Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Björgvin G. ráðherra upp á punt fyrir Ingibjörgu Sólrúnu!

Björgvin G. var greinilega hugsaður sem ráðherra upp á punt hjá Ingibjörgu Sólrúnu og væntanlega skipaður til að setja dúsu upp í vin minn Össur Skarphéðinsson - sem reyndar var einnig lengst af árinu hafður út í kuldanum af Ingibjörgu Sólrúnu sem vill greinilega halda í alla þræði innan Samfylkingar og utan með hjálp einkavina sinna.

Það er ekki nema von að bankamálaráðherrann hafi verið gersamlega eins og kálfur úti á túni eins í umræðunni í bankamálaumræðunni.

Mér hefur líkað vel við Björgvin og haft á honum álit. Það var reyndar fokið út í veður og vind vegna hraksmánlegrar framgöngu hans og Geirs Haarde í bankahrunsmálinu - en sem betur fer virðist það vera vegna þess að hann fékk ekki neinar upplýsingar. Hvorki frá Seðlabanka né alvöru ráðherrum í ríkisstjórninni.

Það er ekki nema von að það sé aðeins farið að hrikta í stoðum Ingibjargar Sólrúnar innan Samfylkingar!

... og ríkisstjórnarinnar -  65,5% styðja ekki ríkisstjórnina!


mbl.is Björgvin: Spurningarmerki við Glitnisatburðarás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leysti Svörtulofta-Skotta Geir úr Evrópuálögum?

Geir Haarde forsætisráðherra er nú loksins að sjá hið augljósa. Að það sé heillavænlegast fyrir íslenska þjóð að Ísland fari í aðildarviðræður við Evrópusambandið - og taki síðan ákvörðun um það hvort gengið verði í sambandið þegar niðurstaða viðræðna liggja fyrir.

Ætli það hafi verið draugagangur Svörtulofta-Skottu í síðustu viku sem losuðu Geir úr Evrópuálögunum þar sem ekki mátti minnast á Evrópu né Evrópusambandið?

Verst að Geir sá ekki ljósið strax í síðustu ríkisstjórn þegar rétt hefði verið að ganga í málið. En betra seint en aldrei!

Munið að 65,5 prósent styðja ekki ríkisstjórnina!


mbl.is Aðildarviðræður koma til greina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Foreldrar! Nýtið frístundakortin og tryggið börnunum heilbrigt íþróttastarf!

Þegar fjölmargar fjölskyldur berjast í bökkum í erfiðu efnahagsástandi kemur það því miður oft niður á börnunum.  Útgjöld eru skorin niður eins og mögulegt er. Því miður neyðast fjölskyldur að skera niður útgjöld vegna frístundastarfs barna sinna.

Á tímum sem þessum er mikilvægt að tryggja börnum aðgengi að frístundastarfi óháð fjárhag foreldranna. Í Reykjavík hefur þetta verið gert með tilkomu frístundakortsins - sem hefur stundum í umræðunni verið kalla Framsóknarkortið enda höfðu Framsóknarmenn forgöngu um að innleiða það - börnum og unglingum í Reykjavík til hagsbóta.

Frístundakortið á í flestum tilfellum að duga fyrir greiðslu félagsgjalda vegna iðkunar barns í einni íþrótt.

Það er ljóst að ekki hafa allir foreldrar nýtt sér frístundakort barna sinna. Ég hvet alla foreldra til að nýta frístundakortin og koma börnum sínum í heilbrigt íþrótta- og tómstundastarf.

Þá hef ég frétt að þegar hafi borið á nokkru brottfalli barna úr íþróttastarfi vegna efnahagsástandsins. Ástæðan sú að foreldrar hafi ekki getað greitt fyrir vetrarstarfið og að frístundakortið hafi verið fullnýtt. 

Í þeim tilfellum hvet ég íþróttafélögin að gefa foreldrum kost á að fresta greiðslu æfingagjalda fram yfir áramót þegar foreldrar fá í hendur frístundakort vegn ársins 2009. Frístundakortið ætti þá að standa undir að minnsta kosti stærstum hluta æfingagjalda fram á næsta haust.

Þá vil ég benda þeim fjölskyldum sem allra verst eru staddar fjárhagslega og að þær geta leitað til þjónustumiðstöðva Reykjavíkurborgar og sótt um viðbótarfjármagn vegna frístundastarfs barna sinna ef fjárhæð frístundakortsins hrekkur ekki til.

Bágt efnahagsástand má ekki verða til þess að börn og unglingar hætti þátttöku í heilbrigðu íþrótta- og tómstundastafi, enda slíkt starf líklega aldrei mikilvægara en í slíku ástandi.

Upplýsingar um frístundakortið og hvernig það er notað eru hér.


Lögmálum markaðarins beitt í þágu félagslegs leiguhúsnæðis

Með því að óska eftir leiguíbúðum á almennum markaði og endurleigja þær til þeirra sem bíða eftir félagslegum leiguíbúðum hjá Reykjavíkurborg er verið að beita markaðslögmálum til að fá sem hagkvæmasta leigu í þágu þeirra sem á slíkum íbúðum þurfa að halda.

Þá er unnt að veita fleirum sem rétt eiga á félagslegum leiguíbúðum úrlausn fyrr en ella.

Það er ljóst að leiga er almennt að lækka og með því að óska eftir tilboðum sem þessum ætti Reykjavíkurborg að geta valið úr þær íbúðir þar sem boðin er lægsta leigan, en þó þannig að íbúðirnar uppfylli kröfur Félagsbústaða um húsnæði.

Einnig er mikilvægt að íbúðirnar séu dreifðar um borgina og jafnvel höfuðborgarsvæðið.

Þá getur þessi leið rent styrkari stoðum undir starfandi leigufélög í borginni sem mörg hver berjast í bökkum í efnahagsástandinu.

Síðast en ekki síst þá bindur þessi aðferð minna fjármagn borgarinnar í steinsteypu og því unnt að veita því fjármagni til að verja grunnþjónustu við borgarbúa á þeim erfiðu tímum sem við tökumst nú á við.

Ég er stoltur af þessari tillögu okkar í meirihlutanum í borginni og ég er ánægður með það góða samstarf sem við eigum við minnihlutan í ráðinu um vinnslu aðgerðaráætlunar í húsnæðismálum. Þar tökum við öll höndum saman um að finna leiðir til úrbóta í því efnahagsásandi sem nú ríkir.

 


mbl.is Rúmlega 1.200 bíða eftir félagslegum íbúðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar týndi Geir reyni að kveða niður Svörtulofta-Skottu?

Geir Haarde er týndur ef marka má frétt www.dv.is!  Ætli hann sé á Ströndum að leita liðsinni galdramanna galdrasetursins þar við að kveða niður Svörtulofta-Skottu? 

Legg til að Svörtulofta-Skottu verði útvegað starf á Draugasetrinu þegar hún hefur verið svæld út úr Svörtuloftum - enda segist Skotta þurfa eitthvað að gera ef hún hverfur úr Svörtuloftum.

PS. Týndi Geir er fundinn!  Hann er bara í vinnunni sinni við Lækjargötu - en ekki á Ströndum - en er haldin blaðamannafælni í augnablikinu - ef marka má www.dv.is.


mbl.is Miserfitt að hætta í pólitík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svörtulofta-Skotta gefur viðskiptanefnd Alþingis langt nef

Svörtulofta-Skotta stendur undir væntingum og gefur viðskiptanefnd Alþingis langt nef. Þrátt fyrir eðlislægan skort á óframfærni faldi Svörtulofta-Skotta sig nú bak við bankaleynd!

Svörtulofta-Skotta fer greinilega í manngreiningarálit! Hún hefur verið eins og ættarfylgja hjá forsætisráðherra og utanríkisráðherra á meðan viðskiptaráðherra hafði ekki séð Svörtulofta-Skottu bregða fyrir í heilt ár - eða frá því í nóvember 2007 þar til í september 2008!

Allir vita að Svörtulofta-Skotta er magnaður draugur - sem meðal annars vakti upp hinn þráláta Verðbólgudraug með skottulátum sínum. Þá er Svörtulofta-Skotta að ganga frá Sjálfstæðisflokknum dauðum!

Hætt er að við eigum eftir að sjá mikið til Svörtulofta-Skottu og óskunda hennar á næstunni - annað hvort í Seðlabankanum ef Geir Haarde lætur drauginn yfir sig ganga - eða á pólitíska sviðinu ef ríkisstjórnin reynir að kveða drauginn niður í Seðlabankanum!

Allavega er ljóst að Svörtulofta-Skotta er eins og aðrir íslenskir draugar - þekkja ekki sinn vitjunartíma. Jú, þar er nefnilega þess vegna sem þeir eru draugar!

 


mbl.is Davíð ber fyrir sig bankaleynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svörtulofta-Skotta komin á kreik!

Það að kveða niður Verðbólgudrauginn er barnaleikur miðað við það að Svörtulofta-Skotta komist á kreik!  Ekki furða að Geir Haarde skjálfi á beinunum!


mbl.is Davíð: „Þá mun ég snúa aftur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Pro bono" verkefni fyrir ráfandi ríkisstjórn!

Ég hef það að reglu í sem ráðgjafi að vinna alltaf að minnsta kosti einu "pro bono" verkefni á hverjum tíma! ("pro bono "er svona lögfræðimál sem ég nota stundum til að slá mér upp og þykjast merkilegri en ég er - en það þýðir að vinna án greiðslu).

Ég var að ljúka "pro bono" verkefni í síðustu viku. Þess vegna þurfti ég að leita að nýju slíku verkefni sem ég vinn án greiðslu - og þótti við hæfi að leggja ríkisstjórninni lið!

En í stað þess að vinna tillögur og skýrslur á pappír - þá held ég að "pro bono" verkefni mitt þessa vikuna sé bara þátttaka í Íslandi í bítið í gær!

Slóðin er http://bylgjan.is/?PageID=1857

Ég get því farið ´´i nýtt "Pro bono" verkefni í næstu viku!


Jákvætt grænt vinstra ljós!

Nú lýsir afar jákvætt vinstra ljós í hverfinu mínu! Það birtist í dag - og er ekki jólaljós - en mun væntanlega verða til þess að auka umferðaöryggi í Bústaðahverfi. Um er að ræða nýtt beygjuljós á Bústaðavegi inn á Grensásveg sem væntanlega mun beina umferð sem að hluta til hefði farið um Réttarholtsveg ef vinstri beygju af Bústaðavegi inn á Reykjanesbraut verður lokað.

En eins og þeir sem hafa lesið pistlana mína þá sker Réttarholtsvegurinn sundur skólahverfið í Bústaðahverfi og aukin umferð þar í gegn eykur slysahættu.

Það er afar jákvætt að sjá að umhverfissvið er strax farið að vinna að aðgerðum til að draga úr umferð um Réttarholtsveg á þennan hátt - þótt hún muni væntanlega aftur aukast ef áætlanir um lokun vinstri beygju komast í framkvæmd!

En það gefst tækifæri fyrir stjórn Íbúasamtakanna í Bústaðahverfi að ræða þessi mál og önnur umferðamál í hverfinu beint við Þorbjörgu Helgu formann umhverfis- og samgöngusviðs í næstu viku á samráðsfundi vegna fyrirhugaðra breytinga. Treysti því að í sameiningu náist góð og örugg lausn í umferðaöryggismálum í hverfinu.


Afborganir af myntlánum miðist við gengisvísitölu 150 stig en ekki 250!

Það er vonandi að krónan hrapi ekki enn lengra í hyldýpið við þetta!

En fyrst við erum farin að tala um gjaldeyri þá skil ég ekki ósvífnina í nýju ríkisbönkunum að miða við daglega gengisvísitölu - sem liggur í kring um 250 stig - þegar þeir rukka lántakendur um afborganir af lánum sínum - þegar fjármögnunarhliðin er fryst inn í gömlu bönkunum!

Það er ekki verið að greiða fjármögnunarlán í erlendri mynt með afborgunum af myntlánunum!

Væri ekki nær að festa viðmiðun við til dæmis gjaldeyrisvísitölu við 150 stig á meðan þessu óeðlilega stendur á með gengisskráningu krónunnar í von um að krónan styrkist aftur - og til að koma í veg fyrir gjaldþrot fjölda fjölskyldna vegna þessa.

Er ekki rétt að ríkið skipi bönkunum sínum að endurskoða þetta viðmið - tímabundið - í ljósi stöðunnar?


mbl.is Millibankamarkaður á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband