Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Framsóknarflokkurinn - er það ég?

Kunningi minn var að hringja og spyrja hvort Sjálfstæðismenn væru að tala um mig þegar þeir segja að Framsóknarflokkurinn hafi sent Sjálfstæðismönnum skilaboð um að þeir væru reiðubúnir til viðræðna um nýjan meirihluta!

Ekki veit ég um það og veit reyndar ekki til þess að Framsóknarflokkurinn hafi sent Sjálfstæðisflokknum slík skilaboð - enda ekki innsti koppur í búri á þeim bæ.

Hins vegar get ég persónulega ekki annað en gengist við bloggi mínu í gær: Hanna Birna - hringdu í Óskar!

Kannske eru menn að vísa í þetta!!!

En ég er hins vegar alveg örugglega ekki Framsóknarflokkurinn!


mbl.is Frumkvæði frá Framsókn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Friðrik ræður Jón Ólafsson vatnsráðgjafa Reykjavíkur!

"Ólafur Friðrik borgarstjóri hefur ráðið Jón Ólafsson vatnsráðgjafa Reykjavíkur. Hlutverk hans verður að fara yfir vatnsmál Reykjavíkurborgar. Jón mun hafa aðstöðu í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur."

Eitthvað á þessa leið gæti frétt um næstu ráðningu borgarstjórans ef hann heldur áfram á þeirri braut sem hann hóf með því að ráða til starfa Gunnar Smára Eglisson - Baugspenna no 1.

Ólafur Friðrik virðist vera að ögra Sjálfstæðismönnum eins og hann mögulega getur með nýráðningum í Ráðhúsið. Sjálfstæðismenn hafa líklega ekki átt erfitt með að kyngja ráðningu Jakobs Frímanns, en Gunnar Smári hefur örugglega verið stór biti - og óþægilegur. Ólafur Friðrik gæti fullkomnað niðurlæginguna með því að fá Jón Ólafsson til liðs við sig.

Er von að Sjálfstæðismenn séu að verða þreyttir á kallinum!


mbl.is Vilja breytingar á meirihlutasamstarfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugspenna no 1 falið að lappa upp á vafasama ímynd Ólafs Friðriks?!

"...tók Ólafur fálega í hugmyndir sjálfstæðismanna að bæta framsóknarmönnum inn í meirihlutasamstarfið."

Svo segir í frétt á visir.is.

Ekki þykir mér það undarlegt þar sem Óskar Bergsson hefur alla tíð verið harður - en málefnalegur - í andstöðu sinni við staðnaðri 19. aldar stefnu borgarstjórans!

... en ætli Sjálfstæðismenn hafi tekið með fögnuði - eða tekið því fálega - að Ólafur Friðrik hafi ráðið Baugspenna no 1 - Gunnar Smára Egilsson - til að lappa upp á illa beyglaða ímynd borgarstjórans í fjölmiðlum?

 PS.

Var að sjá að Gunanr Smári hefur 6 vikur til að lappa upp á andlit Ólafs Friðriks í fjölmiðlum og mun andlitslyftingin kosta borgina 1.239.000 kr án vsk - eða rúma 1,5 milljón.

Það finnst mér reyndar spottprís miðað við verkefnið!


mbl.is Vilja styrkja meirihlutann í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var einhver æðri í utanríkismálunum en Halldór utanríkisráðherra?

Davíð Oddsson hefur greinilega lagt mikla áherslu á að fylgja árásarstefnu Bandaríkjanna á Írak eftir af fullri hörku og án málalenginga sem fælust í lengri fresta Alþjóða kjarnorkueftirlitisstofnunarinnar og nýrri ályktun Sameinuðu þjóðanna. Væntanlega hefur ákafi Davíðs falist í því að hann virklilega trúði lygavef Bush Bandaríkjaforseta um gjöreyðingarvopn í Írak.

Halldór Ásgrímsson vildi hins vegar gefa þann slaka sem óskað var eftir til kjarnorkueftirlits og jafnvel nýrrar ályktunar Sameinuðu þjóðanna. Það eru engin ný tíðindi.

Það eru hins vegar tíðindi að svo virðist sem farið hafi verið framhjá Halldórí Ásgrímssyni utanríkisráðherra þegar utanríkisráðuneytið var í samskiptum við Breta vegna fyrirhugaðrar árásar á Írak.

Gæti það bent til þess að enn á þessum tíma hafi "ósýnilegt" yfirvald hægrimanna verið starfandi - yfirvald sem á tímum kalda stríðsins ákvað hverja skyldi hlera og hverja ekki?

Eða hvað á Valur Ingimundarson við þegar hann segir upplýsingar um að Halldór hafi ekki átt í samskiptum við Breta gegnum utanríkisþjónustuna - heldur einhverjir aðrir - séu upplýsandi?  Eigum við eftir að fá enn eina sprengjuna í grein frá Vali?

Auðvitað á að skapa rannsóknarnefnd til að skoða málið. En veit núverandi utanríkisráðherra meira um málið en hún gefur upp? Vill hún ekki rugga stjórnarskútunni með slíkri rannsóknarnefnd?  Maður bara spur :)

 

 


mbl.is Röng og ólögmæt ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Birna - hringdu í Óskar!

"Fyrsti meirihluti kjörtímabilsins fylgdi hins vegar allt fram að októberslysinu skynsamlegri stefnu bæði um orkunýtingu og skipulagsmál. Lengst af naut hann auk þess trausts og ágætra vinsælda. Endurnýjun á samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn er satt best að segja líklegt til að leysa borgina úr þeirra málefnakrísu sem hún er í."

Þetta eru orð Þorsteins Pálssonar fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins í leiðar Fréttablaðsins í dag.

Þorsteinn bætir um betur og segir í niðurlagi leiðarans:

"Mest er þó um vert að ríkir almannahagsmunir kalla á breytt ástand. Að því virtu er svarið við spurningunni um málefnalega þörf á nýjum borgarstjórnarmeirihluta. Já."

Hvernig væri að Hanna Birna Kristjánsdóttir hlustaðu á þennan fyrrum formann Sjálfstæðisflokkinn, taki upp símann, hringi í Óskar Bergsson og freisti þess að endurnýja meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á málefnalegum grundvelli?

Eða er Hanna Birna ekki raunverulegur oddviti Sjálfstæðisflokksins? 

Er hún kannske í Gíslingu félaga sinna í Sjálfstæðisflokknum - mannanna sem bera ábyrgð á mistökunum með Ólaf Friðrik - þeim Vilhjálmi Þ Vilhjálmssyni og Kjartani Magnússyni?  Setja þeir eigið stolt ofar hagsmunum borgarbúa?

Ég vona að svo sé ekki.

Hanna Birna - hringdu í Óskar. Hann segir í versta falli bara nei!

 


Þórunn Sveinbjarnardóttir sýnir fádæma hugrekki!

Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra sýnir fádæma hugrekki með því að boða til opins fundar á Húsavík í kjölfar nýlegrar aðfarar hennar að uppbyggingu atvinnulífs á Húsavík og nágrenni.

Ég tek ofan fyrir Þórunni að fara norður og ræða við heimamenn!

Veit hins vegar ekki hvað sveitastjórnaráðherrann hefur að gera á þessum fundi!


mbl.is Þórunn boðar til fundar á Húsavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jöklabréfakrónurnar á leið í Kaupþing?

Ætli erlendir fjárfestar séu að nota íslensku krónurnar úr jöklabréfaútgáfunum sem eru á gjalddaga þessa dagana til að kaupa sér íslenskan banka?

Væntanlega hefur eitthvað af krónunum farið í kaup á íbúðabréfum Íbúðalánasjóðs og þannig hjálpað til með að lækka vexti á íbúðalánum - en eitthvað verða mennirnir að gera við aurana sína þegar þeir losna - og af hverju þá ekki að fjárfesta í Kaupþingi?

Mér bara datt þetta svona í hug!


mbl.is Fjögurra milljarða viðskipti með Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heyrnaskert börn án hjálpar að óþörfu!

Það er sorglegt til þess að hugsa að á Íslandi eru tugir heyrnaskertra barna án hjálpar að óþörfu!

Ástæða þess er sú að oft greinist heyrnarskerðing ekki fyrr en börnin eru orðin stálpuð - og þá oft á tíðum eftir að fram hafa komið alvarlegir erfiðleikar í málþroska og jafnvel hegðunarvandamál sem rekja má til erfiðleika barnanna við að skilja það sem fram fer í umhverfinu!

Það er afar mikilvægt að heyrnaskerðing uppgötvist sem fyrst svo unnt sé að grípa til aðgerða áður en barnið kemst af því skeiði þegar málþroski er hvað hraðastur.  Hvort sem um er að ræða aðgerðir sem auka á heyrn barnanna þannig að þau geti náð tökum á tungumálinu á sama hátt og önnur börn - eða þá að tryggja þeim börnum sem ekki er unnt að hjálpa til nægilega góðrar heyrnar með kuðungsígræðslu eða heyrnartækjum góða táknmálskennslu.  Það skiptir nefnilega miklu máli að illa heyrnaskert börn læri táknmál á þeim tíma sem þau eru hvað móttækilegust í að tileinka sér málið.

Ingibjörg Hinriksdóttir yfirlæknir á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands skýrir frá því í frétt á visir.is að líklega séu um 60 heyrnaskert börn undir 6 ára aldri sem ekki hafa enn verið greind heyrnarskert!

Það sorglega við þetta er að unnt hefði verið að uppgötva heyrnarskerðingu stórs hluta þessa hóps með  því að heyrnarmæla börn í svokallaðri fimm daga skoðun sem gerð er á öllum nýfæddum börnum skömmu eftir fæðingu.

Fram kemur hjá Ingibjörgu að í tæplega eitt og hálft ár hafi staðið yfir tilraunaverkefni þar sem börn sem fæðast hafa á Landspítalanum í Reykjavík hafi verið greind. Árangurinn sé góður.

Að sjálfsögðu vonast Ingibjörg til þess að verkefninu verði framhaldið og að heyrnamæling verði hluti fimm daga skoðunar alls staðar á landinu. 

Er þetta nokkur spurning?

Ef heyrnarmæling í fimm daga skoðun getur orðið til þess að árlega greinist 5 til 10 börn heyrnaskert strax í stað þess að þurfa að takast á við umhverfið fyrstu misseri og ár lífsins illa heyrandi með þeim vandamálum sem því fylgir - þá ber okkur skylda til þess að gera slíka heyrnarmælingu alls staðar. 

Það á ekki að horfa í kostnað við þetta. Velferð þessara barna er það dýrmæt - auk þess sem allar líkur eru á að þegar upp er staðið sé greining sem þessi margfalt ódýrari fyrir samfélagið en þær aðgerðir sem grípa þarf til ef heyrnaskerðingin er greind misserum eða árum síðar!


Fatlaðir undir högg að sækja í háskólanámi!

Fatlaðir eiga því miður enn undir högg að sækja á vinnumarkaði. Þeir virðast einnig enn undir högg að sækja í menntakerfinu. Það hjálpar ekki við að styrkja stöðu þeirra hvað atvinnu varðar. Því virðist sem margir fatlaðir séu fastir í fátækragildrur - séu dæmdir til að lifa á lágum bótum opinbera tryggingakerfisins.

Þetta ástand er ólíðandi.

Runólfur Ágústsson hinn kröftugi framkvæmdastjóri háskólans Keilir vakti athygli á þessu í útskriftarræðu í gær. Um það segir Eyjan.is í frétt:

"Runólfur Ágústsson framkvæmdastjóri Keilis gagnrýndi gagnrýndi aðgengi fatlaðra að háskólanámi hérlendis í útskriftarræðu sinni. Hann benti á að þeir skólar sem taki inn fatlaða nemendur, þurfi sjálfir að bera af slíku verulegan kostnað. Sem dæmi nefndi hann að kostnaður Keilis vegna aðkeyprar túlkaþjónustu frá Samskiptamiðstöð heyrnalausra hlaupi á milljónum króna næsta háskólaár. Keilir sé nýr skóli sem ekki hafi úr digrum sjóðum að spila og staðan því þannig að ef annar hæfur umsækjandi sem þyrfti á sambærilegri þjónustu að halda myndi sækja um nám við skólann, yrði að hafna honum af því að hann væri fatlaður og fjármunir ekki til."

Hinn röksami ráðherra félagsmála Jóhanna Sigurðardóttir verður að ganga í málið. Hún hlýtur að fá stuðning hins röggsama ráðherra menntamála Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Þá trúi ég ekki öðru en starfsmenn í ráðuneyti Árna á Kirkjuhvoli muni veita tillögum um aukið fjármagn til aðstoðar fatlaðra í háskólanámi brautargengi.

Núverandi ástand er nefnilega smánarblettur á okkur!


Kynferðisofbeldi gagnvart drengjum vanmetið?

Er kynferðisofbeldi gagnvart drengjum vanmetið á Íslandi?

"Til okkar kom sextán ára strákur sem hafði búið í sex mánuði hjá karli hér í borg. Karlinn dældi í hann peningum, áfengi og dópi og notaði hann kynferðislega. Þessi strákur er ekki samkynhneygður...  Strákum er líka nauðgað. Þeir eru misnotaðir, rétt eins og stelpur. Ég þekki fleiri stráka sem hafa selt sig en stelpur"

Þetta er brot úr viðtali við Mumma í Götusmiðjunni í 24 stundum, en væntanlega hefur enginn betri yfirsýn yfir ástandið hjá unglingum á götunni í bullandi neyslu. Sá hópur er í mikilli hættu gagnvart kynferðisofbeldi - kynlíf gegn greiðslu í dópi eða peningum fyrir dópi.

Væntanlega eru sumir þessara krakka í harðri neyslu einmitt vegna þess að þau hafa lent í kynferðislegu ofbeldi. Strákar jafnt sem stelpur.

Stígamót eru samtök sem hafa unnið frábært starf á undanförnum árum - aðstoðað fjölda kvenna sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Einnig karlmönnum - þótt hlutfall þeirra sem leita til Stígamóta sé lágt.

Þótt hlutfallið sé lágt - er þá víst að það gefi rétta mynd af kynferðislegu ofbeldi gagnvart drengjum? Er ekki líklegt að karlmenn leiti miklu síður til Stígamóta og þeirra ágæti kvenna sem vinna fórnfúst starf með fórnarlömbum kynferðisofbeldis en konur?

Það kæmi mér ekki á óvart!

Er kannske kominn tími til þess að karlmenn sem lent hafa í kynferðislegu ofbeldi - og unnið sig út úr því eins og unnt er - eins og margar þeirra kvenna sem vinna með Stígamótum hafa gert - að þeir karlmenn stofni sambærileg samtök til hjálpar karlkyns fórnarlömbum kynferðisofbeldis?

Það kæmi mér ekki á óvart!

Hér gæti verið verkefni fyrir Önnu Kristinsdóttur nýráðinn  mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar!

Því að sjálfsögðu á Reykjavíkurborg að styðja við bak samtaka eins og Stígamót - og mögulegra nýrra "bræðrasamtaka" Stígamóta.

Fyrsta skrefið gæti verið að fá Mumma í Götusmiðjunni til ráðgjafar. Hann þekkir ákveðinn hóp karlkyns fórnarlömb kynferðisofbeldis - og gæti verið tengiliður í að koma þeim saman í sjálfshjálpar samtök svipuðum Stígamótum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband