Aðildarviðræður við ESB strax eftir kosningar

Aðildarviðræður við Evrópusambandið eiga að sjálfsögðu að hefjast strax í kjölfar komandi kosninga. Ef þær ganga vel er unnt að kjósa samhliða um niðurstöðu aðildarviðræðna og stjórnlagaþing.

Samningsmarkmið Framsóknarflokksins eiga að sjálfsögðu að liggja til grundvallar. Þau eru skynsamleg auk þess sem aðrir flokkar ekki skilgreint sín markmið.

Eftirfarandi fer ályktun flokksþings Framsóknarflokksins um aðildarviðræður við Evrópusambandið:

Markmið

Að Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar.

Þá er fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum. Viðræðuferlið á að vera opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu.

Skilyrði

Skýr og einhliða úrsagnarréttur, sem er þegar viðurkenndur í aðalsáttmála ESB, verði hluti aðildarsamnings.

Staðfest verði að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og aðfiskveiðistjórnun verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur ESB um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.

Fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt og viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar.

Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður.

Framleiðsla og úrvinnsla íslenskra búfjárstofna verði tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra búfjárstofna.

Staðfest verði að vegna aðstæðna á Íslandi og fámennis þjóðarinnar hafi Íslendingar varanlegan rétt til að setja lög um forgangsrétt manna með lögheimili og fasta búsetu á slandi til að eiga ráðandi hlut í jarðeignum, lóðum, fasteignum og atvinnufyrirtækjum, enda styðjast slík ákvæði við núgildandi reglur á Álandseyjum, Möltu, Azoreyjum og víðar innan ESB.

Í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.

Tekið verði tillit til stöðu íslensks efnahagslífs við umbreytingu peninga- og gjaldeyrismála á Íslandi.

Ákvæði verði um varðstöðu um íslenska þjóðmenningu, þjóðtungu og þjóðhætti á Íslandi. Íslenska verði viðurkennt sem eitt hinna opinberu tungumála ESB.

Fyrstu skref

Þessi helstu samningsmarkmið, sem og önnur sem skilgreind verða í samvinnu hagsmunaaðila og stjórnvalda, með sem víðtækastri samstöðu, verði lögð til grundvallar því umboði sem samninganefnd Íslendinga fari með í samningaviðræður við Evrópusambandið


mbl.is Fengjum forgang inn í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þeir sem ólmir vilja búa innan ESB geta einfaldlega flutt þangað og látið okkur eftir að búa í Sjálfstæðu Íslandi. Afhverju að taka frá fólki þann möguleika að búa í evrópu en ekki innan ESB?

Palli (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 08:36

2 identicon

"Aðildarviðræður við Evrópusambandið eiga að sjálfsögðu að hefjast strax í kjölfar komandi kosninga."

Af hverju "að sjálfsögðu " ?

allt í lagi að kjósa fyrst um HVORT við viljum fara í viðræður. ekki satt ?

Engan asa, mannstu hvert hann leiddi okkur síðast ?

Birgir Guðjónsson (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 09:05

3 Smámynd: Hallur Magnússon

Palli.

Það er ekki verið að taka þann möguleika að búa í Evrópu en ekki innan ESB.  Um það munu kosningar um mögulegan aðildarsamning snúa!

Birgir.

Auðvitað eigum við fyrst að fara í aðildarviðræður og leggja niðurstöður þeirra í dóm þjóðarinnar. Það hafa Norðmenn gert í tvígang - og fellt í tvígang.

Þetta er ekki flókið mál.

Hallur Magnússon, 30.1.2009 kl. 09:56

4 identicon

Ég get ekki verið sammála því að það eigi að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvað sem þjóðin getur ekki kynnt sér sjálf. Það er lágmark að reglugerðir og lög Evrópusambandsins verði þýtt yfir á íslensku og gert aðgengilegt fyrir almenning áður en farið er út í kosningar...

 Yfirleitt kjósum við fulltrúa á þing til að kynna sér málin og taka upplýstar ákvarðanir. Þjóðin kýs fulltrúana enda eru þeir búnir að kynna sig fyrir þjóðinni. En þegar þjóðin á að kjósa um eitthvað sem stærsti hluti hennar hefur enga þekkingu á aðra en upphrópanir nokkura manna þá sé ég ekki hvað við höfum við þjóðaratkvæði að gera.

 Samfylkingin ætti að fara út í það að þýða þetta enda er það eina stefnumál hennar að því er virðist að afsala fullveldi okkar til ESB.

Magnús Ragnarsson (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 11:01

5 identicon

Heyr! Það er nú ekki verra fyrir þig að "díla" við Olla vin þinn og framsóknarmann.

Jón Tynes (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 11:56

6 Smámynd: Hallur Magnússon

... eða Svíana sem taka við í sumar - og Maltverjan sem fer með sjávarútvegsmálin og er okkur mjög hliðhollur

Hallur Magnússon, 30.1.2009 kl. 12:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband