Framsóknarmenn sækja að Guðlaugi Þór - en ég er samt ánægður með hann!

"Framsóknarmenn kalla eftir haldbærum skýringum frá ráðherra og fallast ekki á loðin svör hans um mögulegan sparnað með lokun spítalans. Framsóknarmenn í Hafnarfirði styðja starfsfólk St.Jósefsspítala, sjúklinga og aðra sem bera hag spítalans fyrir brjósti í baráttu sinni fyrir því að honum verði ekki lokað. Stöndum vörð um St. Jósefsspítala og látum ákall frá borgarafundinum hljóma svo hátt að ráðherrann heyri til"

 Svo hljóðar samþykkt Framsóknarfélaganna í Hafnarfirði. Ég skil vel áhyggjur þeirra - enda finn ég Gaflarablóðið kalla á mig í að berjast fyrir hagsmunum Hafnfirðinga!

Engu að síður er ég ánægður með meginatriði Guðlaugs Þórs sem hefur tekið djarft - og að mínu mati farsælt skref - með því að skipta landinu upp í einungis 6 heilbrigðisstofnanasvæði.

Ég er þess fullviss að í því felast sóknartækifæri.

Undirstrika þó það sem ég hef sagt: Guðlaugur Þór sýnir kjark og áræði

Undirstrika þó það sem ég hef einnig sagt:

"En þótt mikil breyting felist í þessum róttæku breytingum sem og öðrum breytingum sem heilbrigðisráðherra hefur boðað, þá fer fyrst að reyna á ráðherrann í framhaldinu.

Það skiptir nefnilega öllu máli hvernig unnið verður úr þeim ramma sem settur hefur verið og hvernig unnið verði úr þeim tillögum um breytingar sem samhliða voru kynntar á starfsemi ýmissa sjúkrastofnanna.

Það verður úrvinnsluferlið og endanleg útfærsla sem skiptir mál. Þessi aðgerð getur endað með ósköpum ef ekki er vel haldið á málum og ekki tekið tillit til aðstæðna á hverjum stað fyrir sig. En þessi róttæka breyting getur einnig orðið til þess að auka hagkvæmni og bæta heilbrigðiskerfið í heild til lengri tíma litið.

Tíminn mun leiða í ljós hvort ráðherrann ræður við verkefnið eða hvort það verði banabiti hans sem stjórnmálamanns."

Það hvernig ráðherrann nær lendingu í St.Jó. mun ráða miklu um framhaldið.

Vil taka sérstaklega fram að margir Framsóknarmenn hafa haft við mig samband og hundskammað mig fyrir þessa afstöðu. Ég met það mikils. En mér finnst þetta samt.

 


mbl.is Skorað á Hafnfirðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Hallur.

Hver er ekki sammála hagræðingu og margt sem að er stefnt gæti skilað sér í styrkari rekstri eins og hefur sannast hér fyrir austan með HAUST.

En það er ekki sama hvernig er staðið að hlutum og fílar í postulínbúð hafa alltaf  verið illa séðir viðskiptavinir.  Eins er það með SUS-ara á stóli heilbrigðisráðherra.  Vinnubrögð Guðlaugs voru fyrir neðan allar hellur og ekki það sem þjóðin þarf á að halda á þessum tímum.  

Mig minnir að hagsmunaklíkur bankanna hafi veist harkalega að Íbúðalánasjóði þegar þú varst þar innanbúðamaður og þú tókst þá vörnina með sóma.  Hvað segir þér t.d að frjálshyggjan hafi réttara fyrir sér núna gagnvart Jósefsspítala en Bjarni og co. höfðu fyrir sér  þegar þeir vildu loka Íbúðalánasjóði?  Geta talsmenn hins smáa og ódýra ekki alveg haft rétt fyrir sér eins og þú þegar þú rakst svo eftirminnileg  ofaní kok á bankamafíunni að kerfisbreytingarnar væru að færa ódýra og hagkvæma þjónustu yfir i dýrara en um leið ótraustara kerfi með þeim afleiðingum að húsnæðislán landsmanna myndu hækka.  Þú hafði það rétt fyrir þér að þeir þorðu ekki í þig aftur og létu undirsáta sína hjá Sambandi fjármálafyrirtækja  lögsækja þig og Guðmund hjá Efta.  

Sagan er gjöfult safn upplýsinga um líkindi og samsvaranir og gjörðir manna.  Ég man t.d þá tíð þegar Hallur Magnússon lamdi á SUS-urum en studdi þá ekki.  Vona að þú finnir atgeirann þinn aftur og beitir honum i þágu samvinnu og samráðs frjálsra einstaklinga.  Slíkt er Guðlaugi Þór mjög framandi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.1.2009 kl. 01:42

2 identicon

Fólk er yndislegt - Ómar Geirsson viðurkennir að hagræðingin í þessu kerfi fyrir austan hafi gefist vel - reyndar er marktækari maður en Ómar búinn að lýsa því yfir áður En það er Einar Haraldsson (frá Akureyri) sem þekkir þann rekstur betur en aðrir. En hjá Ómari er málið það að Sjálfstæðismaðurinn Guðlaugur Þór má ekki gera þetta. Hann hefur ekki rétt flokksmerki.

Það er eins og minn gamli kunningi Gvendur (heitinn ) jaki sagði við eina ágæta konu - það er leitt að Ólafur skuli vera Sjálfstæðismaður - ef hann væri það ekki gæti hann náð langt innan verkalýðshreyfingarinnar. Þess má geta að Jakinn virti mínar pólitísku skoðanir - horfði frekar til verka og hugmynd. Það ættu Hafnfirðingar og Ómar líka að gera.

Hallur - þakkir til þín -

Ólafur I Hrólfsson

Ólafur I Hrólfsson (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 06:14

3 Smámynd: Hallur Magnússon

Kærar þakkir fyrir þetta Ómar!

Undirstrika enn og aftur að ég tel sóknarfæri í skipulagsbreytingunni - en það skipti öllu máli hvernig unnið verði úr henni.  ´Þar þarf að taka afstöðu til aðstæðna hverju sinni.

Þótt þessi skipulagsbreyting á heilbrigðisstofnanaumdæmunum komi frá fyrrum SUS ara - þá finnst mér það ekki skipta máli. Er meira en reiðubúinn að berja á þeim - en þá í málefnum sem ég er þeim ósammála.

Ég tel reyndar - eins og áður hefur komið fram - að sveitarfélögin eigi að vera nánast þau sömu og þessi skipting - reyndar rætt um að þau eigi að vera svipuð gömlu kjördæmunum - skattar renni þangað - en þau greiði útsvar til ríkisins.  Og að þau sveitarfélög sjái um rekstur heilbirgðisstofnananna - sem og allrara annarrar nærþjónustu. Það gefur mikla möguleika á mikilli og góðri alhliða samþlættingu ýmiskonar þjónustu við íbúana.

Hallur Magnússon, 10.1.2009 kl. 11:00

4 Smámynd: Guðmundur Björn

Móðursýki og upphrópanir eru einkenni Íslendinga þessi misserin.  

Formaður Landsambands Eldri Borgara fagnar þessum skipulagsbreytingum og ekki síst að aldraðir fái nýtt öldrunarheimili.  Þá var það loksins að þetta "framkvæmdagjald aldraða" sem skattborgar greiða á hverju ári í ágúst, skili sér loksins (eða kannski) í réttar hendur.

Einn hængur er þó mögulega á þessu.  Samgöngur á Vestfjörðum gera það erfitt fyrir að hægt sé að flytja sjúkling norður á Ísafjörð í allt að átta mánuði ársins.

Þótt Guðlaugur sé umdeildur, þá er það bara vegna þess að hann er í Sjálfstæðiflokknum og allir fordæma allt sem hann gerir því haldið er að hann sé að einkavæða.   Einkennilegt hvað ráðherrar sem framkvæma og taka erfiðar en nauðsynlegar ákvarðanir verða alltaf óvinsælir á Klakanum.

Guðmundur Björn, 10.1.2009 kl. 11:01

5 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Hallur!

Það er víða hægt að hagræða hjá ríkinu og þetta segi ég án þess að meina með því að einhversstaðar sé verið að bruðla!

Gott dæmi um breytingar af þessu tagi var nýleg sameining landsins í eitt tollumdæmi, en með því næst vonandi betri nýting á mannskap auk þess sem þetta eflir vonandi starfsemina. Við erum reyndar ekki búnir að sjá útfærsluna á því fyrirkomulagi, en ég vonast til að sátt verði um hana.

Sama fyrirkomulag ætti að skoða varðandi lögregluna í landinu, þ.e.a.s. að gera landið að einu lögregluumdæmi. Umdæminu mætti síðan skipta í svæði, þar sem venjulegir lögreglumenn yrðu yfirmenn.

Eins er óþarfi að vera með svona marga skattstjóra. Á tímum rafrænnar stjórnsýslu og betri samgangna er ekkert vandamál að koma þessari breytingu á.

Síðan væru sýslumennirnir áfram á sínum stað sem umboðsmenn ríkisins og til að leiðbeina fólki og taka við eyðublöðum frá þeim, sem ekki sækja um á netinu.

Ekki er nauðsynlegt að þessi þjónusta fari öll á höfuðborgarsvæðið. Þannig gæti Skattstjórinn verið staðsettur nær hvar sem er á landinu. Öðru máli gegnir kannski um Lögreglustjórann, því stærstur hluti landsmanna býr hér á suðvesturhorninu.

Stjórnsýslan hefur verið í gagngerri endurskipulagningu á undanförnum árum og nægir þar að MAST og Neytendastofu og Umferðastofu. Þessari gagngeru endurskoðun á skipulagi ýmissar opinberrar stjórnsýslu og þjónustu ber að halda áfram á heilbrigðissviðinu og menntasviðinu. Þarna eru útgjöld ríkisins mest og því mest von um hagræðingu. Með þessu er ég þó ekki endilega að tala um algjöra markaðsvæðingu kerfisins, heldur breytingar sem byggja á breyttu umhverfi, hvort sem það er vegna nútímatækni eða betri samgangna. Þetta skref Guðlaugs er því að mörgu leyti skiljanlegt og þó sérstaklega í ljósi þess að niðurskurður er óhjákvæmilegur. Það er von mín að þetta verði leyst í samvinnu við stéttarfélögin og starfsmenn á viðkomandi stofnunum. Þessi "tilkynninga" vinnubrögð eru mér ekki eins að skapi.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 10.1.2009 kl. 12:42

6 identicon

Áður en þú hverfur alveg inn í eigin nafla Hallur minn þá er rétt að benda þér á eftirfarandi: Jafnvel framsóknarmenn eru agndofa á gerræðislegum stjórnvaldsaðgerðum (ó)heilbrigðismálaráðherra, en þú ert samt ánægður með hann! Í þínum huga er valdníðsla og einkavinavæðing heilbrigðiskerfisins merki um kjark og áræði og ígildi sóknartækifæra

Hallur - þú rokkar í ruglinu!

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 12:54

7 identicon

Það er afskaplega sjaldan sem ég get nálgast það að vera sammála Halli en svona vottar fyrir því núna;).  Svona að hluta til.  Í raun er ekkert hægt að segja um þessar skipulagsbreytingar ennþá, því það á alveg eftir að útfæra þessar breytingar á hverjum stað fyrir sig.

Það er örugglega hægt að ná fram stærðarhagkvæmni með stærri einingum, en aldrei án þess að einhvers staðar komi fram skerðing á þjónustu. Vandinn sem ísl. þjóðfélag stendur frammi fyrir núna  (í heilbrigðismálum sem annars staðar) er að gera hlutina á sem SANNGJARNASTAN hátt, því það er ekki hægt að gera hlutina svo öllum líki.

En þetta er bara byrjunin. Ég held að því miður sé í farvatninu önnur og miklu meiri breyting á greiðslufyrirkomulagi heilbrigðisþjónustu og að verið sé að nota þetta fjármálaóstabilitet sem við búum við núna, til að lauma henni að okkur. Fyrstu skví eru farin að berast um það í formi þess sem sagt er um framtíð sjúkrastofnana á Suðurnesjum.

Þar í liggur hættan að mínu mati, þ.e. þeim hugmyndum sem Einar Oddur Kristjánsson var látinn setja fram (líklega upp úr aldamótum, heyrði hann tala um þetta stuttu eftir að ég kom heim úr framhaldsnámi í Bandaríkjunum og brá illa við, sem og reyndar að upplifa þá breytingu sem orðin var á ísl. þjóðfélagi, amerikanaseringu, á þeim 7 árum sem ég bjó í USA) að lífeyrissjóðir landsmanna yrðu gerðir að kaupendum heilbrigðisþjónustu fyrir sína félagsmenn. Skilin á milli TR og þess hluta hennar sem nú er Sjúkratrygginar Íslands eru gerð í því augnamiði. Er það rétt að Sjúkratrygginar eigi að semja  við tryggingafélögin í stórkaupum á þjónustu? Ef svo er, þá er búið að lauma inná okkur línu kananna: the bottomline is money, not wellfare! Og þá ekki peningur í vasa greiðenda eða veitenda, heldur í vasa tryggingarfélaganna, sem hafa nú ekki verið staðin að því ennþá að stuðla að ódýrum tryggingum hér á Íslandi eða standa í mikilli samkeppni.  Ef fólk heldur að í slíku kerfi liggi betri heilbrigðisþjónusta fyrir ALLAN almenning, þá er fólk að vaða sama reykinn og við gerðum í frjálshyggjueinkavinavæðingu ríkisbankanna.

Af hverju heldur fólk að eigendur fjármagns í heilbrigðisgeira hagi sér á ábyrgari hátt út frá samfélagslegum sjónarmiðum, heldur en eigendur fjármagns í t.d. bankageiranum gerði? Það yrðu einstaklingar í business, ekkert annað. Og þar er bottomlænið: gróði.

Eygló Aradóttir (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 13:04

8 Smámynd: Jóhann G. Frímann

Ég held að tíminn leiði ekkert jákvætt í ljós um gerðir og mögulegar gerðir Guðlaugs Þórs. Það er algerlega ljóst að ríkisstjórnin er í andarslitrunum. Þetta er spurning um daga eða örfáar vikur.

Verkefni nýrra stjórnvalda felast m.a. í algerri uppstokkun og tiltekt í heilbrigðiskerfinu eftir allarr gjaldtökur á sjúklinga hafa verið afnumdar. Þar skulum við loksins fara að læra af nágrannaþjóðum okkar í Skandinavíu. Við munum hætta þessari skelfilegu frjálshyggju að bandarískri fyrirmynd. Það vita allir að heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum er rústir einar og þar bíður Obamama risavaxið verkefni.

Jóhann G. Frímann, 10.1.2009 kl. 13:07

9 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Hallur.

Gott að heyra að þú ert ekki orðinn fráhverfur að lemja SUS-ara.  Þeir eru aldrei of oft lamdir.  Allt hugsandi fólk er sammála því að stöðugt þarf að spá í nýtingu peninga í heilbrigðiskerfinu og kerfið sem slíkt er ekki óbreytanlegt.  Margt af því sem Guðlaugur stefnir að er tilraunarinnar virði en þessa hluti þarf að vinna í samvinnu og samráði, annars leiðir þetta til verri niðurstöðu á endanum.  Lastu greinina í Mogganum í gær hjá meltingalækninum hjá Jósefsspítala.  Hann lýsti litlum spítala sem er að gera nauðsynlega hluti á miklu hagkvæmari hátt en mun nokkrum tíma vera hægt að gera á hátæknisjúkrahúsi.  Þetta hefur margur sérfræðingurinn, bæði innlendur og erlendur bent á, landið þolir bara eitt hátæknisjúkrahús en að gera alla hluti inná slíku bákni er miklu dýrara og óhagkvæmara en hjá minni og sérhæfðari einingum.  Margt má einnig gera hjá sjálfstæðum rekstraraðilum útí bæ og slíka starfsemi á að efla.  En að koma öllu inní eitt bákn er merki um bjánaheilkenni en ekki hagræðingar.

En ég var að benda þér á samsvörun um annan lygaáróður sem þú tókst að þér að hnekkja opinberlega fyrir hönd almennings og ég ítreka spurningu mína.  Afhverju á frjálshyggjubull, sem að litlu leyti byggist á sannleik, mikið á hálfsannleik og í mikilvægum atriðum á lygi (eins og því að stórar einingar leiði sjálfkrafa til minni kostnaðar, þvert á margítrekaðar hagfræðirannsóknar sem sína fram á hið gagnstæða í flestum tilvikum), að vera réttara í tilviki Jósefsspítala, en þegar Guðlaugur og co voru að reyna að útrýma Íbúðalánasjóði.

Blessaður Ólafur minn.  Þakka hlýleg orð í minn garð.  Ég veit að allt sem ég segi og skrifa hefur verið sagt áður af mun betri mönnum en mér.  Það gildir því miður líka um þig og flesta aðra sem tjá sig á netinu.  Á þá að leggja niður frjálsa umræðu á netinu eins og þeir vilja í Íran?  En svo ég víki efnislega að því sem þú hafðir áhyggjur af þá vil ég leiðrétta þann misskilning að mér sé illa við sjálfstæðismenn og vilji veg þeirra sem minnstan.  Í mínum huga þá er góður íhaldsmaður gulli betri en að sama skapi þá er vanþroskaður íhaldsmaður stórhættulegur vegna brenglaðra viðhorfa til samfélagsins.  Ef þið sjálfstæðismenn vildu stokka upp í heilbrigðiskerfinu, þá áttuð þið að fá tll þeirra verka ykkar albesta ráðherra, Björn Bjarnason.  Hann sýndi mikinn styrk og þroska þegar hann vann að breytingum á menntakerfinu þegar hann var menntamálráðherra og hann vann með hagsmunaðilum, ekki á móti þeim.  Fyrir utan beiðni um tillögur þá vann Björn þannig að hagsmunaaðilar höfðu alltaf tækifæri til að ræða forsendur og andmæla því sem þeir töldu ekki standast.  Auðvita tók kallinn ákvörðun að lokum en sú ákvörðun naut víðtæks stuðnings.  Það er ekkert náttúrlögmál að ráðherrar sjálfstæðisflokksins þurfi að umgangast postilínbúðir eins og fílar.  Þegar þeir uppgötva það þá eru þeir ekki lengur SUS-arar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.1.2009 kl. 17:46

10 Smámynd: Hallur Magnússon

Ágæti Ómar.

Já, ég las grein meltingarsérfræðingsins ái St.Jó - enfa þjálfaði ég hann einvhern tíma í handbolta! Hefði því lesið greinina eftir hann - þótt hún hefði ekki fjallað um þetta mikilvæga mál.

Ég veit að St.Jó. hefur verið mjög vel rekinn - og spítalinni gegnt mikilvægu hlutverki í heilbrigðisþjónsustunni á höfuðborgarsvæðinu. Samstarf sjálfstætt starfandi sérfrðing á höfuðborgarsvæðinu við skurðteymi St.Jó. er fyrirkomulag sem hefur gengið vel - og gæti verið til fyrirmyndar!

Sammála að það kann að vera erfitt að flytja slíka skurðstofu til Keflavíkur.

Velti fyrir mér hvort það ætti ekki hreinlega að selja St.Jó. til að halda áfram starfsemi sem þar fer nú fram - og fjármagn sem fengist við sölu rynni til byggingar - eða standsetningar á öldrunarsjúkrahúsi.

En ég enn og einu sinni segi: Það eru sóknartækifæri í skipulagsbreygingu sem verið er að gera á stjórnskipan heilbrigðisstofnanna á landinu með því að fækka þeim í 6.

En það skiptir máli hvernig unnið verður úr þessu.

Hallur Magnússon, 10.1.2009 kl. 21:04

11 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Hallur.

Bara stutt í þetta sinn.  Fyrst: Takk fyrir gott blogg um ástandið á Gaza. 

Ég er mikið sammála megininntaki þess sem þú segir að skipulag heilbrigðismála þarf að aðlaga að breyttum tímum.  Ég veit að þú ert ekki sammála vinnubrögðum Guðlaugar en villt láta hann njóta vafans.  Nái drengurinn að vinna sig útúr þessum handabaksvinnubrögðum þá erum við ekki lengur að tala um SUS-ara heldur fullþroskaðan Íhaldsmann og það yrði gæfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn og heilbrigðiskerfið.

Takk fyrir spjallið og góða helgi.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 10.1.2009 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband