Ríkisstjórnin á að skipa sérstakan ráðherra Evrópumála án ráðuneytis til að halda úti aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það er hefð fyrir slíkum ad hoc ráðherrum á hinum Norðurlöndunum - td. í Danmörku.
Slíkt gæti orðið grunnurinn að breiðari samstöðu inn á Alþingi um aðildarviðræður - ekki hvað síst hjá þeim fjölmörgu þingmönnum Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Borgarahreyfingar sem vilja í hjarta sínu að gengið verði til aðildarviðræðna við Evrópusambandið - en treysta ekki alveg Samfylkingunni til að leiða slíkar aðildarviðræður og greiddu því atkvæði gegn tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarviðræður - í stað þess að sitja hjá eða greiða atkvæði með tillögu ríkisstjórnarinnar.
Það er til dæmis alveg ljóst að mótatkvæði Framsóknarþingmanna voru fyrst og fremst mótatkvæði vegna takmarkaðs traust á forystu Samfylkingar - en ekki gegn aðildarviðræðum við ESB - enda fyrirliggjandi skýr flokksályktun Framsóknar frá því í janúar sem kveður á um aðildarviðræður við ESB með skilyrðum sem eru komin inn í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem samþykkt hefur verið.
Það er kannske vert að minna á að sú samþykkt flokksþings var breyting frá stefnumótun þar síðasta flokksþings sem vildi fara hægar í sakirnar Það var ástæðan fyrir málamiðlunartillögu sem samþykkt var á miðstjórnarfundi fyrir rúmu ári síðan um tvöfalda atkvæðagreiðslu.
Þá mega Framsóknarmenn ekki gleyma að ástæðan fyrir því að flýta flokksþingi var sú að mikill meirihluti miðstjórnar vildi ganga beint til aðildarviðræðna - en til að það væri unnt þurfi að fá skýrt umboð frá nýju flokksþingi. Því var flokksþingi flýtt.
Á flokksþinginu var samþykkt skýr stefnubreyting sem fól í sér að ganga ætti til aðildarviðræðna við ESB með skilyrðum - og á því flokksþingi var kjörinn glæsilegur nýr formaður flokksins sem fékk það veganesti að framfylgja skýrri stefnu Framsóknarflokksins um aðildarviðræður við ESB með skilyrðum - sem reyndar ganga skemur en skilyrði í greinargerð með þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var á Alþingi um daginn.
Nýr formaður Framsóknarflokksins hefur reynt eftir megni að fylgja þeirri ályktun - en ákvað með hluta þingflokks Framsóknar að leggjast gegn þingsályktun ríkisstjórnarinnar - því hann og fleiri þingmenn treystu ekki Samfylkingunni - eðlilega - að klára verkið á sómasamlegan hátt. Hins vegar ákvað hluti þingflokks Framsóknar að halda sig alfarið við samþykkt flokksþings og samþykktu ályktun ríkisstjórnarinnar - væntanlega í þeirri von að Samfylkingin sæi sóma sinn í því að fylgja málum eftir af ábyrgð og kvika ekki frá skilyrðum í greinargerð með þingsályktunartillögunni.
Sambærilega afstöðu má sjá hjá hluta þingmanna Sjálfstæðisflokks sem ákvað samt að greiða atkvæði gegn ESB ályktuninni.
Því er ljóst að farsæl niðurstaða aðildarviðræðna við Evrópusambandið felst í því hvernig Samfylkingin heldur á málum. Þar hefur hún val. Besti kosturinn er að skipa sérstakan ráðherra Evrópumála sem stýrir aðildarviðræðum við ESB - og ekkert annað.
Besti kosturinn í þá stöðu er Framsóknarmaðurinn Jón Sigurðsson fyrrum seðlabankastjóri og ráðherra sem hefur yfirburðaþekkingu á Evrópumálum og nýtur traust þvert á flokkslínur. Um Jón ætti að myndast breið samstaða. 95% Framsóknarmanna treysta Jóni - mikill meirihluti Sjálfstæðismanna, lunginn úr Samfylkingunni - og stór hluti VG. Því allir vita að Jón setur hvorki sig eða flokkshagsmuni Framsóknarflokksins á oddinn - heldur hagsmuni íslensku þjóðarinnar.
Núverandi ríkisstjórn lagði upp með að vera norræn velferðastjórn. Nú er tækifærið til að sanna það með því að skipa sérstakan Evrópuráðherra til að leiða viðræður við ESB - í góðu og breiðu samráði við Alþingi.