VG á heiður skilið

VG á heiður skilið fyrir að leggja ekki stein í götu aðildarviðræða við Evrópusambandið þótt flokkurinn sé á móti slíkri aðild. Alþingi mun nú taka ákvörðun um aðildarviðræður.

Það má ljóst vera að meirihluti er á Alþingi fyrir aðildarviðræðum. Stefna Samfylkingar er skýr. Stefna Framsóknarflokksins er skýr. Aðildarviðræður.  Borgarahreyfingin hefur talað fyrir aðildarviðræðum og einnig einstakir þingmenn Sjálfstæðisflokksins einnig.

Við megum því búast við að Íslendingar óski eftir aðildarviðræðum við Evrópusambandið strax á vorþingi. Það er ljóst að aðildarviðræður munu ekki taka langan tíma. Því er raunhæft að kosið verði um aðildarsamning að Evrópusambandinu samhliða sveitarstjórnarkosningum vorið 2010.

Það eina sem er áhyggjuefni er það hvort Samfylkingunni sé treystandi að verja hagsmuni Íslendinga í aðildarviðræðunum sem væntanlega verða á forræði Samfylkingarinnar en ekki VG. Best hefði verið að Framsóknarflokkurinn leiddi aðildarviðræðurnar með skynsömum samningsmarkmiðum sínum.

Við skulum vona að VG tryggi að hagsmunum Íslands verði borgið í viðræðunum.

Eftirfarandi atriði ættu að liggja til grundvallar aðildarviðræðunum:

  • Skýr og einhliða úrsagnarréttur, sem er þegar viðurkenndur í aðalsáttmála ESB, verði hluti
    aðildarsamnings.
  • Staðfest verði að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og að fiskveiðistjórnun verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur ESB um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.
  • Fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt og viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar.
  • Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður.
  • Framleiðsla og úrvinnsla íslenskra búfjárstofna verði tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra búfjárstofna.
  • Staðfest verði að vegna aðstæðna á Íslandi og fámennis þjóðarinnar hafi Íslendingar varanlegan rétt til að setja lög um forgangsrétt manna með lögheimili og fasta búsetu á Íslandi til að eiga ráðandi hlut í jarðeignum, lóðum, fasteignum og atvinnufyrirtækjum, enda styðjast slík ákvæði við núgildandi reglur á Álandseyjum, Möltu, Azoreyjum og víðar innan ESB.
  • Í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.
  • Tekið verði tillit til stöðu íslensks efnahagslífs við umbreytingu peninga- og gjaldeyrismála á Íslandi.
  • Ákvæði verði um varðstöðu um íslenska þjóðmenningu, þjóðtungu og þjóðhætti á Íslandi. Íslenska verði viðurkennt sem eitt hinna opinberu tungumála ESB.

 

 


mbl.is ESB-málið til Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Andri Skúlason

Borgarahreyfingin og Framsókn eru nokkuð samstíga í aðgerðum til bjargar heimilum landsins. Þar eru á ferðinni tillögur sem Samfylking og VG vilja helst ekki heyra um talað.

Ef þingið verður látið taka afstöðu til aðildarviðræðna þá hlýtur að meiga skoða samstöðu milli Borgarahreyfingar og Framsóknar um að stuðningur okkar sé vís gegn því að S og VG greiði götu tillagna okkar um bráðaaðgerðir til bjargar heimilum landsins.

Þar með er Samfó komin í klemmu með sitt helsta (eina) stefnumál og við á grænni grein ásamt heimilum landsins.

kv. Guðmundur Andri - Borgarahreyfingu

Guðmundur Andri Skúlason, 5.5.2009 kl. 08:38

2 identicon

Þetta er ekki ásættanleg leið er mín persónulega skoðun, Hallur.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 08:44

3 identicon

Nú spyr ég af fávísi, af hverju á að skilgreina íslenskan landbúnað sem "heimskautalandbúnað"?

Tómas Örn Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 09:16

4 Smámynd: Héðinn Björnsson

Það felur í sér vilja til að ganga í ESB að sækja um aðild. Ég á eftir að sjá meirihluta fyrir því á þingi.

Héðinn Björnsson, 5.5.2009 kl. 09:39

5 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Þjóðin á að fá að kjósa um hvort eigi að fara í aðildarviðræður en ekki alþingi sem vinnur eingöngu fyrir þá sem hafa hagsmuna að gæta í ESB og það er ekki almenningur sem hefur hagsmuni af ESB,almenningur er ansi stór partur af þjóðinni.Og allsekki treysti ég samfylkingunni fyrir þessum viðræðum ef af verður.

Marteinn Unnar Heiðarsson, 5.5.2009 kl. 09:40

6 identicon

Hvaða hræðilega mynd er þetta sem þú ert með af honum Steingrími Hermannssyni? Mér finnst hann virkilega eiga betra skilið af innvígðum framsóknarmanni.

Stefán Benediktsson (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 10:12

7 identicon

Ég Samfylkingarmaðurinn tek undir með tillögu Guðmundar Andra hér að ofan, við eigum að vinna út frá réttlætissjónarmiðum og það felst í þessum tillögum ákveðið réttlæti gagnvart lántakendum.

Valsól (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 10:21

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

"Nú spyr ég af fávísi, af hverju á að skilgreina íslenskan landbúnað sem "heimskautalandbúnað"?"

Það hefur verið nokkuð á reiki hvaða orð og hugtök menn nota en eg býst við að þarna sé átt við svipað kerfi og Finnar og Svíar fengu í gegn, þ.e. að þeir hafa heimild til styrkja landbúnað norðan 62° aukalega umram styrki frá ESB.

(Líklegt er að Ísland fengist einni mestallt skilgreint sem harðbýlissvæði (en það er sko annar flokkur, eftir því sem eg kemst næst.) og þar mega aðildarríki líka styrkja meira og einnig er aukastyrkur til slíkra svæða frá ESB)

Ómar Bjarki Kristjánsson, 5.5.2009 kl. 10:34

9 identicon

Hinar tólf stjörnur í fána ESB eru sagðar eiga tákna samhug meðal aðildarríkjanna. En mér hefur alltaf líkað betur sú skýring að þær standi fyrir hinar tólf þrautir Herkúlesar. Það lýsir eðli þessar samtaka betur. 

Þótt að Samfylkingin haf beitt sér að alefli í málinu þá þarf þetta mál að komast í þverpólitískan farveg Já og Nei fylkinga. Því í flokkspólitískum farvegi efast ég um að samningurinn ekki verða samþyktur á endanum. Því yrði brot á hefðinni fyrir almennu samráð. 

Í aðildarsamningunum mun rödd allra hagsmunaaðila þurfa að koma fram. Það er óskandi að samtök frumframleiðanda bíti odd af oflæti sínu og taki þátt í mótun aðildarmarkmiða, alveg eins og önnur starfsgreinasambönd hafa gert. 

Magnús Bjarnason (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 11:23

10 Smámynd: Elfur Logadóttir

Það er rétt Guðmundur Andri, tökum ákvörðunina um ESB í gíslingu einu sinni enn.

Það þjónar hagsmunum Íslendinga best.

Elfur Logadóttir, 5.5.2009 kl. 11:28

11 identicon

Já, auðvitað á að láta nýkjörið þing fjalla um málið. Það er lýðræðislegt og fullkomlega eðlilegt, nú þegar við höfum nýkjörið þing. Í því felst enginn ósigur fyrir VG; þeir hafa ávallt talað fyrir því að málið fái lýðræðislega málsmeðferð og að lokum fái þjóðin að greiða atkvæði. Nýkjörið Alþingi er auðvitað lýðræðisleg málsmeðferð og svo fær þjóðin að greiða atkvæði þegar samningur liggur fyrir. Þetta er skynsamasta leiðin, sem allir hljóta að geta sameinast um.

En þú, Hallur, þarft að taka formanninn þinn á beinið. Hann virðist ætla að klúðra málinu fyrirfram, setja það í gömlu hjólför flokkadrátta sem allt drepa, sbr. fráleit ummæli hans í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Fjölmargir Samfylkingarmenn hafa hvatt til þess að málið verði tekið úr hjólförum flokkanna og að sem flestir taki þátt í að móta samningsmarkmið, osfrv. Í því ljósi eru ummæli Sigmundar Davíðs alveg með ólíkindum. Er hann kannski að reyna að spilla fyrir þessu þjóðþrifamáli fyrirfram?

Evreka (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 13:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband