Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Formaður Guðni, félagi Össur og kvótakerfið

Það vekur furðu mína að það vekji furðu sumra að Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins vilji breyta kvótakerfinu og leita sátta um skynsamlegar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu, nú þegar fram hefur komið að kvótakerfið í núverandi mynd kunni að brjóta í bága við mannréttindasáttmála.

Það er eðli Guðna - og Framsóknarmanna flestra - að ná skynsamlegu samkomulagi um meginatriði þjóðlífsins - þar með talið fiskveiðistjórnunarkerfið. Þá hafa verið um árabil skiptar skoðanir um útfærslu kvótakerfisins innan Framsóknarflokksins, þar sem menn hafa tekist á um leiðir, þótt það hafi ekki leitt til breytinga á opinberri stefnu flokksins - fyrr en nú.

Auk þess skipta mannréttindamál Framsóknarmenn miklu máli.

Félagi Össur tekur reyndar bakföll yfir skynsamlegri nálgun Guðna á bloggi sínu þar sem hann segir:

"Þess vegna rak mig í rogastans að heyra Guðna Ágústsson lýsa því yfir í Kastljósinu, að hann teldi það helsta kostinn til að breyta stjórnkerfi fiskveiða að skoða tillögur Samfylkingarinnar. Ég veit ekki hvort Guðni Ágústsson er með þessum einkennilegu sinnaskiptum að biðla til Samfylkingarinnar – en ég er að minnsta kosti harðgiftur og ekki í skilnaðarhugleiðingum. Guðni Ágústsson er nýkominn úr ríkisstjórn, þar sem hann blessaði kvótakerfið kvölds og morgna, og lét Halldór Ásgrímsson berja sig til stuðnings við það einsog viljalaust verkfæri. Nú skiptir hann um eina skoðun daglega, og er í flestum málum kominn í fullkominn hring." 

Hver á að taka mark á svona flokki?"

Það er alltaf skemmtilegt að lesa pistla félaga Össurs - enda einn skemmtilegasti stjórnmálamaður landsins ásamt honum Guðna!

En sannleikurinn er hins vegar sá að Guðni var ekki að fatta upp á þessu í gær eða fyrradag. Stefna hans byggir á töluvert þroskaðri umræðu innan Framsóknarflokksins - þar sem sú leið sem Össur kallar leið Samfylkingarinnar - hefur verið áberandi í umræðunni innanflokks - þótt hún hafi ekki verið ofan á í stefnu flokksins hingað til.

Það eru nefnilega margar vistarverur í Framsóknarflokknum - enda áratuga hefð fyrir því að Framsóknarmenn séu sammála um að vera ósammála um einstök mál - án þess það sprengi flokkinn í tætlur. Má þar nefna td. afstöðuna til amríska hersins á sínum tíma - afstöðuna til Evrópusambandsins og - merkilegt nokk - afstöðuna til útfærslu á kvótakerfinu.

En grunneðli eðli Guðna - og Framsóknarmanna flestra - hefur verið það sama - að ná skynsamlegu samkomulagi um meginatriði þjóðlífsins - þar með talið um fiskveiðistjórnunarkerfið.

Þess vegna er gott að hafa Framsóknarflokkinn með við stjórnvölinn!


Endurvekjum séríslensku öskupokana!

Það er sorglegt að vita til þess að hinir séríslenski öskupokar séu nánast horfnir, en þessi aldagamli íslenski siður lifði góðu lífi allt frá kaþólsku á Íslandi fram undir lok 20. aldarinnar. Ég hvet því alla foreldra sem enn muna hve skemmtilegt það var að næla öskupoka aftan í náungan að setjast við sauma í kvöld og kynna börnunum sínum þennan gamla, skemmtilega sið.

Þótt nútímabörnin séu fórnarlömb útlenskrar grímubúningamenningar þá er ekki úr vegi að viðhalda gömlu öskupokunum - þótt ekki væri nema sem hluti grímubúninganna - til dæmis að fá börnin til að hafa öskupoka hangandi einhversstaðar á grímubúningnum.

Eins og áður segir á öskupokasiðurinn sér rætur aftur úr kaþólsku, en askan er í Biblíunni tákn hins forgengilega og óverðuga, en í kaþólskunni var askan talin búa yfir heilnæmum og hreinsandi krafti. Enda tíðkaðistað dreifa ösku yfir kirkjugesti í á öskudag, dies cinerum, í upphafi lönguföstu. Öskunni var gjarnan dreift með sérstökum vendi - sem síðar varð bolluvöndur bolludagsins þegar lúterskan hafði tekið við. Sá siður kom reyndar ekki til Íslands fyrr en á 19. öld vegna danskra og norskra áhrifa.

Upphaf öskupokanna á Íslandi má væntanlega rekja til þess að fólk hafi viljað taka með sér hina hreinsandi ösku úr kirkjunni heim í bæ - þar sem hún hlyti líka að gera sitt heilaga gagn - og blessað heimilið.

Sá siður að hengja öskupoka aftan í heimilisfólkið á öskudag er að minnsta kosti frá því á miðri 18. öld - mögulega miklu eldri.

Einhverra hluta vegna þá þróaðist öskupokasiðurinn þannig að stelpurnar hengdu öskupoka á strákana, en strákarnir hengdu poka með steinum á stelpurnar. En aðalsportið var að koma pokanum á aðra - án þess að eftir væri tekið!

Í ljósi þessarar merku sögu íslensku öskupokanna hvet ég foreldra enn og aftur að endurvekja þennan skemmtilega sið öskudagsins - þótt ekki væri nema á þann táknræna hátt að öskupokinn sé hluti öskudagsbúningsins.


Hallur undir íhaldið!

Mér dauðbrá þegar ég leit inn á DV.is og sá þar fyrirsögnina: "Hallur undir íhaldið".

Ég róaðist þó fljótt þegar ég sá að fréttin fjallaði um Sigurð Líndal sem "...skilur ekkert í þeim orðum Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra að hann sé einn af óvinum Sjálfstæðisflokksins" eins og segir í fréttinni.

Fram kemur að Sigurður hefur kennt á námskeiðum fyrir Sjálfstæðisflokkinn og greitt í flokkssjóði. „Þeir hafa að minnsta kosti ekki sent mér peningana til baka ennþá,“ sagði Sigurður við DV.

Þessi staða í Sjálfstæðisflokknum er reyndar dálítið sérkennileg.  Sjálfstæðismaðurinn Sigurður Líndal lögspekingur tjáir sig á lögfræðilegum grunni um álitamál sem Sjálfstæðismenn koma að - og þá er Sjálfstæðismaðurinn orðinn óvinur Sjálfstæðisflokksins?

Ekki það - ég veit um annan flokk sem liggur mér nærri þar sem áberandi flokksmaður aulaðist til þess með fljótfærni í bréfaskrifum og illa ígrunduðum orðum í spjallþætti - að verða í raun helsti óvinur flokksins síns.  


Dómsmálaráðherrann virðist vera sammála mér!

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra virðist vera sammála mér um að rétt sé að koma á fót "þjóðsstjórn" Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í Reykjavík, en í Sifri Egils sagði Björn að æskilegra hefði verið að breiðari hópur stæði að nýjum borgarstjórnarmeirihluta en nú er.  Þegar litið er yfir borgarfulltrúahópinn kemur í ljós að breiðari meirihluti fæst ekki nema með samstarfi framangreindra flokka.

Í pistli mínum Þjóðstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í Reykjavík takk! sting ég upp á að Dagur B. Eggertsson yrði borgarstjóri og Hanna Birna yrði forseti borgarstjórnar. Ég er ekki viss um að dómsmálaráðherrann sé sammála mér í þessu - en ég vona að fleiri bætist í liðið með okkur Birni og hvetji borgarfulltrúa Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að mynda þessa nauðsynlegu þjóðstjórn,

Núverandi staða er vonlaus - borgarstjóri og meirihluti gersamlega rúinn trausti - og F listinn því ekki stjórntækur að óbreyttu.


Kyndilmessulandstýrið tekur við í Færeyjum!

Kyndilmessulandsstýrið er heitið sem fjölmiðlar hafa gefið nýrri landsstjórn í Færeyjum.  Tjóðveldið, Javnaðarflokkurin og Miðflokkurin mynda hina nýju ríkisstjórn sem verður undir forsæti Jóannes Eidesgaard formanns Javnaðarflokksins en hann var einnig lögmaður í fráfarandi stjórn. Javnaðarflokkurin fær þrjá landstýrimenn.

Høgni Hoydal formaður Tjóðveldisins kemur sterkur inn í landstýrið, en Tjóðveldið var óumdeildur sigurvegari kosninganna. Tjóðveldið fær fjóra landstýrimenn og verður helmingur þeirra konur. Ekki er ljóst hverjar þær verða - en þrjár konur sitja fyrir Tjóðveldið, þær Annita á Fríðriksmørk, Bjørt Samuelsen og Bergtóra Høgnadóttir Joensen.

Athyglisvert er að sett er á fót utanríkisráðuneyti - uttanríkismálaráðið -sem ekki hefir verið til staðar á Færeyjum. Þetta er að sjálfsögðu í takt við stefnu Tjóðveldis - sem berst fyrir fullu sjálfstæði Færeyja.

Miðflokkurinn fær eitt ráðuneyti - fjármálaráðuneytið eða fíggjarmálaráðið.

Það er ljóst að hin nýja stjórn verður að standa vel saman þar sem hún er einungis með eins manns meirihluta á nýja løgtinginu.

 VIÐBÓT:

Blaðamannafundi þar sem málefnasamningur nýrrar sjórnar var að ljúka. Honum er svo lýst á damma.fo:

"Samhaldsfesti, sjálvstýri, møguleikar og menning".
Hetta er yvirskriftin í nýggja samgonguskjalinum.


- Vit fara at fremja bygnaðarbroytingar á fiskivinnuøkinum, skattaøkinum, kommunuøkinum og sosiala økinum, segði løgmaður á tíðindafundinum.


Nakrar yvirtøkur verða framdar, "sum hava eitt beinleiðis sikti at geva okkum størri førleika á altjóða økinum", segði løgmaður.
- Vit skulu gera ein niðurskurð í blokkinum, so sjálvbjargnið verður økt, legði hann afturat.

8 aðalráð skulu stjórna landinum. Tey verða Løgmansskrivsstovan, nýtt Uttanríkisráð, Fiski- og Tilfeingisráð, Vinnumálaráð, Almanna- og Heilsumálaráð, Fíggjarmálaráð, Løgmálaráð, sum fæst við lógararbeiði hjá landsstýrinum, og til seinast eitt Mentamálaráð.

Javnaðarflokurin fær løgmann og almanna- og heilsumál og løgmálaráð. Tjóðveldi uttanríkismál, fiski- og tilfeingismál, vinnumál og mentamál, meðan Miðflokkurin fær fíggjarmál.

Høgni Hoydal úr Tjóðveldinum kallar samgonguskjalið fyri nýbrot í føroyskum politikki

 


Þjóðstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í Reykjavík takk!

Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki ber skylda til þessa að mynda nú þegar starfhæfa "þjóðstjórn" þessara flokka í Reykjavíkurborg, nú þegar borgarbúar búa við aðstæður þar sem borgarstjóri er rúinn öllu trausti og meirihlutinn hangir á bláþræði. Öll önnur meirihlutamynstur eru andvana fædd - því miður.

Skoðanakönnun Gallup Capacent sýnir algera falleinkunn fyrir borgarstjórann, meirihlutasamstarfinu er hafnað og  það litla sem er eftir af "framboði" borgarstjórans mælist nánast ekki.

Sirkus undanfarinna vikna hefur veikt borgarstjórn og yfirvöld í  borginni þannig að hætta er á að innviðirnir bresti, enda veit enginn hver raunveruleg stefna meirihlutans er - því enginn tekur mark á blaðinu sem kallaður er "málefnasamningur". Það blað er minna virði en fallandi laufblað að hausti - sem óhjákvæmlega mun fjúka út í veður og vind.

Með slíkri "þjóðstjórn" - þar sem Dagur B. Eggertsson yrði að sjálfsögðu borgarstjóri - og Hanna Birna forseti borgarstjórnar - "þjóðstjórn" sem umgengist minnihlutan af virðingu og einbeitti sér að því að sjónarmið minnihlutans nái einnig eyrum almennings gegnum störf í nefndum og í borgarstjórn - er unnt að bjarga virðingu og trúverðugleika borgarstjórnar - og þar með trú manna á lýðræðinu í borginni.

Núverandi staða mun að óbreyttu ganga frá trúverðugleika kjörinna stjórnmálamanna dauðum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband