Guðni skýtur yfir markið með stæl!

Guðni klikkar ekki í kröftugu, myndrænu, kjarnyrtu íslensku máli! En ég er honum ósammála. Finnst hann skjóta yfir markið - en gerir það skemmtilega og með stæl.  Það er rétt hjá honum að kristnin er órjúfanlegur hluti íslenskrar menningar.  Þá menningararfleið eigum við að meta, virða og halda á lofti í "helgidómi íslenskra menntastofnanna".

Mín skoðun er að það eigi að auka fræðslu á öllum skólastigum um kristni og áhrif hennar á íslenska sögu, menningu og þjóðlíf. Ekki með með hraðsoðnu, misvel ígrunduðu námskeiði í 8. bekk - rétt fyrir fermingu - og einungis fyrir börn sem tilheyra þjóðkirkjunni. Nei, fræðslan á að vera hófleg gegnum allan grunnskólann. Fyrir alla af öllum trúarhópum. Ekki hvað síst á að leggja áherslu á kristið siðgæði og gildi.

Á sama hátt á einnig að auka fræðslu á hinni mikilvægu arfleifð okkar - hinni fornu, hefðbundnu norrænu trú. Þrátt fyrir 1000 ára kristinn sið á Íslandi, þá hafa gildi og saga hinna fornu norrænu trúarbragða alla tíð haft mikil áhrif á íslenska menningu og er órjúfanlegur hluti hennar. Ekki hvað síst ætti að leggja áherslu á fornnorrænt siðgæði og gildi.

Það er jafn mikilvægt að fræða grunnskólabörn um aðra siði - islam, hindú, búddisma, tao, og shamanisma svo þau skilji betur hvaðan önnur heimsins börn koma og hvaða sýn og siði þau aðhyllast. Ekki hvað síst að leggja áherslu á sammannlegt siðgæði og gildi sem fram koma í flestum trúarbrögðum heimsins.

Því trúarbrögð er ákveðið birtingarform þess sem þarf til að halda samfélögum saman, með siðgæði og jákvæðum gildum.

Með heildstæðri, vandaðri trúarbragðafræðslu sem tekur á öllum tegundum trúarbragða, jákvæðum hliðum þeirra og ábendingum um hættunni við neikvæðri beitingu þeirra, þá getum við aukið siðferðilega hæfni barnanna okkar og búið þau undir farsæla samvist í því fjölmenningarsamfélagi sem við munum deila hér á Íslandi í framtíðinni, hvort sem okkur líkar það betur eður verr.

Ég hef engar áhyggjur af kristninni í því fjölmenningarsamfélagi. Hún mun standa fyrir sínu og ná hjörtum barnanna okkar - jafnvel betur á þennan hátt en við núverandi fyrirkomulag - og í betri sátt við önnur trúarbrögð og siði.

Svo er nú það.

Kristileg kveðja frá Halli Magnússyni, safnaðarbarni í Óháða söfnuðinum. 


mbl.is Guðni: Nú skal kennsluborðum kristninnar velt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hallur, þú gleymdir erindinu: að sýna fram á eða jafnvel nefna, í hvaða atriði Guðni á að hafa skotið yfir markið.

Svo ertu allt of smitaður af fjölmenningarhyggjunni, sýnist mér. 

Jón Valur Jensson, 13.12.2007 kl. 00:40

2 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæti Jón Valur!

Hélt ég þyrfti ekki sérstaklega að tiltaka setningarnar sem hafðar voru eftir Guðna vini mínum í fréttinni sem ég var að blogga um.  En ummæli hans:

"Nú skal kennsluborðum kristninnar velt og hún gerð brottræk úr helgidómi íslenskra menntastofnana að undirlagi menntamálaráðherra og ríkisstjórnarmeirihlutans,"

og

„Á guð að fara út úr þjóðsöngnum og krossinn úr þjóðfánanum?"

eru kjarnyrtar og skemmtilegar myndlíkingar - en eru skot yfir markið miðað við tilefnið.

Hvað varðar fjölmenningarhyggjuna, þá munum við búa í fjölmenningar samfélagi í framtíðinni hvort sem okkur líkar það betur eður verr. Það skiptir miklu máli að ÖLL börn sem alast upp í slíku samfélagi fá vandaða fræðslu um trú og siði hvors annars.

Ég hef engar áhyggjur af kristninni í því samhengi. Hún stendur fyrir sínu eins og hún hefur gert í 2000 ár - og mun frekar styrkjast en veikjast hjá börnunum okkar ef hún er kynnt á vandaðan og hlutlægan hátt í trúarbragðafræsðlu gegnum allan grunnskólann - samhliða fræðslu um aðra siði - í stað þess stutta kúrs sem nú er tekinn á einum vetri í fermingafræðslunni.

Fermingarfæðslan á heima í kirkjunni utan skólatíma - en vönduð fræðsla um kristni og önnur trúarbrögð - eiga heima í grunnskólanum. Um það snýst málið.

Hallur Magnússon, 13.12.2007 kl. 08:21

3 identicon

Gaman að sjá að það eru til hófsamir kristnir sem sjá mun á trúboði og trúarbragðafræðslu.

Að Guðna hafi dottið í hug að reyna að mæla á móti Þorgerði í þessu máli í Kastljósinu.  Og svo var það eina sem hann gat sagt að kristið siðferði væri að standa vörð um íslenska kirkju.  Vissi ekki að það væri hlutverk íslenska menntakerfisins að standa vörð um íslenska kirkju.

Og varðandi innleg Ragnars: 

"Sjá bara múslima, ekki myndi þetta vantrúarlið og "siðmennt" vera vinsælt í múslimaríkjum ef þeir ætluðu að ráðast gegn trú þeirra."

Flest múslimaríki eru því miður 'trú' ríki þar sem trúarleg lög eru oft 'ofar' veraldlegum lögum.  Á íslandi er sem betur fer trúfrelsi og tjáningarfrelsi.  Trúboð í leikskólum og grunnskólum eru gengdarlausar árásir á trúleysi.  Legg til að þú farir og kynnir þér orðin, og meininguna á bakvið þau, sem sett voru inn í staðinn fyrir kristið siðferði/-gæði.

Arnar (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 09:50

4 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Sigmar bað Guðna ítrekað að skilgreina hvað kristið siðgæði væri að þá sagði Guðni "það er að standa vörð um kirkjuna"

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 13.12.2007 kl. 11:05

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þessi þáttur var allur með endemum, og það á jafnt við um sumar spurningar Sigmars (einkum þá þrálátu undir lokin) eins og svör hinna.

En þakka þér greinargott svarið, Hallur (gef mér ekki tíma í það nú að svara þeim atriðum; við erum þar ekki 100% sammála). Ertu ekki sá Hallur sem ég þekki frá Ísafirði? 

Jón Valur Jensson, 13.12.2007 kl. 11:41

6 Smámynd: Hallur Magnússon

Jón Valur!

Veit við verðum ekki sammála um þetta - en það er allt í góðu! Virði þína skoðun fyrir það.

Ég er hins vegar ekki frá Ísafirði - né hef ég búið þar fyrir vestan. Hef búið í Reykjavík, Vopnafirði, Borgarfirði eystra, Hornafirði, Borgarfirði vestra, Kaupmannahöfn og Drammen!

Hallur Magnússon, 13.12.2007 kl. 14:06

7 identicon

Gaman að sjá að Ragnar er uppfullur af kristnu siðgæði :)

Greinilega fylgst vel með í sunnudagsskólanum. 

Arnar (IP-tala skráð) 13.12.2007 kl. 15:53

8 Smámynd: Bjarni Harðarson

..en við erum mjög nærri því að vera sammála, félagi. góður pistill, þú hittir naglann á höfðuð í setningunni: að kristnin er órjúfanlegur hluti íslenskrar menningar.  Þá menningararfleið eigum við að meta, virða og halda á lofti í "helgidómi íslenskra menntastofnanna". 

Bjarni Harðarson, 13.12.2007 kl. 17:39

9 Smámynd: Nanna Guðmundsdóttir

Góður pistill hjá þér og áhugaverðar athugasemdir sem fólk gerir við hann. Það er gaman að fylgjast með því hvað fólki getur orðið heitt í hamsi í þessari umræðu sem og feministafárinu. Ég held að kristni sé nú ekki það stór hluti íslenskrar menningar. Það að hlusta á útvarpsmessuna á jólunum og gifta sig í kirkju er hluti af menningu okkar en ég held að það sé ekki trúarinnar vegna heldur af gömlum vana. Annars er til hugtak í félagsfræði um það að vilja vernda eitthvað og halda á lofti sama hvað... það kallast firring. Það lýsir sér þannig að það gleymist að það var samfélagið sem skóp menninguna og það er samfélagið sem getur breytt henni en ekki öfugt.

Nanna Guðmundsdóttir, 13.12.2007 kl. 20:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband