Íbúðalánasjóður bjargvættur heimila og bankakerfis?

Stjórnvöld geta beitt Íbúðalánasjóði til að losa bankakerfið undan því sjálfskaparvíti sem bankarnir sköpuðu sér í fljótfærni sinni þegar þeir helltu sér inn á fasteignalánamarkaðinn með vanfjármögnuð íbúðalán til langs tíma haustið 2004 og á árinu 2005.

Hömluleysið í þó langþráðri innkomu bankanna varð reyndar til þess að setja efnahagslífið á hvolf í stað þess að styrkja traustan íbúðalánamarkað eins og við sem biðum eftir því að bankarnir gerðu sig meira gildandi á íbúðalánamarkaði á skynsamlegum forsendum höfðum vonast til.

Hömluleysið á sinn þátt í þeim erfiðleikum sem bankarnir eiga við að glíma í dag.

Hömluleysið á einnig sinn þátt í vanda fjölda fjölskyldna á Íslandi. Ekki síst þeim sem standa að óbreyttu frammi fyrir verulegum vaxtahækkunum við endurskoðun vaxta á fasteignalánum banka og sparisjóða haustið 2009 og vorið 2010.

 

Ég þarf vart að rifja upp það sem ég benti á í pistli mínum í gær að þessi vaxtahækkun bankanna gæti orðið dropinn sem fyllir mælin hjá mörgum fjölskyldum og sett fjölda heimila í þrot með skelfilegum afleiðingum fyrir  fjölda barna og foreldra! 

En eins og ég boðaði í inngangsorðum og  í fyrrgreindum pistli mínum, „Íbúðalánasjóður til aðstoðar bönkum í sjálfskaparvíti og skuldsettum heimilum?" þá geta stjórnvöld beitt Íbúðalánasjóði til að aðstoða bæði bankana og heimilin.

 

Aðferðafræðin er þessi:

 

1.       Stjórnvöld veita með lagasetningu Íbúðalánasjóði heimild til þess að fjármagna kaup á öllum fasteignaveðbréfum banka og sparisjóða sem eru innan við 80% veðrýmis af markaðsvirði fasteigna með sölu ríkistryggðra íbúðabréfa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.  Sérstaklega verði skoðað hvernig unnt verði að losa bankana undan þeim lánum sem eru yfir 80% af markaðsverði - mögulega með sértækri aðgerð ríkissjóðs.

 

  • Kjör Íbúðalánasjóðs sem sjálfbærs íbúðalánsjóðs í eigu ríkisins með ríkisábyrgð eru nánast þau sömu og ríkissjóðs.
  • Gæði fasteignatryggðra skuldabréfa með veðtryggingu innan 80% af markaðsverði eru talin afar trygg, ekki síst vegna nýrra BASEL II viðmiðunarreglna. Slík trygging að viðbættri ríkisábyrgð eykur enn á gæði þeirra trygginga sem erlendir fjárfestar sækjast eftir þannig að kjör gætu orðið enn betri en einföld kjör á ríkisskuldabréfa.
  •  Verðtrygging tryggir erlenda fjárfesta sem fjárfesta til langs tíma fyrir gengisbreytingum, þar sem um helmingur verðbreytinga á gjaldmiðli kemur fram í verðtryggingu á 12 - 18 mánuðum. Verðtrygging er því gjaldeyristrygging erlendra fjárfestad. Mikil eftirspurn er eftir verðtryggðum langtímaskuldabréfum í heiminum, ekki síst í því róti sem hefur verið á hlutabréfamörkuðum.
  • Allt þetta ætti að tryggja afar hagstæð vaxtakjör í sölu ríkistryggðra, vertryggðra langtímaskuldabréfa í ISK sem seld yrði á alþjóðamarkaði til fjámögnunar Íbúðalánasjóðs á kaupum fasteignatryggðum skuldabréfum bankanna.

 

2.       Íbúðalánasjóður bjóðist til þess að kaup fasteignaveðbréf bankanna með eðlilegum afföllum og greiði þeim í beinhörðum peningum sem sjóðurinn aflar með sölu ríkisstryggða íbúðabréfa á alþjóðamarkaði

  • Vegna hagkvæmrar fjármögnunar Íbúðalánasjóðs ætti sjóðurinn að geta boðið bönkunum kjör sem liggja nærri þeim kjörum sem fasteignalán eru á.
  •  Ólíkt því sem er hjá Íbúðalánasjóði þar sem bein tengsl er á milli fjármögnunarvaxta og útlánsvaxta og greiðslufæði innborgana og útborgana er nánast í fullkomnu jafnvægi,  þá eru lítil tengsl á milli fjármögnunarvaxta og útlánavaxta bankanna á þeim íbúðalánum sem þeir lánuðu til langs tíma á árunum 2004-2005.
  • Að auki þá fjármögnuðu bankarnir mjög löng, verðtryggð útlán sín að stórum hluta með lausafé og mjög stuttum óvertryggðum fjármögnunarbréfum. Lausaféð er uppurið og vextir fjármögnunarbréfanna eru orðnir langtum hærri en þeir vextir sem viðskiptavinir bankanna greiða af íbúðabréfum sínum.
  •  Til að koma í veg fyrir langvarandi tap á íbúðalánum höfðu sumir bankar og sparisjóðir það fyrirkomulag að endurskoða vexti á 5 ára fresti. Þeir þurfa því að hækka vexti verulega til að koma í veg fyrir langvarandi tap af lánunum.
  •  Fjármögnunarkostnaður vegna ALLRA útlána sinna er um þessar mundir óheyrilega hár. Afleiðingar þess er alvarlegur lausafjárskortur.
  • Það er hagur bankanna að losna úr hengingaról íbúðalánanna og fá í þess stað lausafé íslenskum krónum á bestu kjörum. Það er því þeirra hagur að selja Íbúðalánasjóði fasteignalán sín þótt bankarnir þurfi að selja þau með afföllum.

3.       Þar sem fjármögnunarkostnaður Íbúðalánasjóðs með framangreindri aðferð er langtum lægri en fjármögnunarkostnaður bankanna, þá þarf ekki að hækka útlánsvexti lána með 5 ára endurskoðunarákvæði á sama hátt og bankarnir þurfa að gera að óbreyttu, þá eru minni líkur á að íslenskar fjölskyldur lendi í gjaldþroti - ef bankarnir selja!

 

4.       Bankarnir fá í hendur fé sem ekki lýtur lögmálum skuldatryggingaálags - sem er allt of hátt um þessar mundir - auk þess sem aðgerðin myndi væntanlega snarlega lækka það illræmda álag. 

 

5.       Með þeim óbeina stuðningi sem stjórnvöld geta veitt á þennan hátt gegnum Íbúðalánasjóð er umheiminum gert ljóst að íslensku bankarnir eiga sér öflugan bakhjarl sem sem ekki lætur knésetja íslenska banka og íslenskt efnahagslíf með óvinveittum árásum á fjármálamarkaði.

 

Í bloggpistli mínum á morgun mun ég fjalla um það hvernig unnt er að ná langtímajafnvægi á íbúðalánamarkaði og tryggja eðlilega verkaskiptingu sjálfbærs, opinbers íbúðalánasjóðs sem hefur það að markmiði að tryggja með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálu og eðlilegra íbúðalána bankakerfisins sem geti tryggt flestum viðskiptavinum sínum íbúðalán áeðlilegum kjörum án þess að setja efnahagslífið á hvolf.


mbl.is Vildi gera Ísland gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Verðskuldar athygli og efnislega afstöðu frá hálfu ríkisstjórnar og forsvarsmanna bankanna.

(Blöndum bara ekki Seðlabankanum í málið . .  þá fer allt í uppnám og hnút . . .  )

Benedikt Sigurðarson, 1.4.2008 kl. 09:51

2 identicon

Mér finnst tillögur þínar almennt afskaplega skynsamlegar, og þessi jafnvel betri en þær flestar.  Það er bara sorglegt að ákveðinn hluti frjálshyggjuarms sjálfstæðisflokksins gæti aldrei sætt sig við aukið hlutverk íbúðarlánasjóðs.  Nú reynir því á það hversu sterkur leiðtogi Geir er.

Einar (IP-tala skráð) 1.4.2008 kl. 10:36

3 identicon

Ríkisstjórnin hugleiðir að kaupa upp skuldabréf bankanna sem falla í gjalddaga næstu þrjú árin til að forða bönkunum frá gjaldþroti vegna endurnýjunarkjara sem óprúttnir lánardrottnar setja upp.

Frábært!

Skuldsett heimili landsins horfast í augu við gjaldþrot vegna endurnýjunarkjara sem óprúttnir lánardrottnar setja upp.

Hvaða úrræði hugleiðir ríkisstjórnin gagnvart þessum vanda heimilanna?

Gangleri (IP-tala skráð) 2.4.2008 kl. 02:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband