áður en dómur gengur til þess að tryggja aðför eða annað réttarúrræði) eða annars konar lögsókn, þá er hér með óafturkallanlega fallið frá griðhelgi á eins algeran hátt og lög viðkomandi lögsögu leyfa.

Bæði Tryggingasjóðurinn og Ísland lýsa því einnig óafturkallanlega yfir, að þau samþykki, að gera ekki kröfu um griðhelgi sjálfum sér til handa eða vegna eigna eða réttinda hvors um sig.„

Þetta þýðir einfaldlega að Ísland er búið að veðsetja allar eigur ríkisins.

Hvaða gildi hefur öryggisákvæði í samningnum um að samningarnir verði teknir upp fari svo að íslendingar muni eiga í erfiðleikum með að standa í skilum - þegar engin ákvæði eru um hvernig að því verðir staðið - og ágreiningur mun fara fyrir breska dómstóla!

Það kæmi mér ekki á óvart að skilyrði Breta og Hollendinga fyrir að taka upp samninginn verði þau að ríkin leysi til sín íslenskar virkjanir! Eða taki yfir fiskveiðiréttindin!

Jóhanna ætti að lesa grein 16.3 í IceSave samkomulaginu - áður en hún fer að bulla í ræðustól á Alþingi!


mbl.is Gjaldþol ríkisins ekki í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna er ekki að vekja og efla jákvæða sýn á þau tækifæri sem hér bjóðast

 „Við verðum að vekja og efla jákvæða sýn á þau tækifæri sem hér bjóðast. Við verðum að koma í veg fyrir að við missum frá okkur þann mikla mannauð, sem býr í okkur sjálfum og afkomendum okkar."

Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir í 17. júní ávarpi sínu.

Þetta er alveg rétt hjá Jóhönnu.

Vandamálið er að Jóhanna er ekki að "vekja og efla jákvæða sýn á þau tækifæri sem hér bjóðast".

Ekki heldur "að koma í veg fyrir að við missum frá okkur þann mikla mannauð, sem býr í okkur sjálfum og afkomendum okkar."

Þvert á móti eru ýmsar aðgerðir og aðgerðarleysi Jóhönnu að draga úr jákvæðri sýn og stuðla að því að við missum mannauð.

Þá er það rangt hjá Jóhönnu að IceSave að fullyrða að það sé "fráleitt, að samningarnir skerði fullveldi þjóðarinnar eða umráðarétt hennar yfir auðlindunum"

Samningarnir geta einmitt orðið til þess að skerða fullveldi Íslands og umráðarétt okkar yfir auðlindunum.  Það er alls ekki víst - en ef illa fer getur þetta einmitt orðið raunun.

PS.

En ræðan var annars góð hjá henni!


mbl.is Heyjum á ný sjálfstæðisbaráttu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanhæf ríkisstjórn? Árni Páll einn búinn að vinna heimavinnuna?

Það er undarlegt að rekstrarstjórar ráðuneytanna þurfi að þrýsta á stjórnvöld um að flýta ákvörðun um útgjaldaramma ráðuneyta á árinu 2010. Þetta sýnir að ríkisstjórnin virðist ekkert ráða við sparnaðarkröfur og fjárlög 2010.

Svo virðist sem Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra sé sá eini sem hefur unnið heimavinnuna sína - en það munu liggja skýrar niðurskurðartillögur fyrir í félagsmálaráðuneytinu - tillögur sem Árni Páll er reiðubúinn að fylgja eftir EF félagar hans í ríkisstjórninni koma fram með sambærilegar tillögur.

Þar hefur Árni Páll - ef marka má óstaðfestar fréttir - krafist þess af Össuri Skarphéðinssyni að hann taki til í sínum ranni og skeri verulega níður í utanríkisþjónustunni. Árni Páll gangi út frá að aðrir ráðherrar feti í fótspor hans og leggi hið fyrsta fram róttækar hagræðingatillögur.  Það sé forsenda þess að félagsmálaráðherrann framkvæmi sársaukafullar niðurskurðartillögur sínar.

Það kæmi mér ekki á óvart að ekki verði gengið í sparnaðartillögur Árna Páls - ekki af því að hann sé ekki reiðubúinn til þess- heldur vegna þess að félagar hans í ríkisstjórninni hafi ekki manndóm í sér að feta í fótspor hans!  En eðlilega mun Árni Páll ekki draga úr framlögum til aldraðra, öryrkja og fleiri - ef ekki á að taka af festu á skilkihúfum annars staðar í ríkiskerfinu.

Það verður spennandi að sjá hvort ríkisstjórnin hefur manndóm í sér að klára málið.


mbl.is Undirbúningi fjárlaga 2010 verði hraðað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband