Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Sannleikurinn um keypta skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ!

Sumarið 2003 átti ég fund með þáverandi forstöðumanni Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Erindið var að fá hagfræðistofnun til þess að leggja faglegt hagfræðilegt mat á fyrirliggjandi hugmyndir um innleiðingu 90% lána Íbúðalánasjóðs.

Forstöðumaðurinn varð því miður að segja sig frá verkefninu þar sem "Samtök banka og fjármálafyrirtækja er búin að kaupa okkur til að vinna greinargerð um málið" eins og það var orðað.

Forstöðumaðurinn sagðist þó geta sagt að þessar hugmyndir væru jákvæðar, ef tímasetningin væri önnur og að þær tækju aðeins lengri tíma.

Forstöðumaðurinn vann síðan greinagerð þá sem Samtök atvinnulífsins  er að vitna til. Forstöðumaðurinn leitaði ekki eftir neinum upplýsingum um fyrirliggjandi forsendur 90% lánanna, heldur gaf sér forsendur sem fram höfðu komið í kosningabaráttunni.

Þótt ljóst var að forsendur fyrir greinargerð forstöðumanns Hagfræðistofnunar HÍ væru rangar - og þar af leiðir niðurstöðurnar - þá var tekið mark á þeim aðvörunarorðum sem fram komu - enda sömu aðvörunarorð komin frá Seðlabanka Íslands.

Vegna þessa var ákveðið að hægja á innleiðingu 90% lánanna og fresta þeim fram á vorið 2007 - þegar áhrif framkvæmda vegna stóriðju hætti að gæta.

Ástæðan var einföld. Stjórnvöld voru ekki reiðubúin að hætta jafnvægi í efnahagsmálum vegna þessa - enda var alltaf sá fyrirvari að innleiðingin tæki mið af efnahagsástandi - þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi reyndar ekki viljað hætta við þensluhvetjandi skattalækkanir sínar.

En staðan breyttist í ágúst 2004 - þegar bankarnir komu af miklum krafti inn á íbúðalánamarkaðinn með því að veita ótakmörkuð lán - allt að 100% - og á vöxtum sem voru helmingi lægri en þeir höfðu fram að því boðið.  Hundruð milljarða króna streymdu frá bönkunum inn á íbúðalánamarkaðinn - þannig að það hafði ekkert upp á sig að fresta innleiðingu 90% lánanna til ársins 2007. Bankarnir voru hvort eð er búnir að rústa jafnvæginu í efnahagsmálunum.

Það er því aumkunarvert þegar Samtök atvinnulífsins - sem væntanlega leggja fram þessa greinargerð í stað samráðsvettvangs bankanna sem er smá beyglaður þessa daganna þar sem samráð þeirra hefur verið dregið fram í dagsljósið - skuli vísa í þessa greinargerð - og enn einu sinni halda fram að atburðarrásin hafi verið öðruvísi en hún raunverulega var.

Ég bjóst við stórmannalegri framkomu af Þór Sigfússyni! Það hefur hingað til ekki verið hans stíll að leggja blessun sína yfir ófagmannleg vinnubrögð - hvað þá rangfærslur sem oft er búið að hrekja.

En svo bregðast krosstré sem önnur!

Lesendum til upplýsingar læt ég fylgja hlekk inn á blogg þar sem hin raunverulega atburðarrás er rakin.

Enn bullar prófessor Þórólfur - gegn betri vitund!

Það hefur enginn treyst sér til að rengja þá atburðarrás - ekki einungis forsvarsmenn samráðsvettvangs bankanna - Samtök fjármálafyrirtækja - sem áður bar nafnið Samtök banka og fjármálafyrirtækja. Enda voða erfitt að rengja raunveruleikann!

 


mbl.is Stjórnvöld breyti aðkomu sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir í neyðarástand á sjúkrahúsunum!

Það stefnir í neyðarástand á sjúkrahúsunum. Ljósmæður og hjúkrunarfræðingar munu ekki sætta sig við smánartilboð samninganefndar ríkisins. Yfirvinnubann hjúkrunarfræðinga í burðarliðnum. Ljósmæður búnar að fá nóg og munu væntanlega hætta að starfa sem slíkar verði kjör þeirra ekki leiðrétt.

Hvernig ætli gangi í viðræðum LSH við skurðhjúkrunarfræðinga?

Guðlaugur Þór og Árni á Kirkjuhvoli verða að setjast niður strax og finna ásættanlegar leiðir til að koma til móts við þessar lífsnauðsynlegu kvennastéttir. Þeir geta umbunað þeim sérstaklega á grunni yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að leiðrétta skuli kjör kvennastétta. Þessar stéttir eru nú þegar búnar að taka á sig kjaraskerðingar miðað við aðrar stéttir með sömu háskólamenntun. Laun þeirra hafa verið óeðlilega lág undanfarin misseri - á sama tíma og launaskrið hefur bætta kjörin hjá flestum öðrum.

Ljósmæður og hjúkrunarfræðingar munu því ekki sætta sig við kjaraskerðingasamninga eins og BHM. Þetta er nefnilega ekki einungis barátta um laun - heldur sjálfsvirðingu.

Sjá einnig eldri pistil minn Gefandi ljósmóðurstarf þýðir ekki að gefa skuli vinnu sína!

 PS:

BHM styður ljósmæður, sbr. eftirfarandi frétt af mbl.is

"Bandalag háskólamanna lýsir yfir stuðningi við kröfur Ljósmæðrafélags Íslands í kjaradeilu þeirra við samninganefnd ríkisins. Ljósmæður, sem eiga að baki 6 ára háskólanám, standa höllum fæti gagnvart öðrum ríkisstarfsmönnum með sambærilega menntun og gera kröfu um leiðréttingu á því.

Í tilkynningu frá BHM kemur fram að eitt meginmarkmiða BHM er að menntun sé metin að verðleikum til launa.  Kröfur ljósmæðra snúast um sanngjarna launaröðun miðað við menntun. "


mbl.is Mikil vonbrigði meðal ljósmæðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland Evrópumeistarar eftir 16 ár?

Ísland gæti alveg orðið Evrópumeistarar eftir 16 ár ef strákarnir sem ég sá spila á Skeljungsmótinu í Vestmannaeyjum undanfarna daga halda áfram á sömu braut! Snilldarknattspyrna!

Það var frábært að sjá tvö úrvalslið drengjanna spila á föstudagseftirmiðdag. Taktarnir miklu betri en maður sér í íslensku úrvalsdeildinni. Ótrúlegt hvað þroskaðir fótboltamenn þessir 10 ára peyjar eru orðnir.

Þá var ekki síðri úrslitaleikur FH og HK á laugardag. Frábær knattspyrna borin upp af frábærum liðsheildum þar sem FH vann 2-1. Tækni og samspil þessara drengja til fyrirmyndar.

Það er greinilegt að uppbygging á gervigrasvöllum og knattspyrnuhúsum undanfarinna ára er farin að skila sér. Mitt lið - Víkingur - náði að komast í keppni efstu 8 liða - en urðu að lúta þar í gras - náðu einungis einu jafntefli - en áttu þó möguleika á að sigra annan leik. Tveir leikir töpuðust illa - á móti FH og Stjörnunni.

Þar fannst mér greinilega koma í ljós að Víkingar - sem enn hafa ekki fengið gervigrasvöll - voru ekki komnir eins langt í spili þar sem völlurinn var allur nýttur. Voru að spila allt of mikinn "parketpolta". Gervigrasliðin vissu hins vegar upp á hár hvernig nýta skyldi völlinn!

En frábær skemmtun í frábæru veðri í frábæru umhverfi í Vestmannaeyjum!

... og þá er það bara að komast í úrslit EM - það styttist í það þegar þessir guttar eldast og taka við landsliðinu!

 


mbl.is Spánn Evrópumeistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankarnir eru að fella gengi krónunar - en bara óviljandi!

Bankarnir eru að fella gengi íslensku krónunnar með aðgerðum sínum. En bara óviljandi!

Þannig kynda þeir undir verðbólguna. En bara óviljandi!

Öðruvísi er ekki unnt að túlka orð Lárusar Welding forstjóra Glitnis í 24 stundum í morgun þegar hann segir: „Bankarnir eru ekki viljandi að fella gengi krónunnar..."

Forstjórinn bendir einnig á að það eru ekki einungis íslenskir bankar sem eru að veikja krónuna - væntanlega líka óviljandi:

„400 milljarðar af krónubréfum eru ennþá í útgáfu, þannig að það er ennþá töluvert af fjárfestum sem er að versla með krónuna. Að sama skapi er mjög mikið flutt inn og út úr landinu, þannig að það eru alls ekki bara íslensku bankarnir sem versla með íslensku krónuna.“

Forstjórinn skýrir líka afhverju það er svo auðvelt að veikja krónuna - óviljandi:

„Íslenska krónan er líka minnsti gjaldmiðill í heiminum, þannig að á gengi hennar eru miklar sveiflur sem erfitt er að útskýra dag frá degi“

Þarna hittir forstjórinn naglan á höfuðið. Krónan er of lítil í nútíma, alþjóðlegu umhverfi.


mbl.is Verðbólga mælist 12,7%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Droplaugastaðir á leið í Heilsuverndarstöð Jórunnar?

Það kom flestum í opna skjöldu að það ætti að auglýsa eftir samstarfsaðiljum um rekstur Droplaugastaða. Væntanlega borgarstjóranum líka sem mér er sagt að hafi komið af fjöllum - og stoppað afgreiðslu málsins í dag!

En ætli það hafi komið vinum Jórunnar Frímannsdóttur á Heilsuverndarstöðinni jafn mikið á óvart? 

Eru þeir ekki örugglega hæfari en allir aðrir að taka við þessu verkefni þótt tilboð þeirra verði hærra en annarra?

Tekur það því nokkuð fyrir Grund og DAS að leita eftir samstarfi frekar en það tók því fyrir SÁÁ - gersamlega óhæfa aðila miðað við niðurstöðu borgarendurskoðunnar og Jórunnar - að bjóða í rekstur á íbúðum fyrir langt leidda fíkniefnaneytendur?

 


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn bullar prófessor Þórólfur - gegn betri vitund!

Enn bullar prófessor Þórólfur Matthíasson - gegn betri vitund - um ástæður þenslu á húsnæðismarkaði! Hann tekur markvisst og meðvitað þátt í sögufölsun - þrátt fyrir að ég hafi ítrekað leiðrétt rangfærslur hans - og ekki fengið haldbær rök hans fyrir bullinu!

Hvers á Hannes Hólmsteinn að gjalda þegar fjallað er um óábyrg vinnubrögð í Háskólanum!

Í 24 stundum í dag gefur Þórólfur í skyn að óheft innkoma banka íbúðalánamarkað með ódýru erlendu lánsfé í ágúst 2004 hafi orðið vegna hækkunar lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs sem varð ekki fyrr en 5 mánuðum síðar!!!!!!!

Þórólfur segir:

 "Þessari atburðarrás var hrundið af stað með hækkun veðhlutfalls Íbúðalánasjóðs í 90% af brunabótamati á miklum þenslutímum í hagkerfinu"

Þetta er alrangt.

Ég læt hér fylgja fyrir Þórólf - og aðra sem haldnir eru sömu þráhyggju og ranghugmyndum - bút úr grein minni í Herðubreið - þar sem farið er yfir hina raunverulegu atburðarrás:

"Innbyrðis samkeppni bankanna var samt afar hörð, enda voru bankar og sparisjóðir farnir að lána allt að 100% lán án hámarksfjárhæðar mánuðum áður en 90% lán Íbúðalánsjóðs til kaupa á hóflegri íbúð voru heimiluð með löggjöf frá Alþingi í desembermánuði 2004.

Áætlanir stjórnvalda höfðu miðað að því að innleiða 90% lán til kaupa á hóflegri íbúð áföngum í takt við efnahagsástand. Lokaskref innleiðingar yrði ekki fyrr en vorið 2007 þegar framkvæmdir vegna virkjanna og álvers á Austurlandi væri lokið – svo fremi sem efnahagsástand leyfði!
Þetta vissu forsvarsmenn bankanna.

En þar sem bankarnir höfðu þegar tekið að lána allt að 100%  lán og engin hámarkslán voru lengur í gildi voru engin efnahagsleg rök fyrir því að bíða með almenn 90% lán Íbúðalánasjóðs. Því tók sjóðurinn að lána slík lán í desembermánuði 2004."

 

"Íbúðalánasjóður og 90% lán hans ekki orsök þenslunnar!


Í þjóðmálaumræðu undanfarinna missera hefur Íbúðalánasjóður og tilkoma almennra 90% lána verið tiltekin sem orsakavaldur þenslu á fasteignamarkaði og í efnahagslífinu almennt. Því fer reyndar fjarri.


Eins og að framan greinir þá var ætlunin að innleiðingin yrði í takt við efnahagsástand og 90% markinu yrði náð vorið 2007 ef efnahagsástand leyfði. Sannleikurinn er hins vegar sá að vegna kröftugrar innkomu bankanna á íbúðalánamarkað og uppgreiðslna á lánum Íbúðalánasjóðs sem henni fylgdi þá lækkuðu heildarútlán Íbúðalánasjóðs úr 482 milljörðum 1. júlí 2004 í 377 milljarða þann 1.janúar 2006.


Slíkt getur varla verið þensluvaldandi.


Á sama tíma lánuðu bankarnir rúma 315 milljarða króna íbúðalánum sem að stórum hluta fór í neyslu og aðrar fjárfestingar en í húsnæði enda voru lán þeirra ekki einskorðuð við kaup eða byggingu íbúðarhúsnæðis eins og lán Íbúðalánasjóðs.


Í umræðu um meint þensluvaldandi 90% lán Íbúðalánasjóðs gleymist að stór hluti lána Íbúðalánasjóðs höfðu alla tíð verið 90% lán og að stöðugur samdráttur hefur verið á raunverulegum 90% lánum  Íbúðalánasjóðs allt frá miðju ári 2004!


Við stofnun Íbúðalánasjóðs árið 1999 kom til sögunnar nýr lánaflokkur til þeirra er voru undir skilgreindum tekju og eignamörkum svokölluð viðbótarlán. Þeim var hætt þegar Íbúðalánasjóður tók upp peningalán 1. júlí 2004.


Viðbótarlánin voru raunveruleg 90% lán þar sem brunabótamat skerti þau ekki. Um þriðjungur lánveitinga Íbúðalánasjóðs árið 2003 voru með viðbótarláni og voru því raunveruleg 90% lán.


Íbúðalánasjóður hóf hins vegar ekki að veita 90% lán að nýju fyrr en í lok árs 2004 þegar bankar höfðu lánað allt að 100% lán um nokkuð skeið. Lán Íbúðalánasjóðs takmarkast hins vegar af brunabótamati og lágri hámarkslánsfjárhæð og verða því sjaldnast 90% lán.


Á árinu 2005 voru innan við 20% lána Íbúðalánasjóðs raunveruleg 90% lán og á árinu 2007 var hlutfallið innan við 1% útlána Íbúðalánasjóðs.


Íbúðalán bankanna tóku hins vegar ekki skerðingum af brunabótamati á sama hátt og lán Íbúðalánasjóðs og voru því raunveruleg 90% lán auk þess sem ekki var um að ræða hámarkslánsfjárhæð.


Því eru ákveðin líkindi til þess að tímabær en óhófleg innkoma banka á íbúðalánamarkað hafi valdið þenslunni en ekki Íbúðalánasjóður og svokölluð 90% lán hans."

 


Er hugur Geirs Haarde á Íslandi?

Ég er ekki viss um að hugur Geirs Haarde forsætisráðherra sé alltaf á Íslandi frekar en hugur Seðlabanka Evrópu. Þótt Geir hafi hrokkið í gírinn í síðustu viku með ríkisstjórnina og gripið til jákvæðra aðgerða gagnvart Íbúðalánasjóði og fasteignamarkaðnum þá hefur doðinn og aðgerðarleysið undanfarna mánuði bent til þess að hugur hans hafi verið annars staðar.

Geir Haarde þykist ekki bera neina ábyrgð á efnahagsástandinu á Íslandi. Hugur hans er annars staðar. Hugur hans er erlendis því hann sér engar aðrar ástæður fyrir ástandinu á Íslandi en aðstæður erlendis.

Einu skiptin sem hugur Geirs virðist vera á Íslandi er þegar hann er í útlöndum að tjá sig um málefni Íslands - eins og núna í Lundúnum. Ekki einu sinni viss um að hugurinn sá á Íslandi heldur frekar í Lundúnum - þótt hann sé að tala um Ísland.

Nú er þetta hugarflug Geirs utan Íslands og langvarandi aðgerðarleysi hans á Íslandi farið að hafa áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins sem er að tapa því frumkvæði sem hann hefur haft í íslenskum stjórnmálum frá því fyrir síðari heimstyrjöldina.

Hugur Geirs er kannske í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ef Ísland kemst þar að væri það góð lausn fyrir Geir og Sjálfstæðisflokkinn - og líklega íslensku þjóðina. Geir gæti áfram haft hugan utan Íslands - en þá með góðri samvisku!


mbl.is Forsætisráðherra: Gengi krónunnar of lágt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru bankarnir að veikja krónuna fyrir árshlutauppgjör?

Endurtek spurningu mína frá því um daginn:  Eru bankarnir að veikja krónuna fyrir árshlutauppgjör?

Ég fékk ekki svör frá þeim þá. Kannske núna.

Ítreka enn og einu sinni að við eigum að taka upp færeysku krónuna!


mbl.is Gengi krónunnar í sögulegu lágmarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er löggan að fjölfalda músíkdiska ólöglega fyrir löggubílana sína?

Er löggan að fjölfalda músíkdiska ólöglega fyrir löggubílana sína?

Ætli löggan sé undanþegin lögum um höfundarrétt?

Eða munu löggurnar sem tóku fyrrum nemanda minn Magna Ásgeirsson í bakaríið fyrir að aka á rétt rúmlega 100 - væntanlega á fíflalega 2+1 kaflanum á leiðinni milli Hveragerðis og Reykjavíkur - já, munu þær greiða eðlilega sekt fyrir ólöglega fjölfaldaðan geisladisk?

Einhvern veginn efast ég um það - en Magni fær eflaust að punga út fyrir hraðasektinni hvað sem ólöglegum afritum löggunnar líður.

Um þetta er fjallað á músíkvefnum Monitor í dag!

Þar segir:

"Magni böstar lögguna

„Eru þið ekki að grínast með spilarann?“ spurði tónlistarmaðurinn Magni Ásgeirsson lögregluþjóna sem stöðvuðu hann á dögunum fyrir of hraðan akstur. Hann var á 109 kílómetrahraða á leiðinni milli Reykjavíkur og Hveragerðis.

Skrítinn svipur kom á lögregluþjónana þegar Magni benti þeim á að geisladiskurinn í spilara lögreglubílsins væri ólöglega fjölfaldaður. Hann segir frá atvikinu á bloggsíðu sinni:

„Svipurinn var reyndar helvíti fyndinn á strákunum,“ segir hann og gantast með að lögregluþjónarnir hafi sagt að diskurinn væri ekki í þeirra eigu. Magni spurði þá hver ætti lögin á disknum, en þá var lítið um svör.

Næst reyndi Magni það sem allir hefðu sjálfsagt reynt: „Ég gef ykkur séns ef þið gefið mér séns,“ sagði hann. Trikkið virkaði greinilega ekki þar sem hann endar færsluna á því að segjast vera 22.000 krónum fátækari."

Ef ég þekki Magna rétt þá mun hann borga sektina með bros á vör - og vista þessa sögu í hinum skemmtilega sagnabanka sem hann geymir - enda frá Borgarfirði eystra þar sem góð saga er gulli betri!

En væntanlega var Magni orðinn of seinn á leið í flug austur á Borgarfjörð í afmæli 60 ára afmælisveislu mömmu sinnar, hennar Jóu í Brekkubæ, þegar hann var tekinn. Magni sem er svo löghlýðinn og ekur aldrei yfir hámarkshraða!

Reyndar á mamma hans Magna - hún Bergrún Jóhanna Borgfjörð - ekki afmæli fyrr en 27. júní - en veislan var haldinn liðinn laugardag!

Fyrst ég er farinn að tala um Brekkubæ - þá er hægt að fá þaðan hágæða Austurlamb á góðu verði - beint úr haga í maga! Mæli með því Joyful


Lækkun ávöxtunarkröfu staðfestir styrk Íbúðalánasjóðs

Það að ávöxtunarkrafa í útboði íbúðabréfa Íbúðalánasjóðs lækkar á sama tíma og skuldatryggingaálag ríkisins hækkar staðfestir sjálfstæðan styrk Íbúðalánasjóðs og boðar gott ef stjórnvöld hyggjast fjármagna endurfjármögnun íbúðalána bankanna gegnum Íbúðalánasjóð með útgáfu íbúðabréfa.

Þá verð ég að nota tækifærið og hrósa fjármálaráðherranum Árna á Kirkjubóli í svari hans við gagnrýni súrra seðlabankastjóra við þeirri sjálfsögðu ákvörðun að hætta að takmarka útlán Íbúðalánasjóðs við brunabótamat.

Árni segir:

 „Það eru hins vegar aðrir hagsmunir í þessu samhengi sem vega þyngra. Það er gríðarlega mikilvægt að það sé alltaf einhver velta með þær íbúðir fasteignamarkaðarins sem þetta hefur sérstaklega áhrif á, sem eru minni og eldri íbúðir. Viðskipti þar eru kannski upphafið að keðjuviðskiptum yfir í aðrar stærðir.“

Þetta er kjarni málsins og lofar góðu að fjármálaráðuneytið er farið að átta sig. Við eigum þá kannske von á tímabili aðgerða hjá ríkisstjórninni í stað tímabils aðgerðarleysis sem leikið hefur okkur illa.


mbl.is Íbúðalánasjóður lækkar vexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband