Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Stefnir Geir Haarde á evru og Evrópusambandið?

Geir Haarde forsætisráðherra virðist vera að vakna af dvalanum og er nú loks farinn að ræða um stjórnmál og efnahagsmál. Það gerir Geir í merku viðtali við Markað Fréttablaðsins þar sem Geir leggur áherslur á að Íslendingar nái slíkum tökum á efnahagslífinu að þeir uppfylli skilrði þess að geta gengið í myntbandalag Evrópu. Með öðrum orðum að taka upp evru.

Eðlilega snýr Geir ekki alveg við kúrsi Sjálfstæðisflokksins og segir að það skuli ganga til liðs við Evrópubandalagið - en á á eftir A kemur yfirleitt B.

Þetta er mikilvægt skref hjá Geir - enda veit hann sossum eins og við hin að mögulega er innganga Íslands í Evrópusambandið og upptaka evru langfarsælasta leið Íslands inn í framtíðina.  Menn vita að innganga í Evrópusambandið er ekki afsal fullveldis Íslands eins og Jón Sigurðsson fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins hefur sýnt fram á.

Menn vita einni - líka Geir - að það fullveldisafsalið sem verður við inngöngu í Evrópusambandið varð við samþykkt EES samningsins. Það vissi Steingrímur Hermannsson á sínum tíma sem sat hjá við afgreiðslu EES samninginn þrátt fyrir að hafa verið einn hvatamaðurinn að gerð hans á sínum tíma.  Hins vegar mun innganga í Evrópusambandið auka við fullveldi okkar að nýju.

Nú er ekki lengur eftir neinu að bíða fyrir Guðna Ágústsson formann Framsóknarflokksins. Hann á að  framfylgja stefnu Framsóknarflokksins og krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Íslendingar eigi að ganga til viðræðna við Evrópusambandið um mögulega inngöngu í sambandið. Þegar niðurstaða þeirra viðræðna liggur sjáum við fyrst hvort kostir við inngöngu eru meiri en gallarnir. Við verðum að fá það upp á borðið fyrr en síðar. Og þjóðin á að taka þá lokaákvörðun.

En enn og aftur. Það er gott að Geir er farinn að taka skrefi í þessa áttina.


mbl.is Forsætisráðherra: Rétt að uppfylla Maastricht-skilyrðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur Friðrik hótar klofningi hjá Frjálslyndum á fyrsta degi!!!

"Ólafur F. Magnússon, fráfarandi borgarstjóri, fullyrðir að hann verði í framboði í næstu borgarstjórnarkosningum. Annað hvort verði hann á framboðslista Frjálslynda flokksins eða hann myndi sérframboð. Þetta kom fram í viðtali Þorfinns Ómarssonar við Ólaf í Íslandi í dag fyrr í kvöld."

Svo segir á fréttavef visir.is.

Mér sýnist Ólafur Friðrik vera farinn að hóta klofningi í Frjálslyndaflokknum á fyrsta degi!

Þetta er maðurinn sem Vinstri grænir og Samfylking vildu láta Óskar Bergsson bukta sig fyrir og biðja um nýtt líf fyrir svokallaðan Tjarnarkvartett  - og lofa því að fara aldrei, endurtek aldrei, að ræða við Sjálfstæðismenn um samstarf í Reykjavíkurborg. Þá kannske, endurtek kannske, myndi Ólafur Friðrik veita svokölluðum Tjarnarkvartett liðsinni sitt!

Er það furða að Óskar hafi sagt nei takk við "kannske" loforðum Ólafs Friðriks!


Ekki sama Jón og frú Ingibjörg Sólrún!

Það er ekki sama Jón og frú Ingibjörg. Eða kannske frekar ekki sama Gísli Marteinn og frú Ingibjörg Sólrún.

Ég hef heyrt nokkra Samfylkingarmenn nánast missa sig út af þeirri ósvinnu að frændi minn Gísli Marteinn skyldi skyldi taka sig upp og halda til Edinborgar í meistaranám í borgarfræðum - og ætla að mæta samt á borgarstjórnarfundi.

Þá hafa einhverjir fjölmiðlar verið að fjargviðrast yfir þessu annars ágæta framtaki stráksins!

Mér fannst þetta reyndar gott hjá kallinum!

Ég veit það sjálfur hvað það er gott að rífa sig upp - og halda áfram að læra. Líka í útlöndum.

Mér fannst reyndar heldur ekki tiltökumál þótt Gísli Marteinn héldi áfram að sækja borgarstjórnarfundi eftir mætti - enda flugsamgöngur milli Skotlands og Íslands tíðari en flugsamgöngur milli Reykjavíkur og Hornafjarðar.

Gísli gæti jafnvel deilt vel völdum gullkornum úr lærdóminum í borgarfræðunum til félaga sinna í borgarstjórn! Það ætti ekki að skaða neinn!

Minnti reyndar að Gísli Marteinn væri ekki sá fyrsti sem hefði þetta fyrirkomulag - en var ekki viss.

Gísli Marteinn staðfesta þennan grun minn í pistli sínum á Eyjunni í kvöld:

"Fjölmörg dæmi eru um að menn hafi verið borgarfulltrúar en sinnt öðrum verkefnum samhliða. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fór til dæmis í nám til Lundúna í London School of Economics þar sem hún var gestastúdent í Evrópufræðum, á meðan hún sat sem borgarfulltrúi. Þetta var frá áramótum og fram á sumar 2004."

Vænti þess að Samfylkingarfólkið sem var að missa sig yfir Gísla Marteini hafi einnig hneykslast yfir þessari ósvinnu frú Ingibjargar!  Og að fjölmiðlar landsins spyrji utanríkisráðherrann út í það hvort henni finnist það við hæfi að Gísli Marteinn skuli skunda til útlanda í nám - án þess að segja sig frá borgarstjórn!


Framsókn missir mikla baráttukonu

Það er sorglegt að Marsibil Sæmundardóttir gat ekki hugað sér að vinna í meirihlutasamstarfi með Sjálfstæðismönnum í borgarstjórn við framgang pólitískra hugðarmála sinna. Það hefði verið gott ef borgarbúar hefðu notið starfskrafta Marsibilar sem leiðtoga og formanns nefnda eða ráða sem vinna að málaflokkum sem falla undir helstu baráttumál Marsibilar.

En það ber að virða tilfinningar Marsibilar sem nánast stóð ein innan Framsóknarflokksins - gegn samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Það er því skiljanlegt að Marsibil kjósi að segja sig úr Framsóknarflokkun við þessar aðstæður. En það er missir af þessari miklu baráttu og hugsjónakonu sem hefði getað haldið áfram í flokknum ef hún hefði viljað. En það kemur maður í manns stað. Það er mikið til af öflugu Framsóknarfólki sem getur tekið við keflinu.

Afstaða Marsibilar endurspeglar reyndar tilfinningar margra Framsóknarmanna sem líta á samstarf við Sjálfstæðisflokkinn ekki sem óskasamstarf. Hins vegar standa flokksmenn þétt að baki Óskars í samstarfinu, enda ljóst að annar kostur var ekki í stöðunni, hvað sem klækjastjórnmálamenn annarra flokka reyna að halda fram.

Flestir Framsóknarmenn létu því tilfinningar sínar ekki ráða för - heldur ákváðu að gera skyldu sína með því að tryggja Reykjavíkurborg starfhæfan meirihluta og vinna að framgöngu þeirra málefna sem flokkurinn stendur fyrir. Væntanlega munu baráttumál Marsibilar verða meðal þeirra málefna þótt hún hafi kosið að yfirgefa flokkinn.

Marsibil segir á meðal annars í yfirlýsingu sinni:

"Ákvörðunin er ekki auðveld þar sem ég á marga góða félaga í framsóknarflokknum - enda er þar eins og í öllum flokkum margt frábært fólk.  Ég er þakklát öllum þeim sem hafa unnið með mér þar og óska þeim velfarnaðar.

Ég legg áherslu á að þessi ákvörðun er ekki tekin með það að markmiði að skaða framsóknarflokkinn, heldur er ég tilneydd í þetta skref í þeirri stöðu sem komin er upp.  Ég mun áfram eins og hingað til, styðja góð mál, hvaðan sem þau koma - en sem betur fer er samstaða í borgarpólitíkinni um flest mál og ég vona að við sem vinnum að borgarmálum Reykvíkinga berum nú gæfu til að setja þau í forgang. Ég ítreka að ég mun ekki stunda tækifærismennsku og fella meirihlutann komi til þess að  Óskar Bergsson forfallist tímabundið. Slík tækifærismennska þjónar ekki hagsmunum borgarbúa.

Ég vona að Óskari Bergssyni, framsóknarflokknum og nýjum meirihluta í Reykjavík gangi vel að vinna saman að mikilvægum málefnum borgarinnar."


mbl.is Marsibil segir sig úr Framsóknarflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hanna Birna á uppleið en Dagur á niðurleið!

Hanna Birna er á uppleið en Dagur B á niðurleið í könnunum Fréttablaðsins um hvern borgarbúar vilja sjá í sæti borgarstjóra!  Dagur B. trónir þó enn á toppnum þar sem 43% vilja sjá hann sem borgarstjóra á meðan 33%  borgarbúa vilja að Hanna Birna Krtistjánsdóttir verði borgarstjóri.

Þetta er mikil fylgisaukning við Hönnu Birnu, sem varla komst á blað í könnun blaðsins í febrúar. Hinsvegar dvínar fylgi Dags verulega, eða úr tæpum 57 prósentum í febrúar, niður í tæp 44 prósent núna. Í þriðja sæti kemur Svandís Svavarsdóttir með 9,9 prósenta fylgi.

Hanna Birna hefur alla burði til þess að auka fylgi sitt sem borgarstjóri muni. En þá verður hún að láta verkin tala - sem hún hefur alla burði að gera í samstarfi við Óskar Bergsson.

Fylgi við Svandísi Svavarsdóttur kann einnig aukast þegar líður á enda röggsamur forystumaður.  Dagur mun væntanlega einnig verða áfram vænlegur kostur í hugum margra borgarbúa og reynir nú á hvort hann nær að halda sjó eða hvort niðurleiðin haldi áfram í næstu skoðanakönnun.

Minni hans vegar á að skoðanakannanir eru eitt - og kosningar annað. Það eru úrslit kosninga sem ráða - en ekki fylgi í skoðanakönnunum!

Stuðningur við Hönnu Birnu endurspeglar það fylgi sem ég taldi að borgarbúar hefðu við nýjan meirihluta borgarstjórnar, en það kom mér á óvart seint í gærkvöldi þegar ég sá fyrri könnun Fréttablaðsins og þegar ég sá að fylgi við meirihlutan var undir 30%.

Í þeirri könnun var jákvætt að sjá að Óskar Bergsson hefur rúmlega tvöfaldað fylgi sitt frá því í könnun Gallups á dögunum. Hann á allt undir því að standa sig vel á næstu mánuðum - eins og Hanna Birna. Framtíð þeirra - og reyndar flokkanna þeirra - byggir á því.

Samfylkingin og Vinstri grænir verða aftur á móti að gera allt til þess að halda því mikla fylgi sem þau fá í skoðanakönnunum.  Bæði Svandís og Dagur B. eru afar öflugir stjórnmálamenn sem munu væntanlega njóta sín vel í stjórnarandstöðu gegn 4. meirihlutanum í borgarstjórn Reykjavíkur.

Þetta verða því spenndandi mánuðir framundan í borgarmálunum - og stefnir í sögulegar kosningar eftir tæp tvö ár - hvernig sem allt mun þróast.


mbl.is Þriðjungur styður Hönnu Birnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylking og Óskar Bergsson

1. Samfylking hafnar R-listatilboði Óskars Bergssonar

2. Samfylking "gleymir" Óskari í skoðanakönnun um árangur borgarfulltrúa

3. Samfylking sniðgengur Óskar í allri umræðu um borgarmál þar sem til dæmis ofurbloggarinn Össur Skarphéðinsson ræðir sífellt um samstarf Samfylkingar og Vinstri grænna í borgarmálum til framtíðar, en sleppir Framsóknarflokknum

4. Samfylking  þverneitar að íhuga að endurskoða afstöðu sína til helsta baráttumáls Óskars, uppbyggingu atvinnumála með nýtingu gufuafls við Bitru.

5. Samfylking og Vinstri grænir setja upp klækjaleikrit þar sem Óskar Bergsson á að leggja pólitískt líf sitt í hendur Ólafs Friðkriks fráfarandi borgarstjóra, biðja hann um að standa upp úr stólnum og lofa að ganga aldrei nokkurn tíma til samstarfs við Sjálfstæðismenn. Þá kannske myndi Ólafur Friðrik gefa Tjarnarkvartettinum líf. Kannski.

6. Samfylking sakar Óskar Bergsson um svik við Tjarnarkvartettinn!

Halló!  Hver hefur verið að svíkja hvern?

 


mbl.is Samfylkingin hafnaði nýjum Reykjavíkurlista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Marsibil mun ekki fella meirihlutann!

Marsibil Sæmundsdóttir varaborgarfulltrúi mun ekki fella meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokk í Reykjavíkurborg ef ég skil orð hennar rétt.  Það er ljóst að Marsibil treystir sér ekki í samstarf við Sjálfstæðismenn um stjórn borgarinnar þótt hún virði ákvörðun Óskars Bergssonar og Framsóknarflokksins um samstarf um nýjan meirihluta.

Hins vegar mun Marsibil verja meirihlutann falli þótt hún taki tímabundið sæti í borgarstjórn ef Óskar Bergsson forfallast tímsbundið og hún taki sæti hans sem varaborgarfulltrúi. Get ekki skilið orð hennar öðruvísi.

Afstaða Marsibilar endurspeglar tilfinningar margra Framsóknarmanna sem líta á samstarf við Sjálfstæðisflokkinn ekki sem óskasamstarf. Hins vegar standa flokksmenn að baki Óskars í samstarfinu, enda ljóst að annar kostur var ekki í stöðunni, hvað sem klækjastjórnmálamenn annarra flokka reyna að halda fram.

Framsóknarmenn hafa því skilning á tilfinningum Marsibilar og afstöðu hennar þótt hún kunni að fipa flokkinn næstu daga.

Það er mikilvægt að gagnkvæm virðing og vinátta ríkir enn á milli Óskars og Marsibilar og að trúnaðarsamband þeirra heldur eins og fram hefur komið. Á visir.is er eftirfarandi frétt sem staðfestir þetta:

Fundarmenn virtu afstöðu Marsibil

Marsibil Sæmundardóttir ,varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins, sem ekki styður meirihlutasamstarf Óskars Bergssonar og Sjálfstæðisflokksins fór á fund með framsóknarmönnum í hádeginu. Marsibil segir fundarmenn hafa skilið sína afstöðu en lykilfólk í flokknum, aðallega úr Reykjavík, sat fundinn.

„Ég ákvað að fara á þennan fund og ræða við fólk og útskýra mína afstöðu. Ég get ekki sagt annað en að fundurinn hafi stutt Óskar og þetta meirihlutasamstarf heilshugar. En á sama tíma virtu þau mína afstöðu og sýndu mér virðingu," segir Marsibil sem sagði við Vísi fyrr í morgun að hana hlakkaði ekkert sérstaklega til fundarins.

„Það er auðvitað erfitt að þetta skuli vera svona en þetta er allt flott fólk sem skilur að svona getur gerst."


mbl.is Hleypir spennu í sambandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndugleiki Hönnu Birnu lofar góðu!

Myndugleiki Hönnu Birnu lofar góðu. Bæði í viðtölum við fjölmiðlamenn fyrir fund þeirra Hönnu Birnu og Óskars fyrir stjórnarmyndunarviðræður kvöldsins og ekki síður eftir að samkomulag náðist um nýjan meirihluta.

Óskar var einnig öruggur og náði greinilega fram áherslum sínum í efnhags og atvinnumálum - og óhræddur að takast á við erfið verkefni eins og fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna næsta árs.

Óskar mun koma borgarbúum á óvart á jákvæðan hátt á næstu vikum!  Verst hvað hann er kvefaður! En það fer væntanlega bráðlega úr honum.

Það besta er hins vegar hve góð "kemistra" er á milli þeirra Hönnu Birnu og Óskars. Þeim finnst greinilega gaman að vinna saman og ætla að leiða hvor sinn flokk af ábyrgð og festu.

 Þá er ekki verra að þau þekkja hvort annað afar vel. Áttu gott samstarf í skipulagsráði á sínum tíma - hafa lent í andstöðu við hvort annað - og eru aftur farin að vinna saman - þekkjandi hvort annað enn betur eftir bæði tímabil samvinnu - og tímabil þar sem tekist var á!

Ég verð að segja að Hanna Birna er fyrsti leiðtogi Sjálfstæðismanna í borginni frá því Davíð var og hét - sem er með nauðsynlegan myndugleik borgarstjóra!  Vonandi stendur hún undir því!

Og Óskar ... Óskar klikkar ekki!


mbl.is Hanna Birna borgarstjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vildi Tjarnarkvartettinn Bitruvirkun og atvinnuuppbyggingu?

Vildi Tjarnarkvartettinn Bitruvirkjun og atvinnuuppbyggingu? Mínar heimildir segja að svo hafi alls ekki verið. Menn verða að muna að alvarlegir brestir komu í samstöðu minnihlutans við fagnarðarlæti vinstri grænna og Samfylkingar yfir Bitruvirkjun.  Óskar hefur lagt megináherslu á Bitruvirkjun og atvinnuuppbyggingu!

Átti Óskar Bergsson og Framsóknarflokkurinn að treysta orðum Ólafs Friðriks?  

Sóley Tómasdóttir varaborgarfulltrúi Vinstri - grænna hefur látið hafa eftir sér að Óskar Bergsson hafi haft úrslitaáhrif í málinu og valið að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn.

Sóley - varstu til í Bitruvirkjun? 

Ef Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ná saman - þá hlýtur það að verða um atvinnumál í borginni - og þar með talin bygging Bitruvirkjunar! 


mbl.is Ólafur vildi Tjarnarkvartett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í draumi hvers manns er fall hans falið!

Í draumi hvers manns er fall hans falið, sagði skáldið á sínum tíma.

Draumur að líkindum fráfarandi borgarstjóra hefur verið að breytast í martröð. Ástæðan einfaldlega sú að hann umgekkst vald sitt og draum með hroka - en ekki af þeirri auðmýkt  sem þeim sem við felum valdið bera að sýna.

Stjórnmálamenn almennt ættu að hafa orð skáldsins í huga þegar þeir taka við stjórnartaumunum - og muna að stjórnmálamenn eiga að vera þjónar fólksins en ekki hrokafullir valdafíklar sem hugsa fyrst og fremst um eigin hag.

Ef fer sem horfir að Sjálfstæðismenn slíta samstarfinu við Ólaf Friðrik og taki upp samstarf við Framsóknarmenn og Óskar Bergsson - ef Framsóknarmenn og Óskar eru reiðubúnir í slíkt samstarf - þá verður slíkt samstarf að byggja á málefnum sem eru borgarbúum, landi og þjóð til framdráttar.

Því samstarf sem byggir einungis á draumi um valdi byggt á hroka mun einungis fela í sér fall. Ef samstarfið er grundvallað af auðmýkt fyrir verkefninu og þeir sem að því  koma hugsa fyrst og fremst um að vinna að framgangi góðra mála - þá verður samstarfið farsælt og þeir sem af því koma munu uppskera í samræmi við verk sín.

Ef núverandi samstarf heldur áfram og Hanna Birna tekur strax við sem borgarstjóri - þá ætti hún einnig að hafa þetta í huga! Annars fer illa.


mbl.is Samstarfið á „endastað"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband