Frábært sjálfboðastarf í mannúðarmálum í borginni!

Það er starfrækt alveg frábært sjálfboðastarf í mannúðarmálum víða í borginni.  Fjöldi fólks kemur að slíku starfi og á mikinn heiður skilið.

Við í Velferðaráði borgarinnar kunnum vel að meta þetta mikla starf þannig að ég sem varaformaður ráðsins og Jórunn Ósk Frímannsdóttir formaður ráðsins heimsóttum nokkra staði í morgun þar sem fram fer frábært starf.  Við vildum koma þakklæti okkar í Velferðarráði beint til þeirra sem eru á frjálsum félagagrunni að vinna mikið og gott starf að mannúðarmálum í borginni fyrir þá sem minna mega sín.

Mæðrastyrksnefnd, Hjálparstofnun kirkjunnar og Rauði krossin vinna nú saman að fataúthlutunum   í Sjálfsbjargarhúsinu og eru einnig með afar viðamiklar matarúthlutanir í Borgartúni 25. Þar voru á milli 30 og 40 sjálfboðaliðar að störfum við að undirbúa og afhenda jólaúthlutun. Gleðilegt að sjá kraftinn í starfinu og einnig hve mörg fyrirtæki leggja þessi hjálparstarfi lið.

Þaðan héldum við í súpueldhús Samhjálpar sem er neðar í Borgartúninu. Þar var búið að bera á borð smurt brauð, kaffi og álegg og undirbúningur að hádegisverði fyrir þá sem til Samhjálpar leita var á fullu. Rólegt og gott andrúmsloft.

Fjölskylduhjálpin er við Miklatorg. Þar voru skjólstæðingar Fjölskylduhjálparinnar að koma að þótt klukkustund væri í að Fjölskylduhjálpin opnaði fyrir úthlutanir í dag.

Hjálpræðisherinn rekur afar merkilegt og gott dagsetur  fyrir útigangsmenn vestur á Granda í næsta húsi við Seglagerðina Ægi. Þar gefst fólki tækifæri að fá sér að borða, fara í sturtu, hvílast, fá fótsnyrtingu, þvo fötin sín og ræða málin sín. Við ættum að hafa þetta merka starf í huga næst þegar við sjáum hermann úr Hjálpræðishernum selja Herópið.

Við enduðum þennan heimsóknardag okkar vestur á Granda í dagsetrinu, Eins og alltaf var afar vel og elskulega tekið á móti okkur af starfsfólki og sjálfboðaliðum Hjálpræðishersins - eins og reyndar á öllum stöðunum!

Hafið öll þökk fyrir frábært og ósérhlífið starf í mannúðarmálum í borginni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband