Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Ánægður með einhuga borgarstjórn gegn Vegagerðinni!

Það er ánægjulegt að borgarstjórn sé einhuga um að velja Sundagöng og hafni þrjóskuleið Vegagerðarinnar hina svokölluðu eyjaleið. Það sjá nánast allir að Sundagöngin er margfalt betri lausn en þrjóskuleið Vegagerðarinnar.

Að venju steinþegir hinn annars málglaði samgönguráðherra um Sundabraut - en ég fæ ekki séð hvernig í ósköpunum maðurinn ætlar að ganga gegn ótvíræðum vilja borgarstjórnar í þessu máli.

Nú er um að gera að spýta í lófana, taka upp skófluna og byrja að grafa!  Sundabrautin hefur tafist allt, allt of lengi, en nú er ekki til setunnar boðið - hvað sem Vegagerðin segir!


mbl.is Borgarstjórn vill leið I þótt hún sé dýrari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorstein Pálsson í stað Geirs Haarde?

"Tímabundinn vandi efnahagslífsins snýst um alþjóðlega lánakreppu. Langtíma vandinn í þjóðarbúskapunum felst hins vegar í því að íslenska krónan er ekki samkeppnishæf. Þetta eru aðskilin viðfangsefni.

En tímabundni vandinn má ekki verða til þess að slegið verði á frest að leggja línur um það hvernig langtíma úrlausnarefninu verður mætt."

Þetta segir Þorsteinn Pálsson ritstjóri Fréttablaðsins, fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins í afar góðum leiðara blaðsins í dag.

Þetta er einmitt kjarni málsins!

Það má ekki slá á frest að leggja línur um það hvernig langtíma úrlausnarefninu verður mætt.  Sporgöngumaður Þorsteins - Geir Haarde virðist ekki ráða við það verkefni. Hann vill bara tala við útlendinga um "ekkiaðild" Íslands að Evrópusambandinu!

Loksins núna - eftir að aðiljar vinnumarkaðarins og fulltrúarsveitarfélaganna hafa hrist af Geir slenið - hyggst hann leita til sérfræðinga til að greina stöðuna og leggja til leiðir!!!

Halló Geir!

Hvar hefur þú verið?

Ég held það væri farsælla fyrir Sjálfstæðisflokkinn og þjóðina að Þorsteinn Pálsson taki aftur við flokknum - miðað við málflutning og röggsemi Þorsteins í skrifum sínum undanfarið.

Leiðari Þorsteins er hér.


mbl.is Glapræði að leggja verðbólgumarkmiðið á hilluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfsannleikur hjá Jóhönnu um fasteignalánamarkaðinn!

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra féll í þá gryfju á Alþingi í dag að horfa ekki á fasteignalánamarkaðinn sem eina heild - heldur bera einungis saman útlán Íbúðalánasjóðs milli ára - en sleppa alveg þætti bankanna sem höfðu stóra markaðshlutdeild á síðasta ári - en langtum minni núna. Einnig horfir Jóhanna fram hjá gjaldeyrislánunum sem voru mikil í fyrra en nánast engin í ár.

Þá gleymir Jóhanna að minnast á það að á undanförnum mánuðum hefur miklu stærri hluti útlána Íbúðalánasjóðs verið leiguíbúðalán en áður.  Í mars voru lán Íbúðalánasjóðs til leiguíbúðalána um 900 milljónir - svipað og heildarfjárhæð íbúðalána bankakerfisins.

Það þýðir að raunverulegur fasteignamarkaður þar sem einstaklingar eru að festa kaup á íbúð hefur dregist enn meira saman en ætla mætti við fyrstu sýn.

Tölur frá Fasteignamati ríkisins staðfesta það!

Það er rétt að Íbúðalánasjóður er að lána svipað og undanfarin ár - enda er sannleikur málsins sá að Íbúðalánasjóður hefur lánað á svipuðum nótum allt frá stofnun árið 1999 - þrátt fyrir að heildarumfang eða verðmæti fasteignamarkaðarins hafi aukist um að líkindum 160% á tímabilinu!

Það eru hins vegar öfgafullar sveiflur í útlánum bankanna frá því þeir komu inn á fasteignalánamarkaðinn sem skekkja myndina. hafa ber í huga að bankarnir drógu sig út af markaði með lán í íslenskum krónum í janúar og febrúar í fyrra  - þegar þeir héldu gjaldeyrislánum að viðskiptavinum sínum.  Staða gjaldeyrislána bankanna til íbúðakaupa stóðu í 35 milljörðum í árslok 2007 - þannig að hlutdeild bankanna í raunverulegum íbúðalánum í fyrra var miklu mun meiri en fram koma í upplýsingum um íbúðalán í íslenskum krónum.

Slíkum gjaldeyrislánum er ekki fyrir að fara í ár - eins og allir vita - þannig að sveiflan er enn meiri en eftirfarandi tölur sýna!

Íbúðalánin í janúar til febrúar í ár voru einungis á bilinu 3,5  milljarðar og 4,5 milljarðar í mars.  Stór hluti þess eru leiguíbúðalán og fokheldislán til byggingaraðilja. Þá var mjög stór hluti lánanna í febrúar í ár leiguíbúðalán og fokheldislán til byggingaraðilja. 

Markaðurinn í mars í fyrra var 9.2 milljarðar - og þá eru ekki talin gjaldeyrislán - sem gætu numið 2 - 4 milljörðum til viðbótar! 

Þetta er sannleikur málsins - sem Jóhönnu yfirsást. Geri ráð fyrir því að hún hafi ekki haft tíma til að setja sig að fullu inn í málið vegna tímaleysis.

Reyndar hafa mistök í skýrslugerð bankanna til Seðlabanka vegna marsmánaðar aðeins ruglað tölfræðina - en breytir líklega engu heildarniðurstöðun - eiginlegur fasteignamarkaður er afar kaldur!

Við skulum líta á þróun frá því í janúar 2007 til að sjá þetta svart á hvítu.

Undirstrikað skal að þetta er einungis íbúðalán í íslenskum krónum - ekki gjaldeyrislán sem voru stór hluti útlána bankanna í fyrra - en nánast engin núna!

 Íbúðalána sjóðurBankarLán alls

Hlutfall banka

Jan-07

4.240.845

2.658.026

6.898.871

38,53%

Feb-07

4.407.801

3.729.031

8.136.832

45,83%

Mar-07

4.922.096

4.337.028

9.259.124

46,84%

Apr-07

5.252.830

4.521.377

9.774.207

46,26%

May-07

5.954.898

5.524.919

11.479.817

48,13%

Jun-07

7.198.778

6.313.610

13.512.388

46,72%

Jul-07

6.349.597

8.168.087

14.517.684

56,26%

Aug-07

5.355.567

6.757.901

12.113.467

55,79%

Sep-07

5.573.798

4.468.802

10.042.600

44,50%

Oct-07

6.600.772

4.354.885

10.955.657

39,75%

Nov-07

6.817.870

3.552.284

10.370.154

34,25%

Dec-07

5.152.631

1.761.476

6.914.107

25,48%

Jan-08

4.503.579

850.310

5.353.889

15,88%

Feb-08

2.377.726

1.071.090

3.448.816

31,06%

Mar-08

3.608.348

918.137

4.526.485

20,28%


mbl.is Svipuð útlán Íbúðalánasjóðs og í fyrra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Augsýnilega jákvætt skref!

Samningar við einkafyrirtæki um augnsteinsaðgerðir á grundvelli útboðs eru augsýnilega jákvætt skref og augljóst að fjöldi fólks sér fram á úrlausn sinna mála miklu mun fyrr en annars hefði orðið þar sem augnlæknar á sjúkrahúsunum hafa ekki annað þessum aðgerðum.

Aðferðafræðin er einnig rétt. Hér eru markaðslögmálunum beitt til þess að fá hagkvæmustu niðurstöðu á sama tíma og og gæðakröfum er fullnægt enda um skýrt afmarkað verkefni að ræða.

Lykillinn að þessu eru sú tæknibreytingar sem orðið hafa á aðgerðum sem þessum. Það er einfalt eð gera þær utan sjúkrahúsa. 

Með þessu ætti að aukast svigrúm innan spítalanna til að sinna annars konar augnaðgerðum sem ekki er unnt að vinna utan veggja sjúkrahússins. Það er reyndar mikilvægt að aðgerðir þessar verði einnig unnar innan LSH - vegna eðlis spítalans sem háskólasjúkrahúss.

Þótt hér hafi verið tekið enn eitt skref í að nýta einkaframtakið í heilbrigðisþjónustunni í takt við það sem gert hefur verið á undanförnum árum þar sem einkaframtakið hefur verið nýtt innan hins opinbera heilbrigðiskerfis, þá er mikilvægt að standa vörð um öflugan Landsspítala sem alltaf hlýtur að vera grunnstoð heilbrigðiskerfisins ásamt heilsugæslukerfinu. Þær grunnstoðir má ekki undir neinum kringumstæðum veikja.


mbl.is Biðlistar tilheyra sögunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni styrkir stöðu sína með nýrri sýn á Evrópumálin!

Guðni Ágústsson styrkti stöðu sína sem formaður Framsóknarflokksins með því að taka umræðuna um mögulegar aðildarviðræður við Evrópusambandið á dagskrá flokksins. Þótt ég deili ekki skoðunum með Guðna um að nauðsynlegt sé að gera breytingar á stjórnarskrá til að hefja aðildarviðræður, þá hefur hann mikið til síns máls um að breytingar sem Framsóknarmenn hafi lagt fram og varða tryggingu þess að auðlindir landsins verði um ókomna framtíð í þjóðareigu muni styrkja stöðu Íslands í slíkum aðildarviðræðum.

Það er mjög mikilvægt að tryggja í stjórnarskrá að auðlindirnar verði í þjóðareigu og slæmt að slíkar breytingar á stjórnarskrá sem Framsóknarmenn settu á oddinn fyrir síðustu kosningar en urðu undan að láta hafi ekki fengið afgreiðslu.

Þar ber Samfylkingin mikla ábyrgð þar sem hún var ekki reiðubúin að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn í þeim stjórnarskrárbreytingum.  Hin Evrópusinnaða Samfylking getur nú nagað sig í handarbökin fyrir það! Við værum væntanlega á leið í aðildarviðræður hefði slíkt ákvæði verið komið í stjórnarskrá!

Ég veit að Guðni er ekki talsmaður þess að ganga í Evrópusambandið. En hann er maður að meiru að taka Evrópumálin upp innan Framsóknarflokksins á þennan sem hann gerir - þótt ég hefði kosið að hann hefði tekið afdráttarlausa afstöðu með því að leggja ákvörðun um um aðildarviðræður fyrir þjóðina. Enda lokar hann ekki á þann möguleika.

Guðni hefur tekið skref í þeirri framsókn sem Framsóknarflokkurinn þarf á að halda!

Ég treysti því að Guðni og Valgerður verði búin að ná fylgi flokksins í 15% fyrir flokksþing næsta vor - og að Framsóknarflokkurinn verði raunhæfur valkostur fyrir þorra kjósenda fyrir næstu Alþingiskosningar og skili flokknum eðlilegu fylgi öðru hvoru megin við 20%.


mbl.is Þarf að breyta stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarvertíðin hafin!

Sumarvertíðin á heimilinu hafin. Víkingar halda sitt árlega KFC mót í knattspyrnu fyrir 7. flokk í Laugardalnum á morgun laugardag! Foreldraráð 6. flokks sér um mótið - þannig að það verður mikið um að vera! Magnús minn að spila í 7. flokki og Styrmir að hjálpa til - enda í 6. flokki.

Það verða fleiri stórmót í sumar - farið til Vestmannaeyjar með 6. flokk - og á Skagamótið með 7.flokk. Einhver móit seinni part sumars líka! Sumarið snýst um fótbolta! Heil vertíð.

Þetta er lífið ekki satt?

Ég var plataður í að dæma á KFC mótinu. Kom vel á vondan - átti til að skamma sjónvarpið þegar mér líkar ekki dómgæslan!

Vonandi stend ég mig þó vel - guttanna vegna!


Fjárlög ríkisstjórnarinnar efnahagslegt hryðuverk?

Þorgerður Katrín varaformaður Sjálfstæðisflokksins sagði í fréttum RÚV í morgun að ekki sé hægt að skýra minnkandi fylgi við ríkisstjórnarinnar þannig að henni hafi gengið illa í efnahagsmálum. Ríkisstjórnin kunni að þurfa þola óvinsældir á meðan tekist sé á við efnahagsvandann.

Bíddu, hver er þá ástæðan? 

Það væri unnt að líkja fjárlögum ríkisstjórnarinnar þar sem ríkisútjöld voru aukin um 20% á milli ára á sama tíma og allir málsmetandi aðiljar á sviði efnahagsmála bæði innanlands og utan hvöttu til samdráttar útgjalda - við efnahagslegt hryðjuverk.

Það er kannske of gróft - en afleiðingarnar sem við upplifum þessa dagana eru svipaðar afleiðinga efnahagslegra hryðjuverka.

Ríkisstjórnin stendur síðan til hliðar án þess að hreyfa legg né lið og horfir á afleiðingar gerða sinna - eins og brennuvargur sem horfir á húsið sem hann lagði eld að brenna til kaldra kola.

Þetta er það sem þjóðin sér - enda grafalvarlegt - og bendir til þess að ríkisstjórnin sé máttvana.

Hvað ætli sé alvarlegra í fari ríkisstjórnarinnar en áramótabrennan í formi þenslufjárlaga og núverandi aðgerðarleysi í efnahagsmálunum sem skýri frekar fylgishrun ríkisstjórnarinnar? 

Ég get sossum bent á ýmiskonar asnaskap sem í gangi hefur verið - en sá asnaskapur er hjóm eitt við hlið asnaskapsins með verðbólgufjárlögunum og síðan hinu algera úrræðaleysi sem fylgdi í kjölfar áramótabrennu ríkisstjórnarinnar.

Stjórnarliðar halda því fram að ríkisstjórnin sé að vinna að aðgerðum til að taka á efnahagsvandanum!  En það er of seint að senda slökkvilið á staðinn þegar húsið er brunnið til grunna! Það hefur ekkert komið frá ríkisstjórninni í efnahagsmálum frá því hún bar eld í húsið með verðbólgufjárlögunum sínum! 

Reyndar tekur steinin úr þegar Ingibjörg Sólrún reynir að þvo hendur sínar í 1. maí grein - þar sem hún - oft án rökstuðnings - bendir á alla aðra en sjálfa sig. Fjárlögin sem virkuðu eins og olía á eldin eru á hennar ábyrgð!

Það væri reyndar áhugavert að heyra skýringar varaformanns Sjálfstæðisflokksins á fylgishruninu - fyrst það er ekki afleiðing verðbólgufjárlaganna og aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar í kjölfarið!

 


Óásættanlegt fyrir Framsókn að vera innan við 10%!

Það er óásættanlegt fyrir Framsóknarflokkinn í stjórnarandstöðu að vera innan við 10% í skoðanakönnun á sama tíma og Samfylkingin missir verulega fylgi. Eðlileg staða miðað við hrakfarir ríkisstjórnarinnar að undanförnu ætti að vera að að minnsta kosti 15%.  Þess í stað hirða VG fylgi Samfylkingar.

Það hlýtur að vera krafa Framsóknarmanna að fylgi flokksins verði að minnsta kosti 15% í skoðanakönnunum þegar kemur að flokksþingi næsta vor.

Vinur minn Guðni Ágústsson verður að bretta upp ermarnar og rífa upp fylgið. Ég er sannfærður um að ef hann leggst á sveif með Magnúsi Stefánssyni, tekur af skarið og leggur fram tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Ísland skuli hefja samningaviðræður við Evrópusambandið - þá fer fylgið að tikka upp á ný. Það ættu allir að geta sameinast um slíka tillögu - hver sem afstaða þeirra er til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Guðni getur hafið nýja framsókn á miðstjórnarfundi um helgina. Hann hefur ár til þess að sýna styrk sinn og Framsóknarflokksins og ná þessum 15% í skoðanakönnunum - helst 20% - fyrir flokksþing!


mbl.is Fylgi við Samfylkingu og ríkisstjórn minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Töframáttur fótknattar!

Það var töframáttur fótknattar fyrir 100 árum sem lagði grunninn að tveimur öflugum íþróttafélögum í Reykjavík - Víking og Fram.  Það voru nefnileg nokkrir strákar á Suðurgötunni og nágrenni sem tóku sig saman um kaup á fótknetti og stofnuðu fótboltafélög vorið 1908.

Yngri strákarnir sem flestir voru á aldrinum 10-12 ára stofnuðu Víking, en þeir eldri 13 til 15 ára guttar stofnuðu Fram, sem reyndar hét Kári fyrstu vikurnar! Stofndagur Víkings er 21. apríl, en stofndagur Fram 1. maí.

Þjóðsagan segir að ungu Víkingarnir hafi ekki fengið að vera með stóru strákunum sem stofnuðu Fram svo þeir stofnuðu bara sitt eigið fótboltafélag!

Hvað um það. Stofnun þessara tveggja félaga hefur verið æsku Reykjavíkur til mikillar gæfu í heila öld - enda félögin haldið uppi öflugu íþrótta- og æskulýðsstarfi!

Þessi bræðrafélög halda nú upp á aldarfmælið með hátíðarhöldum. Víkingar í Víkinni og Frammarar í Safamýrinni. 

Til hamingju Víkingar!  Til hamingju Frammarar!


mbl.is Haldið upp á aldarafmæli íþróttafélaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband