Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Himneskt í Hlíðarfjalli!

Það var alveg himneskt í Hlíðarfjalli í dag! Færið frábært og nóg pláss í brekkunum. Ekki spillti veðrið fyrir - var frábært þegar leið á daginn - sól og blíða. Boðar gott fyrir morgundaginn. Vænti þess að það verði meiri mannfjöldi á morgun - en hvað um það - þetta gerist barasta ekki betra!

Ósanngjörn gagnrýni á umhverfisráðherra vegna álbræðslu í Helguvík!

Umhverfisráðherra átti engra kosta völ annað en að staðfesta umhverfismat fyrir álver í Helguvík! Það vita allir hver hennar persónulega skoðun er - hún hefði viljað koma í veg fyrir byggingu álvers - en lagalega getur hún það ekki. Því er gagnrýni á hana vegna þessa ósanngjörn!

Nú stefnir allt í álver á Bakka. Umhverfisráðherra og ríkistjórnin verða því að taka afstöðu til þess hvert losunarkvóti okkar á að fara. Helguvík eða Bakka - því núverandi kvóti er ekki nægur. Þá hefur ráðherrann sagt að Ísland eigi ekki sækjast eftir auknum losunarkvóta!

Ég hef ekki legið á þeirri skoðun minni að álver á Bakka eigi að vera í forgangi - frekar en álbræðsla í Helguvík. Bæði vegna byggðarlegra sjónarmiða - en ekki síður vegna þess að álverið á Bakka er að vinna hráefni - á meðan álbræðslan í Helguvík er einungis bræðsla - ekki úrvinnsla áls.

Sjá einnig á eldri bloggum mínum:

Losunarkvótan til álvers á Bakka eða í álbræðslu í Helguvík? 

og

Sópa Suðurnesjamenn nauðsynlegu álveri á Bakka út af borðinu? 


mbl.is VG harmar ákvörðun umhverfisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúmur helmingur telur Valgerði bezta utanríkisráðherrann!

Valgerður Sverrisdóttir er með yfirburðastöðu í huga fólks sem bezti utanríkisráðherra undanfarinna ára ef marka má niðurstöðu viðhorfaskönnunar á vefnum! Um hádegisbil höfðu 52,4% þeirra sem höfðu svarað spurningunni "Hvaða utanríkisráðherra hefur staðið sig bezt á undanförnum árum?" valið Valgerði!

Langt á eftir Valgerði kemur Ingibjörg Sórún sem horfði á eftir Makedoníumönnum ganga út á leiðtogafundi NATO. Ingibjörg Sólrún fékk 18,1% atkvæða. Næstur kemur Davíð Oddsson með 12%, þá Geir Haarde með 9,6%. Halldór Ásgrímsson rekur lestina með 8,4%.


mbl.is Makedóníumenn ganga út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða utanríkisráðherra hefur staðið sig bezt á undanförnum árum?

Ingibjörg Sólrún utanríkisráðherra sniðgekk utanríkismálanefnd Alþingis fyrir leiðtogafund NATO þangað sem hún flaug ásamt Geir Haarde fyrrum utanríkisráðherra með einkaþotu til Búkarest. Þau veittu völdum fjölmiðlum óbeinan ríkisstyrk með því að bjóða fulltrúum þeirra ókeypis far -  nokkrum dögum eftir að utanríkisráðherrann skipaði að óþörfu þrjá nýja sendiherra - þar af fyrrverandi ráðherra og samflokksmann forsætisráðherra Íslands.

Í ljósi þessa og í ljósi áður óvæginnar gagnrýni núverandi utanríkisráðherra á fyrirrennara sína fyrir meint bruðl og meinta sniðgöngu utanríkismálanefndar hef ég sett á bloggið mitt skoðanakönnun þar sem spurt er: 

"Hvaða utanríkisráðherra hefur staðið sig bezt á undanförnum árum?"

Endilega takið þátt!


mbl.is Evrópu ekki skipt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilbrigðisráðherra að skaða framtíð einkaframtaksins í heilbrigðismálum?

Er Guðlaugur heilbrigðisráðherra að skjóta niður hugmyndir um hagkvæma beitingu einkaframtaksins í heilbrigðisþjónustunni með því að greiða Grund 15% meira fyrir að reka deild á Landakoti en hann var reiðubúinn að leggja Landspítalanum til vegna sama reksturs?
Er Guðlaugur að fylgja trúarsetningu í stað heilbrigðrar skynsemi og gefa þannig andstæðingum sínum og þeim sem leggjast alfarið gegn beitingu einkaframtaksins - sem á rétt á sér samhliða opinbers reksturs í  heilbrigðiskerfinu - vopn í hendur gegn einkarekstursforminu?
Ég óttast það!
Þessi ákvörðun heilbrigðisráðherrans eru mér mikil vonbrigði - því ég vænti mikils af honum - einmitt til þess að beita markaðslögmálunum á jákvæðan hátt í heilbrigðiskerfinu! Ég var meira að segja reiðubúinn að fyrirgefa honum óþarfa töf á byggingu nýs sjúkrahúss - þótt sú töf hafi hugsanlega kostað þjóðina jafnvel milljarða vegna væntinga minna til hans!
"Ráðuneytið sagði að það væri tilbúið að greiða [væntanlega Landspítalanum, innskot HM] 18.260 krónur á dag fyrir sjúkrarúmið. Ákveðið var því næst að bjóða deildina út. Eitt tilboðanna hljóðaði upp á um 21.000 frá hjúkrunarheimilinu Grund en Grundarfólk er þekkt fyrir góðan og aðhaldssaman rekstur. Við veltum því fyrir okkur hvernig ráðuneytið hefði komist að niðurstöðu um þessa fjárhæð úr því Grund, sem ekki er þekkt fyrir bruðl, treystu sér ekki til að reka deildina."
Þetta upplýsir Magnús Pétursson fyrrum forstjóri LSH sem lét af störfum sem slíkur í gær - og veitti Fréttablaðinu hógvært viðtal sem birtist í dag. 
Hefði ekki verið nær að bæta við svona fimmtánhundruðkalli á hvert rúm í greiðslum til Landspítalans svo hann gæti haldið áfram að reka þessa deild í stað þess að bæta tæpum þrjúþúsund kalli í greiðslur til Grundar - bara vegna þess að Guðlaugur virðist vilja - hvað sem það kostar - að fá einkaaðila til að reka deildina!
Við skattgreiðendur megum reyndar prísa okkur sæla fyrir að hið vel rekna hjúkrunarheimili Grund var reiðubúið að taka reksturinn að sér fyrir 21 þúsund kall á rúm - því næsta tilboð var 25 þúsund kall á rúm eða fyrir tæplega 37% hærra gjald en Guðlaugur vildi greiða Landspítalanum!
Það sér hver heilvita maður að þetta er peningalega algjör vitleysa - þótt hugsanlega geta trúaðir frjálshyggjumenn fundið trúarsetningum sínum stað í þessari aðgerð.
Þess vegna óttast ég að Guðlaugur hafi skotið sig í fótinn - að óþörfu - og skynsamleg beiting einkaframtaksins í heilbrigðiskerfinu fyrir bí - því þrátt fyrir allt viljum við Íslendingar að skynsemin ráði - ekki stækar trúarsetningar.
Guðlaugur mun nefnilega ekki til langframa getað greitt hærra verð til einkaframtaksins en til vel rekinna opinberra heilbrigðisstofnana! Verðið verður ætíð að vera lægra en greiða þarf til opinbera rekstursins. Þannig er unnt að beita markaðslögmálunum á jákvæðan hátt.
Ef heilbrigðisráðherra ætlar að keyra málið á óhagkvæmum trúarsetningu mun þjóðin rísa gegn honum og einkaframtakinu - en ef hann beitir markaðslögmálunum á jákvæðan hátt - þá mun æskileg blanda opinbers reksturs og einkareksturs í heilbrigðiskerfinu blómstra - öllum til hagsbóta!

mbl.is Grund tekur að sér hjúkrunardeild á Landakoti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvætt hænuskref á húsnæðismarkaði!

Afnám stimpilgjalda hjá fyrstu kaupendum er jákvætt hænuskref fyrir ungt fólk á húsnæðismarkaði! Vandamálið er að þetta hænuskref dugar ungu fólki á höfuðborgarsvæðinu ekki til! Ungt fólk fær nefnilega ekki íbúðalán til að standa undir kaupum á fyrstu íbúð þar sem bankarnir eru hættir að lána og stjórnvöld halda Íbúðalánasjóði í gíslingu með því að takmarka lán sjóðsins við brunabótamat!

Auk þess lækkaði ríkisstjórnin hámarkslánshlutfall Íbúðalánasjóðs úr 90% í 80%. Ekki að það breytti miklu á höfuðborgarsvæðinu þar sem hamlandi áhrif brunabótamatsins verður nánast alltaf til þess að veðhlutfall Íbúðalánasjóðs nær aldrei 80% af kaupverði.

Ofan í kaupið er hámarkslán Íbúðalánasjóðs allt of lágt til þess að fjármagna eðlilega, hóflega íbúð fyrir ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu.

Tillögur að raunhæfum aðgerðum er að finna á öðru bloggi mínu: Íbúðalánasjóður til aðstoðar bönkum í sjálfskaparvíti og skuldsettum heimilum? 


mbl.is Stimpilgjöld af fyrstu íbúð burt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúðalánasjóður bjargvættur heimila og bankakerfis?

Stjórnvöld geta beitt Íbúðalánasjóði til að losa bankakerfið undan því sjálfskaparvíti sem bankarnir sköpuðu sér í fljótfærni sinni þegar þeir helltu sér inn á fasteignalánamarkaðinn með vanfjármögnuð íbúðalán til langs tíma haustið 2004 og á árinu 2005.

Hömluleysið í þó langþráðri innkomu bankanna varð reyndar til þess að setja efnahagslífið á hvolf í stað þess að styrkja traustan íbúðalánamarkað eins og við sem biðum eftir því að bankarnir gerðu sig meira gildandi á íbúðalánamarkaði á skynsamlegum forsendum höfðum vonast til.

Hömluleysið á sinn þátt í þeim erfiðleikum sem bankarnir eiga við að glíma í dag.

Hömluleysið á einnig sinn þátt í vanda fjölda fjölskyldna á Íslandi. Ekki síst þeim sem standa að óbreyttu frammi fyrir verulegum vaxtahækkunum við endurskoðun vaxta á fasteignalánum banka og sparisjóða haustið 2009 og vorið 2010.

 

Ég þarf vart að rifja upp það sem ég benti á í pistli mínum í gær að þessi vaxtahækkun bankanna gæti orðið dropinn sem fyllir mælin hjá mörgum fjölskyldum og sett fjölda heimila í þrot með skelfilegum afleiðingum fyrir  fjölda barna og foreldra! 

En eins og ég boðaði í inngangsorðum og  í fyrrgreindum pistli mínum, „Íbúðalánasjóður til aðstoðar bönkum í sjálfskaparvíti og skuldsettum heimilum?" þá geta stjórnvöld beitt Íbúðalánasjóði til að aðstoða bæði bankana og heimilin.

 

Aðferðafræðin er þessi:

 

1.       Stjórnvöld veita með lagasetningu Íbúðalánasjóði heimild til þess að fjármagna kaup á öllum fasteignaveðbréfum banka og sparisjóða sem eru innan við 80% veðrýmis af markaðsvirði fasteigna með sölu ríkistryggðra íbúðabréfa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.  Sérstaklega verði skoðað hvernig unnt verði að losa bankana undan þeim lánum sem eru yfir 80% af markaðsverði - mögulega með sértækri aðgerð ríkissjóðs.

 

  • Kjör Íbúðalánasjóðs sem sjálfbærs íbúðalánsjóðs í eigu ríkisins með ríkisábyrgð eru nánast þau sömu og ríkissjóðs.
  • Gæði fasteignatryggðra skuldabréfa með veðtryggingu innan 80% af markaðsverði eru talin afar trygg, ekki síst vegna nýrra BASEL II viðmiðunarreglna. Slík trygging að viðbættri ríkisábyrgð eykur enn á gæði þeirra trygginga sem erlendir fjárfestar sækjast eftir þannig að kjör gætu orðið enn betri en einföld kjör á ríkisskuldabréfa.
  •  Verðtrygging tryggir erlenda fjárfesta sem fjárfesta til langs tíma fyrir gengisbreytingum, þar sem um helmingur verðbreytinga á gjaldmiðli kemur fram í verðtryggingu á 12 - 18 mánuðum. Verðtrygging er því gjaldeyristrygging erlendra fjárfestad. Mikil eftirspurn er eftir verðtryggðum langtímaskuldabréfum í heiminum, ekki síst í því róti sem hefur verið á hlutabréfamörkuðum.
  • Allt þetta ætti að tryggja afar hagstæð vaxtakjör í sölu ríkistryggðra, vertryggðra langtímaskuldabréfa í ISK sem seld yrði á alþjóðamarkaði til fjámögnunar Íbúðalánasjóðs á kaupum fasteignatryggðum skuldabréfum bankanna.

 

2.       Íbúðalánasjóður bjóðist til þess að kaup fasteignaveðbréf bankanna með eðlilegum afföllum og greiði þeim í beinhörðum peningum sem sjóðurinn aflar með sölu ríkisstryggða íbúðabréfa á alþjóðamarkaði

  • Vegna hagkvæmrar fjármögnunar Íbúðalánasjóðs ætti sjóðurinn að geta boðið bönkunum kjör sem liggja nærri þeim kjörum sem fasteignalán eru á.
  •  Ólíkt því sem er hjá Íbúðalánasjóði þar sem bein tengsl er á milli fjármögnunarvaxta og útlánsvaxta og greiðslufæði innborgana og útborgana er nánast í fullkomnu jafnvægi,  þá eru lítil tengsl á milli fjármögnunarvaxta og útlánavaxta bankanna á þeim íbúðalánum sem þeir lánuðu til langs tíma á árunum 2004-2005.
  • Að auki þá fjármögnuðu bankarnir mjög löng, verðtryggð útlán sín að stórum hluta með lausafé og mjög stuttum óvertryggðum fjármögnunarbréfum. Lausaféð er uppurið og vextir fjármögnunarbréfanna eru orðnir langtum hærri en þeir vextir sem viðskiptavinir bankanna greiða af íbúðabréfum sínum.
  •  Til að koma í veg fyrir langvarandi tap á íbúðalánum höfðu sumir bankar og sparisjóðir það fyrirkomulag að endurskoða vexti á 5 ára fresti. Þeir þurfa því að hækka vexti verulega til að koma í veg fyrir langvarandi tap af lánunum.
  •  Fjármögnunarkostnaður vegna ALLRA útlána sinna er um þessar mundir óheyrilega hár. Afleiðingar þess er alvarlegur lausafjárskortur.
  • Það er hagur bankanna að losna úr hengingaról íbúðalánanna og fá í þess stað lausafé íslenskum krónum á bestu kjörum. Það er því þeirra hagur að selja Íbúðalánasjóði fasteignalán sín þótt bankarnir þurfi að selja þau með afföllum.

3.       Þar sem fjármögnunarkostnaður Íbúðalánasjóðs með framangreindri aðferð er langtum lægri en fjármögnunarkostnaður bankanna, þá þarf ekki að hækka útlánsvexti lána með 5 ára endurskoðunarákvæði á sama hátt og bankarnir þurfa að gera að óbreyttu, þá eru minni líkur á að íslenskar fjölskyldur lendi í gjaldþroti - ef bankarnir selja!

 

4.       Bankarnir fá í hendur fé sem ekki lýtur lögmálum skuldatryggingaálags - sem er allt of hátt um þessar mundir - auk þess sem aðgerðin myndi væntanlega snarlega lækka það illræmda álag. 

 

5.       Með þeim óbeina stuðningi sem stjórnvöld geta veitt á þennan hátt gegnum Íbúðalánasjóð er umheiminum gert ljóst að íslensku bankarnir eiga sér öflugan bakhjarl sem sem ekki lætur knésetja íslenska banka og íslenskt efnahagslíf með óvinveittum árásum á fjármálamarkaði.

 

Í bloggpistli mínum á morgun mun ég fjalla um það hvernig unnt er að ná langtímajafnvægi á íbúðalánamarkaði og tryggja eðlilega verkaskiptingu sjálfbærs, opinbers íbúðalánasjóðs sem hefur það að markmiði að tryggja með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálu og eðlilegra íbúðalána bankakerfisins sem geti tryggt flestum viðskiptavinum sínum íbúðalán áeðlilegum kjörum án þess að setja efnahagslífið á hvolf.


mbl.is Vildi gera Ísland gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband