Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
Kraftur í Landsvirkjun og Landsvirkjun Power?
17.12.2007 | 14:39
Ég er dálítið ráðvilltur gagnvart hinu boðaða, nýja, íslenska ríkisfyrirtæki - Landsvirkjun Power - sem væntanlega mun hefja rekstur um áramót. Verður það Landsvirkjun Power sem sjá mun um virkjanaframkvæmdir við Þjórsá - ef túlkun Landsvirkjunar um að fyrirtækið hafi heimild til þess að ræða og semja við landeigendur um virkjun á grundvelli Títan samninganna stenst - og að ríkið muni veita þeim heimild til virkjunar?
Gerði ráð fyrir að geta lesið mér til um það á vefsíðu Landsvirkjunnar - en svo er ekki. Verð því að treysta þeim glefsum sem ég hef heyrt og séð í fjölmiðlum.
Svona vegna eðlislægrar forvitni - og sem áhugamaður um hegðun stjórnmálamanna - langar mig líka að vita ýmislegt fleira er snertir félagið og er ekki Landsvirkjunar að svara eins og td:
Er einhver eðlismunur á aðkomu ríkisins að Landsvirkjun Power og aðkomu eigenda Orkuveitu Reykjavíkur að Reykjavík Invest?
Er minni áhætta í að setja opinbert fé frá ríkisfyrirtæki í áhætturekstur erlendis en að setja opinbert fé úr fyrirtæki í eigu sveitarfélaga í áhætturekstur erlendis?
Væntanlega fæ ég svör við þessu og ýmsu öðru er varðar málið á næstu dögum!
Viðræðum við landeigendur við Þjórsá haldið áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Stórleikir í Egilshöll um helgina!
16.12.2007 | 23:51
Það var margt stórleikja í knattspyrnunni þessa helgina. Ekki hvað síst í Egilshöllinni þar sem Reykjavíkurliðin voru að leiða saman hesta sína í yngstu aldursflokkunum. Glæsileg tilþrif og mikil gleði hjá guttunum og tátunum sem voru á aldrinum 5 til 9 ára.
Það var mætt báða dagana á mínu heimili. Magnús 7 ára lék með 7. flokki Víkings - og Styrmir 9 ára lék með 6. flokki. Stóðu sig frábærlega - eins og mörg hundruð annarra barna.
Það eru ótrúlegir taktar sem sést hjá þessum börnum - miklu betri en ég og mínir félagar í Víkingi voru á sama aldri - þótt nokkrir þeirra hafi orðið atvinnumenn - Arnór, Lalli, Heimir, Steini!
Ein ástæðan er náttúrlega þær miklu úrbætur á aðstæðum sem orðið hafa undanafarin ár. Það er ekki hægt að bera saman glæsileg knattspyrnuhús nútímams og gömlu malarvellina sem spilað var á í gamla daga. Maður var að plokka mölina af Víkingsvellinum úr sárunum á lærum og leggjum langt fram eftir hausti þegar vetrarveðrið stoppaði fótboltaæfingarnar. En þá tók reyndar bara handboltinn við!
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mikilvægt að takmarka innheimtukostnað!
14.12.2007 | 16:33
Ákvæði sem heimilar viðskiptaráðherra að takmarka í reglugerð hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar er mikilvæg neytendavernd. Það er með ólíkindum hvað innheimtukostnaður getur sumastaðar orðið hár á fyrstu stigum innheimtu, kostnaður sem virðist langt umfram það sem eðlilegt getur talist og gerir klárlega gott betur en að standa undir innheimtukostnaði.
Nú er ég ekki að mæla því mót að menn standi ekki í skilum - en tímabundin fjárhagsvandræði geta alltaf komið upp - td. vegna veikinda, atvinnuleysis eða jafnvel vegna óléttu!!!
Það gengur ekki að óhóflegur innheimtukostnaður verði til þess að koma mönnum á kaldan klaka - markmiðið hlýtur að vera að ná sanngjarnri lendingu fyrir skuldunauta jafnt sem lánadrottinn.
Heimilt að setja þak á innheimtukostnað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Krefjumst virðingar fyrir manneskjunni sem einstaklingi!
13.12.2007 | 21:51
Ingibjörg Sólrún á heiður skilið fyrir viðbrögð sín gagnvart bandarískum stjórnvöldum í kjölfar ómannúðlegrar framkomu bandarískra landamæravarða gagnvart íslenskum ríkisborgara. Við eigum ekki að láta bjóða okkur framkomu af þessu tagi.
En við eigum reyndar að ganga lengra en þetta með Ingibjörgu Sólrúnu í fararbroddi.
Við eigum ekki að sitja þegjandi hjá þegar við horfum upp á framkomu bandarískra stjórnvalda td. gagnvart föngum í Guantanamo og gagnvart íröskum ríkisborgurum sem niðurlægðir hafa verið í fangelsum bandaríska hersins í Írak.
Við eigum heldur ekki að sitja þegjandi gagnvart öðrum ríkjum sem telja sig yfir mannréttindi hafin þegar þeim hentar. Þá skiptir ekki máli hvort ríkið heitir Bandaríki Norður Ameríku, Kína, Rússland, Saudi Arabía eða Ísrael! Við eigum að halda á lofti kröfunni um að stjórnvöld alls staðar í heiminum umgangist meðborgara sína af virðingu - óháð meintum lögbrotum þeirra.
Og að sjálfsögðu eigum við að gera þá kröfu til okkar sjálfra. Ekki viss um að við stöndum okkur alltaf allt of vel á þessu sviði ...
Mun krefjast afsökunarbeiðni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vextir ÍLS nálgast hávaxtastigið 2000-2001
13.12.2007 | 12:07
Þótt enn sé langt í það að vextir íbúðalána Íbúðalánasjóðs nái þeim okurraunvöxtum sem tíðkuðust í húsbréfakerfinu á árunum 1990-1993 þegar þeir voru iðulega um 7,5% og náðu reyndar 9,5% 1991, þá er vaxtastigið að nálgast hina háu raunvexti sem ríktu í húsbréfakerfinu frá miðju ári 2000 fram á mitt ár 2001. Þá fóru vextirnir reyndar yfir 6% en eru ekki "nema" 5,75% í dag.
Reyndar eru vextir Íbúðalánasjóðs töluvert undir vaxtastigi bankanna í dag og langt undir þeim vöxtum sem bankarnir buðu viðskiptavinum sínum áður en þeir snarlækkuðu vexti haustið 2004 og settu efnahagslífið á hvolf.
Margir hafa ekki áttað sig á því hve háir raunvextir íbúðalána voru oft á tíðum í húsbréfakerfinu. Ástæðan er eðli húsbréfakerfisins sem lagt var af sumarið 2004.
Húsbréfin báru fasta vexti, en raunverulegir vextir komu fram í afföllum - eða yfirverði - á hverjum tíma fyrir sig. Afföllin voru ekkert annað en fyrirframvaxtagreiðsla á mismuni fastra vaxta húsbréfanna - lengst af 5,1% - og raunvöxtum sem birtust í ávöxtunarkröfunni - sem oft var á bilinu 5,5% - 6,05% - og var reyndar 7,6% í upphafi þess tímabils sem meðfylgjandi tafla sýnir.
Íbúðalánasjóður hækkar vexti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Guðni skýtur yfir markið með stæl!
12.12.2007 | 23:23
Guðni klikkar ekki í kröftugu, myndrænu, kjarnyrtu íslensku máli! En ég er honum ósammála. Finnst hann skjóta yfir markið - en gerir það skemmtilega og með stæl. Það er rétt hjá honum að kristnin er órjúfanlegur hluti íslenskrar menningar. Þá menningararfleið eigum við að meta, virða og halda á lofti í "helgidómi íslenskra menntastofnanna".
Mín skoðun er að það eigi að auka fræðslu á öllum skólastigum um kristni og áhrif hennar á íslenska sögu, menningu og þjóðlíf. Ekki með með hraðsoðnu, misvel ígrunduðu námskeiði í 8. bekk - rétt fyrir fermingu - og einungis fyrir börn sem tilheyra þjóðkirkjunni. Nei, fræðslan á að vera hófleg gegnum allan grunnskólann. Fyrir alla af öllum trúarhópum. Ekki hvað síst á að leggja áherslu á kristið siðgæði og gildi.
Á sama hátt á einnig að auka fræðslu á hinni mikilvægu arfleifð okkar - hinni fornu, hefðbundnu norrænu trú. Þrátt fyrir 1000 ára kristinn sið á Íslandi, þá hafa gildi og saga hinna fornu norrænu trúarbragða alla tíð haft mikil áhrif á íslenska menningu og er órjúfanlegur hluti hennar. Ekki hvað síst ætti að leggja áherslu á fornnorrænt siðgæði og gildi.
Það er jafn mikilvægt að fræða grunnskólabörn um aðra siði - islam, hindú, búddisma, tao, og shamanisma svo þau skilji betur hvaðan önnur heimsins börn koma og hvaða sýn og siði þau aðhyllast. Ekki hvað síst að leggja áherslu á sammannlegt siðgæði og gildi sem fram koma í flestum trúarbrögðum heimsins.
Því trúarbrögð er ákveðið birtingarform þess sem þarf til að halda samfélögum saman, með siðgæði og jákvæðum gildum.
Með heildstæðri, vandaðri trúarbragðafræðslu sem tekur á öllum tegundum trúarbragða, jákvæðum hliðum þeirra og ábendingum um hættunni við neikvæðri beitingu þeirra, þá getum við aukið siðferðilega hæfni barnanna okkar og búið þau undir farsæla samvist í því fjölmenningarsamfélagi sem við munum deila hér á Íslandi í framtíðinni, hvort sem okkur líkar það betur eður verr.
Ég hef engar áhyggjur af kristninni í því fjölmenningarsamfélagi. Hún mun standa fyrir sínu og ná hjörtum barnanna okkar - jafnvel betur á þennan hátt en við núverandi fyrirkomulag - og í betri sátt við önnur trúarbrögð og siði.
Svo er nú það.
Kristileg kveðja frá Halli Magnússyni, safnaðarbarni í Óháða söfnuðinum.
Guðni: Nú skal kennsluborðum kristninnar velt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Gengur ASÍ bónleitt til búðar?
12.12.2007 | 15:29
ASÍ ætti ekki að ganga bónleitt til búðar þegar samtökin óska eftir því við ríkisstjórnina að staða barnafjölskyldna verði treyst. Samfylkingin hét því að slíkt yrði gert fyrir kosningar þótt ekki hafi bólað á því í fjárlagafrumvarpinu eins og ég benti á í pistli mínum "Hvar er raunhækkun barnabóta" í síðustu viku.
Þá er eðlilegt að dregið verði úr skattbyrði hinna tekjulægstu, þótt skattalækkanir nú gætu orðið til að ýta undir verðbólguna - sem hefur verið á fullri ferð í tíð þessarar ríkisstjórnar.
Ríkisstjórnin verður bara að fara í mótvægisaðgerðir sem bitnar á öðrum en barnafjölskyldum og láglaunafólki vegna mögulegra áhrifa bættra kjara þessara hópa á efnahagslífið. Auglýsi eftir tillögum um slíkar mótvægisaðgerðir!
Vill lækka skatt tekjulágra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
ATH! Opinber Íbúðalánasjóður í Bandaríkjunum!!!
11.12.2007 | 21:30
Í þeirri umræðu sem verið hefur undanfarið um "íbúðabanka ríkisins" vil ég gjarnan benda landsmönnum á annan af tveimur helstu OPINBERU ÍBÚÐALÁNASJÓÐUM í Bandaríkjunum! Andstæðingar hins íslenska, opinbera Íbúðalánasjóðs, hafa löngum haldið því fram að slíktur sjóður sé nánast séríslenskt fyrirbæri.
Ég hef ekki lengi haft nennu til þess að leiðrétta þennan misskilning um "sérstöðu" íslenska Íbúðalánasjóðsins með því að benda á hina bandarísku íbúðalánasjóði, Freddy Mac og Fanny Mae, sem reyndar geta sótt fé í alríkissjóð Bandaríkjanna ef illa gengur að afla lánsfjár, sem er meira en Íbúðalánasjóður getur gert gagnvart ríkissjóði Íslands.
Í fréttinni stendur: "Forstjóri Freddie Mac, bandarísks húsnæðislánasjóðs sem er að hluta til fjármagnaður með opinberu fé og er annar af tveimur stærstu íbúðalánasjóðum landsins..."
Svo er nú það.
Annars ætla ég ekki að réttlæta það tap sem Freddy Mac stendur frammi fyrir - en það mun ekki hætta sjóðnum. Hann er að standa sína plikt sem samfélagslegur sjóður. Vegna þess hve sterkur hann er þá þolir Freddy Mac áföll sem þessi. Þess vegna getur hann lánað þeim sem eru í lægstu tekjuhópunum.
Hvað Ísland varðar þá get ég fullvissað fólk um að hinn íslenski Íbúðalánasjóður sem rekinn er sem sterkur, sjálfbær samfélagslegur sjóður, mun í fyrirsjáanlegri framtíð væntanlega ekki tapa útlánum í því mæli sem opinberu Íbúðalánasjóðirnir í Bandaríkjunum er að gera. Hins vegar er hann - á meðan hann getur lánað öllum hóflegt húsnæðislán - vel í stakk búinn að taka við slíkum áföllum í framtíðinni - ef atvinnuleysisvofann fer að gera vart við sig á ný eftir 16 ára dvala!
Útlit fyrir frekara tap hjá Freddie Mac | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Gamalt vín á nýjum belgjum!
11.12.2007 | 12:18
Íslendingum hefur staðið til boða lán í erlendri mynt til íbúðakaupa hjá bönkum og sparisjóðum. Samkvæmt tölfræði Seðlabankans voru slík myntlán til íbúðakaupa um 25 milljarðar 1. október. Vextir slíkra lána á Íslandi hafa verið á því róli sem boðað er í hinum nýja Ingólfsbanka. Treysti gömlu íslensku bönkunum þó betur en Ingólfi þótt það sé jákvætt að fá erlendan banka inn á markaðinn.
Eðlilega eru slík lán ekki verðtryggð enda ekki veitt í örmynt eins og lán í íslenskum krónum. Hins vegar bera lántakendur alla gengisáhættu, þannig að afborgun af slíkum lánum getur sveiflast jafnvel um tugi prósenta frá mánuði til mánaðar. Tuttugu prósenta gengissig breytir 20 milljón króna láni í 24 milljónir auk þess sem afborgun hækkar 20%. Einhver myndi væla ef slíkt gerðist á svo snöggum tíma í hefðbundnum íbúðalánum í íslenskum krónum.
Íbúðalán á evrópskum kjörum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Bandaríkin lykillinn í loftlagsmálum
10.12.2007 | 13:07
Vonandi hefur Al Gore rétt fyrir sér þegar hann segist telja að næsti Bandaríkjaforseti muni breyta stefnu landsins í loftlagsmálum. Það er forsenda fyrir því að við náum tökum á umhverfismálum heimsins, því Bandaríkin eru lykillinn að árangri í loftlagsmálum sem og öðrum sameiginlegum hagsmunamálum mannkyns.
Synd að Bandaríkjamenn urðu að sitja uppi með Flórídaklúðrið og George W. Bush - í stað þess að hafa Al Gore réttkjörinn forseta Bandaríkjanna.
Reyndar enn meiri synd fyrir aðrar þjóðir heims sem sopið hafa seyðið af óstjórninni.
Það er vonandi að næsti forseti Bandaríkjanna breyti einnig um stefnu almennt í samskiptum þessa risaveldis við aðrar þjóðir heims. Bandaríkin eiga að vera forysturíki heims með jákvæðum og uppbyggjandi formerkjum - en ekki neikvæðum og niðurrífandi eins og verið hefur í tíð George W. Bush.
Gore: Breyttar áherslur í loftlagsmálum með nýjum forseta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)