"Stjórnmálin hafa brugðist. Traust er af skornum skammti."

"Íslenska þjóðin stendur frammi fyrir miklum erfiðleikum í efnahagsmálum.  Fall krónunnar, hrun bankanna og gríðarleg skuldsetning vegur að undirstöðum þjóðarbúsins. Staða atvinnulífsins og þorra heimila í landinu er ógnvænleg.

Stjórnmálin hafa brugðist. Traust er af skornum skammti.

Við þessar aðstæður er brýnt að brugðist verði við með ábyrgum, en jafnframt afgerandi hætti. Þörf er á metnaðarfullri aðgerðaáætlun þar sem tekið er á bráðavanda heimilanna og atvinnulífsins, jafnframt því sem slík aðgerðaáætlun verður að varða leið til lengri tíma.

Núverandi ríkisstjórn hefur enn sem komið er brugðist í þeim efnum. Hún er ráðalaus og ósamstíga. Alþingi er vanmáttugt. Ægivald framkvæmdavaldsins yfir löggjafanum hefur opinberast sem aldrei fyrr. Breytinga er þörf.

Því hefur Framsóknarflokkurinn ályktað að samhliða næstu alþingiskosningum verði stjórnarskrá Íslands breytt þannig að kosið verði til stjórnlagaþings í kjölfar þeirra.

Á undanförnum árum virtist hér ríkja mikið umbreytinga- og framfaraskeið þar sem kraftar óbeislaðs athafnafrelsis nutu sín til hins ýtrasta.
Á þeim tíma brást Framsóknarflokkurinn í því hlutverki að tryggja að laga- og reglugerðaumhverfi, ásamt uppbyggingu nauðsynlegs aðhalds og eftirlits, m.a. með sterkum og faglegum eftirlitsstofnunum, samræmdist vexti viðskiptalífsins. Frelsi fylgir ábyrgð, en ábyrgðinni var ábótavant. Úr því verður að bæta.

Ábyrgð núverandi ríkisstjórnar á því ástandi sem hér ríkir í dag er afgerandi. Allt frá upphafi daufheyrðist hún við þeim viðvörunum sem bárust. Eftir því sem hættan jókst, varð afneitun vandans meiri. Öll rök hníga að því að á fyrstu dögum bankahrunsins hafi ákvarðanir og aðgerðir ríkisstjórnarinnar einkennst af röðum mistaka. Mistök sem eru að reynast þjóðinni dýrkeyptari en nokkur gat séð fyrir. Að sama skapi brást Seðlabanki Íslands í sínum aðgerðum og ráðgjöf um viðbrögð við þeirri lausafjárkreppu á alþjóðamörkuðum sem hófst sumarið 2007, og þá sérstaklega síðastliðið haust þegar endurfjármögnunarvandi íslensku bankanna varð ljós. Seðlabanki Íslands verður að njóta óumdeilanlegs trausts og því verður að breyta lagaramma, formgerð og stýringu bankans, sérstaklega peninga- og vaxtastefnu hans..."

Textinn hér að ofan er upphaf stjórnmálaályktunar flokksþings Framsóknarflokksins.

Þessi greining á ástandinu er rétt. Bendi á að þarna viðurkennir Framsóknarflokkurinn sinn hlut ábyrgðarinnar vegna efnahagsástandsins og bankahrunsins.

Framsóknarmenn öxluðu ábyrgð og kusu sér algerlega nýja forystu - eins og ég hafði reyndar krafist strax í byrjun nóvember í blogginu Nýja forystu í Framsóknarflokkinn!

Nú er Framsókn nýrra tíma mætt til leiks og hefur boðið VG og vinstri grænum að verja bráðabirgðastjórn þeirra vantrausti,  á meðan alþingiskosningar verða undirbúnar.


Þetta er háð því að kosningar fari fram eigi seinna en 25. apríl næstkomandi og að strax verði ráðist í aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili í landinu og bæta rekstrarskilyrði íslensks atvinnulífs.

Í því felist meðal annars að mörkuð verði stefna í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar.

Jafnframt verði komið á stjórnlagaþingi sem semji nýja stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.

Þjóðin þarfnast Framsóknarflokksins í Framsókn nýrra tíma!


mbl.is ASÍ vill nýja ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta gæti orðið flott hjá ykkur Framsóknarmönnum.  Ef þið getið endurnýjað þingflokkinn losnað við nokkrar prímadonur og klíkutengla og skorið burt gamla flokkseigendafélagið sem liggur á flokknum eins og gríðarlegt æxli.  Með að losna við spillingartengslin og rotnu egginn í körfunni og komið með nákvæma endurreisnaráætlun þá spái ég gríðarlegum kosningasigri Framsóknarflokksins og nánast víst að næsti forsætisráðherra gæti verði Sigmundur.

Já meira segja ég myndi þá merkja x við B.  Ef Geiri smart  með dýralæknirinn, glæpamannin frá Vestmanneyjum og önnur flokksfífl og kanski Davíð Oddsson resirkuleraður mættur þar líka.  Ekki tala um VG sem hefur engar hugmyndir annað en að fara með betlistafinn til nágranna okkar sem er búið að prufa.  Eða þá Samfylkingin sem ég tel óhæfan til að sitja í stjórn vegna innbirðis ósætta.

Það sem þið þurfið að gera er að klippa niður megnið af þingflokknum og fá gott fólk og góða áætlun þá brosir þetta við ykkur. Finn Ingólfsson, Ólaf Ólafsson, Alfreð Þ, Björn Ingi og fleirri rotnum eplum eigið þið að kasta út.

Gunnr (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 10:19

2 identicon

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/01/22/framsokn_med_17_prosent_fylgi/
Fylgisaukning Framsóknarflokksins er rétt að byrja og spáðu í því ef þið endurnýjið þingflokkinn að mestu, Framsóknarflokkurinn á möguleika til að verða stærsti flokkur landsins ef þið haldið vel á spöðunum.  Samhenntur endurnýjaður og traustur flokkur kemur til með að fá gríðarlegt fylgi núna í dag.

Gunnr (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 10:33

3 Smámynd: Hallur Magnússon

Gunnr.

Ólafur Ólafsson er ekki í Framsóknarflokknum og hefur aldrei verið. Vildi bara haf það á hreinu

Hallur Magnússon, 22.1.2009 kl. 14:35

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Kæri Hallur, fortíð, saga og þátttaka framsóknar í einkavinavæðingunni, þátttakan í ríkisstjórn með sjálfstæðisflokki er ævarandi svartur blettur á flokknum í ljósi þess sem gerst hefur. Nýr formaður ásamt einhverri ályktun blekkir mig ekki. Til þess hefur flokkurinn of oft svikið hugsjónir sínar. Munandi að faðir formannsins sat beggja megin borð þegar Kögun var seld hringir æði mörgum bjöllum. En ég er soddan efasemdarmaður að það er ekki við mig talandi.

Hins vegar ef ég sæi þig sem formann í framtíðinni þekkjandi þig frá fyrri tíð þá kannski skipti ég um skoðun á framsókn.

Og takk fyrir að gerast bloggvinur. Mér er heiður af hverjum og einum.

kv, ari

Arinbjörn Kúld, 22.1.2009 kl. 16:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband