Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Alvarleg viðvörun til Framsóknarflokksins!

Það að Framsóknarflokkurinn í Reykjavík skuli einungis fá 2,1% fylgi í skoðanakönnun um fylgi flokkanna í borgstjórn Reykjavíkur er alvarleg viðvörun til Framsóknarflokksins á landsvísu! 

Óskar Bergsson borgarfulltrúi hefur staðið sig með óvenjulegri prýði í öldugangi borgarmálanna undanfarnar vikur og mánuði.

Ég hef fundið mjög víða - og það ekki síður hjá stuðningsmönnum annarra flokka - mikinn stuðning við málflutning Óskars. Flestir sem ég tala við telja að hann hafi staðið sig afar vel - þótt þeir séu ekki endilega sammála honum um öll mál. Reyndar hefur mjög margt fólk í öðrum flokkum - og óflokksbundið fólk - einmitt verið sammála málflutningi Óskars!

Óskar virðist ekki vera að njóta þessa í skoðanakönnuninni.

Málefnaleg staða flokksins í Reykjavíkurborg er sterk. Borgarfulltrúi flokksins í Reykjavík er sterkur. Það dugir ekki til fylgis.

Skýringuna hlýtur að vera að leita annars staðar og þá í landsmálunum.

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir það að Framsóknarmenn hafi í gegnum tíðina leikið lykilhlutverk í að halda uppi atvinnustigi og velferð á Íslandi og að flokkurinn hafi réttilega gagnrýnt efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar, þá hefur flokkurinn ekki náð að koma fram af þeim styrk og þeirri festu sem nauðsynleg er til að kjósendur hafi traust á flokknum til að leiða enn einu sinni uppbyggingu atvinnulífs og velferðar.

Núverandi flokksforysta Framsóknarflokksins hefur haustið til að snúa þessari þróun við.  Ef flokksforystunni tekst það - þá er flokkurinn kominn á beinu brautina íslensku þjóðinn til heilla. 

Ef flokksforystunni tekst það ekki þá þarf að skipta henni út á næsta flokksþingi og fela ungu kynslóðinni í flokknum að taka við. Framtíðin á nefnilega að vera hennar!


Höldum gömlu hreppamörkunum!

Við eigum að halda gömlu hreppamörkunum þótt lítil sveitarfélög hafi sem betur fer runnið saman og ættu reyndar að verða enn stærri! Mér sárnaði að Vegagerðin skyldi taka niður skilti sem upplýsti um hreppamörk hins forna Kolbeinsstaðahrepps - hrepps föðurfjölskyldu minnar.

Það sama á við hreppamörk um allt landið!

Við megum ekki gleyma því að hreppurinn var samfélagsleg eining sem að líkindum var komin á fyrir kristnitöku og hefur lifað sem stjórnsýslueining fram á þennan dag. Hreppurinn er því mikilvægur menningarlegur þáttur í sögu Íslendinga.

Þess vegna eigum við ekki að láta gömlu hreppana og hreppsnöfnin falla í gleymskunar dá. Við eigum að merkja hreppamörk með heitum gömlu hreppanna - þótt flestir hreppir séu ekki lengur stjórnsýslueiningar - heldur hluti stærra sveitarfélags!

Ég skora á samgönguráðherra - sem nú er einnig ráðherra sveitarstjórnarmála - að fela Vegagerðinni að setja upp skilti við gömlu hreppamörkin - þar sem fram koma heiti gömlu hreppanna. Þar sem sveitir voru í daglegu tali kallaðar eitthvað annað - eins og til dæmis í Austur-Skaftafellssýslu -  Öræfi, Suðursveit, Mýrar, Nes og Lón - þá komi þau heiti jafnframt fram.

Undirstrika að ég er ekki að tala um að skipta stóru sveitarfélögunum upp á ný! Þau þurfa að vera enn stærri - og reyndar eiga skattar að renna beint til sveitarfélaganna - en ekki ríkisins - eins og fram kemur í pistli mínum Skattar renni til sveitarfélaganna ekki ríkisins!


Heimtar Ólafur Friðrik I að vera borgarstjóri út kjörtímabilið?

Heimtar Ólafur Friðrik I að vera borgarstjóri út kjörtímabilið?

Heldur borgarstjórinn eftir niðurlægingu Sjálfstæðisflokksins í borgarráði í dag þegar flokkurinn gekk í skítverkin fyrir Ólaf Friðrik við að ryðja Ólöfu Guðnýju úr skipulagsráði - væntanleg ólöglega - að hann geti allt?

Ef marka má Orðróm Mannlífs þá er er þetta reyndin. Þar segir:

"Sú saga hljómar að Ólafur F. Magnússon borgarstjóri hafi sagt félögum sínum í meirihlutanum, það er borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokks, að hann sitji ekki í meirihluta undir forystu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur né nokkurs annars af þeim sem fylla borgarstjórnarflokkinn. Ólafur er sagður hafa gefið til kynna að hann vilji vera borgarstjóri til enda kjörtímabilsins. Og ef ekki þá slíti hann meirihlutasamstarfinu.

Í ljósi nýjustu tíðinda er frekari fregna að vænta úr Ráðhúsinu."

Ólafur Friðrik I er farinn að minna á nafna sinn Friðrik VI Danakonung sem hafði að leiðarljósið viðkvæðið: "Vér einir vitum!"


mbl.is Skipt um fulltrúa í skipulagsráði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattar renni til sveitarfélaganna ekki ríkisins!

Sveitarfélögin eru enn einu sinni að hnykkja á nauðsyn þess að auka hlut sinn í skatttekjum með því að fá til sín hluta fjármagnstekjuskatts.

Það er allt of stutt gengið. 

Skattar einstaklinga og fyrirtækja ættu að renna beint til sveitarfélaganna en ekki til ríkisins. Sveitarfélögin greiði síðan útsvar til ríkisins vegna fjármögnunar sameiginlegra verkefna.

Sveitarfélögin taki við eins miklu af verkefnum ríkisins og unnt er.

Ríkið sjái fyrst og fremst um þau verkefni sem nauðynlega þarf að vinna fyrir Ísland í heild sinni.

Samhliða þessari skipulagsbreytingu þurfa sveitarfélögin að stækka verulega.  Jafnvel í stærð gömlu kjördæmanna.

 

 PS.

Ég hef beðið eftir því að Mogginn fjalli um þetta hitamál sem hátt ber þessa dagana. Einhverra hluta vegna hefur Mogginn kosið að sniðganga umræðuna algerlega!  Af hverju ætli það sé?


Árni Páll tekur af skarið í efnahagsmálunum!

Árni Páll Árnason virðist eini þingmaður Samfylkingarinnar sem eitthvað vit og einhverja skoðun hefur á efnahagsmálum. Það er helst að Ágúst Ólafur Ágústsson hafi eitthvað til málanna að leggja.

Árni Páll er í drottningarviðtali í Markaði Fréttablaðsins í dag.  Yfirskriftin er "Með stefnuleysi er vandanum viðhaldið". Þarna hittir Árni Páll naglan á höfuðið - og er greinilega að gagnrýna stefnuleysi eigin ríkisstjórnar í efnahagsmálum á undanförnum misserum.

Þar fer hann skilmerkilega yfir stöðuna í efnahagsmálum, greinir hana af skynsemi og kemst að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórnin þurfi að marka nýja langtímastefnu með hliðsjón af breyttum aðstæðum. Þá undirstrikar Árni Páll að fleiri stoðir þurfi undir efnahagslegan stöðugleika á Íslandi en gengisstöðugleika.

Margt fleira er bitastætt í viðtalinu - sem ætti að vera skyldulesning ráðherra ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ríkisstjórnarfund!

Það væri vonandi að Árni Páll og "tvílembingarnir" Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson taki höndum saman og vinni skynsamlega efnahagsstefnu fyrir ríkisstjórnina í stað þess ráðaleysis sem hefur ríkt. Þetta eru þeir einu innan ríkisstjórnarflokkana sem virðast hafa áræði til að taka á efnahagsmálunum og ekki er það verra að margt af því sem Árni Páll, Bjarni og Illugi hafa sett fram er afar skynsamlegt - þótt ég sé ekki sammála öllu eins og gengur!


Grillur Geirs Haarde hækka skuldatryggingarálag Íslands enn á ný!

Enn hækkar Geir Haarde skuldatryggingarálag Íslands og íslensku bankanna með grillum sínum! Aðgerðarleysi Geirs og ríkisstjórnar varð með öðru til þess að erlendir aðiljar misstu trú á Íslandi og íslensku bönkunum með þeim afleiðingum að skuldatryggingarálag náði himinhæðum.

Þrátt fyrir aðgerðarleysi Geirs tókst bönkunum að halda sjó og voru að vinna trúnað erelndra aðilja á ný - og skuldatryggingarálagið lækkaði!

En nú kemur Geir með fáránlegar yfirlýsingar þar sem hann staðfestir að aðgerðarleysið sé stefna ríkisstjórnarinnar! 

Afleiðingin - skuldatryggingarálagið upp úr öllu valdi á ný og nær nú hæstu hæðum!

Það hefði verið betra að maðurinn væri áfram í sumarfríi - þegjandi!!!

Eftirfarandi var haft eftir Geir í Viðskiptablaðinu - og svipað í RÚV:

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að það sé mikilvægt, við núverandi aðstæður í efnahagsmálum, að fólk gangi ekki með þær grillur í höfðinu um að hægt sé að leysa vandann með einhverjum örþrifaráðum. Hann vísar á bug fullyrðingum stjórnarandstöðunnar og bloggara um aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar.

„Þetta svokallaða aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar sem stjórnarandstaðan og hinir og þessir á blogginu tala um er nú meðal annars að bera þann ávöxt að vöruskiptajöfnuðurinn í síðasta mánuði var jákvæður og við fáum fína umsögn frá Financial Times vegna afkomu bankanna,“ sagði Geir í samtali við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

„Hagkerfið okkar hefur mikla aðlögunarhæfni og það er fljótt að snúa sér við þegar aðstæður breytast,“ sagði Geir enn fremur.

Ég er ekki viss um að Geir fái jafn góða umsögn frá Financial Times eftir þetta - og íslensku bankarnir sem ná árangri - þrátt fyrir aðgerðarleysi Geirs - ekki vegna þess!

Ekki að undra að Sjálfstæðismenn séu farnir að líta eftir nýjum formanni sbr. Sjálfstæðismenn að gefast upp á Geir Haarde?


mbl.is Álag bankanna hækkar enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdníðsla Ólafs Friðriks virðist lögbrot!

Valdníðsla Ólafs Friðriks borgarstjóra við brottrekstur fulltrúa hans úr skipulagsráði er ekki einungis siðlaus einræðishyggja heldur virðist hún einnig vera lögbrot!  Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn virkilega standa að einræðislegri valdníðslu og mögulegu lögbroti?

Dögg Pálsdóttir lögmaður virðist sannfærð um að Ólafur Friðrik sé að brjóta lög með athæfi sínu, en Dögg skrifar um málið í pistlinum "Dregur dilk á eftir sér" á vefsíðu sinni.

Dögg segir meðal annars:

"Ég sé því ekki betur en að sveitarstjórnarlög heimili ekki lengur að skipta út fulltrúa í nefnd eingöngu að þeirri ástæðu að hann njóti ekki lengur trausts þess meirihluta sem er hverju sinni. Skilyrðin eru almennari og hlutlægari. 

Til að unnt sé að veita kosnum nefndarmanni lausn þá þarf öðru af tveimur skilyrðum að vera fullnægt:

  • að um brottvikningu hans sé ekki ágreiningur innan sveitarstjórnar eða
  • fyrir brottvikningunni séu málefnalegar ástæður, svo sem ef nefndarmaður, án lögmætra forfalla, mætir ekki á fundi nefndar eða brýtur gegn þagnarskyldu. "

Ég hef meiri trú á að lögfræðingurinn Dögg hafi rétt fyrir sér en læknirinn Ólafur Friðrik - ekki hvað síst eftir opinberar sjúkdómgreiningar læknisins á fjölmiðlamönnum sem honum er illa við!

 PS.

Fram kemur í frétt á visir.is að Ólöf Guðný Valdimarsdóttir útilokar ekki að sækja skaðabætur til borgarinnar vegna ákvörðunar borgarstjóra að reka hana úr skipulagsráði.

Þar bætist væntanlega enn í svimandi fórnarkostnað sem borgarbúar þurfa að sjá úr borgarsjóði og sjóðum Orkuveitunnar vegna Ólafs Friðriks og duttlunga hans!


Hvað með áhyggjur af Haarde?

Bankarnir hafa sýnt að þar á bæ eru menn sem vita hvernig á að bjarga sér - þrátt fyrir óhagstæð ytri skilyrði og lélega efnahagsstjórn. Stóru bankarnir munu lifa af efnahagsástandið. Sparisjóðirnir eiga hins vegar erfiðara með að aðlaga sig og eru að renna hver á fætur öðrum inn í Kaupþing. Nú síðast virðist Sparisjóður Mýrasýslu vera á hraðri leið inn í íslenska bankarisan.

En ætli hafi slegið á áhyggjur útlendinga af aðgerðarleysi og efnahagsóstjórn ríkisstjórnar Geirs Haarde? Ég efast um það.

Ekki hjálpa tuttlungar umhverfisráðherrans - eða aumingjaskapur Sjálfstæðismanna í borgarstjórn - sem ekki þora að fara í Bitruvirkjun af ótta við Ólaf Friðrik sólkonung - til í efnahagsástandinu!

Það verður spennandi að sjá fjárlagafrumvarp vinar míns Árna á Kirkjuhvoli í haust. Hann er ekki í öfundsverðu hlutverki!

Vil að lokum vekja athygli á stórmerkilegu bloggi vinar míns Friðriks Jónsonar Bankar, tilviljanir og sveigjanleg hagkerfi með eigin mynt. Snilldar pistill á slóðinni:

http://fridrik.eyjan.is/2008/08/bankar-tilviljanir-og-sveigjanleg.html


mbl.is Uppgjör bankanna slá á áhyggjur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðismenn að gefast upp á Geir Haarde?

Sjálfstæðismenn eru að gefast upp á Geir Haarde ef marka má ummæli þónokkurra gegnheillra Sjálfstæðismanna sem ég hef spjallað við í sumarblíðunni í Sælingsdal og nágrenni undanfarna daga!

Ég hef aldrei - endurtek aldrei - heyrt Sjálfstæðismenn tala svo illa um sitjandi formann flokksins!

Þeir virðast vera að gefast upp! Segja fullum fetum að hann sé gersamlega búinn að klúðra stöðunni. Þá eru flestir afar þreyttir á Samfylkingunni.

Þá verða menn heitir þegar minnst er á borgarmálin!

Vonarstjarna flestra er Bjarni Benediktsson - sem þeir telja að hafi þegar sannað sig!  Ekki sé eftir neinu að bíða - það verði að taka af skarið og skipta um formann fyrir næstu kosningar - og Bjarni sé rétti maðurinn.

Tveir sögðu þó að Þorgerður Katrín ætti að taka við - með Bjarna Ben sem varaformann.

En greinilegt er að Bjarni Ben og Illugin Gunnarsson eru ofarlega í huga Sjálfstæðismanna!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband