Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Svandís Svavarsdóttir - verðandi formaður VG?

Svandís Svavarsdóttir er glæsilegur fulltrúi Vinstri grænna! Svandís er öflugur stjórnmálamaður og heilsteyptur persónuleiki. Þessir kostir hennar voru strax greinilegir er við vorum samtíða í MH á sínum tíma. 

Ég spái því að Svandís taki við sem formaður Vinstri grænna á kjörtímabilinu - og muni leiða lista þeirra í Reykjavík í Alþingiskosningunum 2011.

Það gæri orðið skemmtileg forysta!

Svandís Svavarsdóttir Gestssonar sem formaður. Katrín Thoroddsen Jakobsdóttir Ármannssonar varaformaður - og af hverju ekki Álfheiður Ingadóttir R. sem ritari!

Þá erum við komin með afkomendur gömlu góðu sósíalistanna í gamla Sósíalistaflokknum sem forystusveit Vinstri grænna. Það væri við hæfi!


mbl.is Svandís maður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klisja - en klisja sem skipir máli!

Slysavarnarfélögin vinna ómetanlegt starf. Okkur ber skylda til að styðja við bak þeirra. Kaupum því flugelda af þeim! Meira að segja kaup á störnuljósapakka skiptir máli. Sumir segja að svona stuðningsyfirlýsingar séu klisjur - en mér er alveg sama um það - það er þá klisja sem skiptir máli!!!


mbl.is „Munum varla eftir öðru eins"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tökum upp færeysku krónuna!

Krónan er ekki gjaldmiðill fyrir 21. öldina. Allavega ekki sú íslenska. Hef um nokkurt skeið lagt til að við tækjum upp færeysku krónuna – ef menn vilja ekki nota orðið “Evra”. Færeyska krónan er beintengd dönsku krónunni – sem er tengd evrunni – en með hóflegum vikmörkum. 

Nú hefur Egill Helgason tekið undir með mér ítrekað - síðast í bloggi sínu í dag. 

Þegar við höfum tekið upp færeysku krónuna - þá getum við í alvöru farið að ræða um afnám verðtryggingar á Íslandi.


Fyrirmyndar fyrirmynd - Margrét Lára!

Það var afar ánægjulegt að sjá Margréti Láru Viðarsdóttur kjörna sem íþróttamaður ársins 2007. Hún á það svo sannarlega skilið þessi frábæri knattspyrnumaður. Valið er einnig mikil viðurkenning fyrir kvennaknattspyrnuna á Íslandi sem hefur tekið þvílíkum framförum á undanförnum árum - enda er íslenska kvennalandsliðið á alþjóðavísu framar karlalandsliðinu um þessar mundir.

Verð að játa að það kom mér á óvart hversu góð, innileg og innihaldsrík svör Margrétar Láru voru við spurningum fréttamannanna eftir athöfnina. Lagði áherslu á að iðkendur íþrótta sem sköruðu framúr væru fyrirmynd hinna yngri - og þá skipti ekki máli hvort viðkomandi væri sautján ára eða farinn að halla að þrítugu.  Með svörum sínum  - og að sjálfsögðu árangri sínum og þrautseygju - sýndi Margrét Lára að hún er fyrirmyndar fyrirmynd.

Ég fylgdist með því þegar kvennaknattspyrnan var að hasla sér völl fyrir 30 árum eða svo. Átti margar vinkonur sem spiluðu fótbolta af mikilli ástríðu. Eðli málsins vegna fylgdist ég vel með Víkingsliðinu - sem var farið að standa sig mjög vel - þegar karlremburnar í stjórn knattspyrnudeildarinnar hreinlega lögðu liðið niður - þrátt fyrir dugnað stelpnanna. Stelpurnar sundruðust - en nokkrar þeirra áttu glæstan feril með öðrum liðum. Skammast mín alltaf fyrir hönd félagsins míns þegar mér er hugsað til þessa.

Það var því sérstaklega skemmtilegt fyrir nokkrum árum þegar Álfrún mín og félagar hennar í 4. flokki B urðu fyrstu Íslandsmeistarar Víkings í kvennaknattspyrnu. Vonandi mun Víkingur verða á toppnum þegar Gréta mín fer að banka á dyrnar í meistaraflokki - ef Guð lofar - en það eru væntanlega svona 15 ár í það!


mbl.is Margrét Lára íþróttamaður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupþing yfirgefur Færeyjar!

Það kemur mér á óvart að Kaupþing skuli yfirgefa Færeyjar. Hélt að menn á þeim bæ vildu þekja Norður-Atlantshafið með blá lógóinu sínu.

En líklega hafa stjórnendur þar á bæ metið stöðuna svo að það borgaði sig ekki að standa í samkeppni við Eik og Færeyjabanka á svo litlum markaði sem Færeyjar eru. Eik styrkir sig væntanlega mjög með þessum kaupum.

Það skyldi þó ekki enda með því að Eik og Færeyjabanki haldi innreið´sína á íslenska markaðinn!!! Það væri skemmtilegt.


mbl.is Kaupþing selur starfsemi sína í Færeyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kýrnar orðnar hestar - og ærnar kýr!

Kýrnar eru orðnar hestar, kindurnar kýr og hundarnir ær!

Allavega er það svona í leikfangakassanum "Völuskrín" þar sem er að finna eftirlíkingar af dýrabeinum sem íslensk æska lék sér að allt fram á síðari hluta 20. aldar.

Ég sé ekki betur en að með "Völuskríni" sé í uppsiglingu menningarsögulegt slys - þar sem því er haldið að börnum og útlendingum að kjálkabein úr kindum séu hestar - en hingað til voru þau kýr. Hins vegar finnast engir "alvöru" hestar í kassanum - það er ærleggir sem notaðir voru sem reiðhestar meðal barna gegnum árhundruðin.

Þá er valan orðin að kú - en völur hafa hingað til verið sauðfé!

Til að toppa þetta þá eru hundarnir orðnir að ám!

Hvað er eiginlega í gangi?


Fjölmenningarsamfélagið Ísland

Ísland er að á hraðri leið frá tiltölulega einlitu eyjasamfélagi í fjölbreytt fjölmenningarsamfélag. Sú þróun mun halda áfram þótt eilítið hafi dregið úr fjölgun innflytjenda undanfarna mánuði. Við verðum að taka mið af þessari staðreynd og gera allt til þess að þessi þróun gangi sem snuðrulausast fyrir sig - því þróunin verður ekki stöðvuð meðan hagsæld ríkir á Íslandi.

 


mbl.is Íslendingar orðnir 312 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasti dagurinn hjá Íbúðalánasjóði!

Þá er að hefjast síðasti vinnudagurinn minn hjá Íbúðalánasjóði! Það er sérkennileg tilhugsun eftir 8 ára starf að kveðja samstarfsfólkið sem hefur staðið sig svo vel í þeim ólgusjó sem Íbúðalánasjóður hefur siglt gegnum á þessu tímabili.

Mér finnst ég geta horft stoltur yfir farinn veg hjá Íbúðalánasjóði - verkefnin verið fjölmörg og áskoranirnar margar. Sjóðurinn er sterkur og með sterka stöðu í hugum almennings eins og viðhorfskannanir hafa sýnt.

Það eru fjölmörg verkefni sem ég hef unnið að og koma upp í hugann - en líklega er undirbúningur og framkvæmd breytinganna á skuldabréfaútgáfu sjóðsins sumarið 2004 það verkefni sem upp úr stendur. Það var afar erfitt og spennandi og tókst vonum framar enda unnið með öflugu fólki hérlendis og erlendis. Reyndar gjörbreytti þessi breyting íslenskum skuldabréfamarkaði og opnaði erlendum fjárfestum loks greiða leið inn á þann markað.

Fleiri verkefni mætti tiltaka, eins og vefvæðingin sem fólst í Íbúðalán.is, landsmönnum öllum til hagsbóta.

Þá hafa verið dálítil slagsmál í fjölmiðlum!

En hvað um það - ég kveð Íbúðalánasjóð sáttur og stoltur. 

Við samstarfsfólkið í sjóðnum vil ég segja:  "Takk fyrir allt - þið eruð frábær!"


Mannréttindaviðbrögð Ingibjargar Sólrúnar skipta máli!

Ingibjörg Sólrún á heiður skilið að taka á þessu mál af ákveðni! Ég hrósaði henni þegar hún tók málið upp - og ég hrósa henni nú þegar hún hefur fengið bandarísk stjórnvöld til biðjast afsökunar - og það sem meira er - ætla að endurskoða hvernig tekið er á tilfellum sem þessum.

Undirstrikar það sem ég lagði áherslu á í fyrri pistli mínum um málið - Krefjumst virðingar fyrir manneskjunni!

Við eigum nefnilega að beita okkur en sitja ekki hjá þegar kemur að mannréttindamálum - viðbrögð stjórnvalda í Bandaríkjunum nú sína að við getum skipt máli. Ítreka það sem ég sagði áður:

"Við eigum ekki að sitja þegjandi hjá þegar við horfum upp á framkomu bandarískra stjórnvalda td. gagnvart föngum í Guantanamo og gagnvart íröskum ríkisborgurum sem niðurlægðir hafa verið í fangelsum bandaríska hersins í Írak.

Við eigum heldur ekki að sitja þegjandi gagnvart öðrum ríkjum sem telja sig yfir mannréttindi hafin þegar þeim hentar. Þá skiptir ekki máli hvort ríkið heitir Bandaríki Norður Ameríku, Kína, Rússland, Saudi Arabía eða Ísrael!  Við eigum að halda á lofti kröfunni um að stjórnvöld alls staðar í heiminum umgangist meðborgara sína af virðingu - óháð meintum lögbrotum þeirra.

Og að sjálfsögðu eigum við að gera þá kröfu til okkar sjálfra. Ekki viss um að við stöndum okkur alltaf allt of vel á þessu sviði ..."


mbl.is Erla Ósk fagnar niðurstöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

REI, REI! Í boði borgarstjórnar - allrar!

Innilega er ég sammála félaga Össuri þegar hann segir í miðnæturbloggpistli sínum:

 "Í öllu falli, væri ég Þorgerður menntamálaráðherra myndi ég láta boð út ganga um að húmoristum Orkuveitunnar yrði falið að sjá um skaupið. Maður gæti þá kanski gert meira en hlægja haltur við fót undir þvi á gamló..."

Fannst myndbandið frábært!

Kannske er unnt að flytja það í margramilljónkróna auglýsingahlénu í áramótaskaupinu - og að sjálfsögðu í boði borgarstjórnar Reykjavíkur - allrar!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband