Nýtt húsnæðisbótakerfi frá grunni!

Bull og vitleysa er það nú að fara að tjasla upp á vaxtabótakerfið og húsaleigubótakerfið.

Í stöðunni eins og hún er nú á að sjálfsögðu að stokka núverandi húnsæðisbótakerfi upp og skapa nýtt, markvissara og betra húsnæðisbótakerfi sem byggir á jafnræði milli búsetuforma og taki mið af heildarstöðu fólks ekki skuldum og vaxtabyrði eingöngu.

Ég hef margoft bent á endurskipuleggja þurfi húsnæðisbótakerfið þannig að um verði að ræða eitt húsnæðisbótakerfi sem gerir ekki greinarmun á búsetuformum, það er húsnæðisbæturnar séu þær sömu hvort sem um er að ræða fjölskyldur sem búa í eigin húsnæði, í leiguhúsnæði eða búseturéttarhúsnæði.

Reyndar tekur flokksþing Framsóknarflokksins undir með mér eins og sjá má í ályktun flokksþings um húsnæðismál sem hljóðar svo: 

Markmið

Allir landsmenn skulu búa við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við hóflegar þarfir hvers og eins og hafa raunverulegt val um búsetuform.

Leiðir

• Íbúðalánasjóður gegni áfram hlutverki sínu sem kjölfestan í íbúðalánakerfi landsmanna.

• Íbúðalánasjóði verði heimilt að stofna dótturfélög til að ná markmiðum sínum og koma til móts við alþjóðlegar skuldbindingar.

• Íbúðalánasjóði verði gefið svigrúm til samvinnu við aðrar fjármálastofnanir um þróun íbúðalánamarkaðarins.

• Komið verði á fót nýju húsnæðisbótakerfi í stað núverandi kerfis vaxtabóta og húsaleigubóta.

• Sett verði á fót ný fjármögnunarleið fyrir ungt fólk sem byggi á frjálsum sparnaði og opinberu framlagi sem geti jafnt nýst til innborgunar við kaup á íbúð eða til kaupa á búseturétti.

• Staða samvinnufélaga á sviði húsnæðismála verði styrkt.

• Áhersla verði lögð á fjölgun lífshlaupsíbúða þar sem hönnun tekur mið af mismunandi þörfum fólks á mismunandi aldurstigi og meðal annars tryggt að unnt sé að athafna sig í hjólastól. Markmiðinu verði náð með efnahagslegum hvata.

Fyrstu skref

Gerðar verði breytingar á reglugerð um greiðsluerfiðleikaúrræði Íbúðalánasjóðs þar sem heimilað verði að ákveðið fast hlutfall heildartekna fjölskyldna og einstaklinga sem eru í greiðsluerfiðleikum renni til greiðslu íbúðalána, þó þannig að jafnræðis sé gætt. Þetta úrræði nái jafnframt til annarra lánastofnana.

Undirbúið verði frumvarp um breytingar á lögum um húsnæðismál sem tryggi stöðu Íbúðalánasjóðs til frambúðar og heimild verði veitt til stofnunar dótturfélaga sjóðsins í hlutafélagaformi og samstarfs við aðrar fjármálastofnanir.

Lagt verði fram frumvarp til laga um frjálsan sparnað ungs fólks og mótframlags ríkisins vegna kaupa á húsnæði, búseturétti eða framlags í byggingarsamvinnufélag.

Settur verði á fót hópur sem fer yfir gildandi lög um húsnæðissamvinnufélög og gildandi lög um byggingarsamvinnufélög og vinni frumvarp að breytingum á núverandi lögum ef ástæða er talin til.

 

 
mbl.is Hækki skatta og tvöfaldi vaxtabætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Á aftur að hvetja til skuldaaukningar?

6.3.2009 | 10:44

Ég bendi á nokkrar greinar á síðu minni (mixa.blog.is) máli mínu til stuðnings um að vaxtabætur er einhver versta hugmynd sem fram hefur komið.  Vaxtabætur hvetja til skuldssetningar: Er það sem við virkilega viljum, aftur?  Ég þekki dæmi um það að fólk hefur aukið skuldir sínar því að aðeins þannig fékk það vaxtabætur.

Það þarf að huga fyrst og fremst að þeim sem virkilega þurfa að aðstoð að halda.  Vaxtabætur huga fyrst og fremst að þeim sem að sökkva sér í skuldir.

Hallur Magnússon tekur þetta orðar þetta ágætlega á síðu sinni - http://hallurmagg.blog.is/blog/hallurmagg/entry/821202/ - aftur á móti var Framsóknarflokkurinn fremstur í flokki með 90% lánin, sem er stór ástæða þess vanda sem margir eru sokknir í.  Það kosningaloforð hlýtur að vera meðal þeirra allra dýrustu í sögu Íslands.

Kveðja, Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa, 6.3.2009 kl. 10:47

2 Smámynd: Hallur Magnússon

Már!

Takk fyrir þetta.

Ég er hins vegar ósammála um 90% lánin.  Áhrif þeirra eru stórlega ofmetin - enda eftiráskýring bankana að kenna þeim um.

EKki gleyma því að forsendur 90% lánanna ( 90% af hóflegri íbúð) voru að innleiðingin yrði í takt við efnahagslífið. Þess vegna stóð aldrei til að koma þeim inn á markaðinn árin 2004 og 2005. Þau áttu að koma vorið 2007 - þegar þensla vegna framkvæmda í Hvalfirði og fyrir austan rénaði - og gætu þannig komið inn til þess að trygga mjúka lendingu hagkerfisins.

Þá var jafn ljóst að það yrði ekki farið í 90% lánin ef efnahagsástand leyfði það ekki.

Það var hins vegar innkoma bankana með allt að 100% lán sem setti allt á hvolf. Sú innkoma var ekki út af 90% lánunum - heldur voru bankarnir fullir af peningum og erlent lánsfé ódýrt.

Þegar bankarnir voru búinir að dæla inn 200 milljörðum og voru með óheftar lánsfjárhæðir - þá skiptu 90% lán ÍLS engu máli til eða frá. Það var ástæðan fyrir því að skrefið var tekið strax í 90% í desember 2004 þegar lagaheimild fékkst - í stað þess að bíða til ársins 2007. Bankarnir komu nnn í ágúst 2004.

Ekki gleyma því að heildarútlánastabbi ÍLS minnkaði um rúma 100 milljarðar - sem ekki getur verið þensluhvetjandi!

Hallur Magnússon, 6.3.2009 kl. 11:06

3 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Nei nei nei nei nei!

Ekki allar þessar bætur!  Sko, það mætti leggja niður allar þessar húsnæðisbætur, vaxtabætur, bótabætur og hvað þetta er nú allt kallað, en lækka þess í stað skattana (leggja niður eitthvað af þessum jaðarsköttum til dæmis) og leggja þá flatt á alla.  En í guðanna bænum haldið söluskattinum - en bara einum; 15% flatt á allt ætti að vera nóg.

Þannig hefðu allir allt í einu miklu meiri pening á milli handanna og þyrftu ekki allan þenna skóg af bótum.  (Ríkið hefði líka meira, þar sem skrifstofukostnaður myndi lækka um ótal milljarða ofaná sparnaðinn af að þurfa ekki lengur að greiða út allar þessar bætur.)

Ásgrímur Hartmannsson, 6.3.2009 kl. 14:15

4 Smámynd: Már Wolfgang Mixa

Sæll Hallur,

ekki alveg sammála þér, tel þetta ekki vera svona einfalt, en get þó tekið undir nokkur atriði.

Aðkoma bankanna hafði hrikalegar afleiðingar en ÍLS hafði slegið tóninn.  Hvort er hænan og hvort er eggið? 

Aðalmálið er að við erum sammála um galla vaxtabóta.

Már Wolfgang Mixa, 6.3.2009 kl. 14:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband