Höldum gömlu hreppamörkunum!

Við eigum að halda gömlu hreppamörkunum þótt lítil sveitarfélög hafi sem betur fer runnið saman og ættu reyndar að verða enn stærri! Mér sárnaði að Vegagerðin skyldi taka niður skilti sem upplýsti um hreppamörk hins forna Kolbeinsstaðahrepps - hrepps föðurfjölskyldu minnar.

Það sama á við hreppamörk um allt landið!

Við megum ekki gleyma því að hreppurinn var samfélagsleg eining sem að líkindum var komin á fyrir kristnitöku og hefur lifað sem stjórnsýslueining fram á þennan dag. Hreppurinn er því mikilvægur menningarlegur þáttur í sögu Íslendinga.

Þess vegna eigum við ekki að láta gömlu hreppana og hreppsnöfnin falla í gleymskunar dá. Við eigum að merkja hreppamörk með heitum gömlu hreppanna - þótt flestir hreppir séu ekki lengur stjórnsýslueiningar - heldur hluti stærra sveitarfélags!

Ég skora á samgönguráðherra - sem nú er einnig ráðherra sveitarstjórnarmála - að fela Vegagerðinni að setja upp skilti við gömlu hreppamörkin - þar sem fram koma heiti gömlu hreppanna. Þar sem sveitir voru í daglegu tali kallaðar eitthvað annað - eins og til dæmis í Austur-Skaftafellssýslu -  Öræfi, Suðursveit, Mýrar, Nes og Lón - þá komi þau heiti jafnframt fram.

Undirstrika að ég er ekki að tala um að skipta stóru sveitarfélögunum upp á ný! Þau þurfa að vera enn stærri - og reyndar eiga skattar að renna beint til sveitarfélaganna - en ekki ríkisins - eins og fram kemur í pistli mínum Skattar renni til sveitarfélaganna ekki ríkisins!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er ég nú sammála þér núna, landsvæði sem hafa gengið undir ákveðnum nöfnum frá ómunatíð eiga að halda þeim, ég vil geta farið upp í Hálsasveit, fram í Hvítársíðu, út í Staðarsveit, inní Helgafellssveit svo eitthvað sé nefnt hér á Vesturlandi. Þó held ég að ég fari ekki í Hólminn þegar ég fer í kaupstaðarferð til Reykjavíkur eins og einusinni var talað um, held mig við annan Hólm.

Þóra

Þóra Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 8.8.2008 kl. 15:19

2 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Hallur við þurfum að halda í öll staðarnöfn. Ekki kannski hreppanöfn eða úreld sveitarfélaganöfn. Með öllum þessum sameiningum á sveitarfélögum er farið að tala um hinar og þessar byggðir, bæi, sveitir og allt það með jafnvel nýjum nöfnum og fólk er að rugla saman sveitarfélaganöfnum og staðarnöfnum. Tökum dæmi af Fjarðabyggð fyrir austan. Það segir manni ekkert að eitthvert skip hefði landað sjávarafla í Fjarðabyggð. Það getur verið í Mjóafirði, á Norðfirði, Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði eða Stöðvarfirði. Sama má segja Fljótsdalshérað sem er landmesta sveitarfélag landsins. Það yrði óttalega fáránlegt að tala um Möðrudal á Fljótsdalshéraði, eða Brú á Fljótsdalshéraði eða Kárahnjúkastíflu á Fljótsdalshéraði. En svona er þetta orðið fólk þarf að halda sig við staðarnöfnin. Mér finnst ég til dæmis ekki vera í Reykjavík þegar ég er á Kjalarnesi.

Haraldur Bjarnason, 8.8.2008 kl. 17:25

3 identicon

Algjörlega sammála þér Hallur og Haraldur. Auðvitað á að vera skilti t.d. við Gilsárbrúna (við Grímsárvirkjun) sem á myndi standa Skriðdalur og hinu megin stæði Vellir þegar komið er úr suður átt. Merkja á Eiðaþinghá og Hjaltastaðaþinghá hvar gamli hreppur byrjaði og hvar hann endar. Þá gleymdust ekki nöfn eins og Hróarstunga, Hlíð, Fell, Jökuldalur o.s. frv. 

Jóhanna (IP-tala skráð) 9.8.2008 kl. 16:41

4 identicon

Sæll Hallur

Gaman að sjá þig minnast á Öræfi, Suðursveit og svo frv.  Hér erum við einmitt búin að merkja gömlu sveitarfélögin (sveitirnar) okkar og það fer vel á því.

Þakka samvinnu á árum áður. 

kv. Sigurlaug G

Sigurlaug Gissurardóttir (IP-tala skráð) 10.8.2008 kl. 20:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband