Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Guðni skýtur yfir markið með stæl!

Guðni klikkar ekki í kröftugu, myndrænu, kjarnyrtu íslensku máli! En ég er honum ósammála. Finnst hann skjóta yfir markið - en gerir það skemmtilega og með stæl.  Það er rétt hjá honum að kristnin er órjúfanlegur hluti íslenskrar menningar.  Þá menningararfleið eigum við að meta, virða og halda á lofti í "helgidómi íslenskra menntastofnanna".

Mín skoðun er að það eigi að auka fræðslu á öllum skólastigum um kristni og áhrif hennar á íslenska sögu, menningu og þjóðlíf. Ekki með með hraðsoðnu, misvel ígrunduðu námskeiði í 8. bekk - rétt fyrir fermingu - og einungis fyrir börn sem tilheyra þjóðkirkjunni. Nei, fræðslan á að vera hófleg gegnum allan grunnskólann. Fyrir alla af öllum trúarhópum. Ekki hvað síst á að leggja áherslu á kristið siðgæði og gildi.

Á sama hátt á einnig að auka fræðslu á hinni mikilvægu arfleifð okkar - hinni fornu, hefðbundnu norrænu trú. Þrátt fyrir 1000 ára kristinn sið á Íslandi, þá hafa gildi og saga hinna fornu norrænu trúarbragða alla tíð haft mikil áhrif á íslenska menningu og er órjúfanlegur hluti hennar. Ekki hvað síst ætti að leggja áherslu á fornnorrænt siðgæði og gildi.

Það er jafn mikilvægt að fræða grunnskólabörn um aðra siði - islam, hindú, búddisma, tao, og shamanisma svo þau skilji betur hvaðan önnur heimsins börn koma og hvaða sýn og siði þau aðhyllast. Ekki hvað síst að leggja áherslu á sammannlegt siðgæði og gildi sem fram koma í flestum trúarbrögðum heimsins.

Því trúarbrögð er ákveðið birtingarform þess sem þarf til að halda samfélögum saman, með siðgæði og jákvæðum gildum.

Með heildstæðri, vandaðri trúarbragðafræðslu sem tekur á öllum tegundum trúarbragða, jákvæðum hliðum þeirra og ábendingum um hættunni við neikvæðri beitingu þeirra, þá getum við aukið siðferðilega hæfni barnanna okkar og búið þau undir farsæla samvist í því fjölmenningarsamfélagi sem við munum deila hér á Íslandi í framtíðinni, hvort sem okkur líkar það betur eður verr.

Ég hef engar áhyggjur af kristninni í því fjölmenningarsamfélagi. Hún mun standa fyrir sínu og ná hjörtum barnanna okkar - jafnvel betur á þennan hátt en við núverandi fyrirkomulag - og í betri sátt við önnur trúarbrögð og siði.

Svo er nú það.

Kristileg kveðja frá Halli Magnússyni, safnaðarbarni í Óháða söfnuðinum. 


mbl.is Guðni: Nú skal kennsluborðum kristninnar velt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband