Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Kaupþing stórgræðir á uppgreiðslu lána
6.2.2009 | 20:50
Það hljómar afar vinsamlega þegar Kaupþing ákveður að veita lántakendum íbúðalána tímabundinn afslátt af uppgreiðslugjaldi, en sannleikurinn er sá að Kaupþing hagnast verulega á uppgreiðslum.
Ef réttlæti hefði ríkt hjá bönkunum á sínum tíma þá hefði einungis átt að greiða uppgreiðslugjald ef vaxtastig á íbúðalánum væri lægra þegar lánið var greitt upp en þegar lánið var tekið, því ef vaxtastigið er hærra við uppgreiðslu en lántöku þá er bankinn að græða.
Ástæðan er einföld. Ef viðskiptavinur bankans er með lán á 4,15% vöxtum og greiðir það upp þegar bankinn getur nýtt peningana til þess að lána nýjum viðskiptavinum sömu peninga á 6,65% vöxtum eins og vextir íbúðalána bankans eru núna, þá hagnast bankinn um vaxtamuninn sem er 2,5%.
Nú skulið þið reikna hvað 2,5% vextir af 20 milljón króna láni eru á ári.
Já, það er rétt hjá ykkur hvort sem þið trúið því eða ekki. Bankinn er að hagnast um 500 þúsund krónur á ári til að byrja með. Án uppgreiðslugjalds.
Uppgreiðslugjald af 20 milljón króna láni hefur hingað til verið 2%. Því hefur fólk þurft að greiða 400 þúsund krónur í uppgreiðslugjald af 20 milljón króna láni.
"Kostaboð" Kaupþings felst því í að nú þarf fólk ekki að borga "nema" 200 þúsund krónur í uppgreiðslugjald svo bankinn geti hagnast um 500 þúsund krónur til viðbótar á árinu.
Gróði bankans á fyrsta ári af 20 milljón króna láni er því "einungis" 700 þúsund á fyrsta ári og 500 þúsund á öðru ári í stað 900 þúsund króna á fyrsta ári. Gróði bankans er um 500 þúsund krónur á næsta ári einnig og svo örlítið minna árið þar á eftir.
Það kostulega er náttúrlega að Nýja Kaupþing er ekki að greiða fjármögnunarlánið af íbúðaláninu, það er gamla Kaupþing sem situr upp með þá skuld!
Já, öðlingar eru þeir í Nýja Kaupþingi!
![]() |
Gildandi vextir haldast við yfirtöku íbúðalána Kaupþings |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Jóhanna getur sjálfri sér um kennt!
6.2.2009 | 17:08
Jóhanna Sigurðardóttir situr nú í eigin pytti þegar hún er ósátt við flokksfélaga sinn Ásmund Stefánsson sem bankastjóra Landsbankans.
Hún og ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks höfðu á sínum tíma alla burði til þess í krafti þess að ríkið á allt hlutafé ríkisbankanna að skipa ríkisbönkunum að taka upp sambærilega greiðsluerfiðleikaaðstoð og Íbúðalánasjóður.
Þess í stað voru send út veimiltítuleg tilmæli sem ekki var fylgt eftir og bankarnir hunsuðu. Það var ekkert gert við þeirri hunsun. Bankarnir komust upp með moðreyk. Jóhanna gerði ekkert í því sem félagsmálaráðherra.
Nú halda bankaráðin og bankarnir því - eðlilega - að þeir þurfi ekki að hlusta á ríkisstjórnina og hvað þá að hafa samráð við hana. Því er Ásmundur ráðinn án samráðs.
Jóhanna getur því sjálfri sér um kennt.
![]() |
Óánægð með Landsbankastjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Verður Landsdómi beitt vegna afglapa ráðherra síðustu ríkisstjórnar?
6.2.2009 | 08:44
Verður Landsdómi beitt vegna afglapa ráðherra síðustu ríkisstjórnar? Er loksins komi tími til að draga ráðherra til ábyrgðar vegna alvarlegra misstaka og misbeitingu?
Þetta kom upp í hugan þegar ég las hatramma varnargrein Kjartans Gunnarssonar - fyrrum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins og stjórnarmanns í Landsbankanum og þannig ábyrgðaraðila fyrir IceSave klúðrinu - þar sem tekinn er upp hanskinn fyrir Davíð Oddsson seðlabankastjóra.
Kjartan hótar nánast Jóhönnu Sigurðardóttur Landsdómi þegar hann - réttilega - bendir á að Jóhanna hafi borið fulla ábyrgð á stefnu og starfsemi Seðlabankans.
Kjartan segir:
Það er mjög mikilvægt á erfiðleikatímum eins og þessum að missa ekki virðinguna fyrir lögum og rétti. Hin nýja minnihlutastjórn komst til valda í skjóli ofbeldis, sem kunnugt er. Jóhanna Sigurðardóttir er forsætisráðherra, og það er á beinni pólitískri og lagalegri ábyrgð hennar, ef hún ákveður að reka Davíð Oddsson úr embætti seðlabankastjóra, eins og hún hefur boðað. Hún getur ekki reynt að skjóta sér undan þeirri ábyrgð, en ákvæði um Landsdóm í íslensku stjórnarskránni eru meðal annars hugsuð til að koma lögum yfir ráðherra, sem misbeita valdi sínu stórkostlega
En þótt Kjartan hafi dregið upp hótunina um Landsdóm gagnvart Jóhönnu - þá má spyrja:
Gætu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins jafnt sem Samfylkingar hafi mögulega brotið svo af sér að vert sé að dusta rykinu af Landsdómi?
Spyr sá sem ekki veit.
![]() |
Pólitískar hreinsanir og ofsóknir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Framsóknarmaðurinn Olli Rehn stendur fast með Íslandi hjá ESB
5.2.2009 | 14:34
Framsóknarmaðurinn og minn gamli samherji í stjórn NCF, Finninn Olli Rehn stækkunarstjóri ESB, stendur fast með málstað Íslands hjá Evrópusambandinu þótt hægrimenn séu ekki eins jákvæðir gegn okkur.
Hægri maðurinn Hans-Gert Pöttering, forseti Evrópuþingsins fékk hland fyrir hjartað þegar Olli ítrekaði að Ísland væri velkomið í Evrópusambandið og gæti jafnvel gengið í það árið 2011.
Olli svarar Hans-Gert fullum hálsi:
Öll Evrópuríki sem mæta skilyrðunum um lýðræði og löggjöfina og framkvæmir þau í reynd, geta sótt um aðild að ESB. Ísland fellur betur undir þessa skilgreiningu heldur en Balkanlöndin til dæmis, sagði Olli Rehn í viðtali í Helsinki Sanomat.
Stækkunarstjórinn bendir á að Ísland fullnægi nú þegar öllum lýðræðislegum skilgreiningum ESB. Það sé einnig aðili að Evrópska efnahagssvæðinu og að minnsta kosti tveir þriðju af löggjöf ESB sé þar þegar í gildi.
Rehn gerir ráð fyrir að með því að Ísland hefji umsóknarferlið og vilji til að gangast undir skilgreingu aðildar á evrusvæðinu gæti einnig ýtt undir stöðugleika í efnahagsmálum landsins sem nú glími við alvarlegan vanda á því sviði.
Það er gott að eiga góða Framsóknarmenn að í Brussel þegar við hefjum aðildarviðræður við Evrópusambandið, aðildarviðræður sem eru okkur mikilvægar og forsenda þess að við getum tekið málefnalega afstöðu til þess hvort við göngum í Evrópusambandið eða ekki.
![]() |
Olli Rehn stendur fast á sínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Dómsmálaráðherra fangi í sandkassaleik Samfylkingar og íhalds
5.2.2009 | 12:57
Það var sorglegt að sjá nýjan dómsmálaráðherra nánast sem fanga í sandkassaleik Samfylkingar og íhalds í þinginu í morgun. Ekki hvað síst þar sem Ragna Árnadóttir var að halda jómfrúarræðu sína á Alþingi. Ragna gefur af sér góðan þokka og mér lýst vel á hana sem dómsmálaráðherra í bráðbirgðastjórninni. Hrýs hugur við tilhugsunina um að sjá Lúðvík Bergsson í hennar sporum!
Talandi um Lúðvík Bergsson þá hélt hann sem formaður þingflokks Samfylkingar samsvarandi frumvarpi og dómsmálaráðherra mælit nú fyrir í gíslingu í síðustu ríkisstjórn. Reyndar hefur Björn Bjarnason lagt fram frumvarp sem fyrri ríkisstjórn var með tilbúið - en var fast í gíslingu Lúðvíks.
Frumvarp dómsmálaráðherra er nánast afrit af frumvarpi Björns - enda fóru Sjálfstæðismenn og Samfylkingarmenn að slást um hvor ætti betra frumvarp!
Reyndar er málefni gott, enda varð það hinn réttsýni Framsóknarmaður Jón Sigurðsson sem setti nefnd í að vinna málið á sínum tíma!
![]() |
Mælt fyrir frumvörpum um greiðsluaðlögun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Var það þetta það sem við þurftum á að halda?
5.2.2009 | 10:32
"The spat between Britain and Iceland over the collapse of the Icelandic banking industry is starting to make the Cod War look like a convivial fish supper. The Treasury is spitting that it was not consulted over attempts to put a company that owns large swaths of the British high street into administration. "
Þannig hljóðar inngangur að veffrétt breska blaðsins Times.
Var það þetta sem við þurftum á að halda núna?
Hefur Jón Ásgeir eitthvað til síns máls þegar hann segir að Landsbankinn og Glitnir séu að starta "brunaútsölu aldarinnar" með aðgerðum sínum sem hann telur að hafa verið óþarfar og gerðar vegna kröfu Davíðs Oddsdsonar um að " Baugur fari á undan honum".
Ég hef ekki forsendur til að meta það á þessari stundu - en mér fannst Lárus Finnbogason formaður skilanefndar Landsbankans trúverðugur í gær þegar hann sagði ekkert slíkt liggja að baki - en erum við að gera enn ein mistökin í bankamálum?
![]() |
Krefjast upplýsinga um Baug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég er sammála Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra um að það eigi að halda áfram byggingu tónlistarhúss enda missa líklega allt að 500 manns vinnuna ef framkvæmdum verður hætt, bæði þeir sem vinna beint við að reisa húsið og þeir sem hafa af því tekjur í afleiddum verkefnum.
En það á ekki að koma framkvæmdinni yfir á ríki og borg - heldur á Landsbankinn að halda áfram með verkið.
Það má ekki gleyma því að fyrir liggja rekstrasamningar til langs tíma vegna tónlistarhússins, þannig að það eru allar líkur á að aðrir aðiljar - mögulega erlendir - muni koma inn í verkið á síðari stigum.
Ef Landsbankinn er með múður - þá getur ríkið gripið inn í stjórn bankans - enda á ríkið allt hlutaféð!
![]() |
Vill ljúka smíði Tónlistarhúss |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Stjórnlagaþing, persónukjör og auðlindirnar í þjóðareigu
4.2.2009 | 23:46
Eftir að hafa talað fyrir daufum eyrum í mörg ár fyrir persónukjöri, fleiri þjóðaratkvæðagreiðslum, það að auðlindir þjóðarinnar séu skilgreindar í þjóðareigu í stjórnarskrá, skipan dómara sé breytt, fyrir aðskilnaði löggjafarvalds og framkvæmdavalds og á undanförnum mánuðum talað fyrir stjórnlagaþingi til að koma framangreindu í framkvæmd á Íslandi, þá trúi ég varla mínum augum og eyrum!
Allt þetta virðist vera að detta á.
Sakna reyndar baráttumáls míns um að landið verði eitt kjördæmi - eins og setti fram í prófkjörsbaráttu minni árið 1995 og ekki var vinsælt meðal Framsóknarmanna á þeim tíma!
Það eru spennandi tímar!
Þetta segir mér að það er stundum ástæða til þess að gefast ekki upp - heldur halda áfram að berjast fyrir málum og færa rök fyrir þeim!
Þess vegna er ég nú óðfús að taka beinan þátt í stjórnmálum að nýju - eftir að hafa frekar verið til hlés meðan ég var embættismaður við að byggja upp samþætta velferðarþjónustu á sviði félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisþjónustu í reynslusveitarfélaginu Hornafirði 1995-1998 og sem embættismaður við þróun húsnæðismála í Íbúðalánasjóði, Félagsmálaráðuneyti og Norska húsbankanum á árunum 1999-2007 - þótt ég léti skoðun mína alltaf í ljós á miðstjórnarfundum og flokksþingum allan þann tíma.
Nú stefni ég bara á þing til þess að fylgja þessum málum - og öðrum góðum málum - og vona að ég fái stuðning til þess.
![]() |
Opnað fyrir persónukjör |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ríkisstjórnin og Samfylkingin klofin í stóriðjumálum
4.2.2009 | 09:19
Ríkisstjórnin er klofin í stóriðjumálum. Samfylkingin er líka klofin í stjóriðjumálum ef marka má borgarstjórnarfund í gær. Atvinnuuppbygging á tímum atvinnuleysis virðist því ekki vera forgangsmál þessara "verkalýðsflokka". Það vantar greinilega Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn til að koma atvinnulífinu aftur á af stað - eins og flokkurinn gerði þegar hann kom í ríkisstjórn 1995.
Samfylkingarmenn í ríkisstjórn túlka stjórnarsáttmálann þannig að undirbúningur álvers á Bakka verði ekki stöðvaður af núverandi ríkisstjórn. VG eru á annarri skoðun. Samfylkingarmenn í ríkisstjhórn segjast fylgjandi álveri í Helguvík. Samfylkingarmenn í borgarstjórn eru á móti því að Orkuveita Reykjavíkur útvegi álveri í Helguvík orku - og hljóta því að vera á móti Helguvík.
"Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra segir að sinn skilningur á stjórnarsáttmála Vinstri grænna og Samfylkingar, um að álver á Bakka sé ekki á dagsrá sé réttur. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra segir þetta ekki rétt. Að sögn Jóhönnu hefur Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra rétt fyrir sér þegar hann segir að verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar muni ekki koma í veg fyrir frekari undirbúning að hugsanlegu álveri á Bakka við Húsavík."
Svo segir í frétt á fréttavefnum AMX.
Ég hlustaði á Dofra Hermannsson borgarfulltrúar Samfylkingarinnar tala gegn orkusamningi Orkuveitu Reykjavíkur vegna álvers í Helguvík - og það var greinilegt á hans orðum að hann er á móti álveri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mig langar í smá hlut í Mogganum
3.2.2009 | 22:23
Mig langar svolítið að eignast smá hlut í Mogganum enda byrjaði ég blaðamannaferil minn þar árið 1984 þegar ég gerðist annar tveggja umsjónarmanna unglingasíðu Moggans. Á ennþá ljósbláa fréttaritaraskírteinið þar sem segir:
Hallur Magnússon er fréttaritari Morgunblaðsins í Reykjavík og ráðinn til þess að skrifa greinar um ungt fólk.
Undirskrift Styrmis Gunnarssonar á skírteinið er glæsileg!
![]() |
Leggur fram tilboð í Árvakur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)