Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Tannálf í skólann, takk!

Það vantar tannálfa í grunnskólann. Tannheilsu barnanna okkar hefur hrakað verulega á undanförnum árum. Við erum að upplifa það sama og ljósálfarnir í álfheimum í hinu frábæra barnaleikriti Benedikt búálfur. Þegar Tóti tannálfur var numinn á brott af svartálfum, þá fengu ljósálfarnir tannpínu.

Þegar ég var í grunnskóla þá var tannálfur í skólanum í gerfi skólatannlæknis. Skólatannlæknirinn fylgdist með tannheilsu barnanna og gerði við tennurnar þegar þess þurfti.  Fyrir allmörgum árum var þessi tannálfur numinn á brott með kerfisbreytingum. Afleiðingarnar eru þær sömu í grunnskólanum og í álfheimum. Tannpína og verri tannheilsa barnanna okkar.

Það voru og eru góð og gild rök fyrir því að ríkisvaldið sjái ekki um tannviðgerðir í grunnskólanum með ríkisreknum tannlækni, heldur sjái tannlæknar hverrar fjölskyldu fyrir sig um eftirlit og tannviðgerðir skólabarna. Enda gert ráð fyrir að Tryggingastofnun tæki þátt í þeim kostnaði.

Hins vegar er staðreyndin sú að við foreldrarnir höfum brugðist börnunum okkar með því að trassa að tryggja reglubundið tanneftirlit. Mánuðirnir og árin fjúka hjá og það gleymist að panta tannlæknatíma fyrir börnin þar til allir vakna upp við vondan draum - og slæma tannpínu og tannheilsu. Þá er rokið af stað, en skaðinn skeður.

Þótt ég sé ekki mikið fyrir forræðishyggju þá held ég að þegar um tannheilsu barnanna okkar er að ræða - þá verðum við að breyta um takt.  Við eigum fá tannálfa í formi tannfræðinga eða tannlækna inn í grunnskólana til að sjá um tanneftirlit og tannfræðslu. Slíkir tannálfar ættu að skoða öll grunnskólabörn reglubundið - og ef Karíus og Baktus eru að láta á sér kræla - þá vísi tannálfurinn í skólanum börnunum til fjölskyldutannlæknisins sem sjái um að fylla í holurnar þeirra og skola þeim félögum á haf út.

Og að sjálfsögðu á að greiða tannlækningar - og tannréttingar á börnum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

Svo er nú það!


Flottur Talsmaður neytenda!

Heimasíða Talsmanns neytenda www.tn.is er ein áhugaverðasta heimasíða sem sett hefur verið upp á undanförnum vikum. Á síðunni er ekki einungis um að ræða fjölbreyttar upplýsingar, heldur jafnframt vönduð lifandi umfjöllun um hvaðeina sem snýr að neytendum.

Embætti Talsmanns neytenda er ekki gamalt þótt verkefnin séu næg og mikilvægt fyrir neytendur að vel takist til. Hingað til hefur starf talsmannsins verið til fyrirmyndar, en eftir því sem ég kemst næst stendur Talsmaður neytenda nánast einn og óstuddur í þessu mikilvæga starfi.

Þótt eldmóður sé mikill er erfitt fyrir einn einstakling að halda úti svo mikilvægu starfi til langframa.

Það að halda úti öflugri og mikilvægri heimasíðu eins og heimasíða Talsmanns neytenda er kallar á mikla vinnu. Því er það mikilvægt að embætti Talsmanns neytenda verði styrkt svo unnt verði að bæta við starfsmanni. Ég veit það af reynslu að breyting úr einyrkjastarfi yfir í tveggja manna vinnustað getur haft margföldunaráhrif í afköstum og tryggt stöðugleika og nauðsynlega framvindu.

Það er hagsmunamál neytenda að embætti Talsmanna neytenda verði styrkt og neytendur eiga það skilið.

Svo er nú það!


Sameign þjóðarinnar hefur gildi!

Stjórnarskrá Íslands er sameign þjóðarinnar en ekki séreign lögfræðingastéttarinnar eins sjálfhverfir júristar vilja vera láta. Hún er pólitísk stefnuyfirlýsing sem leggur grunn að fullveldi Íslands og því stjórnarfari og lagasetningu sem Íslendingum er ætlað að búa við.

Það kann að vera lögfræðilegt álitamál hvort hugtakið sameign þjóðarinnar eitt og sér hafi beint lögfræðilegt gildi. Það skiptir bara engu máli. Hugtakið sameign þjóðarinnar hefur ótvírætt gildi sem pólitísk yfirlýsing sem alþjóð skilur og sem slíkt mun ákvæði um sameign íslensku þjóðarinnar á auðlindum Íslands hafa bein áhrif á lagasetningu eftir að það tekur gildi í stjórnarskrá.

Sjá nánar í pistlinum "Sjálfhverfir júristar og sægreifar"


mbl.is SUF styður auðlindaákvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vönduð vinnubrögð Viðskiptablaðsins!!!

Vinir mínir á Viðskiptablaðinu gera mér þann heiður í dag að vitna í skrif mín um sjálfhverfa júrista og sægreifa!  Ég verð að segja að ég er dálítið upp með mér!

Finnst þar af leiðandi ekki mikið mál að Viðskiptablaðið kýs vísvitandi að taka skrif mín gróflega úr samhengi - og bæta um betur með ummælum nafnlauss blaðamanns um meinta afstöðu mína til stjórnarskrárinnar. Þessháttar útúrsnúningur nær þó ekki að sjatla þá ómældu ánægju að sjá vitnað í bloggið mitt á fallega bleikum síðum þessa virta blaðs.

En til að lesendur Viðskiptablaðsins sem ekki lásu frumtextan í blogginu mínu um sjálfhverfu júristana og sægreifanna gangi ekki með ranghugmyndir um innlegg mitt í umræðuna um stjórnarskrármálið byggðum á útúrsnúningi Viðskiptablaðsins, er mér ljúft og skylt að draga aftur fram raunverulegt innihald skrifa minna.

 Í blogginu segi ég:

"Stjórnarskrá Íslands er sameign þjóðarinnar en ekki séreign lögfræðingastéttarinnar eins sjálfhverfir júristar vilja vera láta. Hún er pólitísk stefnuyfirlýsing sem leggur grunn að fullveldi Íslands og því stjórnarfari og lagasetningu sem Íslendingur er ætlað að búa við."

Einnig segi ég:

"Það kann að vera lögfræðilegt álitamál hvort hugtakið sameign þjóðarinnar eitt og sér hafi beint lögfræðilegt gildi. Það skiptir bara engu máli. Hugtakið sameign þjóðarinnar hefur ótvírætt gildi sem pólitísk yfirlýsing sem alþjóð skilur og sem slíkt mun ákvæði um sameign íslensku þjóðarinnar á auðlindum Íslands hafa bein áhrif á lagasetningu eftir að það tekur gildi í stjórnarskrá."

Þetta undirstrikar þá skoðun mína að hugtak sem kann að hafa vafasamt lögfræðilegt gildi eitt og sér, öðlast klárlega lögfræðilegt gildi sé það tekið upp í stjórnarskrá.  Um það eru margir lögfræðingar mér sammála.

En þegar hinir vönduðu blaðamenn Viðskiptablaðsins höfðu farið höndum um framangreinda setningu stóð hún svona eftir:

 "Það kann að vera lögfræðilegt álitamál hvort hugtakið sameign þjóðarinnar eitt og sér hafi beint lögfræðilegt gildi. Það skiptir bara engu máli."

Þeir bættu reyndar eftirfarandi, nafnlausri athugasemd við, væntanlega hefur auðkenni blaðamannsins fallið út í prentun:

"...þykir Halli einu gilda hvort stjórnarskráin hafi lögfræðilegt gildi eður ei!"

Já, þetta er góður dagur - ég er á síðum Viðskiptablaðsins með bloggið mitt!!!

Svo er nú það!


Sjálfhverfir júristar og sægreifar!

Sjálfhverfir júristar og sægreifar hafa verið áberandi í líflegri umræðu um sameign þjóðarinnar á auðlindum Íslands.  Sægreifarnir sjálfhverfu hafa látið sem fiskurinn í sjónum sé eina náttúruauðlind Íslendinga og að þeir hafi nánast yfir að ráða þinglýstu afsali af hverri einustu styrtlu innan íslensku fiskveiðilögsögunnar. Sjálfhverfu júristarnir hafa látið sem þeir ættu sjórnarskránna.

Hvoru tveggja er fjarri sanni.

Stjórnarskrá Íslands er sameign þjóðarinnar en ekki séreign lögfræðingastéttarinnar eins sjálfhverfir júristar vilja vera láta. Hún er pólitísk stefnuyfirlýsing sem leggur grunn að fullveldi Íslands og því stjórnarfari og lagasetningu sem Íslendingum er ætlað að búa við.

Það kann að vera lögfræðilegt álitamál hvort hugtakið sameign þjóðarinnar eitt og sér hafi beint lögfræðilegt gildi. Það skiptir bara engu máli. Hugtakið sameign þjóðarinnar hefur ótvírætt gildi sem pólitísk yfirlýsing sem alþjóð skilur og sem slíkt mun ákvæði um sameign íslensku þjóðarinnar á auðlindum Íslands hafa bein áhrif á lagasetningu eftir að það tekur gildi í stjórnarskrá.

Fiskurinn í sjónum er sameign þjóðarinnar en ekki séreign útvegsmanna sem hafa yfir tímabundnum fiskveiðikvóta að ráða eins og sjálfhverfir sægreifar vilja vera láta. Kvótaeigendur eiga skilgreindan, tímabundinn afnotarétt af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Það er allt og sumt.

En ákvæðið um að auðlindir Íslands séu sameign þjóðarinnar á ekki einungis um fiskinn í sjónum. Það á við allar auðlindir landsins sem ekki eru þegar skilgreindar sem einkaeign. Því er ekki nóg að hafa ákvæði um að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar í lögum um stjórn fiskveiða því sem betur fer er fiskurinn einungis brot af auðlindum Íslands.

Þótt skiptar skoðanir kunni að vera á lofti um hvernig ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum landsins sé best fyrir komið í stjórnarskrá Íslands, þá hefur fyrirliggjandi frumvarp forsætisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra um að stjórnarskránna ákvæði um að auðlindir Íslands séu sameign þjóðarinnar ótvírætt mikilvægt gildi. Það að stjórnarskrárbinda hugtakið sameign þjóðarinnar á auðlindum landsins hefur svo sterkt pólitíst vægi sem stefnuyfirlýsing íslenskrar þjóðar, að vangaveltur um lagatæknileg atriði því tengdu eru hjóm eitt.

Svo er nú það!


Athyglisverð umræða um húsnæðislið vísitölunnar

Það var ekki meiningin að fyrsta blogfærslan mín snerist um húsnæðismál, en ég rakst á athyglisverða blogfærslu frá fyrrum skólabróður mínum úr MH, Eyþóri Arnalds, "Á húsnæði heima í neysluvísitölunni".

Umræðan um það hvort sú aðferð sem notuð er á Íslandi við að reikna húsnæðisliðinn inn í vísitöluna á  fullkomlega rétt á sér.  Sú aðferð sem beitt hefur verið varð til þess að verðbólga á Íslandi hefur að sumra mati mælst langt umfram það sem hún hefði raunverulega átt að mælast að þeirra mati. Afleiðingar þess hafa verið okkur Íslendingum erfiðar.

Fram hafa komið athyglisverðar hugmyndir um að þróun húsnæðisverðs verði tekin úr verðbólgumælingunni, en  þess í stað verði miðað við þróun byggingakostnaðar og húsaleigu.  Það er ekki svo galin nálgun, sérstaklega í ljósi þess að stórhækkun húsnæðisverðs á afmörkuðum "lúxussvæðum" eins og við heitar götur í 101 Reykjavík endurspeglar ekki húsnæðiskostnað miðlungs Íslendings.  Hækkunin sú hefur hins vegar haft mikil áhrif á hækkun neysluvísitölunnar.

Þegar skipulagsbreytingar voru gerðar á húsnæðislánakerfinu árið 2004 var fyrirsjáanlegt að einhverjar breytingar yrðu á verðstrúktúr íbúða, þótt engum hafi dottið í hug að nýir 200 - 300 milljarðar dældust inn á lánamarkaðinn frá bankakerfinu á örfáum mánuðum og að hækkanir á húsnæðisverði yrðu svo miklar sem raun bar vitni.

Þrátt fyrir að sú innspýting fjármagns væri ekki fyrirsjáanleg - þá voru á lofti raddir um að rétt væri að taka húsnæðisliðinn út úr mælingu neysluvísitölunnar á meðan möguleg áhrif skipulagsbreytinganna gengju yfir - enda ekki raunveruleg hækkun á neysluverði almennings að ræða þótt íbúðaverð hækkaði - þar sem greiðslubyrði af hærri lánum sem nýtt voru til að fjármagna kaup á dýrari íbúðum en áður, hækkaði ekki endilega þar sem vextir og þar af leiðir vaxtabyrði lækkaði á móti. Þá hækkaði greiðslubyrði þeirra sem ekki voru að kaupa húsnæði ekki vegna hækkunar húsnæðisverð - fyrr en það hafði áhrif á vísitöluna!

Kannske höfðu þessar raddir rétt fyrir sér!  Allavega á umræða um húsnæðisliðinn í neysluvísitölunni fullkomlega rétt á sér.

Svo er nú það!

 


...stigið létt inn í óðum stækkandi bloggheim!

Ég er þeirrar gerðar að hafa skoðanir á flestu sem viðkemur þjóðmálum og finnst heilbrigð skoðanaskipti og vönduð umræða mikilvægur grunnur að þróun þess samfélags sem við búum við.

Vegna stöðu minnar sem starfsmaður opinbers fyrirtækis hef ég veigrað mér við að taka þátt í þeirri umræðu á mínum eigin persónulegu forsendum, enda legg ég áherslu á að vinna vinnunna mína faglega og koma fram fyrir fyrirtækið á forsendu þess óháð mínum eigin skoðunum.

Ég hef hins vegar ákveðið að stíga létt inn í óðum stækkandi bloggheim og koma mínum persónulegu skoðunum á framfæri þegar sá gállinn er á mér, ekki síst vegna þess að konan mín og börnin eru orðin leið á því að ég sé að rífast upphátt við sjónvarpið - eða fréttir og blogg á netinuWink

Þar sem margir tengja mig fyrst og fremst við vinnuna mína og það fyrirtæki sem ég starfa fyrir, þá vil ég biðja lesendur að hafa það ætíð í huga að ég er aldrei á blogginu sem opinber starfsmaður og málsvari þess fyrirtækis sem ég vinn hjá, heldur er um að ræða mínar eigin, persónulegu skoðanir.

Vonandi skripla ég ekki á skötunni í bloggskrifum mínum, en ef mér verður á, þá er það persónan Hallur Magg en ekki embættismaðurinn Hallur Magnússon sem heldur um pennann ...

Svo er nú það!

Kveðja

Hallur Magg


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband