Samfylking og VG "gleymdu" aðgerðaráætluninni!
30.1.2009 | 18:17
Það vekur ugg að Samfylking og VG hafi talið sig geta hafið ríkisstjórnarsamstarf með opin tékk og enga aðgerðaráætlun í efnahags- og atvinnumálum.
Það var afar skýrt af hálfu Framsóknarflokksins að forsenda þess að flokkurinn myndi verja ríkisstjórn VG og Samfylkingar falli væri að fyrir lægi skýr áætlun um það hvernig ríkisstjórnin hyggðist koma til móts við skuldsett heimili í landinu og bæta rekstrarskilyrði íslensks atvinnulífs.
Samfylking og VG höfðu ekki unnið slíka áætlun og treystu því greinilega að Framsóknarmenn myndu ekki standa í fæturna.
Sem betur fer hafa Framsóknarmenn notað tímann til að undirbúa sjálfir slíka aðgerðaráætlun sem vonandi verður grunnur að farsælu starfi minnihlutastjórnarinnar næstu vikurnar.
Það virðist ljóst - bæði af reynslu síðustu ríkisstjórnar - og nú þegar Samfylking og VG gátu ekki gengið frá trúverðurgri aðgerðaráætlun - að aðkoma Framsóknarflokksins er forsenda þess að unnt sé að stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar.
![]() |
Ný ríkisstjórn eftir helgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ríkisstjórnin taki 100 milljarða lán hjá lífeyrissjóðum í atvinnusköpun
30.1.2009 | 12:39
Það er brýnt að verðandi ríkisstjórn samþykki haldbæra aðgerðaráætlun í efnhagsmálum til að vinna fram að kosningum, en veifi ekki lausbeislaðri kosningastefnuskrá. Einn þáttur þessarara áætlunar ætti að vera sú að Ríkið taki 100 milljarða í framkvæmdalán hjá lífeyrissjóðunum á 3,5% vöxtum!
Þessar tillögur mínar komu reyndar til vinnslu á flokksþingi Framsóknarflokksins og urðu einn grunnurinn að ályktun Framsóknarflokksins um stofnun sérstaks tímabundins Endurreisnarsjóðs:
Í samvinnu við lífeyrissjóði landsins verði settur á fót sérstakur tímabundinn Endurreisnarsjóður. Sjóður þessi fái heimild til lántöku, með ríkisábyrgð, hjá íslenskum lífeyrissjóðum. Fjármagni þessu verði beint til skynsamlegra og atvinnuskapandi verkefna, og m.a. verði sjóðnum heimilt að endurlána til sveitarfélaga vegna viðhalds- og uppbyggingarverkefna.
Þá ætti einnig að beita Íbúðalánasjóði þannig Íbúðalánasjóður bjóði endurbótalán afborgunarlaus í 3 ár en slíkt getur skipt máli í ástandi sem þessu.
Sjá einnig:
Ríkið taki 100 milljarða í framkvæmdalán hjá lífeyrissjóðunum á 3,5% vöxtum!
Ríkisstjórnin að bregðast í nauðsynlegri atvinnusköpun?
Íbúðalánasjóður bjóði endurbótalán afborgunarlaus í 3 ár
![]() |
Atvinnulausum fjölgar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Aðildarviðræður við ESB strax eftir kosningar
30.1.2009 | 07:48
Aðildarviðræður við Evrópusambandið eiga að sjálfsögðu að hefjast strax í kjölfar komandi kosninga. Ef þær ganga vel er unnt að kjósa samhliða um niðurstöðu aðildarviðræðna og stjórnlagaþing.
Samningsmarkmið Framsóknarflokksins eiga að sjálfsögðu að liggja til grundvallar. Þau eru skynsamleg auk þess sem aðrir flokkar ekki skilgreint sín markmið.
Eftirfarandi fer ályktun flokksþings Framsóknarflokksins um aðildarviðræður við Evrópusambandið:
Markmið
Að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar.
Þá er fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum. Viðræðuferlið á að vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu.
Skilyrði
Skýr og einhliða úrsagnarréttur, sem er þegar viðurkenndur í aðalsáttmála ESB, verði hluti aðildarsamnings. Staðfest verði að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og aðfiskveiðistjórnun verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur ESB um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.
Fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt og viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar.
Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður.
Framleiðsla og úrvinnsla íslenskra búfjárstofna verði tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra búfjárstofna. Staðfest verði að vegna aðstæðna á Íslandi og fámennis þjóðarinnar hafi Íslendingar varanlegan rétt til að setja lög um forgangsrétt manna með lögheimili og fasta búsetu á slandi til að eiga ráðandi hlut í jarðeignum, lóðum, fasteignum og atvinnufyrirtækjum, enda styðjast slík ákvæði við núgildandi reglur á Álandseyjum, Möltu, Azoreyjum og víðar innan ESB.
Í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.
Tekið verði tillit til stöðu íslensks efnahagslífs við umbreytingu peninga- og gjaldeyrismála á Íslandi.
Ákvæði verði um varðstöðu um íslenska þjóðmenningu, þjóðtungu og þjóðhætti á Íslandi. Íslenska verði viðurkennt sem eitt hinna opinberu tungumála ESB.
Fyrstu skref
Þessi helstu samningsmarkmið, sem og önnur sem skilgreind verða í samvinnu hagsmunaaðila og stjórnvalda, með sem víðtækastri samstöðu, verði lögð til grundvallar því umboði sem samninganefnd Íslendinga fari með í samningaviðræður við Evrópusambandið
![]() |
Fengjum forgang inn í ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)